30. nóvember 2008

Tveir einir...

Jæja, þá erum við feðgarnir búnir að keyra Gullu og Tinnu Rut út á flugvöll. Þær núna nýteknar á loft á leið til Íslands. Viðkoma í Frankfurt. Í tilefni þessa opnuðust himnarnir og hefur verið úrhellisrigning síðan við komum heim af flugvellinum.

Þegar við renndum í hlað, sagði Rúnar Atli: „Pabbi, nú erum við bara tveir...“

Fleiri orð eru óþörf.

29. nóvember 2008

Jólafögnuðir

Nú líður að skólaslitum og sumarfríum hér í Namibíu. Því fylgir að fólk kemur saman til að fagna því að jólin eru á næsta leyti. Hér eru myndir af tveimur þessháttar viðburðum.

Fyrst ber að nefna leikskólann hans Rúnars Atla. Í gærkvöldi var börnum og foreldrum boðið í kvöldmat í tilefni jólanna. Útveguðu foreldrar öll matarföng og bökuðum við vöfflur.

Ekki var nú dansað í kringum jólatré, heldur mynduðu börnin hring utan um kertahring og sungu og dönsuðu fyrir foreldrana. Vakti það mikla lukku. Hvað annað?

Hér sést Rúnar Atli ná í sitt kerti, en börnin héldu á kertum í einu lagi.


Hér sést síðan allur hópurinn. Fjölþjóðlegur hópur. Börn frá a.m.k. þremur heimsálfum.


Að sjálfsögðu mætti jólasveinninn sjálfur. Mælti hann á þýðversku. Börnin skildu hann mætavel þrátt fyrir það. Dró sveinki upp úr pússi sínu forneskjulega skinnbók. Í henni hafði hann samviskusamlega haldið til haga upplýsingum um athafnir leikskólabarna þetta árið. Spurði hann stundum hvort rétt væri farið með: „Stimmt das?“ og hrópuðu krakkarnir ævinlega „Ja!“ hátt og snjallt.


Auðvitað kom sveinki með poka og fengu öll börnin góðgæti úr honum. Sést hér Rúnar Atli taka við sínu.


Eftir matinn fóru börnin að leika sér. Voru þvílík ærsl í þeim að mesta mildi var að ekki hlytust af stórslys. En allt fór vel, og var Rúnar Atli mjög sáttur við þennan atburð.

Í dag í hádeginu, bauð síðan Þróunarsamvinnustofnun í Namibíu starfsfólki sínu í jólagleði. Hittumst við á einu af betri hótelum borgarinnar. Hafa nokkrar starfsmannabreytingar orðið á árinu, svo í stað 2-3 barna í fyrra, voru um og yfir 10 stykki í dag. Auðvitað kom því jólasveinn líka þangað. Skiptir engu þótt yfir 30 stiga hiti sé, rauðu fötin og stígvél eru klæðnaðurinn. Þessi mælti þó á engilsaxnesku, en ekki þýðversku.

Sá rauðklæddi lenti þó í smávandræðum þegar pokinn opnaðist og allt valt út um allt. Betur fór þó en á horfðist.


Vakti sveinki mikla lukku. Ekki einungis hjá börnunum, heldur þótti gestum hótelsins þetta hinn mesti fengur og smelltu af í gríð og erg.

Þegar kom að því að opna pokann, var ekki laust við að spenningur kæmi í marga. Ekki bara börnin, heldur ýmsa fullorðna líka.


Rúnar Atli fékk pakka eins og önnur börn og hér knúsar hann jólasveininn í þakkarskyni.


Tinna Rut fékk meira að segja pakka líka, sem og Tammy vinkona Tinnu. Eins og sést voru þær ekki óglaðar yfir því. Knúsuðu þær þó sveinka ekki.


Ég hélt síðan smáræðu og tók Tinna Rut mynd af því. Takið eftir höfuðfatinu. Að sjálfsögðu vakti ræðan kátínu, þrátt fyrir að hún tefði matinn. Svoleiðis er bara lífið.


