9. ágúst 2011

Lúsaka

Lúsaka, höfuðborg Sambíu. Þar er ég nú.

Hvað veit maður um borg eftir nokkura klukkutíma viðveru?

Sjálfsagt lítið.

Og þó. Skipta ekki fyrstu kynni miklu máli?

Mín fyrstu viðbrögð eru: flott borg.

Ekkert sérstaklega falleg borg eða hrein, en eitthvað greip mig við aksturinn inn í borgina fyrr í dag og við leitina að hótelinu okkar. Eitthvað sem ég féll fyrir.

Ég veit ekki alveg hvað það var. Ekki var það varkárni manna í umferðinni, svo mikið er víst. Það þýðir ekkert að leggjast í vörn í umferðinni hér. Sækja fram er það sem blífur. Ég vakti heilmikla óánægju þegar ég tók upp á því að stöðva á rauðu ljósi. Lögðust menn fyrir aftan mig á flautuna, svo ég sá mér þann leik vænstan að gefa í yfir gatnamótin. Þetta rauða ljós var reyndar mjög undarlegt og „meikaði engan sens.“

Kannski var það bara lífið á götunni. Niðri í miðbænum iðar allt af lífi. Við renndum inn í borgina á háannatíma þegar allir voru á leið heim úr vinnu. Úði og grúði allt af bílum og fólki. Athygli okkar vöktu sölumennirnir sem rölta á milli bíla með fangið fullt af allskyns varningi. Ég hef nú oft séð sölumenn af þessu tagi reyna að selja hleðslutæki fyrir farsíma og eitthvað þess háttar. En einhvern veginn finnst manni undarleg sú hugsun að einhver kaupi sér skó í gegnum bílgluggann. Eða hvað? Eða spariskyrtu? Þarna var verið að selja fatnað af öllu tagi og bara allskonar hluti.

Skrýtnast var líklega að sjá mann reyna að selja hvolp á þennan hátt. Ég meina, hvernig yrði ykkur við ef einhver bankar á bílrúðuna þegar þið eruð á rauðu ljósi og spurji hvort þið viljið kaupa hvolpinn sem sá hinn sami er með í fanginu?

Eftir að fá lykilinn að hótelherberginu kíktum við í verslanamiðstöð rétt við hótelið. Þar fæst bókstaflega allt til alls. Mjög flottar búðir hérna, verður að segjast.

En, ég hugsa að allt þetta líf sem ég varð vitni að á ferð minni um borgina hafi líklega átt hvað mestan þátt í því að ég varð hrifinn af Lúsaka.

Kem ábyggilega hingað aftur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...