9. nóvember 2014

Fjölskylduíþróttasunnudagur

Þótt við séum nú engir stóríþróttamenn, þá pjökkumst við aðeins hérna í Malaví.

Rúnar Atli er líklega öflugastur, stundar ýmsar íþróttir í skólanum. Íþróttirnar hjá honum breytast önn frá önn, núna stundar hann þríþraut og tennis, en rauði þráðurinn hans er karate. Hann æfir það þrisvar í viku og er orðinn nokkuð fær. A.m.k. að áliti föðurins.

Ég flækist um á reiðhjólinu mínu, reyni að fara ekki sjaldnar en þrisvar í viku á því til vinnu, þótt það gangi nú ekki alltaf. Svo er ég í litlum hópi sem hittist flesta sunnudagsmorgna og fer í hjólreiðatúra um sveitirnar hér fyrir utan Lílongve. Algengt er að við förum 40 til 60 km í hvert sinn. Þetta er skemmtilegt og meira gaman þegar fleiri eru með.

Gulla er komin í gönguhóp sem hittist tvisvar í viku, ef ég man rétt. Þær - allt konur - arka hér um nágrennið fimm til sex kílómetra.

En, við gerum þetta öll svolítið í okkar horni og sjaldan saman.

Í morgun varð breyting á. Við fórum saman og tókum þátt í skemmtiíþróttadegi sem var haldinn hér í borginni. Þýska sendiráðið studdi þetta, því einmitt núna eru 25 ár frá falli Berlínarmúrsins og var haldin ein ræða af tilefni þessa - ég missti reyndar af ræðunni...

Hægt var að hjóla 21 km á fjallahjóli, hlaupa sömu vegalengd, skokka eða ganga 5 km og síðan var aðalviðburðurinn, 2 km skemmtiskokk þar sem þátttakendur og áhorfendur voru vopnaðir litadufti sem var dreift á, ja, alla sem voru nálægt.

Ég skráði mig í hjólatúrinn, Gulla í 5 km göngu og Rúnar Atli í skemmtiskokkið. Þ.a. fjölskyldan var saman í íþróttum!

Og morguninn var skemmtilegur.

Enn með drauma um miðjan hóp!
Dagurinn var tekinn snemma, því ég þurfti að mæta 20 mínútur yfir fimm, en hjólatúrinn hófst klukkan sex. Já, um morguninn. Hér er dagrenning nefnilega í kringum fimm að morgni og því hefst allt hér eldsnemma. Svo vill maður reyna á sig áður en sólin kemst of hátt á loft.

Þetta var heilmikið ævintýri fyrir mig. Ég man ekki eftir að hafa tekið þátt í hjólakeppni áður. Það er þá svo langt síðan að sú reynsla liggur í óminnislandi. Fjörutíu keppendur voru skráðir til leiks, en eitthvað færri mættu. Síðustu daga var ég svolítið rogginn með mig - í huganum - og fannst að ég gæti nú endað meðal tíu efstu. Í morgun, þegar ég mætti og fór að virða fyrir mér keppendurnar þá dró ég aðeins úr væntingunum...

Svona í kringum miðjan hóp væri líklega ásættanlegt...

Svo var brunað af stað. Leiðin var nokkuð strembnari en ég er vanur. Mikið af upp-og-niður köflum, árfarvegir og svoleiðis, og þröngir stígar milli trjáa og grjóts. Mikið af kröppum beygjum og sandflákum. Sumstaðar hátt niður ef maður færi útaf. Eftir fimm km var ég búinn að breyta væntingunum. Að komast á leiðarenda væri bara flottur árangur - og þess virði að blogga um...

Svona um miðbikið var mér farið að ganga ágætlega. Hafði reyndar týnt þeim sem á undan voru (sem var í lagi því ýmsir þeirra villtust af leið) og langt var í næsta mann á eftir mér. Reyndar upplifði ég þá skrýtnu reynslu að láta taka framúr mér, ekki einu sinni heldur tvisvar, af hlaupurum! Það var svolítið undarleg tilfinning, skal ég viðurkenna. En, þrátt fyrir þá smán, var ég farinn að venjast stígnum og farinn að njóta hjólatúrsins.

Á sextánda kílómetra gerðist hins vegar það sem enginn hjólreiðamaður vill að gerðist. Það sprakk! Allt í einu var eins og framdekkið væri á búðingshlaupi og einhverjum sekúndum síðar var dekkið loftlaust. Ég af baki - var reyndar vel búinn með varaslöngu, bætur o.fl. - og reif dekkið af. Fann sökudólginn, þyrni sem hafði stungist á bólakaf í dekkið. Varaslangan var sett í - tók ekki nema mínútu eða tvær - og ég fór að pumpa. En ekkert loft kom í hana. Hún semsagt sprungin líka.

Í framhjáhlaupi má nefna að þetta er þriðja slangan, keypt í Erninum, sem hefur verið ónýt þegar ég ætlaði að nota hana. Hrikalega lélegt og svekkjandi.

Ég fór því í bótaframkvæmdir. Það gekk illa. Fyrsta bótin klúðraðist fyrir klaufaskap. Sú næsta límdist rétt á, en þegar ég pumpaði heyrði ég að enn lak. Komst að því að ekki var nóg með að þyrnirinn hefði stungist inn í slönguna, heldur gekk hann út úr henni hinu megin. Tvö göt frá sama þyrni...

