26. desember 2008

Skoppa

Við feðgarnir fórum í Smárabíó fyrr í dag. Frumsýningardagur á Skoppu og Skrítlu. Keyptum miða í gær á midi.is til að vera nú alveg öruggir að fá sæti. Hefðum nú ekki þurft að hafa áhyggjur því frekar fáir voru í bíó. Þó hittum við frænku okkar frá Vatnsskarðshólum, hana Unni og fjölskyldu hennar. Langt er síðan ég hef séð hana og því var þetta skemmtileg tilviljun.

Rúnar Atli skemmti sér vel á myndinni og ekki skemmdi fyrir að hitta Skoppu sjálfa.

Ljósaverkir

Stundum hefur ljósagangur valdið okkur hjónunum smávandræðum. Gullu finnst nefnilega gott að sofna útfrá bókalestri, en þá vill brenna við að náttlampinn sé enn kveiktur. Ekki er laust við að þetta ergi mig aðeins. Ég á því til að fara framúr rúminu, labba hringinn, slökkva á lampanum, labba til baka og leggjast á ný upp í rúm. Sofna svo bara í rólegheitum.

Gott mál?

Jú, nema hvað að bröltið í mér vekur iðulega mína heitelskuðu, svo hún kveikir á lampanum og fer að lesa á nýjan leik...

Ég ímynda mér að lesendur séu farnir að átta sig á þeim vítahring sem hér getur myndast.

Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að bjarga þessu vandamáli. Hafa svonefndir ljósálfar verið mjög vinsælir í jólapökkum frúarinnar á liðnum árum. Raunin hefur þó verið að þetta er skammgóður vermir. Iðulega fara perurnar fljótlega og einhverra hluta vegna er ekki auðvelt að finna þær í búðum.

Dætur okkar vita af þessum ljósaverkjum foreldranna og reyna að koma með lausnir. Enda góðar dætur.

Dagmar Ýr rakst á meðfylgjandi leslampa á femin.is.


Var hennar von að þarna væri lausnin komin og gaf mömmu sinni lampann því í jólagjöf.

Í gærkvöld sem leið var prufukeyrsla. Ég rumskaði einhvern tímann og þetta fína myrkur í herberginu, aðeins smátýra lifði á lampanum og Gulla að lesa. Ég hélt því áfram að sofa í sæluvímu.

Nema hvað.

Stuttu seinna vakna ég aftur. Þá var Gulla steinsofnuð. Kveikt var á nýja fína leslampanum og haldiði ekki að geislinn hafi lýst beint í andlitið á mér... :-(

Sumu tekst bara ekki að breyta.

25. desember 2008

Jólin komin

Loksins komu jólin. Rúnar Atli var orðinn óþreyjufullur og á miðjum aðfangadegi var spenningurinn eiginlega orðinn of mikill. Hann langaði nefnilega svooo mikið að opna pakka.

En allt kom þetta að lokum. Hann var auðvitað fyrstur að klæða sig í sparifötin, þ.a. mynd náðist af honum við jólatréið á meðan dæturnar voru enn að gera sig tilbúnar.

Ó, það verður að taka fram að Tinna Rut stóð sig eins og herforingi í tiltekt allan aðfangadag. Hún skúraði gólf, þreif klósett, fægði silfur og örugglega eitthvað fleira sem mér láist að nefna. Þetta lenti allt á henni, því Dagmar Ýr var að vinna frá átta til fjögur í tíu-ellefu.

Að lokum voru öll börnin tilbúin í myndatöku.

Ósköp erum við Gulla nú efnuð að eiga börnin okkar.

Gleðileg jól öllsömul og kærar þakkir fyrir okkur.

21. desember 2008

Jólatrésskreyting

Í dag skreyttum við jólatréð okkar. Nokkuð seinna en venjulega. Yfirleitt erum skreytum við á afmælisdaginn minn, en núna var eitthvað svo mikið að gera að ég stakk upp á því að kaupa tréð þann 19. des. Svo hefur verið endalaust vesen á þessari fjölskyldu, vinna og svoleiðis, og því hefur skreyting beðið. En loksins áðan létum við verða af þessu.

