9. apríl 2014

Í París; matur, töffarar og bifhjól

Sit enn á ný á veitingastað. Núna í einni af hliðargötunum út frá breiðvangi Parísarbúa, Champs-Élysées. Það verður að segjast að umferð fótgangandi fólks á breiðvanginum er eiginlega fullmikil fyrir mig. Alveg heill hafsjór af fólki þar. En á þessari hliðargötu, Boétie-götu, er hraðinn mun minni. Sit ég nú á Café Victoria, sem sérhæfir sig m.a. í sniglum og froskalöppum. En ég lét mér nægja kjúkling með kartöflumús. Ekki þurfti ég að bíða lengi, í mesta lagi fimm mínútur frá því að panta og þar til kjúklingurinn kom rjúkandi á diski. Ég hrökk eiginlega í kút þegar maturinn kom. Maður bíður aðeins lengur í Lílongve.

Ljúffengur var maturinn.

Eitt sem mér finnst skrýtið í París er hversu margir reykja. Alls staðar eru öskubakkar og fólk reykir meira og minna hvar sem er. Á næsta borði við mig sitja tvær ungar stúlkur, líklega á aldur við dætur mínar. Önnur spurði mig á frönsku hvort ég ætti eld. Ég fattaði í annarri tilraun hvað hún var að meina og bar mig aumlega og tókst að segja á minni aumu frönsku að ég reykti ekki. Þjónninn reddaði þeim. Hvað haldiði? Þær vöfðu sínar eigin sígarettur! Og báru sig faglega að.

Annað sem ég tók eftir, á leið frá flugvellinum, er ást Parísarbúa á bifhjólum. Ég hafði pantað mér far, í gegnum netið, frá flugvellinum til hótelsins. Þegar ég var kominn í gegnum innflytjendaeftirlitið þá hringdi ég í símanúmer, sem mér hafði verið gefið og tilkynnti að ég væri lentur. Fékk ég leiðbeiningar hvert ég ætti að fara til að hitta bílinn. Fór ég þangað og eftir svona hálftíma bið renndi bíll upp að mér og bílstjórinn veifaði spjaldtölvu framan í mig og spurði hvort ég væri ekki örugglega þessi Villlljaaa-mÚÚÚRR. Jú, jú, ég hélt það nú. Bílstjórinn var eins og klipptur út úr tískublaði, í leðurjakka, með sólgeraugu, vindblásið liðað hár og þriggja daga skeggbrodda. Er ég viss um að margar stúlkur (og Siggi í Portúgal) hefðu kiknað í hnjáliðunum.

Hvað um það, hvað um það. Ég ætlaði að segja frá bifhjólum.

Ferðalagið tók um klukkutíma. Háannatími var greinilega, en við lögðum af stað frá flugvellinum rétt fyrir átta. Um morguninn. Stundum hreyfðumst við varla, og þá bölvaði þessi með vindblásna hárið hressilega, en stundum vorum við á kringum 80 km hraða. Sums staðar voru fjórar akreinar í hvora átt og minn maður hélt sig yfirleitt á þeirri lengst til vinstri. Þeirri sem á að fara hraðast.

Mér var eiginlega um og ó að fylgjast með bifhjólunum. Parísarbúrar virðast leggja nokkuð upp úr því að vera á öflugum hjólum. Meira að segja ,,vespurnar'' eru einhver urrandi villidýr. Tryllitæki. Bifhjólin komu í bylgjum. Iðulega 10-20 í einfaldri röð á línunni milli þriðju og fjórðu akreinar. Sem sagt, reynið að sjá þetta fyrir ykkur. Umferðin rétt liðast áfram, allar akreinar stútfullar, þegar vélhjólin koma þjótandi á milli bílanna. Og örstutt á milli þeirra. Stuðari við stuðara myndi ég segja ef þetta væru bílar. Meira að segja í þau skipti sem við vorum á áttatíu brunuðu þau samt framúr. Stundum með farþega.

Þetta virtist svo sem ganga. En ekki væri ég til í þetta. Svo er örugglega ekki auðvelt að fara hægar ef maður er óöruggur, því þá fer sá fyrir aftan örugglega að flauta.

Já, svona er þetta nú í henni París.

 

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...