31. júlí 2009

Lykill, hvað?

Í gær komum við til Rúndú, bæjar austarlega í Namibíu við Kavangó-ána. Sú á skilur að Namibíu og Angólu. Áum við á snyrtilegu gistiheimili í Rúndú. Nú sit ég á verönd gistiheimilisins. Útsýnið er fallegt. Sé ég yfir grasi gróinn dal sem áin rennur í gegnum og hinum megin sé ég Angólu. Paradís lítur ábyggilega út í líkingu við þetta.

Mér á vinstri hönd er herbergisálman, en úr herbergjunum er gengið út í garðinn og þaðan hægt að komast á fyrrnefnda verönd. Fyrr í dag sátum við á veröndinni en Rúnar Atli var að stússast í herberginu okkar. Þótti mér óþægilegt að hann skildi hurðina eftir ólæsta þegar hann kíkti öðru hverju á veröndina til okkar hinna. Gekk ég því með honum að herberginu og sýndi honum hvernig hurðinni er læst. Æfði hann sig nokkrum sinnum og gekk vel. Skildu svo leiðir, ég settist á veröndina og hann fór að leika sér í herberginu. Nokkru síðar kemur hann gangandi.

,,Læstirðu hurðinni, kallinn minn?'' spurði ég.

,,Já, ég gerði það,'' var svar guttans.

,,Hvar settirðu lykilinn?'' var næsta spurning mín.

,,Hann er í skránni,'' kom svarið.

,,Ha, tókstu hann ekki með?''

,,Nei, af hverju?''

Kennslunni var greinilega ábótavant.

28. júlí 2009

Meiriháttar ferðalag í uppsiglingu

Seinnipartinn á morgun leggjum við í meiriháttar ferðalag. Doddi mætir á svæðið rúmlega tvö og síðan verður haldið í 3.500 km ferðalag. Fyrsti hluti ferðarinnar er vinnutengdur, en á fimmtudaginn verð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að afhenda þrjár skólastofur í nýjum skóla fyrir heyrnarlaus börn. Skólastofurnar eru byggðar fyrir íslenskt fé. Skólinn er á stað sem nefnist Eenhana og er rétt sunnan við angólsku landamærin. Síðan ökum við sem leið liggur til austurs til Rundu, en það er stærsti bærinn í Kavangó-sýslu. Þar á ég fund á föstudaginn. Síðan er ég kominn í viku frí.

Við höldum síðan enn austar, og förum inn í strípuna svokölluðu. Kapríví-sýsla. Áum við í tvær nætur í Kapríví húsbáta safaríi. Síðan hefst aðalævintýrið. Við höldum suður yfir landamæri Namibíu og Botsvana. Þaðan liggur leiðin enn í austur og nú til Simbabve, en við stefnum á Viktoríufossana. Fossarnir teljast jú eitt af náttúruundrum veraldar og er því nokkur tilhlökkun á bænum vegna þessa. Þarna verður við í þrjár nætur. Á fimmtudag í næstu viku höldum við aftur til Namibíu og tekur okkur tvær nætur til viðbótar að komast aftur til Windhoek.

Því miður kemst Tinna Rut ekki með, því skólinn gengur fyrir.

16. júlí 2009

Gleði í kofanum

Þá er Dagmar Ýr komin á staðinn. Rúnar Atli er mjög ánægður með það. Við morgunverðarborðið í morgun spurði ég hann hvort hann væri í góðu skapi.

,,Já, Dagmar Ýr kemur á eftir."

Þurfti ekki að segja neitt meira.

En eftir smástund bætti hann við: ,,Þegar hún fer aftur til Íslands, þá verð ég leiður."

Æi, já.

15. júlí 2009

Hún er á leiðinni.... alltaf á leiðinni...

Þá situr Dagmar Ýr á Heathrow. Rúmur klukkutími í brottför hjá henni. Hún lendir í Jóhannesarborg snemma í fyrramálið og verður komin til Windhoek 20 mínútur fyrir ellefu. Við hlökkum öll mikið til.

12. júlí 2009

Kleinubakstur

Stundum þarf lítið til þess að koma manni í gang. Var að blaða á snjáldurskjóðunni áðan og einhver minntist á kleinur.

Meira þurfti ekki til.

Ég leitaði að kleinuuppskrift á netinu, sendi Tinnu út í búð að kaupa plöntuolíu, og síðan var ráðist í bakstur.

Auðvitað þarf aðstoðarbakara. Báðir með svuntur og svo er hrært eins og lífið eigi að leysa.

Tilheyrir ekki að smakka? Hvorum skyldi frekar langa í bita?

Eitthvað var deigið slepjulegt, en það er bara skemmtilegra.

Kleinurnar tókust vel.

Stjörnuskoðun

Fyrir nokkru uppgötvaði Rúnar Atli stjörnukíkinn hennar Tinnu Rutar. Kíkirinn hefur verið geymdur ofan í kassa í mörg ár. Guttinn hefur hins vegar séð svona græju í búðum hér og þykir mikið til koma. Vildi endilega kaupa eitt stykki, en föðurnum þótti skynsamlegra að ná í kíki systurinnar úr geymslu.