Rúnar Atli var nokkuð spenntur og var ekki hægt annað en brosa að ákefð drengsins.


Einbeitingin var mikil, en viðurkenna verður að drengurinn gerði þetta allt saman vel.

Ekki var aðeins einbeiting hjá guttanum, móðirinn spáði mikið í uppsetninguna líka.

Jú, en svo voru aðrir sem einbeittu sér að öðru meira spennandi...


Lokahnykkurinn var svo að setja toppinn á. Hver skyldi hafa beðið um það hlutverk? Með samvinnunni hafðist þetta.

Landsbyggðin

Í gærmorgun vöknuðum ég, Tinna Rut og Rúnar Atli fyrir allar aldir. Ástæðan var ferð til Grundarfjarðar að sækja ömmu barnanna. Hún ætlar að vera á Suðureyri yfir hátíðarnar og flýgur frá Reykjavíkurflugvelli á mánudaginn.

Aldrei þessu vant var Tinna Rut æst í ferðalag út á land. Auðvitað var hún að sverma eftir æfingaakstri. Hún hóf ferðina undir stýri, en nokkur snjókoma var. Síðan þegar komið var í gegnum Mosfellsbæ ákvað ég að nú væri nóg komið af æfingaakstri. Enda snjókoma og skafrenningur, svo varla sá úr augunum.

Við lulluðum síðan áfram til Borgarness og áðum þar. Borgarnes er jú eini staðurinn á Íslandi sem ég veit til að hægt sé að kaupa ástarpunga. Því stoppa ég alltaf í Geirabakaríi og kaupi poka eða tvo af ástarpungum.

Ekki minnkaði snjókoman. Varla sá handa sinna skil á Mýrunum. Einungis sáust ljós á Dalmynni, ekki var hægt að sjá bæinn. En að lokum hafðist að komast til Grundarfjarðar og ók Tinna Rut síðasta spölinn.

Í Grundarfirði gaf á að líta. Allt á kafi í snjó. Hér sést bíllinn okkar fyrir utan Smiðjustíginn. Kannski sést Tinna Rut undir stýri.
Mikið verður svo gaman að sýna Namibíumönnum hvernig garðhúsgögn á Íslandi líta út yfir jólahátíðina :-)

Tinna Rut fékk síðan að aka frá Grundarfirði að Vatnaleið og tók svo aftur við í Mosfellsbænum. Hér sést hún, fyrir brottför frá Grundó, taka bensín sjálf í fyrsta sinn á ævinni. Verst að pabbinn þarf enn að borga...

19. desember 2008

Ferðalagið til Íslands

Var að hlaða niður myndum af myndavélinni minni. Útbjó þessa myndasyrpu af ferðalagi okkar Rúnars Atla til Íslands.

Hér erum við nýbúnir að losa okkur við töskur og komnir með brottfararspjöld. Rúnari Atla þótti langt að bíða eftir að komast um borð. En, eins og hans er von og vísa, er bara að láta fara vel um sig á meðan.

Næsta mynd er tekin í Frankfurt. Þarna er setið á McDonald's og gætt sér á hamborgara. Við vorum einu gestirnir á þessum útiveitingastað, enda ekki nema tveggja stiga hiti. En, við erum víkingar og Íslendingar svo ekki kipptum við okkur upp við það.

Loksins fengum við brottfararspjöld fyrir flugið frá Frankfurt til Keflavíkur. Enn þurfti að bíða. En í Frankfurt var fínt leiksvæði fyrir börn og auðvelt að drepa tímann þar.

Ýmsir aðrir en Rúnar Atli létu fara vel um sig á meðan beðið var.

Þrátt fyrir allt er erfitt að vera ferðalangur. Því var gott að leggja aðeins aftur augun í Flugleiðavélinni. Gott líka að hvíla sig aðeins áður er farið að berjast við frost og snjó.

18. desember 2008

Ökusnillingur

Þá er hún Tinna Rut komin með æfingaleyfi. Búin með ökuskólann, 1 og 2, og einnig búin með um 12 ökutíma. Faðir hennar má nú sitja með henni í bíl, fylgjast með akstrinum og veita góð ráð. Hér sést stúlkan fyrir utan lögreglustöðina í Kópavogi, nýkomin með æfingaleyfið.