En loksins komst ég af stað aftur. Allt stússið tók 20 til 25 mínútur, svo maður var orðinn vel aftarlega í röðinni. En, náði á leiðarenda og bara mjög sáttur.

Skemmtilegt að taka þátt og næst verð ég búinn að prófa varaslönguna!!

Endurfundir
Gulla hafði áhyggjur af mér, því ég skilaði mér ekki áður en 5 km skokkið/gangan var ræst. Var hún helst á því að löggan hefði pikkað mig upp einhvers staðar og líklega stungið mér í steininn... Hugmyndaflugið hjá sumum!

En svo var auðvitað ekki og síðar urðu fagnaðarfundir okkar.

En mesta stuðið var litaskemmtiskokkið. Allir þátttakendur fengu litaduft og rétt áður en skokkið hófst áttu allir að úða dufti á næsta mann og annan. Rúnar Atli var með sundgleraugu til að varna dufti í augun.

Síðan gátu áhorfendur keypt duftpoka og röðuðu sér meðfram upphafi hlaupaleiðarinnar og gáfu þátttakendum annan litaskammt.
Verið að dreifa dufti
Rúnar Atli búinn að tæma pokann og glottir
Rúnar Atli tók svo sprettinn og virtist eiga nóg eftir þegar skokkinu lauk.

Ein mynd af lokum sem ég stal af fésbókarsíðu Ingibjargar Jónsdóttur.

Allir kátir enda búið að vera gaman

13. október 2014

Malaví-vatn heillar

Enn er ég kominn að ströndum Malaví-vatns. Það heillar. Enda fallegt.


Hvern langar ekki að vera á svona stað?

Tilgangurinn er köfun. Til að mega öðlast köfunarréttindi þarf maður að hafa náð 10 ára aldri. Rúnar Atli beið með óþreyju eftir þeim tímamótum. Núna loksins gafst svo tækifærið, en það er einnar viku miðannarfrí í alþjóðaskólanum. Við tveir fórum því í bíltúr norður til Nkhata-flóans.


Gulla þarf að læra og læra, svo við höfum ekki mikið samviskubit yfir að skilja hana eina heima.

Ekki mikið, en þó smá.

Rúnar Atli er búinn að vera á kafi á námskeiðinu sínu í dag. Að horfa á vídeómyndir - hann var búinn að stúdera kennslubókina í nokkurn tíma áður en við lögðum af stað - og svo kafaði hann tvisvar. Þetta voru kafanir á afmörkuðu svæði, yfirleitt gerðar í sundlaugum. En hér er ekki um sundlaug að velja, heldur er notað grunnt svæði í vatninu. Fiskar að synda í kringum mann og svoleiðis.

Hér er hann að gera búnaðinn tilbúinn. Að sjálfsögðu er hluti af námskeiðinu að læra það.Ég reyni að dunda mér eitthvað á meðan hann er í sínu stússi. Fer nú létt með það.

Fór tvisvar í vatnið að „snorkla“ - veit ekki annað orð yfir þetta á íslensku. Notaði tækifærið að æfa mig að nota áttavita í vatninu. Þetta er eiginlega í fyrsta skiptið sem ég snorkla af alvöru. Það var virkilega gaman. Að líða þarna yfir lífríkinu í vatninu. Merkilegt hvað dýpið skipti mig engu máli. Mér leið ekkert illa þótt væri kannski átta til tíu metra dýpi og ég nokkuð langt frá landi. Ég bara sveif fyrir ofan, fannst mér. Svo stakk ég mér svo niður, þrjá til fjóra metra, ef mér þótti eitthvað nógu merkilegt til þess. Rakst t.d. á krabba sem var á vappi þarna og renndi mér nokkrum sinnum niður að honum. Honum þótti greinilega nóg um athyglina og hvarf að lokum inn í klettasprungu.

Rúnar Atli er í sínu elementi að sulla í vatninu. Þegar hlé er á köfunum þá syndir hann og prílar á bát sem er hérna.

Gaman hjá okkur.

29. júní 2014

Köfunarhelgi

Þessari helginni hef ég eytt við Maclear höfðann við strendur Malaví-vatns. Vegna vinnu var ég niður í Mangochi-héraði síðustu virku daga vikunnar og þótti tilvalið að taka köfunarhelgi í kjölfarið. Innan við 20 km útúrdúr að koma hingað. Ég er jú einn heima, þar sem Gulla og Rúnar Atli eru farin til Íslands.

Reyndar var Rúnar Atli ekki alveg sáttur við að ég færi að kafa án sín, þegar ég sagði honum af þessum áformum mínum. En hann sættist á þetta að lokum, annars vegar vegna þess að hann yrði á Íslandi, og hins vegar vegna þess að ég lofaði að ég myndi ekki kafa með „köfunarvinum“ hans. Sem ég stóð við.

Ég gisti á frekar fábrotnu en notalegu gistiheimili. Mgoza Lodge heitir það. Ætli séu ekki sex eða átta herbergi þarna. Enginn íburður, en notalegt viðmót starfsfólks. Og fínn matur. Herbergið opnast út í lítinn garð þar sem er sundlaug, ja, eða eiginlega baðlaug. Varla hægt að synda í þriggja metra langri laug, eða hvað? Ég tók reiðhjólið mitt með í ferðina og geymdi það inni á herberginu hjá mér. Algengustu viðbrögð heimafólks þegar það sá mig hjóla um þorpið er: „nice bike“ eða „very nice bike.“ Einn garðyrkjumaðurinn sagði eitthvað í þessa átt við mig þegar ég tók hjólið út úr herberginu í morgun. Ég leit kankvís á hann og sagði: „Alveg rétt, enda sef ég við hliðina á því!“ Hann var smástund að fatta grínið, en svo færðist breitt bros yfir andlit hans.

