Nú líður að skólaslitum og sumarfríum hér í Namibíu. Því fylgir að fólk kemur saman til að fagna því að jólin eru á næsta leyti. Hér eru myndir af tveimur þessháttar viðburðum.
Fyrst ber að nefna leikskólann hans Rúnars Atla. Í gærkvöldi var börnum og foreldrum boðið í kvöldmat í tilefni jólanna. Útveguðu foreldrar öll matarföng og bökuðum við vöfflur.
Ekki var nú dansað í kringum jólatré, heldur mynduðu börnin hring utan um kertahring og sungu og dönsuðu fyrir foreldrana. Vakti það mikla lukku. Hvað annað?
Hér sést Rúnar Atli ná í sitt kerti, en börnin héldu á kertum í einu lagi.
Hér sést síðan allur hópurinn. Fjölþjóðlegur hópur. Börn frá a.m.k. þremur heimsálfum.
Að sjálfsögðu mætti jólasveinninn sjálfur. Mælti hann á þýðversku. Börnin skildu hann mætavel þrátt fyrir það. Dró sveinki upp úr pússi sínu forneskjulega skinnbók. Í henni hafði hann samviskusamlega haldið til haga upplýsingum um athafnir leikskólabarna þetta árið. Spurði hann stundum hvort rétt væri farið með: „Stimmt das?“ og hrópuðu krakkarnir ævinlega „Ja!“ hátt og snjallt.
Auðvitað kom sveinki með poka og fengu öll börnin góðgæti úr honum. Sést hér Rúnar Atli taka við sínu.
Eftir matinn fóru börnin að leika sér. Voru þvílík ærsl í þeim að mesta mildi var að ekki hlytust af stórslys. En allt fór vel, og var Rúnar Atli mjög sáttur við þennan atburð.
Í dag í hádeginu, bauð síðan Þróunarsamvinnustofnun í Namibíu starfsfólki sínu í jólagleði. Hittumst við á einu af betri hótelum borgarinnar. Hafa nokkrar starfsmannabreytingar orðið á árinu, svo í stað 2-3 barna í fyrra, voru um og yfir 10 stykki í dag. Auðvitað kom því jólasveinn líka þangað. Skiptir engu þótt yfir 30 stiga hiti sé, rauðu fötin og stígvél eru klæðnaðurinn. Þessi mælti þó á engilsaxnesku, en ekki þýðversku.
Sá rauðklæddi lenti þó í smávandræðum þegar pokinn opnaðist og allt valt út um allt. Betur fór þó en á horfðist.
Vakti sveinki mikla lukku. Ekki einungis hjá börnunum, heldur þótti gestum hótelsins þetta hinn mesti fengur og smelltu af í gríð og erg.
Þegar kom að því að opna pokann, var ekki laust við að spenningur kæmi í marga. Ekki bara börnin, heldur ýmsa fullorðna líka.
Rúnar Atli fékk pakka eins og önnur börn og hér knúsar hann jólasveininn í þakkarskyni.
Tinna Rut fékk meira að segja pakka líka, sem og Tammy vinkona Tinnu. Eins og sést voru þær ekki óglaðar yfir því. Knúsuðu þær þó sveinka ekki.
Ég hélt síðan smáræðu og tók Tinna Rut mynd af því. Takið eftir höfuðfatinu. Að sjálfsögðu vakti ræðan kátínu, þrátt fyrir að hún tefði matinn. Svoleiðis er bara lífið.
Tókst þetta allt saman vel. Þó verður að viðurkennast að erfitt er að komast í jólaskapið í 30 stiga hita.
Kannski er það bara ég...
29. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
1 ummæli:
Flott kórónan, fer þér rosa vel
Skrifa ummæli