Fyrr í dag þá var kíkirinn prufukeyrður. Fyrst þurfti þó að klæða sig í múderingu. Kalt í Windhoek þessa dagana og svo er eitt vandamál sem þurfti að leysa. Nefnilega hversu erfitt er að loka bara einu auga og nota hitt til að horfa í kíki.

En á vandamálinu fannst lausn.

Svo þarf að stilla fókusinn.


...og síðan kíkja.
Kíkirinn er auðvitað fyrst og fremst til stjörnuskoðunar. Glöggir lesendur hafa sjálfsagt tekið eftir að kíkirinn er ekki alveg í réttri stöðu til að skoða himintunglin. Enda er verið að prufukeyra gripinn og því auðveldara að byrja á garði nágrannanna...

8. júlí 2009

Háskólapælingar

Er að kíkja aðeins á háskólann sem Tinna Rut fékk inni í. Byrjaði á kortavef Google og náði í meðfylgjandi mynd. Títuprjónninn með A-inu sýnir Prins Georg. Töluverð fjarlægð frá Íslandi. Tala nú ekki um frá Namibíu. En fjarlægð er nú ekki endilega vandamál. Tímamunurinn er töluverður og hann getur pirrað mann allhressilega. Sjö til átta tíma munur á Íslandi og Prins Georg og einum til tveimur meira við Namibíu.

En staðurinn er nú fallegur. Ég fann meðfylgjandi mynd á netinu:

Þarna er háskólasvæðið og bærinn í bakgrunni. Þessi mynd er tekin á fallegum haustdegi í september. Spurning hversu snjóþungt er yfir háveturinn. Hún dóttir mín ætti a.m.k. að geta lært á skíðum.

Fann hér mynd tekna að vetri til. Bara temmilegur snjór. En byggingin er glæsileg.

Sá aðra mynd. Tekin af Tekönnu-fjalli. Veit nú ekki alveg hvar það er, en útsýnið er frábært.

Jú, ábyggilega verður stórkostlegt ævintýri fyrir elsku dóttur mína að fara á þennan stað. Breska Kólumbía er útivistarparadís, svo kannski endar dóttir mín sem fjallgöngu- og útivistargella. Hver veit?

5. júlí 2009

Fagnað með Tinnu Rut

Í gærkvöldi fékk Tinna Rut gleðifréttir. Hún hefur fengið inni í háskóla þeim sem hana langaði mest til að komast í. Háskóli Norður Bresku Kólumbíu heitir sá. Er lengst í rassgati, í tæplega 80 þúsund manna bæ sem nefnist Prince George, eða Prins Georg á því ylhýra.

Hún er að vonum ánægð og það erum við foreldarnir líka. Auðvitað verður erfitt að sjá af ,,barninu'' í burtu og það enga smávegalengd. En það er gaman þegar draumarnir rætast og verða að veruleika smátt og smátt.

Við keyptum því freyðivínflösku í tilefni fréttanna og Tinna Rut fékk að opna flöskuna.



,,Bíddu á ekki eitthvað að gerast?''


... og þá flaug tappinn eitthvert út á bílaplan. Eins gott við höfðum vit á að opna flöskuna úti á verönd :-)


Hér erum við þrjú svo að skála. Rúnar Atli var myndasmiðurinn að þessu sinni

4. júlí 2009

Útilegufrásögn

Á mánudaginn var lögðum við af stað í útileguna okkar. Ég þurfti að skoða vatnsveitur sem hafa verið útbúnar fyrir íslenska peninga. Svæðið þar sem þetta er hefur ekki gistiheimili á hverju strái og því var tjald í för.

Fyrsti dagurinn fór í akstur til Opuwo og sátum við í bílnum í átta tíma. Aðeins 750 km þann daginn. Næsti dagur hófst með fundarsetu, en skömmu fyrir hádegi lögðum við af stað inn í óbyggðirnar. Við eina vatnsveituna hafði ég mælt mér mót við jarðfræðing sem stýrir borunum fyrir okkur. Þegar þarna var komið sögu þá var degi farið að halla og því kominn tími á að finna næturstað.

Komum við okkur fyrir í árfarvegi nokkrum, en eins og sum ykkar kannski muna, þá eru namibískir árfarvegir þurrir mestan hluta árs. Þarna skelltum við upp tjaldinu og fórum að huga að kvöldverði. Tandoori kjúklingur og búapylsa. Ekkert slor.

Svona leit tjaldstæðið út:


Rúnar Atli skemmti sér konunglega. Þótti alveg stórkostlegt að vera undir berum himni með foreldrunum. Hann var ekki í vandræðum með að fá útrás, spilaði fótbolta, gróf sjálfan sig ofan í djúpa holu og stundaði síðan skógarhögg...

Hér er öxin munduð...