Það hefur verið meiriháttar að vera á hjóli. Maður losnar við þetta endalaust kvabb frá sölufólki og svo getur maður skoðað miklu meira en fótgangandi. Virkilega gott.

En, ég fór sem sagt að kafa. Nýtti mér þjónustu fyrirtækis sem heitir Cape Maclear Scuba, og var ánægður með þjónustu þeirra. Allt stóð eins og stafur á bók og þeir virðast vita hvað þeir eru að gera. Ég fór tvisvar út með þeim, í gærmorgun og núna í morgun. Í hvort skipti köfuðum við tvisvar, með hálftíma og fjörutíu mínútna millibili. Eins og alltaf var þetta meiriháttar.

Núna hef ég kafað fimmtán sinnum, og held það sé ágætt miðað við að hafa fengið réttindi í byrjun mars. Smám saman er ég að ná betra valdi á sjálfum mér í vatninu. Þetta er svona svipað og að hjóla, jafnvægið er lykilatriði. Það sem ruglar mann í vatninu, mig a.m.k., er að mesta kúnstin er jafnvægi upp og niður. Ekki að síga niður endalaust og ekki að þjóta upp á við, heldur að halda sér á þeirri dýpt sem maður vill vera. Ég bæti mig í þessari kúnst í hverri ferð. Fann töluverðan mun frá í fyrstu köfuninni í gærmorgun og þeirri seinni í dag. Undir lokin gat ég haldið mér kyrrum með andlitið í svona 20 sm fjarlægð frá þar sem fiskar eru að dunda sér. Þegar manni tekst þetta, þá halda fiskarnir bara áfram að gera það sem þeir eru að gera, en ef maður buslar mikið þá þjóta þeir í burtu. Svo er ég farinn að geta haldið upp-niður jafnvægi þótt höfuðið vísi niður, t.d. þegar maður kemur yfir klett og kíkir niður fyrir hann og undir. Þetta þótti mér erfitt, en er allur að koma til.

Svo prófaði ég að kafa inn á milli klettadranga og smokra mér á milli þeirra eins og leið lá. Mig langar nefnilega svolítið að læra að kafa í umhverfi þar sem er lokað fyrir ofan, t.d. í hellum og skipsflökum. Þetta gaf svona nasasjón af því, án þess þó að þak væri yfir.

Reyndar lenti ég í smáævintýri í seinni köfuninni í gær. Við vorum fjórir saman og ég var að skoða eitthvað merkilegt. Að mér fannst. Svo ætlaði ég að elta hópinn, en sá bara ekki nokkurn mann! Búinn að týna hópnum. Þetta þykir nú ekki fínt meðal kafara, hvort sem er að týna einum kafara úr hópnum, eða týna hópnum. Menn eru paraðir saman og eiga að fylgjast hvor með öðrum. En, ég hélt haus þrátt fyrir að vera allt í einu einn og yfirgefinn. Stressaðist ekki, heldur rifjaði upp frá námskeiðinu mínu og kennslubókinni hvað ætti að gera. Sem er að snúa sér heilan hring, kannski tvo, á sama stað og leita að fólkinu eða loftbólum. Loftbólur gefa jú til kynna kafara. Gera þetta í mínútu eða svo. Ef ekkert sést, þá fara hægt og rólega upp á yfirborðið. Ekki fara af stað í einhverja átt að leita, því líkurnar eru meiri en minni að maður fari í ranga átt. Ég sem sagt gerði allt samkvæmt bókinni. Kom í ljós, þegar ég kom úr kafi, að ég var svona 50-100 metra frá bátnum okkar. Þar var hópurinn nýbúinn að koma úr kafi, svolítið stress yfir að ég var ekki með. Allt fór því vel. Ágætt að lenda í svona þegar aðstæður eru góðar. Bæði til að æfa það sem á að gera og eins til að muna að passa sig.

En helgin hefur verið fín. Sit núna á Gecko Lounge, horfi yfir vatnið og snæði karríkjúkling og hrísgrjón. Milli þess sem ég pikka þetta inn.

Svo er að halda heim á leið.

22. maí 2014

Strákahelgi

Nú erum við Rúnar Atli í Nkhata Bay. Hér ætlum við að vera fram á sunnudag og njóta lífsins. Gulla var búinn að tala í einhvern tíma að hún þyrfti smáfrí frá okkur tveimur - ég meina’ða… frí frá okkur? - svo við ákváðum að skella okkur norður í land. Auðvitað virðir maður óskir eiginkonunnar, hvað annað? Nú er meiningin að sulla í Malaví-vatni og kafa svolítið.Ég er orðinn alveg sjúkur í köfunina… og Rúnari Atla finnst hún líka spennandi. Ég skelli mér í vatnið um níuleytið í fyrramálið og á sama tíma ætlar guttinn að snorkla með einum leiðbeinandanum hér. Svo fer hann „niður“ um hádegisbilið. Kannski ég snorkli þá á meðan. Kemur allt í ljós.

