Þ.a. tengið ykkur á skype...
Í dag var fyrsti skóladagur Rúnars Atla. Því var dagurinn tekinn snemma. Eins og í Namibíu hefst skóladagurinn snemma. Drengurinn þarf að vera mættur tíu mínútur yfir sjö á morgnana og er í skólanum til hálftvö. En reyndar er farið að birta af degi uppúr kl. sex á morgnana.
Í Bishop Mackenzie alþjóðaskólanum, en svo heitir skólinn, klæðast börnin skólabúningum. Það finnst okkur Gullu meiriháttar, því þá er aldrei vesen á morgnana hvaða fötum á að klæðast. Svo er búningurinn bara nokkuð fínn hér, stuttermaskyrta, stuttbuxur og háir sokkar. Ekkert bindisvandamál.
Enda tók gaurinn sig vel út í morgun.
Skóladagurinn var skemmtilegur að Rúnars Atla sögn. Kennarinn hans heitir ungfrú Daigneault, sem þykir nokkur tungubrjótur. Því er hún kölluð ungfrú Djé - Miss Dee, á enskunni. Bekkurinn er því 3-D og það fannst Rúnari Atla flott.
Þrívíddarbekkurinn.
Þessir krakkar!
En hér lenti hann í þriðja bekk, ekki öðrum. Það virðist sem krakkar byrji ári fyrr í þessum skóla en í íslenskum skólum. Rúnar Atli er því með sínum jafnöldrum. Vorum við foreldrarnir ánægðir með það, því á aldurinn lögðum við nokkra áherslu.
Hann segist þegar vera búinn að eignast vin, svo allt virðist í himnalagi. Hann plummar sig á enskunni, virðist vera, þrátt fyrir að vera nokkuð ryðgaður þegar við mættum til Namibíu fyrir 10 dögum, eða hvað það nú var.
Gulla er farin að hætta sér út í umferðina hérna og farin að spá í verslanir og ýmsa þjónustu sem þarf að nota. Umferðin er nokkuð öðrum vísi en maður á að venjast. Hér er gangandi fólk út um allt. Og hjólandi fólk. Það eru þó engar gangstéttir, heldur malarstígar við hliðina á malbikinu. Hins vegar eru margar götur farnar að láta hressilega á sjá. Bæði eru þær holóttar og eins hefur brotnað upp úr köntunum á þeim. Því eru oft stórhættulegar brúnir í götukantinum og maður vill ekki missa bílinn þar niður. Því halda bílar sig nær miðju heldur en vegkanti og þá vandast stundum málið þegar mætast þarf.
En Gulla er hetja og farin að kljást við þetta á fullu.
2 ummæli:
Var hvort sem er ekki tími á að setja Leiknisgallann í þvott?
Flottur skólastrákur! Ísak Máni er sérstaklega hrifinn af uppháu sokkunum, hann heldur að þetta myndi slá í gegn í 7.bekk...he,he.
Vona að þið hafið það gott á nýjum slóðum.
kv.
Sigga
Skrifa ummæli