28. júlí 2009

Meiriháttar ferðalag í uppsiglingu

Seinnipartinn á morgun leggjum við í meiriháttar ferðalag. Doddi mætir á svæðið rúmlega tvö og síðan verður haldið í 3.500 km ferðalag. Fyrsti hluti ferðarinnar er vinnutengdur, en á fimmtudaginn verð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að afhenda þrjár skólastofur í nýjum skóla fyrir heyrnarlaus börn. Skólastofurnar eru byggðar fyrir íslenskt fé. Skólinn er á stað sem nefnist Eenhana og er rétt sunnan við angólsku landamærin. Síðan ökum við sem leið liggur til austurs til Rundu, en það er stærsti bærinn í Kavangó-sýslu. Þar á ég fund á föstudaginn. Síðan er ég kominn í viku frí.

Við höldum síðan enn austar, og förum inn í strípuna svokölluðu. Kapríví-sýsla. Áum við í tvær nætur í Kapríví húsbáta safaríi. Síðan hefst aðalævintýrið. Við höldum suður yfir landamæri Namibíu og Botsvana. Þaðan liggur leiðin enn í austur og nú til Simbabve, en við stefnum á Viktoríufossana. Fossarnir teljast jú eitt af náttúruundrum veraldar og er því nokkur tilhlökkun á bænum vegna þessa. Þarna verður við í þrjár nætur. Á fimmtudag í næstu viku höldum við aftur til Namibíu og tekur okkur tvær nætur til viðbótar að komast aftur til Windhoek.

Því miður kemst Tinna Rut ekki með, því skólinn gengur fyrir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Myndir,myndir,myndir,myndir,myndir,myndir samt ekki af Dodda!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...