27. febrúar 2010

Heimsókn á slysó

Stundum fara dagarnir öðrum vísi en ætlað er.

Við vorum í rólegheitum að undirbúa kvöldmatinn áðan. Heimagerð pitsa, og þá taka auðvitað allir þátt. Rúnar Atli var eitthvað að baksa með ananasbitadósina þegar hann sker sig á bólakaf í annan þumalinn. Dósarlokið alveg flugbeitt og skurðurinn náði nærri því hálfan hringinn.

Foreldrarnir eru nú nokkuð sjóaðir í slysum og var þotið eftir sjúkrakassanum. Sárið þrifið og bundið um.

Eftir matinn ákváðum við nú að skoða þetta aðeins betur. Leist okkur nú ekki meira en svo á þetta. Um leið og bindið var tekið af fór að blæða á ný og sárið djúpt. Var því arkað út í bíl og stefnan tekin á slysavarðsstofuna.

Slysó hér í Windhoek er að mörgu leyti þægilegri staður en slysó í Reykjavík. A.m.k. í minningunni. Yfirleitt frekar rólegt og biðin ekki mjög löng. Ja, og þó, manni finnst alltaf erfitt að bíða þegar slys hefur gerst, jafnvel þótt ekki sé mjög alvarlegt.

Ég tók eina mynd af puttanum á meðan við biðum eftir lækninum. Slatti af blóði og þó er þetta örugglega tveimur og hálfum til þremur tímum eftir slysið.

Svo kom loksins læknirinn og tók til starfa. Hann límdi sárið saman með einhverju fljótandi lími. Setti síðan tvö límbönd þar yfir og grisjusokk yfir þau. Lítur þetta mjög snyrtilega út.

Svo eftir þrjá daga þurfum við að skipta á þessu. Eins gott maður muni hvernig þetta var gert.

Verst finnst Rúnari Atla þó að komast ekki í sundkennsluna í næstu viku.

26. febrúar 2010

Strákadagur

„Mamma, í dag er strákadagur,“ heyrðist í Rúnari Atla áðan.

„Ha, strákadagur?“ hváði móðirin.

„Já, þá á konan að gera allt fyrir strákana,“ sagði sá fimm ára.

Hann lærði greinilega eitthvað af konudeginum...

25. febrúar 2010

Móttökur og klæðaburður

Einu sinni á ári, yfirleitt í febrúar, býður forseti Namibíu fulltrúum erlendra ríkja í móttöku. Þar óskar hann öðrum þjóðum farsæls komandi árs og segir frá ýmsu sem namibísk stjórnvöld hafa í huga á komandi ári. Sem fulltrúi Íslands er mér boðið ásamt maka. Maður fær meira að segja að taka í höndina á forsetanum og konunni hans og líka forsætisráðherranum og hans frú. Ýmsum málsmetandi Namibíumönnum er líka boðið og er þarna því múgur og margmenni. Í morgun var samkoman fyrir 2010.

Ekki er beint hægt að segja að svona samkoma sé skemmtileg. Að vissu leyti lendir maður í afturhvarfi til fyrstu skólaáranna, því erlendu sendifulltrúarnir þurfa að fara í röð. Ekki er sama hvar maður fer í röðina. Sendiherrar eru æðri en forstöðumenn sendiráða (ég er í forstöðumannaflokknum) og síðan eru fulltrúar alþjóðastofnana aftar á merinni og ræðismenn reka síðan lestina. Innan hvers flokks er síðan farið eftir árafjölda í landinu. Sá sendiherra sem lengst hefur verið staðsettur í Namibíu leiðir því hópinn. Ég er fyrstur í forstöðumannaflokknum, með fjögurra ára forstöðumannareynslu á bakinu. Alveg hokinn af reynslu, kallinn.

Þarna stendur maður því í röðinni í góðan tíma. Svo mætir forsetinn og þá eru nöfn sendifulltrúanna lesin upp um leið og maður fer og heilsar forsetanum. Þarna er komin skýringin á af hverju er svona mikilvægt að vera á réttum stað í röðinni. Alveg væri ferlegt að vera kynntur frá Venesúelu, bara til að taka mögulegt dæmi. Síðan þegar búið er að heilsa þá röltir maður sér meðfram Namibíumannaröðinni. Þar hefur maður tækifæri til að heilsa þeim sem maður þekkir. En bara þó augnablik. Annars er hætta á að röðin ruglist.

Svo endar maður á sama stað og maður byrjar. Þá eru haldnar tvær ræður. Síðan er boðið upp á léttar veitingar og þá er hægt að rölta um og spjalla. Styrkja tengslanetið og þessháttar ef maður er í þannig skapi.

Nei, þetta er ekkert sérstaklega skemmtilegt, ekki síst fyrir þá staðreynd að vera í jakkafötum og með bindi í nærri 30 stiga hita.