Við fórum einn hring, niður Reykjanesbrautina, upp Ártúnsbrekkuna, Suðurlandsveg upp að Rauðavatni og svo bakaleiðina upp í Breiðholt aftur. Gekk mjög vel.

Svo áðan fórum við í bíltúr í Eyjabakkann og aftur ók Tinna Rut. Fórum þaðan í Smáralindina og hún fékk að keyra nær alla leið þangað.

Ég er semsagt búinn að sjá tilganginn með mínu lífi næstu mánuði...

14. desember 2008

22 ár

Í dag eigum við Gulla brúðkaupsafmæli. Höfum verið gift í 22 ár. Ég var að uppgötva að þar sem ég er ekki alveg orðinn 44 ára gamall, þá hef ég verið giftur meira en hálfa ævina. Sömu konunni, vel að merkja.

Merkilegur áfangi.

12. desember 2008

Ferðalagið nálgast

Nú styttist í Íslandsferð hjá okkur feðgum. Á morgun, kl. 20:45 að staðartíma tekur flug SW285 sig á loft með okkur innanborðs. Leiðin liggur fyrst til Frankfurtborgar, en þar lendum við um sexleytið á sunnudagsmorgun. Við munum setjast inn á hótel sem er á flugvellinum, svona til að halda okkur frískum. Síðan skömmu fyrir kl. tvö fljúgum við áleiðis til Íslands. Áætlaður komutími tuttugu mínútur gengin í fimm eftir hádegi.

Ýmislegt hefur verið gert til að undirbúa þessa ferð. Í dag fórum við Rúnar Atli í jólaklippinguna. Tímann pantaði ég fyrir tveimur mánuðum. Aðeins. Hárskerinn nefnist Luigi, namibíumaður af ítölskum ættum. Kominn eitthvað yfir fimmtugt, en er iðulega með þrjár efstu tölurnar fráhnepptar á skyrtunni til að sjáist í gullkeðjurnar. En er mjög flínkur klippari, það verður ekki af honum skafið. Rúnar Atli er alltaf eins og myndastytta hjá honum, situr grafkyrr. Kallinn hefur lúmskt gaman að honum, t.d. í dag var Rúnar Atli að gretta sig og geifla framan í spegilinn. Alveg í sínum eigin heimi. Gaman að þessu.

Svo fórum við á kaffihús. Um að gera að taka út skammtinn hér, því ekki á ég von á því að stunda kaffihús heima á Fróni.

Jæja, guttinn er í baði núna. Ætli sé ekki kominn tími á þurrkun og síðan svefninn.

7. desember 2008

Swakopferðin

Við feðgarnir höfðum það gott um helgina í Swakopmund. Fórum í verslanaleiðangur á laugardagsmorguninn, en fundum reyndar ekki mikið til að kaupa. Þó kíktum við í töluvert margar búðir, og brá Rúnar Atli á leik fyrir utan eina búðina.

Við fórum svo í göngutúr niður á strönd. Keyptum okkur ís. Röltum um svæðið í fínu veðri. Hitastigið var 23 gráður og sjávarhitinn var 17 gráður. Rúnar Atli mátti ekki heyra á það minnst að stinga tánum í sjóinn. Ótrúlegt hvað einhverjar bíómyndir um hákarla sitja í honum.

En í sund var drengurinn tilbúinn að fara. Við keyptum ný sundföt handa honum. Hin lágu inni í fataskáp í Vindhúkk, sællar minningar. En sundlaugin var hápunktur helgarinnar hjá honum, ekki nokkur spurning. Hér sést hann stinga sér í laugina.

Hér er hann að busla áfram. Já, í bakgrunni sést fína hótelið sem sumir lesendur öfundast yfir.

Hér má sjá gosbrunnana sem eru í lauginni. Flottir höfrungaskúlptúrar.

Svo var maður vafinn inn í handklæði og lá á draumabekk móðurinnar til að hlýja sér aðeins. Tveimur tímum eftir að þessi mynd var tekinn var guttinn kominn aftur út í laugina.

