Einu sinni á ári, yfirleitt í febrúar, býður forseti Namibíu fulltrúum erlendra ríkja í móttöku. Þar óskar hann öðrum þjóðum farsæls komandi árs og segir frá ýmsu sem namibísk stjórnvöld hafa í huga á komandi ári. Sem fulltrúi Íslands er mér boðið ásamt maka. Maður fær meira að segja að taka í höndina á forsetanum og konunni hans og líka forsætisráðherranum og hans frú. Ýmsum málsmetandi Namibíumönnum er líka boðið og er þarna því múgur og margmenni. Í morgun var samkoman fyrir 2010.
Ekki er beint hægt að segja að svona samkoma sé skemmtileg. Að vissu leyti lendir maður í afturhvarfi til fyrstu skólaáranna, því erlendu sendifulltrúarnir þurfa að fara í röð. Ekki er sama hvar maður fer í röðina. Sendiherrar eru æðri en forstöðumenn sendiráða (ég er í forstöðumannaflokknum) og síðan eru fulltrúar alþjóðastofnana aftar á merinni og ræðismenn reka síðan lestina. Innan hvers flokks er síðan farið eftir árafjölda í landinu. Sá sendiherra sem lengst hefur verið staðsettur í Namibíu leiðir því hópinn. Ég er fyrstur í forstöðumannaflokknum, með fjögurra ára forstöðumannareynslu á bakinu. Alveg hokinn af reynslu, kallinn.
Þarna stendur maður því í röðinni í góðan tíma. Svo mætir forsetinn og þá eru nöfn sendifulltrúanna lesin upp um leið og maður fer og heilsar forsetanum. Þarna er komin skýringin á af hverju er svona mikilvægt að vera á réttum stað í röðinni. Alveg væri ferlegt að vera kynntur frá Venesúelu, bara til að taka mögulegt dæmi. Síðan þegar búið er að heilsa þá röltir maður sér meðfram Namibíumannaröðinni. Þar hefur maður tækifæri til að heilsa þeim sem maður þekkir. En bara þó augnablik. Annars er hætta á að röðin ruglist.
Svo endar maður á sama stað og maður byrjar. Þá eru haldnar tvær ræður. Síðan er boðið upp á léttar veitingar og þá er hægt að rölta um og spjalla. Styrkja tengslanetið og þessháttar ef maður er í þannig skapi.
Nei, þetta er ekkert sérstaklega skemmtilegt, ekki síst fyrir þá staðreynd að vera í jakkafötum og með bindi í nærri 30 stiga hita.
Þó er reyndar eitt skemmtilegt við svona samkomur. Það er að virða fyrir sér klæðaburð afrísku kvennanna sem mæta. Það er ekkert verið að klæða sig í einhverja bisness-drakt eins og vestrænu konurnar. Nei, þær afrísku mæta í svakalegum afrískum kjólum. Því sterkari og meira æpandi litir því betra. Sumir kjólanna eru alveg meiri háttar flottir. Ja, engir þeirra eru ljótir, þeir eru bara mismunandi flottir. Yfirleitt eru þessir kjólar þjóðbúningar af einhverju tagi.
Já, á svona stundum sér maður að vestræn „betri“ föt eru svona frekar litlaus.
Því miður er ekki við hæfi að mæta með myndavél á svona samkomur. Ekki vill maður láta henda sér út.
En svona leið sem sagt morguninn hjá mér og Gullu þennan daginn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli