Loksins kominn heim. Á nýjan stað þar sem við munum búa okkur heimili næstu árin.
Ferðin frá Lusaka gekk vel. Við höfðum tímann fyrir okkur og vorum komin út í bíl rétt rúmlega sex um morguninn. Enda var lítið af bílum á ferðinni. Umhverfið var fallegt á leiðinni. Töluvert skóglendi og nokkuð hæðótt. Við bara keyrðum og keyrðum, enda rúmir 600 km til landamæra Sambíu og Malaví. Síðan 120 km frá landamærunum til Lilongve.
Reyndar þurftum við að fylla á bensíntankinn einu sinni úr bensínbrúsa sem við vorum með á kerrunni. Það var nefnilega engin bensínstöð í tæpa 600 km. Líklega hefðum við slefað það á einum tanki, en engin ástæða til að storka forlögunum að óþörfu.
Landamærin gengu smurt. Fljótustu landamærin í ferðinni. En smástund tók að venjast því að hámarkshraðinn í Malaví á þjóðvegum er ekki nema 80 km/klst. Meira að segja ekki nema 50 km/klst með kerru. En ég ákvað að halda mig við 80. Nógu erfitt var nú samt að halda sig á þeirri ferð.
Við römbuðum beint á húsið og gengum inn um dyrnar um hálffimm leytið.
Kvöldinu eyddum við í að opna kassa. Ég skaust út um kvöldmatarleytið og náði að finna skyndibitastað svo hægt væri að seðja sárasta hungrið. Fínn kjúklingur af stað sem heitir MacDauds. Eftirlíking af einhverjum þekktum stað...
En það er svolítið ævintýri að keyra um götur Lilongve eftir myrkur. Engin götulýsing, og fullt af gangandi fólki og reiðhjólum. Að ógleymdum holunum í malbikinu. Ekki bætir úr skák þegar ökumaðurinn ratar mjög takmarkað. Já, þá verða stuttir bíltúrar ævintýri.
Gott var að leggjast á koddann í gærkvöldi. Öll steinsváfum við til morguns. Í dag höfum við haldið áfram kassabaráttunni, svo heimilið er að taka á sig mynd. Okkur líst vel á þetta.
Á morgun fer Rúnar Atli í námsmat í skólanum og byrjar svo á fullu í honum í næstu viku. Ég fer þá líka að vinna af fullum krafti og þá byrjar daglega stritið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
2 ummæli:
Gaman að fylgjast með ykkur og gott að þið eruð komin á leiðarenda :) Kveðja, Gerða
Flott að þið séuð komin á leiðarenda, Aron Kári fékk pleymó þotu í afmælisgjöf og hann flygur henni oft á dag til Afríku heim til Villa frænda með farangurhólfið fullt af afríku dóti úr öðrum afmælispakka... hann fékk nefnilega þær fréttir að pleymó herbergið í Reykjavík væri flutt til Afríku!!!!!
Skrifa ummæli