30. ágúst 2011

Föstu lýkur

Á morgun lýkur Ramadan, föstu íslamstrúarmanna. Þá hefst hátíð sem á ensku nefnist Eid al-Fitr og stendur í þrjá daga, eða svo. Reyndar hófst hún sums staðar í dag, en upphaf hátíðarinnar veltur víst á því hvenær sést til tungls.

Í Malaví munu um 13% íbúa vera íslamstrúar. Ekki langt frá húsinu okkar er stór moska og stundum heyri ég söngl frá henni í kringum fimmleytið á morgnana. Á morgun er almennur frídagur í landinu vegna hátíðarinnar. Því þarf ég ekki að mæta til vinnu.

Skólinn hans Rúnars Atla ruglaðist aðeins í ríminu og var frídagur þar í dag. Líklega fóru þeir línuvillt í töflunni sem tiltekur hvenær hátíðin hefst í hinum mismunandi löndum. Kom bréf frá skólastjóranum í dag þar sem ítrekað er að það verður skóli á morgun, þrátt fyrir hátíðina. Auðvitað munu þau börn sem eru íslamstrúar ekki mæta, en skólastjórinn lofaði að sjá til þess að þeim yrði bætt tapið upp.

Rúnar Atli er hálffúll yfir þessu. Hann í skólanum en pabbinn í fríi úr vinnu.

Ekki sanngjarnt, finnst honum.

En, lífið er náttúrulega ekki sanngjarnt.

29. ágúst 2011

Hoppandi og skoppandi afmælisdagur

Í dag átti sonur minn afmæli.

Orðinn sjö ára gamall.

Ekki var nú mikið haft fyrir afmælisdeginum að þessu sinni. Við erum svo nýflutt hingað að vinir eru enn af skornum skammti. Afmælisveislan í fyrra var heljarinnar fyrirtæki með hoppukastala og alles. Því var samið að afmælið í ár yrði rólegt, en þeim mun meira verði gert á næsta ári.

En, þó fékk hann köku í skólann. Og afmælissöng í skólanum.

Afmælisgjöf var smáhöfuðverkur fyrir foreldrana. Það verður að segjast að þær dóta- og tómstundabúðir sem við höfum fundið í Lílongve eru fáar. Þær sem við höfum fundið eru fullar af drasli. Lítið spennandi þar.

En við duttum þó niður á góða lausn.

Trampólín. Þrír metrar í þvermál.

Drengur var ánægður.

En fyrst þurfti að setja trampólínið saman.

„Pabbi, þetta á örugglega að snúa svona.“


„Pabbi, ég sá leiðbeiningar hér einhvers staðar. Eigum við ekki að skoða þær?“

Göngum við í kringum...
 En að lokum hafðist nú að koma þessu saman. Og þá var farið að hoppa og skoppa.

Fyrst svona venjulegt hopp...

... og svo smá trix.

Svo kom meistarinn!
Gulla fékkst ekki til að hoppa.

Ekki að þessu sinni.

Hundur og köttur

Gulla náði góðri mynd af Sallý (kettinum) og Snúllu (hundinum) áðan.


Einnig náðist fín mynd af Rúnari og Snúllu að leik.


27. ágúst 2011

Sveit í borg

Ég var að heiman frá mánudegi til föstudag. Þegar ég kom heim aftur þá voru Gulla og Rúnar Atli búin að næla sér í nokkra hænuunga. Fimmtán stykki. Aðeins.

Þetta kom reyndar ekki á óvart því Gulla hefur átt þann draum í nokkurn tíma að verða pútnaeigandi. Þegar orðið var víst að við færum til Malaví þá varð bjargföst ákvörðun hennar að nú skyldi þessi draumur rætast.

Og það hefur hann gert.

Það eru nokkur herbergi í garðinum okkar, sjálfsagt fyrir vinnufólk, og er núna eitt þeirra orðið að hænsnaherbergi. Búið er að strá sagi á gólfið og einum flottum pappakassa var fórnað í þetta stúss. Inn í pappakassann var lagt rafmagn og logar nú 100 kerta pera þar dag og nótt. Þeim má víst ekki verða kalt þessum litlu ungum. Þeir eru víst um átta vikna gamlir og orðnir nokkuð stórir. Ja, fyrir hænuunga. Í dag fengu þeir einhver vítamín, sem á víst að losa um stress... Það er víst mjög stressandi fyrir hænuunga að koma á nýjar slóðir.