Helgin var velheppnuð. Við skemmtum okkur báðir vel. Reyndar náði óhófslífið í skottið á okkur þegar Rúnar Atli kastaði upp í bílnum, 97 km frá Swakopmund á leiðinni heim. Smáhreingerningarstarf þurfti, en það var fljótt að gleymast.

5. desember 2008

Að fjallabaki

Við Rúnar Atli skruppum bæjarleið í dag. Eftir vinnu hjá mér og leikskóla hjá honum lögðum við af stað til Swakopmund. Við ætlum að versla svolítið í fyrramálið og fara svo í sædýrasafnið og gera ýmislegt fleira til skemmtunar eftir hádegið.

Á föstudögum er oft leiðindaumferð á veginum til strandarinnar, svo við ákváðum að keyra fjallveginn. Hann er 50 km styttri, en mjög krókóttur fyrri hluta leiðarinnar. Er líka malarvegur. En miklu skemmtilegri leið. Vegurinn er aðeins farinn að láta á sjá eftir rigningar undanfarinnar viku og hvörf í honum. Þegar tilefni gafst hrópaði ég: „Hola, hola,” og svo skellihlógum við þegar við hossuðumst upp og niður. Gaman hjá feðgunum.

Varla var bíll á ferð; teljandi á fingrum sér. Síðustu sjö kílómetrana - af 335 - ókum við á aðalþjóðveginum og mættum við þá um þrjátíu bílum á þeim stutta kafla.

Einu þarf ég að segja frá. Við höfum talað um þessa ferð alla vikuna. Nokkrum sinnum hef ég nefnt að synda jafnvel í sjónum. Rúnar Atli hefur tekið heldur fálega í það, en ekkert útskýrt meira af hverju hann er ekki spenntur fyrir því. Í bílnum í dag kom síðan upp úr kafinu að honum líst ekki á að synda í sjónum útaf hákörlum. A-ha... Ég sagði honum þá að þetta væri ekkert mál, það væri girðing fyrir krakkana að synda innan. Síðan væru hákarlar langt út í sjó. Þá fór hann að segja mér að hann gæti ekki farið í sund. Nú, það þótti mér undarlegt og spurði af hverju. „Ég er ekki með sundföt,” sagði hann. Bíddu, það getur ekki verið því ég setti sundfötin í töskuna þína sagði ég honum. Frá Rúnari Atla kom fyrst smáþögn, svo sagði hann: „Ég tók sundfötin úr töskunni og setti inn í fataskáp!” Pabbinn var ekki alveg sáttur við það...


Útsmoginn gaur.

Við komum til Swakop rétt fyrir sjö og tékkuðum okkur inn á fínt hótel. Ekkert slor hjá okkur feðgum þegar við ferðumst tveir saman...

Nú þarf bara að sjá hvernig við reddum sundskýlu til að komast í laugina.

4. desember 2008

Eins dauði er annars...

Ég á forláta lyklakippu sem ég erfði frá pabba. Á henni er mynd af Caterpillar jarðýtu. Þessa kippu fékk pabbi þegar hann um miðjan sjötta áratug síðustu aldar þáði boð að heimsækja Caterpillar verksmiðjur í Bandaríkjunum. Hefur áreiðanlega þótt mikið ævintýri á miðju haftatímabili. Haftatímabili hinu fyrra. Þessi kippa er einn af mínum mestu dýrgripum.

Í hádeginu fór ég til tannlæknis. Kona sú rekur augun í lyklakippuna og fer að spyrja mig um hana. Þegar ég hef lokið sögu kippunnar, þá fer hún að segja mér frá þýskri konu sem giftist namibískum manni fyrir nokkru síðan og fluttist búferlum til Namibíu. Áður en konan fer frá Þýskalandi tryggði hún skartgripina sína. Fyrst þurfti hún þó að láta meta þá til verðgildis. Einn af hennar uppáhaldsgripum var glæsilegur gullhringur sem hún erfði frá ömmu sinni. Hún segir matsmanninum hvaðan hringurinn komi. Sá horfir á hringinn, skoðar svolítið, og segir svo: „Já, há, svo afi þinn var nasisti." Kom á konuna, sem hváir og spyr hvað hinn eigi við. Jú, sá vildi meina að þessi hringur hefði verið í eigu gyðinga sem lentu í útrýmingarbúðum nasista.