... og svo heljarinnar sveifla


Síðan fljótlega eftir sex fór að skyggja og þá var prílað upp í tjald. Rúnar Atli var kominn í bælið rúmlega sjö, en við hjónin sátum nokkuð lengur við varðeldinn. Alltaf notalegt að horfa í eldinn. Síðan fórum við líka í bælið.

Ég hef velt svolítið fyrir mér hvenær ég fór síðast í útilegu. Ég er einna helst á því að það hafi verið árið sem ólympíuleikarnir voru haldnir í Atlanta, árið sem æviráðning ríkisstarfsmanna var að mestu afnumin, flug TWA 800 fórst rétt hjá Nýju Jórvík. Já, árið var 1996.

Næsta morgun var vaknað rétt eftir sólarupprás, svona kortér yfir sex. Þá kom meiriháttar klúður í ljós. Þannig var að ég ætlaði að baka kanadískar pönnukökur í morgunmat. Gætti þess að hafa hina ýmsu vökva með sem þurfti, s.s. vanilludropa, súrmjólk og auðvitað egg. Þessu átti svo að hræra saman við þurrefnablönduna sem ég útbjó fyrir brottför.

Eða útbjó ég blönduna?

Nei, haldiði að ekki hafi uppgötvast að þurrefnablandan gleymdist...

Sem betur fer hafði Gulla bakað jólaköku og marmaraköku og möffin. Morgunmaturinn var því fínn, þótt planið hafi aðeins klikkað. En þetta gengur bara betur næst.

Svo var lagt af stað. Á fyrsta stoppi eignaðist Rúnar Atli ágætis vin:


Ekkert asnalegt við þetta.

Þessi hluti Namibíu er frumstæður að mörgu leyti. T.d. er ekki farsímasamband þarna. Ja, eða hvað? Á ferðalagi okkar komum við að merkilegum steini. Á honum stóð ,,MTC er hér'' en MTC er stærsta farsímafyrirtækið í Namibíu. Ef prílað er upp á steininn þá næst sem sagt samband við umheiminn í gegnum farsíma.


Ég get alveg séð Himbana fyrir mér labbandi um allt með farsímann á lofti að leita að sambandi :-)

Ýmislegt forvitnilegt bar fyrir augu. Til dæmis rákumst við á kirkjugarð stórmenna út Himba-ættbálkinum. Þarna báru flestir ættarnafnið Tjambiru, en flestir höfðingjar á þessum slóðum bera það nafn.


Til að sýna ættgöfgi þeirra sem grafnir eru þarna, þá eru hafðar nokkrar hauskúpur af nautgripum við grafirnar. Eru útbúnir rekkar sem hauskúpunum er raðað í.


Síðan ókum við fram á stórmerkilegt tré. Var það eins og steinn viðkomu.


Vegakerfið á þessum slóðum er ekki upp á marga fiska. Tók okkur þrjá klukkutíma að aka 36 km kafla. Meðalhraði 12 km! Stöðvaði ég í einni beygju og tók mynd. Vegslóðarnir eru mjög stórgrýttir og holóttir. Er maður stóránægður að komast í annan gír - tala nú ekki um þriðja.


Seinna útilegukvöldið, þá tjölduðum við hjá trjálundi nokkrum. Rúnari Atla fannst stórkostlegt að geta klifrað í tréi sem var þar. Gekk það þó ekki þrautarlaust fyrir sig. Í eitt skipti rann hann aðeins til. ,,Er allt í lagi,'' kallaði ég til hans. ,,Já,'' svaraði hann ,,eða nei! Hjálp!!!'' Þurfti ég að hlaupa til og bjarga honum. Hruflaðist hann aðeins á framhandlegg og þótti honum mikið til koma um sárabindið sem móðir hans setti á sárið. Þarf hann enn að fá sárabindi, þremur dögum seinna. Er greinilegt að hann stefnir á að hafa sárabindisvafning á hendinni á mánudaginn í leikskólanum.


Sumum var frekar kalt seinni morguninn:


Landslagið þarna er tiltölulega hrjóstrugt. Svæðið er mjög þurrt og ekki mikið af gróðri umfram runna og gróft gras. Einna leiðinlegast er allur sandurinn sem er þarna og sandrykið sem fylgir. En sumstaðar er greinilega vatn í jörðu og birtast allt í einu pálmatré, eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þetta risavaxna pálmatré rákumst við á og þótti þess virði að hægja á okkur. Úr 12 km meðalhraða niður í ekki neitt.


Á fimmtudagskvöldið komum við aftur til Opuwo. Gott var að komast í sturtuna. Síðan á föstudeginum var lagt af stað aftur til Windhoek og komum við í bæinn rétt fyrir myrkur.

Eftir ferðalagið er ég þrælspenntur fyrir fleiri útilegum. Rúnar Atli er á sama máli. Jú, og Gulla bara líka.

2. júlí 2009

G & T

Komin aftur a fína hótelið í Opuwo. Tvær skemmtilegar útilegunætur að baki. En núna gin og tónikk í glasi. Lífið er ljúft

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...