En aksturinn til Nkhata Bay er langur. Tók hann okkur nærri því sex klukkustundir. Tók ég mér því sumarfrísdaga og hann fékk frí í skólanum. Við lögðum af stað skömmu eftir hádegi og hér verðum við til sunnudags.

Ferðalagið gekk eins og í sögu. Hér voru forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningar í fyrradag, og er höfuðborgin búin að vera á hálfum hraða síðan þá. Á leiðinni norður virtist hins vegar allt vera í sínum föstu skorðum. Eins og alltaf var endalaust af fólki á gangi meðfram þjóðveginum. Seinni helminginn af leiðinni hefði ég eiginlega þurft að skvetta úr skinnsokknum, en ég fann aldrei nógu mikið næði til þess. Malavar þurfa ekki næði til svona lagaðs - snúa bara baki við veginum og láta góssa. Ég er hins vegar of spéhræddur fyrir svoleiðis. Hélt því í mér.

Við náðum uppeftir fyrir myrkur. Fengum okkur kvöldmat og gripum svo í spil. Nú styttist í háttatíma. Vonandi gerist eitthvað skemmtilegt hjá okkur næstu tvo daga., þess virði að rata hingað inn.

4. maí 2014

Draumahelgi á Maclear höfðanum

Núna, á sunnudegi, sit ég undir stráþaki á gistiheimili sem nefnist Danforth Yachting. Rúnar Atli er að spila billjarð rétt hjá og Gulla er eitthvað að stússast í herberginu okkar. Gistiheimilið er við Malaví-vatn, við Maclear höfðann. Höfðinn er mikill ferðamannastaður og er hægt að lesa margt um hann í öllum ferðabókum um Malaví. Hann dregur víst nafn sitt af vini Davíðs Livingstones sjálfs. Ekki slæmt að eiga vini sem gera mann ódauðlegan.

Nú eru liðnar nokkrar vikur síðan ég náði mér í köfunarréttindin, en hef ekkert notað þau. Því langaði mig að kafa um þessa helgi, en á sama tíma vildi ég vera á góðu gistiheimili. Að geta notið lífsins og slakað á milli þess sem ég kafa. Ég hafði heyrt látið vel af Danforth staðnum og þótt hann sé rándýr þá ákváðum við að skella okkur.

Við sjáum ekki eftir því.

Er skemmst frá að segja að helgin hefur verið meiriháttar skemmtileg. Hér er stjanað þvílíkt við okkur að ég hef varla nokkurn tímann lent í öðru eins. Allur aðbúnaður er tipp-topp, sama hvað það er. Kokkurinn algjör snillingur. Svo er hægt að stunda allskonar vatnaíþróttir eins og hugann lystir.

Allur aðbúnaður í kringum köfun er til fyrirmyndar og þau sem um það sjá þrælklár. Ég fór niður þrisvar og í eitt skipti eftir myrkur. Var það í fyrsta sinn sem ég fer í næturköfun og var það magnað. Að vera á 10-15 metra dýpi og sjá ekkert nema það sem ljóskeilan sýnir. Skrýtið. Og svo sækja sumir fiskar í ljósið, eru greinilega forvitnir, og eru bara ofan í manni. Þetta var þrælskemmtilegt.

Svo var ótrúlegt að koma úr kafi og sjá stjörnum þakinn himininn. Ég lagðist á bakið í vatninu, starði upp í himininn og trúði varla mínum eigin augum. Glæsileg er náttúran.

Rúnar Atli var algjörlega óstöðvandi á laugardeginum. Við byrjuðum á köfun. Hann tók miklu ástfóstri við köfunarfólkið, en það er par, Dean og Cate. Sérstaklega elti hann Dean út um allt.

Rúnar Atli og Dean fara á vit ævintýra
Þeir tveir fóru saman að kafa, en Rúnari gekk illa að fara niður, því hann náði ekki að jafna þrýstinginn í eyrunum. Þeir voru því á tveggja metra dýpi að dunda sér. Sást að Rúnar Atli var ekki alveg sáttur við þetta, því hann ætlaði sér lengra niður.

Síðan þegar köfunin var búinn hamaðist hann í sundlauginn og á trampólíni. Síðan dró hann mig með sér út á blöðru, en þá liggur maður á dúk sem er strengdur yfir slöngu sem lítur út eins og slanga úr traktorsdekki. Maður heldur sér dauðahaldi í handföng og er dreginn áfram á vatninu af spíttbát. Við lágum þrír ofan á blöðrunni, ég, hann og Dean, og þeyttist ég tvisvar af. Langar leiðir alveg. Þetta var nokkuð erfitt fannst mér, því smátt og smátt gaf gripið í höndunum sig þar til ég missti takið. Var ég með strengi í fingrum og uppeftir innanverðum handleggjum. Gulla stóð sig vel á myndavélinni þegar þetta var:
Hér er þotið áfram. Á blöðrunni liggjum við þrír á fantaferð

Svarti punkturinn lengst til vinstri er ég!

Hér kemur hetjan í land, en hinir nenntu auðvitað ekkert að púkka upp á svona gaur.
Svo er það montrassinn...
Síðan fékk Rúnar Atli að sitja í með spíttbátnum þegar farið var út með aðra gesti. Við tveir prófuðum síðan tveggja manna kajak, en ég átti erfitt með að sitja í honum lengi. Var ekki alveg að gera sig fyrir stutta lærvöðva og mjaðmir.

