30. desember 2006

Sumarfrí

Hér á suðurhveli jarðar er sumarleyfistími og því við hæfi að skreppa í smáferðalag. Við tvíbíluðum til búgarðar sem heitir Omaruru Game Lodge. Á ýmsu gekk á leiðinni. Vilhjálmur var búinn að finna styðstu leiðina á kortinu, en reyndar svokallaðir „D“ vegir góðan hluta leiðarinnar. Þessir D vegir eru malarvegir, svona misgóðir. Hvað um það, af stað var lagt um hádegisbil á annan í jólum. Ferðin gekk bara vel. Sáum við gíraffa utan vegar og auðvitað var stöðvað til að virða þær skepnur fyrir sér. Síðan var haldið áfram, þar til allt í einu varð stærðarinnar pollur á vegi okkar. Annar bíllinn rúllaði létt yfir, enda fjórhjóladrifinn jeppi, en hinn... við reyndum ekki einu sinni. Nú voru góð ráð dýr. Við skoðuðum kortið og sáum að hægt var að taka á sig krók. Við beint í það. Ýmsir smápollar urðu á vegi okkar, jeppinn öslaði í gegn og litli bíllinn fleytti kerlingar yfir.

En svo kom reiðarslagið. Risapollur, sjálfsagt 30 sm djúpur og ekkert nema drulla og leðja. Því var ekkert hægt að gera nema snúa við og finna „C“ veg. Þessi útúrdúr var svo sem ekkert mjög langur á namibískan mælikvarða, svona rétt eins og leiðin frá Reykjavík til Grundarfjarðar.

Ferðin gekk síðan áfallalaust fyrir sig þar til komið var til Omaruru, lítils bæjarfélags um 15 km frá búgarðinum. Smekklegur bær og þar sem ég er að rúnta í gegn og virða fyrir mér byggingar bæjarins, hringir gemsinn. „Það er sprungið á þeim litla!“

Því var snúið við og tekið við að skipta um dekk. Gulla hafði reyndar valið fínan stað fyrir svona lagað. Beint fyrir utan lögreglustöð bæjarins. Lögguliðið stóð þarna og fylgdist með aðförunum. En við þurftu svosum ekki að óttast að vera rænd á meðan.

Smáupplýsingar fyrir einn fastan lesenda þessara dagbókarfærslna: Þegar búið var að skipta um dekk þá var ég leiddur að garðslöngu lögreglustöðvarinnar til að geta þvegið mér um hendur. Vegamót hvað?

Við komumst síðan á leiðarenda svona u.þ.b. þremur tímum seinna en áætlað var. Rétt fyrir kvöldmat.

En á búgarði þessum kemst maður í nána snertingu við dýr landsins eins og sést á myndunum. Bæði spjóthafur (e. oryx) og hvítan nashyrning.

Látum myndirnar enda þessa færslu.



25. desember 2006

Jóladagur


Þá er aðfangadegi ársins 2006 lokið. Fínn matur og fullt af pökkum. Kærar þakkir til allra sem sendu okkur pakka og jólakveðjur.

Var að líta áðan yfir gjafirnar mínar og ég hef tekið eftir ákveðinni hneigð frá bókagjöfum til kvikmynda á mynddiskum. Það virðist sem auðveldara sé að velja myndir heldur en bækur. Ég held þetta sé svipað hjá mér sjálfum, valdi örugglega fleiri kvikmyndir heldur en bækur í jólapakka sem við gáfum. Sjálfsagt er þetta eitthvað fyrir félagsfræðinga til að skrifa lærðar greinar um.

Við Gulla skruppum svo í búðina áðan. Já, á jóladag. Ein matvörubúðin í hverfinu var opin til 13:00 í dag. Og það var allt brjálað að gera tuttugu mínútum fyrir lokun. Hmm, skyldu íslenskir verslunareigendur vera að missa af einhverju?

24. desember 2006

Dýrðlegt veður

Þá eru þrír tímar í jólin. A.m.k. hér í Namibíu. Ætli séu ekki fimm
tímar á Íslandi...

Hér gerði úrhellisskúr áðan. Alveg stórkostlegt, því þá datt hitinn
niður í 26-27 gráður. Alveg temmilegt og fínt upp á kvöldið að gera.

Hér liggur maður á bæn að biðja um rigningu. Ekki alveg það íslenskasta.

Annars var jólasteikin að fara í pottinn. Hamborgarahryggur keyptur í
Namibíu. U.þ.b. 750 krónur á kílóið kostaði hann. Hangikjötið fyrir
jóladag var soðið í gærkvöldi. Það var nú ekki keypt í Namibíu.
Reyndar ekki. Í morgun elduðum við brönsj, kanadískar pönnukökur og
beikon. Það dugir fram að kvöldmat, enda hægt að dýfa í nammiskálina
ef með þarf.

Pakkarnir liggja í stofusófanum og bíða þess að fara undir tréið.
Rúnar Atli virðist átta sig svolítið á þessu. A.m.k. skilur hann að
einhver bið er í gangi og að svo megi opna jólapakkana. Forvitnilegt
verður að sjá hvort hann muni tapa sér í kvöld.

21. desember 2006

Þögnin rofnar

Þá heyrist loksins píp frá manni. Búið að vera vandamál með
nettenginguna, var sambandlaus heimavið í rúman hálfan mánuð. En þau
mál komin í lag.

Allt í góðum málum annars. Öll fjölskyldan á staðnum og amman líka.
Við Gulla stungum af í tvær nætur í síðustu viku til að halda upp á
tuttugu ár í hjónabandinu. Fórum á stað sem heitir Sossusvlei,
kannski 350 km fyrir sunnan Windhoek. Sátum þar hönd í hönd með gin
og tónik að horfa á sólarlagið. Mjög flott.

Núna er verið að hefja jólaundirbúning, en reyndar er búið að vera
svo heitt að maður getur sig varla hreyft þegar loftkælingar hverfa
úr augsýn. Nær 40 gráðum en 30 marga daga. En við eigum nú fastlega
von á því að jólin komi nú á réttum tíma, þrátt fyrir sól og hita.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...