7. apríl 2014

Addis Ababa

Nú sit ég á litlum veitingastað á flugvellinum í Addis Ababa í Eþíópíu. Er á leið til Parísar í vinnuferð. Ekki slæmur áfangastaður fyrir vinnuferð... Segðu.

En er sem sagt á þessum flugvelli. Í fyrsta skipti sem ég kem hingað. Sötra þetta fína sterka kaffi. Eþíópíubúar kunna að hella upp á. Finnst mér a.m.k. Flugvöllurinn er ósköp lítill og notalegur. Ekki séns á að villast að mínu viti. Flugstöðin er einn ferhyrningur og hægt að labba hring eftir hring. Allt hreint og snyrtilegt. Ég á reyndar í vandamáli að tengjast netinu, svo e.t.v. fer þessi færsla síðar inn en til stóð. Addis er tengiflugvöllur. Hingað er flogið frá heilmörgum Afríkuríkjum sem og flestum flugvöllum í Evrópu sem máli skipta. Svo er líka fullt af Asíuleiðum. Hér hittast því allra þjóða kvikindi og skemmtilegt að fylgjast með öllu því mismunandi fólki sem röltir hér um.

Eftir þrjá hringi settist ég inn á veitingastaðinn. Pantaði mér einhvern eþíópskan lambarétt, sem þjónustustúlkan sagði að væri ósköp góður. Aðeins runnu á mig tvær grímur þegar rétturinn kom. Lambateningar í smásósu, en engin hnífapör... aðeins eitthvað sem leit út eins og upprúllað frauðplast. Frauðplastið var auðvitað einhvers konar brauð. Þá mundi ég að engin hnífapör eru notuð með hefðbundnum réttum hér. Að sjálfsögðu hélt ég kúlinu (hvað annað?) reif smábita af brauðinu og sópaði nokkrum kjötbitum upp í mig. Mundi svo að ekki er vel séð að nota vinstri höndina við svona lagað. Ég, örvhenti maðurinn, skipti því yfir í hægri. Snarlega. Og kláraði matinn minn. Fínn matur, sem aðeins beit í.

Nú er ég við að klára úr bollanum. Rölti svo örugglega hring eða tvo.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...