9. ágúst 2011

Leynilögga frá Simbabve og vegalögga í Sambíu

Í morgun fórum við yfir landamæri Simbabve og Sambíu. Allt gekk þetta nokkuð smurt, en tók þó nokkurn tíma, sérstaklega Sambíu-megin. Heilmikið sem einhver þurfti að slá inn á tölvu og rölta þurfti á milli manna eins og gengur.

En eftirminnilegasta atvikið var þó Simbabve-megin.

Við vorum búin að fá stimpla í vegabréfin og síðan þurftum við að ganga út að hliðinu yfir til Sambíu og skrifa upplýsingar um bílinn okkar í stóra stílabók sem þar lá á borði. Ég rölti mér síðan að bílnum, en eitthvað tafði Gullu. Hún kallar síðan í mig að einhver maður vilji tala við mig. Þessi maður var nokkuð stór og mikill, í skítugum kakíbuxum og stuttermabol. Hann vill fá að sjá skráningarskírteini bílsins, vegabréfið mitt og að kíkja ofan í kerruna okkar.

Ég virti manninn fyrir mér hátt og lágt og spurði síðan: Hver ert þú eiginlega?

Maðurinn varð hálfvandræðalegur og sagðist vera lögreglumaður. Ég sagðist nú vona að hann fyrirgæfi mér, en mér þætti hann nú ekki alveg líta út eins og lögreglumaður. Þá sagðist hann starfa óeinkennisklæddur og væri „undercover“ - sem sagt leynilögga.

Ég hef líklega verið eitthvað vantrúa á svipinn þ.a. hann rétt mér skilríki.

Og viti menn, á skilríkjunum stóð að hann væri Deputy Constable - sem ég veit ekkert hvernig útleggst á íslensku - en er sannanlega titill innan lögreglunnar. Skilríkin virtust ófölsuð, þ.a. ég sýndi manninum þau plögg sem hann vildi fá að sjá. Á endanum vildi hann ekkert sjá ofan í kerruna og við kvöddumst mestu mátar.

En þannig er að í Simbabve er bannað að keyra bíla, sem á að selja annars staðar, í gegnum landið. Þá verður að flytja á flutningabílum og líklega borga sæmilegustu gjöld. Mér þykir líklegt að leynilöggan sé að nappa þá sem þykjast vera á eigin bíl en eru ekki. Því vildi hann sjá nafnið í vegabréfinu mínu og bera saman við skráningarskírteini bílsins. Allt var auðvitað í himnalagi hjá mér.

Gaman að því að hafa hitt leynilöggu.

Svo ókum við af stað í Sambíu. Þar lentum við fljótlega í eftirliti lögreglunnar. Eftirlitspóstar lögreglu eru út um allt í Afríku og er Sambía engin undantekning. Lögregluþjónninn bað mig um ökuskírteini. Rétti ég honum mitt íslenska, eins og ég geri alltaf. Flestar löggur kíkja snögglega á þetta og skila því til baka. Sumar spurja hvaða landi þetta skírteini sé frá. Yfirleitt spá löggurnar lítið í þetta annars. En þessi var ekki þannig. Maðurinn skoðaði hvern einasta reit á skírteininu og velti því fyrir sér fram og til baka.

Svo spurði hann undrandi:

„2034?“

Ég kveikti strax á því að hann var að undra sig á hversu seint skírteinið rennur út.

„Já,“ sagði ég. „Þá verð ég orðinn gamall maður.“

„Já,“ samsinnti hann, „eldgamall!“

Þegar ég renndi af stað aftur heyrði ég að hann var farinn að segja kollegum sínum frá þessu skrýtna landi þar sem menn nenntu ekki að endurnýja skilríkin.

Skildi Steingrímur J. vita af tekjutapinu vegna þessa?

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...