En eftir mánuð eða svo dugar ekki þetta herbergi lengur. Þá þarf hænsnakofa. Ég kíkti því á netið í gærkvöldi og fann fullt af leiðbeiningum um hvernig eigi að smíða svoleiðis híbýli. Bandaríkjamenn eru nú léttruglaðir verð ég að segja. Ýmsir þeirra virðast vera fyrir hænsnarækt. Sumir hænsnakofarnir eru nokkuð flottir, sbr. þennan.

Ég þarf að leggja höfuðið aðeins í bleyti út af þessu.

En, ekki var víst nóg að fá fimmtán hænuunga.

Í dag bættust tveir meðlimir við fjölskylduna. Annars vegar hundur og hins vegar köttur.

Þessi dýr voru í eigu Breta sem búið hefur hér í tvö ár, en nú er hann að fara til Líbíu. Af öllum stöðum. En hann var að leita að fólki til að taka að sér þessi tvö dýr. Þar sem búið var að lofa Rúnari Atla að fá hund, og jafnvel kött, þá var ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi.

Í morgun komu þau. Hundurinn er Labrador. Líklega að nálgast tíu ára aldurinn. Þetta er tík sem heitir Snapper. Það mætti útleggja sem Glefsa á íslensku, en Bretinn sór og sárt við lagði að tíkin bæri ekki nafn með rentu.

Kötturinn er að öllum líkindum eitthvað eldri. Þetta er læða sem heitir Sallý.

Þær stöllur eru núna að átta sig á öllu. Þær hafa verið í eigu a.m.k. þriggja eigenda, en alltaf búið í sama húsinu. Þetta eru því nokkur viðbrigði.

Ég set inn myndir síðar.

En nú búum við semsagt í sveit í borg.

23. ágúst 2011

Bananauppskeran

Var á leið til Apaflóa í gær. Ók þá fram á þennan vel hlaðna vörubíl með bananauppskeruna og alla vinnumennina.


Hvað ætli fulltrúum umferðarstofu þætti um þetta?

20. ágúst 2011

Vantar ykkur flottar naríur?

Rúbbí-naríur

Rúbbí - íþrótt karlmanna

Þá fer stundin að renna upp.

Sjöunda heimsmeistarakeppnin í rúbbíi hefst eftir 19 daga, 13 klukkustundir og einhverjar mínútur. Níunda september hefst hún og stendur til 23. október. Stökkhafrarnir frá Suður-Afríku eru núverandi heimsmeistarar - mitt lið - en þeir Kolsvörtu frá Nýja-Sjálandi - Gullu lið - verða til alls líklegir á heimavelli. Reyndar eru Namibíumenn með í keppninni, en þeir ná varla í gegnum riðlakeppnina. Því miður.

Rúbbí er hinn sanna íþrótt karlmanna. Ekki pláss fyrir neina vælukjóa eins og þá sem spila fótbolta. Kristíanó Rónaldó besta dæmið. Ekkert verið að setja gel í hárið fyrir leiki.

Ó, nei. Blóðið flýtur í þessari íþrótt, sbr. þennan s-afríska stökkhafur (Heinrich Brussouw)  sem lenti í klóm þeirra kolsvörtu fyrr í dag.


Stökkhafrarnir unnu reyndar leikinn í dag, 18-5.

Rúbbí er þrælskemmtilegt áhorfs. Mér hefur nú gengið illa að læra allar reglurnar, en það skemmir ekkert fyrir.

Svo er gaman að því að hjónin skuli halda með sitthvoru liðinu.

Af hverju heldur Gulla með þeim kolsvörtu?

Jú, svarið er einfalt. Í upphafi hvers landsleiks þá stíga þeir kolsvörtu stríðsdans Maóría, haka nefnist dansinn.


Dansinn er reyndar gríðarlega flottur og skapar mikla stemmingu.