Drengurinn fór líka með móður sinni á seglbát. Þokkalega gaman, en frekar dauft þó, fannst honum. Er að verða þvílíkur adrenalínfíkill...

Komið sér fyrir í seglbátnum

Og svo er lagt af stað
Svo fór hann og prófaði vatnaskíði. Honum tókst að lokum að komast af stað á þeim og leit vel út. Þá endastakkst hann í vatnið.

Ég er örugglega að gleyma einhverju sem drengurinn gerði.

Heyriði, svo varð hann sjúkur í billjard.
Í miðjuvasann!
Þetta var stanslaust hjá honum frá níu um morguninn til níu um kvöldið. Enda tók ekki langan tíma að sofna.

Svo núna í morgun fórum við í köfun. Ég í þá þriðju um helgina og hann í sína aðra. Þeir Dean fóru aftur saman og nú gekk mjög vel hjá þeim. Rúnar Atli náði að þrýstingsjafna eyrun og komst niður á sex metra dýpi. Enda var hann sáttur við árangurinn að þessu sinni. Ég fór hins vegar niður á nærri 20 metra dýpi og eyddi mest af tímanum á 17-18 metrum. Hún Cate lét mig kafa í gegnum þröng klettagöng, fyrst tvær mannhæðir niður, hausinn fyrst, og svo í 90 gráðu beygju og þar út. Þetta voru fyrstu hellagöng hjá mér. Og gaman. Maður þarf að fara á sérstakt hellaköfunarnámskeið ef maður vill kafa í hellum og göngum. Kannski maður fari einhvern tímann á svoleiðis námskeið.

Svo er víst einn af flottustu hellaköfunarstöðum í heimi hér á Maclear höfðanum, en á töluvert meira dýpi en ég má fara á. Maður hefur þá einhver markmið...

Sjálfsmynd á 15 metra dýpi eða svo

Cate, Rúnar Atli og Dean að fagna 6 metrunum. Lincston skipper í bakgrunni
Þetta gistiheimili er algjör draumastaður. Eigendur og starfsfólk eru með eindæmum vinaleg - komu öll út á hlað að kveðja okkur - og líður manni eins og heima hjá sér. A.m.k. skildi ég dótið mitt eftir út um allt ...

... alveg eins og heima...

9. apríl 2014

Í París; matur, töffarar og bifhjól

Sit enn á ný á veitingastað. Núna í einni af hliðargötunum út frá breiðvangi Parísarbúa, Champs-Élysées. Það verður að segjast að umferð fótgangandi fólks á breiðvanginum er eiginlega fullmikil fyrir mig. Alveg heill hafsjór af fólki þar. En á þessari hliðargötu, Boétie-götu, er hraðinn mun minni. Sit ég nú á Café Victoria, sem sérhæfir sig m.a. í sniglum og froskalöppum. En ég lét mér nægja kjúkling með kartöflumús. Ekki þurfti ég að bíða lengi, í mesta lagi fimm mínútur frá því að panta og þar til kjúklingurinn kom rjúkandi á diski. Ég hrökk eiginlega í kút þegar maturinn kom. Maður bíður aðeins lengur í Lílongve.

Ljúffengur var maturinn.

Eitt sem mér finnst skrýtið í París er hversu margir reykja. Alls staðar eru öskubakkar og fólk reykir meira og minna hvar sem er. Á næsta borði við mig sitja tvær ungar stúlkur, líklega á aldur við dætur mínar. Önnur spurði mig á frönsku hvort ég ætti eld. Ég fattaði í annarri tilraun hvað hún var að meina og bar mig aumlega og tókst að segja á minni aumu frönsku að ég reykti ekki. Þjónninn reddaði þeim. Hvað haldiði? Þær vöfðu sínar eigin sígarettur! Og báru sig faglega að.

Annað sem ég tók eftir, á leið frá flugvellinum, er ást Parísarbúa á bifhjólum. Ég hafði pantað mér far, í gegnum netið, frá flugvellinum til hótelsins. Þegar ég var kominn í gegnum innflytjendaeftirlitið þá hringdi ég í símanúmer, sem mér hafði verið gefið og tilkynnti að ég væri lentur. Fékk ég leiðbeiningar hvert ég ætti að fara til að hitta bílinn. Fór ég þangað og eftir svona hálftíma bið renndi bíll upp að mér og bílstjórinn veifaði spjaldtölvu framan í mig og spurði hvort ég væri ekki örugglega þessi Villlljaaa-mÚÚÚRR. Jú, jú, ég hélt það nú. Bílstjórinn var eins og klipptur út úr tískublaði, í leðurjakka, með sólgeraugu, vindblásið liðað hár og þriggja daga skeggbrodda. Er ég viss um að margar stúlkur (og Siggi í Portúgal) hefðu kiknað í hnjáliðunum.

Hvað um það, hvað um það. Ég ætlaði að segja frá bifhjólum.

Ferðalagið tók um klukkutíma. Háannatími var greinilega, en við lögðum af stað frá flugvellinum rétt fyrir átta. Um morguninn. Stundum hreyfðumst við varla, og þá bölvaði þessi með vindblásna hárið hressilega, en stundum vorum við á kringum 80 km hraða. Sums staðar voru fjórar akreinar í hvora átt og minn maður hélt sig yfirleitt á þeirri lengst til vinstri. Þeirri sem á að fara hraðast.