Eitthvað minnkaði verðmæti ömmuhringsins í augum konunnar eftir þetta.

3. desember 2008

Snjókoma!

Nú er að líða að hásumri hér í Vindhúkkborg. Í hádeginu sat ég út á verönd með bók í hönd. Var ég að íhuga að tími væri kominn til að leggja af stað í vinnuna. Allt í einu upphefst þessi dómadagshávaði og átti ég fótum fjör að launa. Haldiði að þetta líka heljarinnar haglél hafi ekki allt í einu byrjað.

Eins og þruma úr heiðskíru lofti. Bókstaflega.

Hamagangurinn var þvílíkur að lauf rifnuðu í stórum stíl af trjám. Tóku allar ár í borginni upp á því að renna af oforsi. Enda var gaman að göslast í vinnuna. Varð reyndar hundblautur við að hlaupa þá tíu metra eða svo sem þarf að fara til að komast út í bíl.

En hér er ein mynd til sönnunar haglélinu.

1. desember 2008

Íþróttastuð

Rúnar Atli hefur lengi átt einn Latabæjardisk. Einhverra hluta vegna hefur hann aldrei horft á hann svo heitið geti. En nú fyrir nokkrum dögum uppgötvaðist diskurinn. Nú horfir Rúnar Atli daglangt á Glanna glæp og hitt liðið allt saman. Svo heyrist í honum: „Þokkalega...”

En nú er íþróttaálfurinn í miklu uppáhaldi og reynt að herma eftir honum eins og meðfylgjandi syrpa sýnir. Kannski best að taka fram að á meðan á þessum æfingum stendur þá er drengurinn að horfa á Latabæ...





30. nóvember 2008

Tveir einir...

Jæja, þá erum við feðgarnir búnir að keyra Gullu og Tinnu Rut út á flugvöll. Þær núna nýteknar á loft á leið til Íslands. Viðkoma í Frankfurt. Í tilefni þessa opnuðust himnarnir og hefur verið úrhellisrigning síðan við komum heim af flugvellinum.

Þegar við renndum í hlað, sagði Rúnar Atli: „Pabbi, nú erum við bara tveir...“

Fleiri orð eru óþörf.

29. nóvember 2008

Jólafögnuðir

Nú líður að skólaslitum og sumarfríum hér í Namibíu. Því fylgir að fólk kemur saman til að fagna því að jólin eru á næsta leyti. Hér eru myndir af tveimur þessháttar viðburðum.

Fyrst ber að nefna leikskólann hans Rúnars Atla. Í gærkvöldi var börnum og foreldrum boðið í kvöldmat í tilefni jólanna. Útveguðu foreldrar öll matarföng og bökuðum við vöfflur.

Ekki var nú dansað í kringum jólatré, heldur mynduðu börnin hring utan um kertahring og sungu og dönsuðu fyrir foreldrana. Vakti það mikla lukku. Hvað annað?

Hér sést Rúnar Atli ná í sitt kerti, en börnin héldu á kertum í einu lagi.


Hér sést síðan allur hópurinn. Fjölþjóðlegur hópur. Börn frá a.m.k. þremur heimsálfum.


Að sjálfsögðu mætti jólasveinninn sjálfur. Mælti hann á þýðversku. Börnin skildu hann mætavel þrátt fyrir það. Dró sveinki upp úr pússi sínu forneskjulega skinnbók. Í henni hafði hann samviskusamlega haldið til haga upplýsingum um athafnir leikskólabarna þetta árið. Spurði hann stundum hvort rétt væri farið með: „Stimmt das?“ og hrópuðu krakkarnir ævinlega „Ja!“ hátt og snjallt.


Auðvitað kom sveinki með poka og fengu öll börnin góðgæti úr honum. Sést hér Rúnar Atli taka við sínu.