Heimsmeistaramótið í rúbbíi fer að byrja!

Sloppið með skrekkinn

Hann Rúnar Atli kann að halda foreldrum sínum við efnið.

Haldiði ekki að hann hafi tekið upp á því eftir skóla í gær að kollsteypast ofan af mannhæðarháum vegg niður á flísalagða stétt. Hárgreiðsluvinkona mín úr Reykjavík hefði ábyggilega veinað ó-mæ-godd yfir þessu.

En fyrir einhverja guðsmildi þá náði hann að bera hendurnar fyrir sig og þær tóku mesta höggið. Þó fékk hann vænt högg á munninn og kvarnaðist úr báðum stóru framtönnunum hans. Gulla hrökk upp við skaðræðisöskur og hljóp af stað. Hringdi svo í mig í vinnuna og ég gekk í að finna tannlækni med-det-samme.

Ekki leið mér vel þegar ég heyrði fréttirnar. Rann kalt vatn milli skinns og hörunds, því þetta hefði getað farið svo miklu, miklu verr.

Í raun er ótrúlegt hvað drengurinn slapp vel.

Við komumst til tannlæknis. Eldri maður, líklega af egypskum uppruna, sem var hinn rólegasti yfir þessu öllu saman. Mjög traustvekjandi maður. Önnur framtönnin losnaði aðeins, en mjög lítið. Hann reiknar með að hún festist á ný án nokkurar aðgerðar. Hann pússaði aðeins yfir þar sem hafði flísast úr þeirri tönn, því sárið var flugbeitt. Síðan fékk Rúnar Atli fúkkalyf til að hindra sýkingu í tannholdinu. Eftir viku heimsækjum við tannsa á ný og þá tekur hann röntgenmynd til að sjá hvort allt sé ekki örugglega eins og á að vera.

Rúnar Atli er eins og nýsleginn túskildingur og ekki sér neitt á honum. Ég skil það varla.

En feginn er ég.

18. ágúst 2011

Gjaldeyrir og bensín

Í Malaví er skortur á gjaldeyri.

Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, sem ég þekki ekki allar. Ein er sú að tóbaksverð hefur verið frekar lágt og minni spurn er eftir því en menn áætluðu. Tóbak er nefnilega sú vara sem Malaví flytur mest út af. Síðan hafa menn barist við að halda gengi gjaldmiðilsins háu, en það veldur lægri útflutningstekjum. Svo hefur forsetinn átt í erjum við Breta, sem hefur valdið því að minna kemur inn af gjafafé frá erlendum þjóðum.

Allt þetta leiðir til þess að erlendan gjaldeyri vantar.

Hvernig sést þetta? Jú, fyrst og fremst í biðröðum eftir eldsneyti. Margar bensínstöðvar eiga ekki neitt eldsneyti. Svo þegar það berst þá flýgur fiskisagan og allir fara í biðröð. Þegar ég kom úr vinnunni fyrr í dag þá lá leið mín í gegnum hringtorg. Sem ég beygi út úr hringtorginu þá sé ég helling af bílum á akreininni á móti.

Ég er ennþá að ná áttum hér í borginni og fór að velta fyrir mér hvert allir þessir bílar væru að fara. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Þeir voru í biðröð inn á bensínstöð sem er rétt við hringtorgið. Ég giska á að þarna hafi ekki minna en 70 bílar verið í röð. Ekki veit ég hvort bensín var komið, eða frést hefði af sendingu. En öftustu bílstjórarnir voru líklega að horfa á 3-4 klukkustunda bið.

Í besta falli.

Kannski verður sendingin búin áður en þeir öftustu komast að.

Ekki gaman.

15. ágúst 2011

Netið og fyrsti skóladagur

Þá er komin nettenging í húsið okkar hér í Lílongve. Reyndar vildi nú svo heppilega til að rétt hjá okkur er svokallaður heitur reitur, þannig að við gátum keypt okkur tímabundinn aðgang að netinu strax á öðrum degi og þannig verið í lágmarkssambandi. En nú erum við komin með okkar eigin tengingu. Mikill munur, þótt hún sé nú ekki sú hraðvirkasta í heimi. Ekki veit ég hvort skype gengur, en við prófum það við tækifæri.