Mér var eiginlega um og ó að fylgjast með bifhjólunum. Parísarbúrar virðast leggja nokkuð upp úr því að vera á öflugum hjólum. Meira að segja ,,vespurnar'' eru einhver urrandi villidýr. Tryllitæki. Bifhjólin komu í bylgjum. Iðulega 10-20 í einfaldri röð á línunni milli þriðju og fjórðu akreinar. Sem sagt, reynið að sjá þetta fyrir ykkur. Umferðin rétt liðast áfram, allar akreinar stútfullar, þegar vélhjólin koma þjótandi á milli bílanna. Og örstutt á milli þeirra. Stuðari við stuðara myndi ég segja ef þetta væru bílar. Meira að segja í þau skipti sem við vorum á áttatíu brunuðu þau samt framúr. Stundum með farþega.

Þetta virtist svo sem ganga. En ekki væri ég til í þetta. Svo er örugglega ekki auðvelt að fara hægar ef maður er óöruggur, því þá fer sá fyrir aftan örugglega að flauta.

Já, svona er þetta nú í henni París.

 

7. apríl 2014

Addis Ababa

Nú sit ég á litlum veitingastað á flugvellinum í Addis Ababa í Eþíópíu. Er á leið til Parísar í vinnuferð. Ekki slæmur áfangastaður fyrir vinnuferð... Segðu.

En er sem sagt á þessum flugvelli. Í fyrsta skipti sem ég kem hingað. Sötra þetta fína sterka kaffi. Eþíópíubúar kunna að hella upp á. Finnst mér a.m.k. Flugvöllurinn er ósköp lítill og notalegur. Ekki séns á að villast að mínu viti. Flugstöðin er einn ferhyrningur og hægt að labba hring eftir hring. Allt hreint og snyrtilegt. Ég á reyndar í vandamáli að tengjast netinu, svo e.t.v. fer þessi færsla síðar inn en til stóð. Addis er tengiflugvöllur. Hingað er flogið frá heilmörgum Afríkuríkjum sem og flestum flugvöllum í Evrópu sem máli skipta. Svo er líka fullt af Asíuleiðum. Hér hittast því allra þjóða kvikindi og skemmtilegt að fylgjast með öllu því mismunandi fólki sem röltir hér um.

Eftir þrjá hringi settist ég inn á veitingastaðinn. Pantaði mér einhvern eþíópskan lambarétt, sem þjónustustúlkan sagði að væri ósköp góður. Aðeins runnu á mig tvær grímur þegar rétturinn kom. Lambateningar í smásósu, en engin hnífapör... aðeins eitthvað sem leit út eins og upprúllað frauðplast. Frauðplastið var auðvitað einhvers konar brauð. Þá mundi ég að engin hnífapör eru notuð með hefðbundnum réttum hér. Að sjálfsögðu hélt ég kúlinu (hvað annað?) reif smábita af brauðinu og sópaði nokkrum kjötbitum upp í mig. Mundi svo að ekki er vel séð að nota vinstri höndina við svona lagað. Ég, örvhenti maðurinn, skipti því yfir í hægri. Snarlega. Og kláraði matinn minn. Fínn matur, sem aðeins beit í.

Nú er ég við að klára úr bollanum. Rölti svo örugglega hring eða tvo.

12. mars 2014

Á malavískri löggustöð - kíkt í steininn

Í dag fór ég á malavíska löggustöð. Stöðin sú er í Mangochi-bæ við suðurhluta Malaví-vatns.

Kannski ætti ég að taka strax fram að ekki var ég grunaður um neitt misjafnt. Er ekki góðkunningi lögreglunnar í Malaví, þótt einstaka sinnum hafi ég fengið hraðasekt.

Nei, þannig var mál með vexti að stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar sendi mér bréf. Þetta gerði hann vegna þess að hann álítur mig geta hjálpað lögreglunni. Hann hefur fengið þá flugu í höfuðið að ég geti jafnvel fundið peninga til að gera við einn af fimm löggubílum héraðsins. Sá hefur verið bilaður í sjö, átta mánuði. Sagði stöðvarstjórinn mér að fimm lögreglubílar séu í Mangochi héraði og 207 lögregluþjónar. Íbúafjöldi héraðsins er í kringum milljón manns. Svona til samanburðar fann ég skýrslu sem segir að 2011 voru 652 lögreglumenn á Íslandi. Ekki veit ég hversu margir lögreglubílar eru á Íslandi, en örugglega fleiri en fimm.

Stöðvarstjórinn var hinn kumpánlegasti. Var svona eins og lögreglumaður á að vera, alúðlegur og rólyndur en þó fann ég að þetta er maður sem best er að abbast ekki upp á. Hann sýndi mér bilaða bílinn. Þegar við vorum búnir að ræða um bílinn fram og til baka spurði hann hvort hann ætti ekki að sýna mér lögreglustöðina. Jú, jú, mér þótti það hin besta hugmynd.

Eins og flestar byggingar sem malavíska ríkið á er viðhaldi ábótavant. Stöðvarstjórinn sýndi mér móttökuna og leit svo íbygginn á mig og spurði: „Þykir þér þetta aðlaðandi umhverfi að koma í?“

Ég leit í augu hans, sá smáblik þar, og horfði síðan í kringum mig. Sá að helminginn af loftplötunum vantaði, sá skrifstofustóla sem vantaði hjól á, sá veggi sem hafa ekki verið þrifnir í langan tíma og ekki verið málaðir síðstu fimm árin a.m.k., sá sófa sem vantaði sessur í, sá fatahrúgu í einu horni, sá hurð sem var við að detta af hjörunum, sá inn þröngan gang sem notaður var sem geymsla.

Leit svo aftur í augu stöðvarstjórans og sagði: „Nei, þetta er ekki aðlaðandi umhverfi.“

Hann glotti.

„Viltu ekki sjá fangaklefana?“ spurði hann síðan.

Færi ég að neita því? Að sjálfsögðu vildi ég sjá fangaklefana.

Stöðvarstjórinn sagði mér að fangaklefarnir væru bara tveir, en ættu að vera a.m.k. þrír. Einn fyrir karlmenn, einn fyrir konur, og einn fyrir unglinga.

Því næst opnaði annar lögreglumaður fyrri fangaklefann og ég steig inn fyrir þröskuldinn.

Úff.

Þarna inni í klefa sem var kannski tveir og hálfur metri á annan kant og fjórir til fimm á hinn, sátu um fimmtán menn á gólfinu.

Hvað segir maður við fimmtán fanga sem stara opinmynntir á hvíta manninn sem allt í einu stendur mitt á meðal þeirra?

„Hvernig hafiði'að?“ skaust út úr mér.

Æ, æ, mikið langaði mig að bíta úr mér tunguna! Ekki beint besta ávarpið...

Einum fanganum var strax eitthvað uppsigið við mig. Stökk á fætur og sperrti sig. Var nú varla meira en einn og sextíu á hæð, en greinilega nagli. Harður gaur.

En, nýi besti vinur minn - stöðvarstjórinn - slökkti þennan eld áður en hann kviknaði.

Sem betur fer.

Ég ákvað þá og þegar að finna nýtt ávarp þegar ég kæmi inn í fangaklefa.

„Halló,“ er ábyggilega bara fínt.

Svo kíkti ég í kvennaklefann. Þar sat ein kona, frekar umkomulaus, á dýnu. Klefinn var miklu minni en kallaklefinn. Líklega færri konur sem komast í kast við lögin. Þegar hún sá stöðvarstjórann, upphófst mikill orðaflaumur hjá henni. Ég skildi nú ekki mikið af því sem hún sagði, en stutta útgáfan var víst: „Ég gerði ekki neitt.“

Þar með lauk heimsókninni í steininn malavíska.

Ég var ósköp feginn að komast aftur í frískt loft. Kvaddi stöðvarstjórann með virktum og lofaði að kíkja á beiðni hans. Nefndi að ég hefði lítinn áhuga á að heimsækja steininn á nýjan leik.

Hann brosti. „Engar áhyggjur, vinur minn, ég get ekki haldið þér lengur en 48 klukkustundir án þess að fara með þig fyrir dómara.“ Svo hlógu hann og félagar hans hrossahlátri.

Fyndnir.

Ég myndi varla þola kortér þarna inni.

En ég verð nú að skoða beiðnina vel. Það er nú betra að hafa lögguna með sér í liði, ekki satt?

12. febrúar 2014

Lítill hlekkur

Stundum eru hlutirnir sem skemma fyrir manni ekki stórir. Lítil þúfa veltir þungu hlassi og þar fram eftir götunum.

Á leiðinni til vinnu í morgun tóku gírarnir á reiðhjólinu að haga sé undarlega rétt áður en ég komst á leiðarenda. Keðjan tók upp á því að rúlla milli gíra án þess ég væri nokkuð að skipta um gír. En svo mætti ég til vinnu og leiddi ekki hugann meira að þessu.

Svo lagði ég af stað heim á leið. Strax - ekki Vigdísar-strax, heldur venjulegt strax - tók hjólið upp á þessum óumbeðnu skiptingum. Ég dæsti, fór af fáknum og hóf skoðun á græjunni. Sá vandamálið strax. Einn hlekkur í keðjunni var bara hálfur. Stykki hafði brotnað úr og greinilega ekki langt í að keðjan slitnaði alveg. Ég sá sæng mína uppreidda og reddaði bílfari heim.

Nú bíður viðgerð, en ég fer víst á bílnum til vinnu í fyrramálið.

 

5. febrúar 2014

Í hnakkinn á ný

Í gær settist ég rétt fyrir klukkan sjö að morgni og fór í fyrstu alvöru hjólaferðina mína eftir mjaðmaaðgerðina. Ég hef svona hummað þetta fram af mér frá því ég kom aftur til Lílongve, fundið hinar og þessar misgáfulegar ástæður til að fresta þessu. Líklega þó bara nervösítet yfir að nota nýja títanliðinn á þennan hátt.

En í gær rann sem sagt stóri dagurinn upp og ég hjólaði til vinnu. Það gekk bara ósköp vel. Fann smáþrýsting í mjaðmaliðnum svona fyrstu tvo, þrjá kílómetrana, en svo hvarf það. Svona tilfinningu hef ég iðulega fundið þegar ég byrja á einhverjum nýjum hreyfingum. Ég hjólaði svo aftur heim seinnipartinn og til vinnu aftur í morgun.