Þó er reyndar eitt skemmtilegt við svona samkomur. Það er að virða fyrir sér klæðaburð afrísku kvennanna sem mæta. Það er ekkert verið að klæða sig í einhverja bisness-drakt eins og vestrænu konurnar. Nei, þær afrísku mæta í svakalegum afrískum kjólum. Því sterkari og meira æpandi litir því betra. Sumir kjólanna eru alveg meiri háttar flottir. Ja, engir þeirra eru ljótir, þeir eru bara mismunandi flottir. Yfirleitt eru þessir kjólar þjóðbúningar af einhverju tagi.

Já, á svona stundum sér maður að vestræn „betri“ föt eru svona frekar litlaus.

Því miður er ekki við hæfi að mæta með myndavél á svona samkomur. Ekki vill maður láta henda sér út.

En svona leið sem sagt morguninn hjá mér og Gullu þennan daginn.

21. febrúar 2010

Enn rólegheit

Í gær færðum við lítinn sófa út á verönd. Algjör lúxus að sitja þar, lesa og hlusta á útvarpið að heiman. Sem sagt, annar rólegheitadagur í dag. Bakaði þó vöfflur að beiðni frúarinnar, enda konudagur á Íslandi. Ítalskt kryddbrauð er í brauðvélinni og svo stendur til að hafa pasta með því.

Annars bíður Rúnar Atli í ofvæni eftir því að klukkan verði fimm mínútur yfir fimm. Þá byrja nefnilega Transformers í sjónvarpinu. Bíómyndin þ.e.a.s. Strákurinn eignaðist nefnilega eina fígúru úr þessari mynd og varð mjög ánægður þegar uppgötvaðist að myndin væri á eftir.

Hann hefur spurt mig hvað Transformers heiti á íslensku.

Ég lýsi hér með eftir þýðingu.

20. febrúar 2010

Rólegt

Rólegur laugardagur hjá okkur hjónum og syni. Reyndar fór Rúnar Atli í afmælisveislu í morgun og á meðan skruppum við Gulla í bæinn. Alltaf gaman að kíkja í búsáhaldabúðir. Gulla keypti sér kjötsúpu- og baunapott. Frekar í stærra lagi, 16,5 lítrar. Aðeins. Hann virkaði ekkert rosalega stór í búðinni, en ofan á eldavélinni okkar ... það er nú önnur saga.

Núna sitjum við og hlustum á snarkið í grillinu. Svínakótilettur og grænmeti fara á grillið.

Annars er þvílíkur molluhiti að maður nennir varla nokkrum sköpuðum hlut. Ætli séu ekki rúm 30 stig í forsælu. Nú bíð ég bara eftir kvöldinu, því þá er gott að sitja úti, lesa bók eða rápa um netið.

14. febrúar 2010

Bollubakstur

Eins og á mörgum íslenskum heimilum var skellt í vatnsdeigsbollur í dag. Enda bolludagur á morgun. Verður að viðurkennast að stundum hefur það hent undanfarin ár að bollurnar falli. Kenni ég yfirleitt bakaraofninum um.

Nema hvað, í dag tókust bollurnar alveg rosalega vel. Flottustu og stærstu bollur sem ég man eftir að hafa bakað. Bakaraofninn er sá sami og í fyrra, þ.a. sú kenning að ofninn sé óþéttur stenst ekki. Nýja kenningin er sú að hrærivélin skipti öllu máli. Eins og lesendur dagbókarsíðna Gullu hafa tekið eftir, þá fjárfesti hún í KitchenAid hrærivél um daginn. Sú vél er algjör draumur og efast ég ekki um að þar liggur ástæðan fyrir fínu bollunum.

Hér er svo mynd sem ég stal af vefsíðunni hennar Gullu minnar. Sést þar vel þvílíkar gæðabollur þetta voru.

10. febrúar 2010

Smálæti í eldhúsinu

Lasagna í kvöldmatinn. Mjög gott, enda frúin snjöll að útbúa þann mæta rétt.

Ég þurfti auðvitað aðeins að fíflast í syni mínum. Laumaðist með ísmola og renndi niður á bak honum. Fór það ekki betur en svo að diskur hans sveif í rólegheitum niður á gólf, þrátt fyrir heiðarlega tilraun til að grípa hann, og splundraðist þar í misstóra bita. Það var reyndar ekki það versta. Auðvitað fór lasagnað út um allt.

Hver neyddist til að þrífa?

Að sjálfsögðu sökudólgurinn sjálfur.

Ég hef aðeins hægar um mig annað kvöld.

5. febrúar 2010

Stór stund

Á sunnudaginn var fór fram fyrsta kennslustund Rúnars Atla í skóreimingum. Gekk svona la-la, en markmiðið var að kenna honum fyrsta skrefið í þessari stórmerku athöfn. Mér leist nú eiginlega ekki meira en svo á þetta. Var einna helst á því að þetta tæki nú góðan tíma.

Víkur svo sögunni til hádegis á mánudeginum. Ég mæti til að sækja Rúnar Atla í skólann. Situr þá ekki piltur önnum kafinn við að reima skóna sína! Kennaranemi frá Þýskalandi sem er hér um sex mánaða skeið hafði þá bara kennt honum þetta þennan morguninn.

Nú kann Rúnar Atli sem sagt að reima skóna sína. Stórt þrep í þroskaferlinu.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...