Þ.a. tengið ykkur á skype...

Í dag var fyrsti skóladagur Rúnars Atla. Því var dagurinn tekinn snemma. Eins og í Namibíu hefst skóladagurinn snemma. Drengurinn þarf að vera mættur tíu mínútur yfir sjö á morgnana og er í skólanum til hálftvö. En reyndar er farið að birta af degi uppúr kl. sex á morgnana.

Í Bishop Mackenzie alþjóðaskólanum, en svo heitir skólinn, klæðast börnin skólabúningum. Það finnst okkur Gullu meiriháttar, því þá er aldrei vesen á morgnana hvaða fötum á að klæðast. Svo er búningurinn bara nokkuð fínn hér, stuttermaskyrta, stuttbuxur og háir sokkar. Ekkert bindisvandamál.

Enda tók gaurinn sig vel út í morgun.


Reyndar eru skórnir ekki alveg samkvæmt staðlinum, en við vissum ekki hvaða kröfur eru gerðar til skóbúnaðar. Því fékk hann að fara í ljósbláu Hummel skónum sínum í dag.

Skóladagurinn var skemmtilegur að Rúnars Atla sögn. Kennarinn hans heitir ungfrú Daigneault, sem þykir nokkur tungubrjótur. Því er hún kölluð ungfrú Djé - Miss Dee, á enskunni. Bekkurinn er því 3-D og það fannst Rúnari Atla flott.

Þrívíddarbekkurinn.

Þessir krakkar!

En hér lenti hann í þriðja bekk, ekki öðrum. Það virðist sem krakkar byrji ári fyrr í þessum skóla en í íslenskum skólum. Rúnar Atli er því með sínum jafnöldrum. Vorum við foreldrarnir ánægðir með það, því á aldurinn lögðum við nokkra áherslu.

Hann segist þegar vera búinn að eignast vin, svo allt virðist í himnalagi. Hann plummar sig á enskunni, virðist vera, þrátt fyrir að vera nokkuð ryðgaður þegar við mættum til Namibíu fyrir 10 dögum, eða hvað það nú var.

Gulla er farin að hætta sér út í umferðina hérna og farin að spá í verslanir og ýmsa þjónustu sem þarf að nota. Umferðin er nokkuð öðrum vísi en maður á að venjast. Hér er gangandi fólk út um allt. Og hjólandi fólk. Það eru þó engar gangstéttir, heldur malarstígar við hliðina á malbikinu. Hins vegar eru margar götur farnar að láta hressilega á sjá. Bæði eru þær holóttar og eins hefur brotnað upp úr köntunum á þeim. Því eru oft stórhættulegar brúnir í götukantinum og maður vill ekki missa bílinn þar niður. Því halda bílar sig nær miðju heldur en vegkanti og þá vandast stundum málið þegar mætast þarf.

En Gulla er hetja og farin að kljást við þetta á fullu.

11. ágúst 2011

Kominn til Malaví

Loksins kominn heim. Á nýjan stað þar sem við munum búa okkur heimili næstu árin.

Ferðin frá Lusaka gekk vel. Við höfðum tímann fyrir okkur og vorum komin út í bíl rétt rúmlega sex um morguninn. Enda var lítið af bílum á ferðinni. Umhverfið var fallegt á leiðinni. Töluvert skóglendi og nokkuð hæðótt. Við bara keyrðum og keyrðum, enda rúmir 600 km til landamæra Sambíu og Malaví. Síðan 120 km frá landamærunum til Lilongve.

Reyndar þurftum við að fylla á bensíntankinn einu sinni úr bensínbrúsa sem við vorum með á kerrunni. Það var nefnilega engin bensínstöð í tæpa 600 km. Líklega hefðum við slefað það á einum tanki, en engin ástæða til að storka forlögunum að óþörfu.

Landamærin gengu smurt. Fljótustu landamærin í ferðinni. En smástund tók að venjast því að hámarkshraðinn í Malaví á þjóðvegum er ekki nema 80 km/klst. Meira að segja ekki nema 50 km/klst með kerru. En ég ákvað að halda mig við 80. Nógu erfitt var nú samt að halda sig á þeirri ferð.

Við römbuðum beint á húsið og gengum inn um dyrnar um hálffimm leytið.

Kvöldinu eyddum við í að opna kassa. Ég skaust út um kvöldmatarleytið og náði að finna skyndibitastað svo hægt væri að seðja sárasta hungrið. Fínn kjúklingur af stað sem heitir MacDauds. Eftirlíking af einhverjum þekktum stað...

En það er svolítið ævintýri að keyra um götur Lilongve eftir myrkur. Engin götulýsing, og fullt af gangandi fólki og reiðhjólum. Að ógleymdum holunum í malbikinu. Ekki bætir úr skák þegar ökumaðurinn ratar mjög takmarkað. Já, þá verða stuttir bíltúrar ævintýri.

Gott var að leggjast á koddann í gærkvöldi. Öll steinsváfum við til morguns. Í dag höfum við haldið áfram kassabaráttunni, svo heimilið er að taka á sig mynd. Okkur líst vel á þetta.

Á morgun fer Rúnar Atli í námsmat í skólanum og byrjar svo á fullu í honum í næstu viku. Ég fer þá líka að vinna af fullum krafti og þá byrjar daglega stritið.

9. ágúst 2011

Þrjár myndir úr ferðalagi

Kagginn og kerran. Mynd tekin í einskismannslandi milli Namibíu og Botsvönu

Við hjónin og stytta af Livingstone sjálfum. Myndasmiður: Rúnar Atli

Við þrjú við Viktoríufossana

Leynilögga frá Simbabve og vegalögga í Sambíu

Í morgun fórum við yfir landamæri Simbabve og Sambíu. Allt gekk þetta nokkuð smurt, en tók þó nokkurn tíma, sérstaklega Sambíu-megin. Heilmikið sem einhver þurfti að slá inn á tölvu og rölta þurfti á milli manna eins og gengur.

En eftirminnilegasta atvikið var þó Simbabve-megin.

Við vorum búin að fá stimpla í vegabréfin og síðan þurftum við að ganga út að hliðinu yfir til Sambíu og skrifa upplýsingar um bílinn okkar í stóra stílabók sem þar lá á borði. Ég rölti mér síðan að bílnum, en eitthvað tafði Gullu. Hún kallar síðan í mig að einhver maður vilji tala við mig. Þessi maður var nokkuð stór og mikill, í skítugum kakíbuxum og stuttermabol. Hann vill fá að sjá skráningarskírteini bílsins, vegabréfið mitt og að kíkja ofan í kerruna okkar.

Ég virti manninn fyrir mér hátt og lágt og spurði síðan: Hver ert þú eiginlega?

Maðurinn varð hálfvandræðalegur og sagðist vera lögreglumaður. Ég sagðist nú vona að hann fyrirgæfi mér, en mér þætti hann nú ekki alveg líta út eins og lögreglumaður. Þá sagðist hann starfa óeinkennisklæddur og væri „undercover“ - sem sagt leynilögga.

Ég hef líklega verið eitthvað vantrúa á svipinn þ.a. hann rétt mér skilríki.

Og viti menn, á skilríkjunum stóð að hann væri Deputy Constable - sem ég veit ekkert hvernig útleggst á íslensku - en er sannanlega titill innan lögreglunnar. Skilríkin virtust ófölsuð, þ.a. ég sýndi manninum þau plögg sem hann vildi fá að sjá. Á endanum vildi hann ekkert sjá ofan í kerruna og við kvöddumst mestu mátar.

En þannig er að í Simbabve er bannað að keyra bíla, sem á að selja annars staðar, í gegnum landið. Þá verður að flytja á flutningabílum og líklega borga sæmilegustu gjöld. Mér þykir líklegt að leynilöggan sé að nappa þá sem þykjast vera á eigin bíl en eru ekki. Því vildi hann sjá nafnið í vegabréfinu mínu og bera saman við skráningarskírteini bílsins. Allt var auðvitað í himnalagi hjá mér.

Gaman að því að hafa hitt leynilöggu.