Tókst þetta allt saman vel. Þó verður að viðurkennast að erfitt er að komast í jólaskapið í 30 stiga hita.

Kannski er það bara ég...

19. nóvember 2008

Friður á jörð

Bíllinn minn var á verkstæði í dag, svo Gulla sótti mig í hádeginu. Fórum við svo saman í leikskólann að ná í soninn. Í bílnum á leiðinni heim var hann að syngja eitthvað lag á þýsku. Hann syngur reyndar endalaust þessa dagana. En við Gulla fórum að leggja við hlustir, því eitthvað var lagið kunnuglegt. Kom úr kafinu að þarna var sigurlag söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva frá árinu 1982. Hún Nicole vinkona vor. Svona er víst sungið á þýskumælandi leikskólum. Sá reyndar á netinu að þetta lag, sem á þýsku nefnist Ein bißchen frieden, var víst sungið lengi í íslenskum skólum. Friður á jörð, held ég það hafi kallast á því ylhýra.

En ég fór síðan á YouTube og fann upprunalega lagið fyrir hann Rúnar Atla. Sá var ánægður.

Fleyg ummæli, nei, ég meina mismæli

Í hádeginu sátum við foreldrarnir með Tinnu Rut að skoða upplýsingar um ökukennara. Tinna Rut ætlar jú að byrja í ökutímum heima á Fróni í jólafríinu. Sem við erum að skoða heimasíðu eins kennarans bið ég að hún velji hlekk sem heitir Kostnaður.

„Æ, pabbi, þér er ekki sama um neitt nema peninga,” sagði dóttirin þá.

Nákvæmlega...

Föttuðuð þið þennan?

14. nóvember 2008

Sumar og sól

Ekki er laust við hitinn sé farinn að stíga nokkuð hér í Vindhúkkborg. Samt er það nú svo að sundpollurinn hefur ekkert verið notaður það sem af er sumri. Ýmis vandamál hafa skotið upp kollinum, aðallega vegna leti undirritaðs í „viðhaldi“ á sundvatninu. Klór, sýrustig og svoleiðis hefur ekki alveg verið í lagi.

En nú er búið að ná yfirtökum í baráttunni og pollurinn orðinn tær og blár. Nú að loknum vinnudegi í dag var langþráð stund er tám var stungið ofan í. Reyndar var laugin í það svalasta fyrir minn smekk, 23 gráður á selsíus.

Tinna Rut og Rúnar Atli sitja hér á bakkanum. Tinna Rut kom með einhverja ræfilslega afsökun að finna ekki neðri partinn á sundfatnaðinum og fór því ekki lengra ofan í en sést hér.


Hér hins vegar eru feðgarnir komnir oní.


„Hvað ert þú að vilja upp á dekk??!!“ Já, stundum er derringur. Aðallega í þeim styttri...


Ekki kvörtum við yfir útsýninu úr pollinum, svo mikið er víst.

11. nóvember 2008

Pólitíkin

Sumir, þ.m.t. Gulla, urðu steinhissa að ég skrifaði færslur um daginn sem má skilgreina sem pólitísk skrif. Auðvitað var þetta fyrst og fremst til að ergja Framsóknarfornmanninn (fornmann, ekki formann) í Svíaríki. En nú er svo komið að ég fæ vart orða bundist yfir þeim ógnarfréttum sem að heiman dynja. Því ákvað ég að byrja að skrifa um líðandi stund eins og hún horfir fyrir mér. Mest er það fyrir sjálfan mig, því mér gengur oft betur að átta mig á hlutunum með að skrifa hugrenningar niður. Þó vil ég ekki blanda svoleiðis nokkru við þessi dagbókarskrif hér, því örugglega hafa fæst ykkar nokkra ánægju af einhverju dægurþrasi í mér. Nóg er af svoleiðis samt. Ég ákvað því að virkja aftur moggasíðu sem ég eignaðist einhvern tímann í bríaríi. Ef þið hafið einhvern áhuga, þá er slóðin vilhjalmur.blog.is

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...