25. mars 2018

Reiðhjól og síki

Eftir rúman sólarhring í Amsterdam þá er helst tvennt sem mér finnst einkenna borgina. 

Annars vegar síkin, sem liggja í sívaxandi hálfhringjum frá stóru vatnsflæmi sem nefnist IJ og er víst borið fram eins og ei í íslensku. Síkin setja sérkennilegan svip á borgina því þau eru út um allt. 



Hins vegar reiðhjól sem þjóta um götur borgarinnar í, að mér finnst, ótölulegum fjölda. Mergð þeirra er illskiljanleg. Mér finnst gaman að hjóla en ég er ekki alveg viss um hversu tilbúinn ég sé til að hjóla í þessari borg. Ég myndi líklega æfa mig fyrst á kvöldin áður en ég myndi treysta mér í þetta á annatíma.



Í gær lá nokkrum sinnum við að við Gulla værum hjóluð niður. Fyrst og fremst vegna ókunnugleika okkar á hjólreiðunum hér. En nú höfum við varann á og horfum í allar áttir. 

Breiðstræti borgarinnar eru mörg hver samansett af gangstéttum, hjólabrautum, venjulegum akreinum og svo borgarlínureinum. Fyrir gangandi vegfarendur er ekki einfalt að komast yfir þessi stræti, því ekki er óalgengt þurfi að komast í gegnum þrenn umferðarljós og stundum þarf til viðbótar að komast yfir hjólabrautir sitt hvoru megin. Kannski er því ekki að undra að við höfum lent í vandræðum á fyrsta degi.

24. mars 2018

Skroppið í frí

Ég sit um borð í flugi FI500 á leið til Amsterdam. Ekki einn á ferð, heldur erum við hjónin á leið í frí. Við byrjum í Amsterdam, en þar eigum við náttstað í tvær nætur. Þaðan fljúgum við síðan til Lissabon og gistum í eina nótt þar. Síðan höldum við austur á bóginn í bílaleigubíl og ætlum að búa um okkur, fram á föstudag, í litlum bæ sem heitir Évora. Á föstudag förum við að vinna okkur aftur heim á leið með einnar nætur stans í Amsterdam. Ævintýrinu lýkur svo á laugardaginn eftir viku þegar flug FI501 snertir niður í Keflavík.


Okkur Gullu reiknast til að þetta sé í fyrsta sinn sem við ferðumst saman ein í flugvél! Það er magnað eftir 31 ár í hjónabandi og hafandi átt heimili í sex löndum í þremur heimsálfum. En er samt alveg dagsatt.


Svona er nú lífið stundum skrýtið.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...