Svo ókum við af stað í Sambíu. Þar lentum við fljótlega í eftirliti lögreglunnar. Eftirlitspóstar lögreglu eru út um allt í Afríku og er Sambía engin undantekning. Lögregluþjónninn bað mig um ökuskírteini. Rétti ég honum mitt íslenska, eins og ég geri alltaf. Flestar löggur kíkja snögglega á þetta og skila því til baka. Sumar spurja hvaða landi þetta skírteini sé frá. Yfirleitt spá löggurnar lítið í þetta annars. En þessi var ekki þannig. Maðurinn skoðaði hvern einasta reit á skírteininu og velti því fyrir sér fram og til baka.

Svo spurði hann undrandi:

„2034?“

Ég kveikti strax á því að hann var að undra sig á hversu seint skírteinið rennur út.

„Já,“ sagði ég. „Þá verð ég orðinn gamall maður.“

„Já,“ samsinnti hann, „eldgamall!“

Þegar ég renndi af stað aftur heyrði ég að hann var farinn að segja kollegum sínum frá þessu skrýtna landi þar sem menn nenntu ekki að endurnýja skilríkin.

Skildi Steingrímur J. vita af tekjutapinu vegna þessa?

Lúsaka

Lúsaka, höfuðborg Sambíu. Þar er ég nú.

Hvað veit maður um borg eftir nokkura klukkutíma viðveru?

Sjálfsagt lítið.

Og þó. Skipta ekki fyrstu kynni miklu máli?

Mín fyrstu viðbrögð eru: flott borg.

Ekkert sérstaklega falleg borg eða hrein, en eitthvað greip mig við aksturinn inn í borgina fyrr í dag og við leitina að hótelinu okkar. Eitthvað sem ég féll fyrir.

Ég veit ekki alveg hvað það var. Ekki var það varkárni manna í umferðinni, svo mikið er víst. Það þýðir ekkert að leggjast í vörn í umferðinni hér. Sækja fram er það sem blífur. Ég vakti heilmikla óánægju þegar ég tók upp á því að stöðva á rauðu ljósi. Lögðust menn fyrir aftan mig á flautuna, svo ég sá mér þann leik vænstan að gefa í yfir gatnamótin. Þetta rauða ljós var reyndar mjög undarlegt og „meikaði engan sens.“

Kannski var það bara lífið á götunni. Niðri í miðbænum iðar allt af lífi. Við renndum inn í borgina á háannatíma þegar allir voru á leið heim úr vinnu. Úði og grúði allt af bílum og fólki. Athygli okkar vöktu sölumennirnir sem rölta á milli bíla með fangið fullt af allskyns varningi. Ég hef nú oft séð sölumenn af þessu tagi reyna að selja hleðslutæki fyrir farsíma og eitthvað þess háttar. En einhvern veginn finnst manni undarleg sú hugsun að einhver kaupi sér skó í gegnum bílgluggann. Eða hvað? Eða spariskyrtu? Þarna var verið að selja fatnað af öllu tagi og bara allskonar hluti.

Skrýtnast var líklega að sjá mann reyna að selja hvolp á þennan hátt. Ég meina, hvernig yrði ykkur við ef einhver bankar á bílrúðuna þegar þið eruð á rauðu ljósi og spurji hvort þið viljið kaupa hvolpinn sem sá hinn sami er með í fanginu?

Eftir að fá lykilinn að hótelherberginu kíktum við í verslanamiðstöð rétt við hótelið. Þar fæst bókstaflega allt til alls. Mjög flottar búðir hérna, verður að segjast.

En, ég hugsa að allt þetta líf sem ég varð vitni að á ferð minni um borgina hafi líklega átt hvað mestan þátt í því að ég varð hrifinn af Lúsaka.

Kem ábyggilega hingað aftur.

8. ágúst 2011

Simbabve

Sit núna út á svölum fyrir utan hótelherbergi í Simbabve. Klukkan rúmlega sjö að morgni. Í fjarlægð heyri ég drunurnar í Viktoríufossunum og ég sé úðann frá þeim í kannski tveggja kílómetra fjarlægð. Hitastigið er akkúrat eins og ég vil hafa það í morgunsárið. Á risastórri grasflöt sé ég apa hlaupa um, líklega í leit að einhverju æti. Einnig eru þar nokkur vörtusvín að róta upp mold. Fjórar, fimm antilópur eru líka á vappi um grasflötina.

Hér er dásamlegt að vera.

Við erum semsagt komin til Simbabve. Í gærmorgun vöknuðum við í Namibíu, en vorum ekkert að flýta okkur sérstaklega af stað. Höfðum nægan tíma fyrir verkefni dagsins. Í þann mund sem ég vaknaði þá fór rafmagnið af hótelinu. Frétti síðar að rafveitan væri að lagfæra eitthvað og hefði ákveðið að sunnudagsmorgunn væri bestur í að aftengja rafmagn í þeim tilgangi. Þetta þýddi að ekki var hægt að fara í sturtu, og morgunverðurinn var aðeins fátæklegri en ella. En samt var nú nóg á borðum til að við færum ekki svöng í burtu.

Við þurftum að fara yfir tvenn landamæri. Gekk það frekar áfallalaust fyrir sig. Þó tók langan tíma að komast í gegnum innflytjendaeftirlitið í Simbabve. Þar hittist svo óheppilega á að tvær ferðamannarútur voru nýmættar á svæðið á undan okkur. Þarna voru því í kringum 50 Ítalir og Hollendingar á undan okkur í biðröð.

Og biðröðin gekk hægt.

Ég skellti mér í biðröðina og nýtti tímann til að fylla út hin og þessi eyðublöð sem þarf. Verst var að húsið sem innflytjendaeftirlitið hefur til umráða er lítið og því stóð ég utandyra lengi, lengi, en sólin er nokkuð sterk þarna.

En loksins kom röðin að okkur. Ég lenti í smástappi við embættismennina þarna. Einhvern veginn tók einn þeirra það í sig að við værum frá Írlandi, en ekki Íslandi. Þetta er ekki óalgengur misskilningur, sem skiptir sjaldnast máli. Hér hins vegar þurfa Írar að greiða 55 bandaríkjadali fyrir vegabréfsáritun, en Íslendingar ekki að greiða nema 30 dali. Því var ég ekki sáttur í þetta sinn við að vera sagður frá eyjunni grænu. Það varð mér til happs að einn þeirra hinumegin við borðið kinkaði kolli og var sammála mér. Sá sem var að fylla út kvittunina mína var ekki sáttur og fékk álit annarra. Niðurstaðan varð að lokum sú að ég var samþykktur sem Íslendingur og að 30 dalir væru rétt verð fyrir áritun.

Við fengum því áritunina og gátum ekið inn í Simbabve. Tvo klukkutíma tók þetta. En við vorum ekki í neinu stressii. Vonum bara að við lendum ekki aftur á eftir ferðamannarútum.

Við ókum frekar rólega í dag. Eitthvað á þriðja hundrað kílómetra og leiðin lá í gegnum tvo þjóðgarða. Annan í Botsvönu og hinn í Simbabve. Í þeim fyrri sáum við nokkrar hjarðir af fílum fara yfir veginn. Alltaf gaman að stöðva bílinn og fylgjast með þettum tröllvöxnu dýrum.

Hótelið okkar í Simbabve er ótrúlega flott. Ég er ekki alveg klár á hvenær það var byggt, en líklega á tíunda áratug síðustu aldar. Byggingin er frekar löng, Tveir gangar eru eftir langhliðinni og á milli þeirra sér maður ofan í klettagil. Inni í hótelinu. Við erum á fjórðu hæð og á leiðinni í herbergið sjáum við niður á klettana. Alveg magnað.

Ekkert hefur verið til sparað. Þrjár sundlaugar hef ég séð og fjóra flóðlýsta tennisvelli. Ég held það sé golfvöllur við hótelið og síðan er þyrlupallur hér, en þaðan er hægt að fara í þyrluferðir yfir fossana og gjúfrin í kring.

Í dag ætlum við að taka lífinu með ró. Við erum búin að eyða þremur dögum í bíl og nú er hvíld.

6. ágúst 2011

Dagur tvö

Þá er dagur að kveldi kominn. Langur dagur. Við tókum daginn snemma í Grootfontein, vorum komin í morgunmat klukkan sjö og farin af stað klukkutíma síðar.

Ferðin til Katíma Múlíló tók 10 og hálfan tíma.

Aðeins.

Í lok dags höfðum við lagt að baki 771 km.

En þetta var nú ekki bara akstur. Við áðum fjórum sinnum á leiðinni og fengum okkur bita af nesti. Svo spörkuðum við Rúnar Atli bolta á milli, en við keyptum okkur ódýran bolta í Windhoek, einmitt fyrir ferðalagið. Hvert stopp varð því nálega 20 mínútur, gæti ég trúað. Það munar miklu að teygja úr fótum reglulega. Svo þurfti að kaupa bensín og skjótast í búð.

Dæinn stóð fyrir sínu og þaut áfram þótt kerran væri áföst. Það var enginn umferð sem heitið getur alla leið. Ja, reyndar var einhver bílaflutningur í gangi, því það voru líklega fimm vörubílar eða svo með nokkur farartæki á pöllunum. Við tókum framúr, svo áðum við og þeir þutu hjá. Við aftur framúr og á næsta áningarstað náðu þeir okkur. Svona gekk þetta allan daginn.

Núna erum við komin á hótel við bakka Sambesi-árinnar. Sama áin og Viktoríufossarnir eru í. Reyndar var myrkur rétt að skella á í sama mund og við renndum í hlað. Því sáum við ána ekki vel og bíður það fyrramáls. Hins vegar sáum við ljós hinumegin, en þar er Sambía.

Verst við ferðina var að tapa klukkutíma. Þannig er að Kapríví-ræman breytir ekki klukkunni þegar restin af Namibíu færist klukkutíma nær Íslandi. Því var klukkan ekki hálfsex þegar við komum hingað, heldur hálfsjö. Tveimur tímum á undan Fróni. En alltaf er fúlt þegar tíminn fer í þessa áttina.

En núna er að hvílast, því á morgun hefst akstur á milli landamærastöðva.

Gin og tónik - er það ekki fínn hvíldarelexír?

5. ágúst 2011

Fyrsti í kerruleiðangri

Í dag lögðum við af stað í fyrsta áfanga ferðalagsins milli Windhoek og Lilongwe. Ef allt fer samkvæmt áætlun, þá verðum við sex daga á leiðinni. Af þeim eru fimm ferðadagar. Einn hvíldardagur er áætlaður. Í Simbabve, við Viktoríufossana, hvorki meira né minna!

Þegar svona ferð er skipulögð, þá áttar maður sig á stærð Namibíu. Af þessum fimm ferðadögum, er helmingur innan Namibíu. Tveir og hálfur, svona næstum því. Við rétt komum við í Botsvönu, og aksturinn innan Simbabve er ekki mikill. Síðan verða tveir akstursdagar í Sambíu. Sá fyrri frá Viktoríufossum til höfuðborgarinnar Lusaka og sá seinni frá Lusaka og yfir til Lilongwe.

Allt þetta förum við á litlum Daihatsu Siríon, með kerru í eftirdragi. Dæinn er mjög rúmgóður fyrir farþega, en farangursrými er af skornum skammti í staðinn. Því urðum við að útvega kerru fyrir farangurinn. Ég set ábyggilega mynd af kagganum með kerruna hér inn á bloggið við tækifæri.

Fyrsti áfangi var sem sagt í dag. Góðir 500 km eða svo. Áfangastaðurinn var svokallað Steinhús í bæ sem heitir Grootfontein, en það útleggst „mikla vatnsuppspretta“ eða eitthvað í þá áttina á því ylhýra. Hér gistum við í nótt, en förum síðan snemma af stað í fyrramálið. Fyrst mun leiðin liggja í norður, til Rúndú, en síðan beint í austur. Úteftir Kaprívi-ræmunni til Katíma Múlíló. Sá spotti slagar í 800 km.

Aksturinn í dag gekk vel. Ókum frekar rólega á namibískan mælikvarða, milli 100 og 110 km/klst. Það þykir hægt. En á áfangastað komumst við klakklaust.

Meira síðar.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...