27. ágúst 2011

Sveit í borg

Ég var að heiman frá mánudegi til föstudag. Þegar ég kom heim aftur þá voru Gulla og Rúnar Atli búin að næla sér í nokkra hænuunga. Fimmtán stykki. Aðeins.

Þetta kom reyndar ekki á óvart því Gulla hefur átt þann draum í nokkurn tíma að verða pútnaeigandi. Þegar orðið var víst að við færum til Malaví þá varð bjargföst ákvörðun hennar að nú skyldi þessi draumur rætast.

Og það hefur hann gert.

Það eru nokkur herbergi í garðinum okkar, sjálfsagt fyrir vinnufólk, og er núna eitt þeirra orðið að hænsnaherbergi. Búið er að strá sagi á gólfið og einum flottum pappakassa var fórnað í þetta stúss. Inn í pappakassann var lagt rafmagn og logar nú 100 kerta pera þar dag og nótt. Þeim má víst ekki verða kalt þessum litlu ungum. Þeir eru víst um átta vikna gamlir og orðnir nokkuð stórir. Ja, fyrir hænuunga. Í dag fengu þeir einhver vítamín, sem á víst að losa um stress... Það er víst mjög stressandi fyrir hænuunga að koma á nýjar slóðir.

En eftir mánuð eða svo dugar ekki þetta herbergi lengur. Þá þarf hænsnakofa. Ég kíkti því á netið í gærkvöldi og fann fullt af leiðbeiningum um hvernig eigi að smíða svoleiðis híbýli. Bandaríkjamenn eru nú léttruglaðir verð ég að segja. Ýmsir þeirra virðast vera fyrir hænsnarækt. Sumir hænsnakofarnir eru nokkuð flottir, sbr. þennan.

Ég þarf að leggja höfuðið aðeins í bleyti út af þessu.

En, ekki var víst nóg að fá fimmtán hænuunga.

Í dag bættust tveir meðlimir við fjölskylduna. Annars vegar hundur og hins vegar köttur.

Þessi dýr voru í eigu Breta sem búið hefur hér í tvö ár, en nú er hann að fara til Líbíu. Af öllum stöðum. En hann var að leita að fólki til að taka að sér þessi tvö dýr. Þar sem búið var að lofa Rúnari Atla að fá hund, og jafnvel kött, þá var ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi.

Í morgun komu þau. Hundurinn er Labrador. Líklega að nálgast tíu ára aldurinn. Þetta er tík sem heitir Snapper. Það mætti útleggja sem Glefsa á íslensku, en Bretinn sór og sárt við lagði að tíkin bæri ekki nafn með rentu.

Kötturinn er að öllum líkindum eitthvað eldri. Þetta er læða sem heitir Sallý.

Þær stöllur eru núna að átta sig á öllu. Þær hafa verið í eigu a.m.k. þriggja eigenda, en alltaf búið í sama húsinu. Þetta eru því nokkur viðbrigði.

Ég set inn myndir síðar.

En nú búum við semsagt í sveit í borg.

2 ummæli:

Jóhanna sagði...

Vóóóó.... hænur, hundur og köttur. Það er aldeilis fjör á heimilinu. Hlakka til að sjá myndir af búskapnum :)

davíð sagði...

Ég er að reyna að sjá þig fyrir mér í ermalausri rauðköflóttri skyrtu, með skítuga CAT derhúfu á hausnum og í of stórum rifnum smekkbuxum. Gamall Chevy-pikkup hlýtur að fara detta inn á bílaplanið hjá þér.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...