8. ágúst 2011

Simbabve

Sit núna út á svölum fyrir utan hótelherbergi í Simbabve. Klukkan rúmlega sjö að morgni. Í fjarlægð heyri ég drunurnar í Viktoríufossunum og ég sé úðann frá þeim í kannski tveggja kílómetra fjarlægð. Hitastigið er akkúrat eins og ég vil hafa það í morgunsárið. Á risastórri grasflöt sé ég apa hlaupa um, líklega í leit að einhverju æti. Einnig eru þar nokkur vörtusvín að róta upp mold. Fjórar, fimm antilópur eru líka á vappi um grasflötina.

Hér er dásamlegt að vera.

Við erum semsagt komin til Simbabve. Í gærmorgun vöknuðum við í Namibíu, en vorum ekkert að flýta okkur sérstaklega af stað. Höfðum nægan tíma fyrir verkefni dagsins. Í þann mund sem ég vaknaði þá fór rafmagnið af hótelinu. Frétti síðar að rafveitan væri að lagfæra eitthvað og hefði ákveðið að sunnudagsmorgunn væri bestur í að aftengja rafmagn í þeim tilgangi. Þetta þýddi að ekki var hægt að fara í sturtu, og morgunverðurinn var aðeins fátæklegri en ella. En samt var nú nóg á borðum til að við færum ekki svöng í burtu.

Við þurftum að fara yfir tvenn landamæri. Gekk það frekar áfallalaust fyrir sig. Þó tók langan tíma að komast í gegnum innflytjendaeftirlitið í Simbabve. Þar hittist svo óheppilega á að tvær ferðamannarútur voru nýmættar á svæðið á undan okkur. Þarna voru því í kringum 50 Ítalir og Hollendingar á undan okkur í biðröð.

Og biðröðin gekk hægt.

Ég skellti mér í biðröðina og nýtti tímann til að fylla út hin og þessi eyðublöð sem þarf. Verst var að húsið sem innflytjendaeftirlitið hefur til umráða er lítið og því stóð ég utandyra lengi, lengi, en sólin er nokkuð sterk þarna.

En loksins kom röðin að okkur. Ég lenti í smástappi við embættismennina þarna. Einhvern veginn tók einn þeirra það í sig að við værum frá Írlandi, en ekki Íslandi. Þetta er ekki óalgengur misskilningur, sem skiptir sjaldnast máli. Hér hins vegar þurfa Írar að greiða 55 bandaríkjadali fyrir vegabréfsáritun, en Íslendingar ekki að greiða nema 30 dali. Því var ég ekki sáttur í þetta sinn við að vera sagður frá eyjunni grænu. Það varð mér til happs að einn þeirra hinumegin við borðið kinkaði kolli og var sammála mér. Sá sem var að fylla út kvittunina mína var ekki sáttur og fékk álit annarra. Niðurstaðan varð að lokum sú að ég var samþykktur sem Íslendingur og að 30 dalir væru rétt verð fyrir áritun.

Við fengum því áritunina og gátum ekið inn í Simbabve. Tvo klukkutíma tók þetta. En við vorum ekki í neinu stressii. Vonum bara að við lendum ekki aftur á eftir ferðamannarútum.

Við ókum frekar rólega í dag. Eitthvað á þriðja hundrað kílómetra og leiðin lá í gegnum tvo þjóðgarða. Annan í Botsvönu og hinn í Simbabve. Í þeim fyrri sáum við nokkrar hjarðir af fílum fara yfir veginn. Alltaf gaman að stöðva bílinn og fylgjast með þettum tröllvöxnu dýrum.

Hótelið okkar í Simbabve er ótrúlega flott. Ég er ekki alveg klár á hvenær það var byggt, en líklega á tíunda áratug síðustu aldar. Byggingin er frekar löng, Tveir gangar eru eftir langhliðinni og á milli þeirra sér maður ofan í klettagil. Inni í hótelinu. Við erum á fjórðu hæð og á leiðinni í herbergið sjáum við niður á klettana. Alveg magnað.

Ekkert hefur verið til sparað. Þrjár sundlaugar hef ég séð og fjóra flóðlýsta tennisvelli. Ég held það sé golfvöllur við hótelið og síðan er þyrlupallur hér, en þaðan er hægt að fara í þyrluferðir yfir fossana og gjúfrin í kring.

Í dag ætlum við að taka lífinu með ró. Við erum búin að eyða þremur dögum í bíl og nú er hvíld.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...