Gott er að vera kominn af stað á ný. Vegalengdirnar eru frá því að vera rétt undir átta kílómetrum upp í tíu kílómetrar. Allt eftir því hvaða leið er valin.Nú er ég kominn með þetta líka fína forrit á símann minn sem fylgist með öllum mínum hreyfingum. Hér til hægri á síðunni sést núna yfirlit yfir nýjustu ferðir.

Smápressa þar með að yfirlitið uppfærist reglulega...

1. janúar 2014

Nýársdagur bjartur og fagur

Þá er nýársdagur við að renna sitt skeið. Komið árið 2014, takk fyrir.

Heyrði í útvarpinu fyrr í dag ekki góða frétt af manni á sextugsaldri. Hann hafði kveikt á flugeldi en láðst að sleppa takinu á honum. Með fyrirséðum afleiðingum.

En hegðun mannsins var nú ekki það sem vakti athygli mína, heldur datt mér í hug að um næstu áramót - skyldi ég gera einhvern skandal af mér - verður hægt að vísa til mín á sama hátt...

... sem manns á sextugsaldri.

Þvílík firra.

En látum þetta liggja á milli hluta að sinni. Dagurinn hefur verið ósköp notalegur og rólegur. Uppþvottavélin hefur reyndar staðið í ströngu. Tók þrjár vélar að ná stjórn á óhreina leirtauinu frá síðasta ári. Gærkvöldinu þ.e.a.s.

Það var nefnilega hinn hefðbundni gamlárskvöldverður hér í gær. Fimmtán manns voru í mat, enda var borðstofuborðið lengt hressilegra. Ágætt væri að eiga plankastrekkjarann sem Siggi Sigurjóns auglýsti fyrir Bykó hér á árum áður. En úr því ég á ekki svoleiðis græju, þá var púslað saman borðum og gömlu borðplötum.


Útkoman varð hið myndarlegasta langborð. Í bakgrunni, við hlið jólatrésins, má sjá „sörveringsborðið“ en það er plata sem stendur á smíðabúkkum.

Eins og hefð er fyrir var kalkúnn á boðstólunum - gæti maður sagt á boðbúkkunum? - sem og baunasúpa og saltkjöt. Reyndar leist Gullu ekkert á kalkúnaframboðið í Nóatúni - allir of litlir - og voru því keyptir tveir kalkúnar að þessu sinni. Sjálfsagt nærri tíu kílóum samtals.

Gulla og mamma stóðu í ströngu í matseldinni megnið af þessum síðasta degi ársins. Við Rúnar Atli fórum hins vegar í bæjarferð og létum „nauðugir viljugir“ pranga inn á okkur flugelda hjá Hjálparsveit skáta. Við tókum síðan smáforskot á sæluna um fimmleytið og grisjuðum hitt og þetta smádrasl úr pakkanum Trausta.


Guttinn er orðinn aðalmaður í sprengingum og uppskotum. Pabbinn sér fyrst og fremst um eftirlit með stöðugleika fírverksins og að tendra stjörnuljósin. Sá stutti ber síðan eld að kveiki og þýtur í burtu eins og eldibrandur áður en sprengingar og læti hefjast. Við erum orðnir þokkalega samæfðir í þessu. Auðvitað er öryggið í fyrirrúmi. Öryggisgleraugu á sínum stað og pabbinn drekkur bara malt og appelsín fram yfir sprengingar.

Fyrir utan mat og fírverkerí þurfti eitthvað að fegra kvenfólkið. Að þeirra eigin mati...

Dagmar Ýr, förðunarfræðingur, var í stífri vinnu að bera hin og þessi efni á hinar og þessar kinnar og enni. Gerði það vel eins og hennar er von og vísa.


Útkoman var flott, eins og þetta augnalok hjúkkunnar ber vitni um:


Ungdómurinn skemmti sér við ýmsa leiki, s.s. stórfiskaleik, fallna spýtu, snú-snú og svoleiðis gæðaskemmtanir ...

... nei, hvaða þvæla.

Aðalgræja kvöldsins var, eins og Daði Steinn sagði svo skemmtilega, Æpoddurinn...

Já, það var öðrum vísi í mínu ungdæmi.


Drengirnir snapptjöttuðu og eitthvað ýmislegt annað sem ég veit ekkert um.

Enda verð kominn á sextugsaldur þegar næsti gamlársdagur rennur í hlað...

Hvað um það, hvað um það.

Maturinn tókst mjög vel. Hvað annað. Fólk gat fengið nægju sína og vel það af kalkúni, saltkjöti og baunum og svo heimatilbúnum Toblerón-ís og Amarúla-ís í eftirrétt. Síðan voru snakk og ostar og ég veit ekki hvað og hvað. Hér sjást nokkrir matargestanna. Missettlegir, eins og gengur.


Svo voru systkinin þrjú


Ha? Gísli, Eiríkur, Helga hvað? Enga þvælu, takk fyrir.

Svo var horft á skaupið, sem var nokkuð gott. Ég er búinn að „dánlóda“ því svo hægt sé að horfa á það aftur og aftur í Malaví...

Svo flugeldar.


Glæsilegt útsýni úr Æsufellinu.

Heilt yfir virkilega fínt kvöld. Við þökkum öllum gestunum samneytið og svo óska ég öllum lesendum gleðilegs nýs árs og þakka kærlega fyrir þau liðnu.

Lifið heil.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...