Eftir matinn fóru börnin að leika sér. Voru þvílík ærsl í þeim að mesta mildi var að ekki hlytust af stórslys. En allt fór vel, og var Rúnar Atli mjög sáttur við þennan atburð.

Í dag í hádeginu, bauð síðan Þróunarsamvinnustofnun í Namibíu starfsfólki sínu í jólagleði. Hittumst við á einu af betri hótelum borgarinnar. Hafa nokkrar starfsmannabreytingar orðið á árinu, svo í stað 2-3 barna í fyrra, voru um og yfir 10 stykki í dag. Auðvitað kom því jólasveinn líka þangað. Skiptir engu þótt yfir 30 stiga hiti sé, rauðu fötin og stígvél eru klæðnaðurinn. Þessi mælti þó á engilsaxnesku, en ekki þýðversku.

Sá rauðklæddi lenti þó í smávandræðum þegar pokinn opnaðist og allt valt út um allt. Betur fór þó en á horfðist.


Vakti sveinki mikla lukku. Ekki einungis hjá börnunum, heldur þótti gestum hótelsins þetta hinn mesti fengur og smelltu af í gríð og erg.

Þegar kom að því að opna pokann, var ekki laust við að spenningur kæmi í marga. Ekki bara börnin, heldur ýmsa fullorðna líka.


Rúnar Atli fékk pakka eins og önnur börn og hér knúsar hann jólasveininn í þakkarskyni.


Tinna Rut fékk meira að segja pakka líka, sem og Tammy vinkona Tinnu. Eins og sést voru þær ekki óglaðar yfir því. Knúsuðu þær þó sveinka ekki.


Ég hélt síðan smáræðu og tók Tinna Rut mynd af því. Takið eftir höfuðfatinu. Að sjálfsögðu vakti ræðan kátínu, þrátt fyrir að hún tefði matinn. Svoleiðis er bara lífið.


Tókst þetta allt saman vel. Þó verður að viðurkennast að erfitt er að komast í jólaskapið í 30 stiga hita.

Kannski er það bara ég...

19. nóvember 2008

Friður á jörð

Bíllinn minn var á verkstæði í dag, svo Gulla sótti mig í hádeginu. Fórum við svo saman í leikskólann að ná í soninn. Í bílnum á leiðinni heim var hann að syngja eitthvað lag á þýsku. Hann syngur reyndar endalaust þessa dagana. En við Gulla fórum að leggja við hlustir, því eitthvað var lagið kunnuglegt. Kom úr kafinu að þarna var sigurlag söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva frá árinu 1982. Hún Nicole vinkona vor. Svona er víst sungið á þýskumælandi leikskólum. Sá reyndar á netinu að þetta lag, sem á þýsku nefnist Ein bißchen frieden, var víst sungið lengi í íslenskum skólum. Friður á jörð, held ég það hafi kallast á því ylhýra.

En ég fór síðan á YouTube og fann upprunalega lagið fyrir hann Rúnar Atla. Sá var ánægður.

Fleyg ummæli, nei, ég meina mismæli

Í hádeginu sátum við foreldrarnir með Tinnu Rut að skoða upplýsingar um ökukennara. Tinna Rut ætlar jú að byrja í ökutímum heima á Fróni í jólafríinu. Sem við erum að skoða heimasíðu eins kennarans bið ég að hún velji hlekk sem heitir Kostnaður.

„Æ, pabbi, þér er ekki sama um neitt nema peninga,” sagði dóttirin þá.

Nákvæmlega...

Föttuðuð þið þennan?

14. nóvember 2008

Sumar og sól

Ekki er laust við hitinn sé farinn að stíga nokkuð hér í Vindhúkkborg. Samt er það nú svo að sundpollurinn hefur ekkert verið notaður það sem af er sumri. Ýmis vandamál hafa skotið upp kollinum, aðallega vegna leti undirritaðs í „viðhaldi“ á sundvatninu. Klór, sýrustig og svoleiðis hefur ekki alveg verið í lagi.

En nú er búið að ná yfirtökum í baráttunni og pollurinn orðinn tær og blár. Nú að loknum vinnudegi í dag var langþráð stund er tám var stungið ofan í. Reyndar var laugin í það svalasta fyrir minn smekk, 23 gráður á selsíus.

Tinna Rut og Rúnar Atli sitja hér á bakkanum. Tinna Rut kom með einhverja ræfilslega afsökun að finna ekki neðri partinn á sundfatnaðinum og fór því ekki lengra ofan í en sést hér.


Hér hins vegar eru feðgarnir komnir oní.


„Hvað ert þú að vilja upp á dekk??!!“ Já, stundum er derringur. Aðallega í þeim styttri...


Ekki kvörtum við yfir útsýninu úr pollinum, svo mikið er víst.

11. nóvember 2008

Pólitíkin

Sumir, þ.m.t. Gulla, urðu steinhissa að ég skrifaði færslur um daginn sem má skilgreina sem pólitísk skrif. Auðvitað var þetta fyrst og fremst til að ergja Framsóknarfornmanninn (fornmann, ekki formann) í Svíaríki. En nú er svo komið að ég fæ vart orða bundist yfir þeim ógnarfréttum sem að heiman dynja. Því ákvað ég að byrja að skrifa um líðandi stund eins og hún horfir fyrir mér. Mest er það fyrir sjálfan mig, því mér gengur oft betur að átta mig á hlutunum með að skrifa hugrenningar niður. Þó vil ég ekki blanda svoleiðis nokkru við þessi dagbókarskrif hér, því örugglega hafa fæst ykkar nokkra ánægju af einhverju dægurþrasi í mér. Nóg er af svoleiðis samt. Ég ákvað því að virkja aftur moggasíðu sem ég eignaðist einhvern tímann í bríaríi. Ef þið hafið einhvern áhuga, þá er slóðin vilhjalmur.blog.is

26. október 2008

Stjórnmálin

Æ, hann Doddi útlagi gefst ekki upp á sínu framsóknarrausi. Mig langar að benda honum á skoðanakönnun sem gerð var núna fyrir helgina af Fréttablaðinu. Hér má lesa niðurstöðurnar.

Ef marka má þessa könnun, fengi framsókn fjóra þingmenn. Gerist þetta í könnun þar sem stjórnin hríðtapar. Meira að segja Björn Ingi, fyrrum innsti koppur í búri hjá framsókn segir:
Þeim mun markverðara er það afrek Framsóknarflokksins að vera við þessar aðstæður í frjálsu falli sem stjórnarandstöðuflokkur. Það er eiginlega alveg magnaður árangur.
Eiginlega er bara engu hægt að bæta við þessi orð.

Tilbúinn í allt

Á þessum síðustu og verstu er nauðsynlegt að vera tilbúinn undir hvað sem er. Hér eru tvær myndir af syninum sem sýna að hann skilur þetta mætavel.



24. október 2008

Hverjir eru þeir seku?

Í þeim ósköpum sem yfir Ísland hafa dunið síðustu vikur hef ég reynt að fylgjast vel með íslenskum fréttum. Hvort sem er í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi. Síðustu daga hefur verið mikið spurt um sök. „Geir, er þetta ekki ykkur að kenna?“ „Jón Ásgeir, hvaða ábyrgð takið þið?“ „En þú Björgvin, hvað með Davíð, nú en Ingibjörg Sólrún..?“ o.s.frv.

Þegar öll lætin voru að byrja var ég staddur í landamærabænum Rúndú. Nokkuð stór bær á bökkum Kavangó árinnar. Er horft beint yfir til Angólu. Einn eftirmiðdag var ég á rölti í bænum. Rakst ég á fyrirtæki nokkurt, sem án efa getur hjálpað okkur að leysa úr ofangreindum spurningum.


Á skiltinu stendur nafn fyrirtækisins: „ABTRAC, Absolute Tracing, Debt Collecting & Claim Consultancy.“ Á því ylhýra má nefna fyrirtækið, „Fullkomin eftirgrennslan, skuldainnheimta og kröfuráðgjöf.“ Hvorki meira né minna.

Takið eftir að ekki eru þessir menn að eyða hagnaði hluthafana í óþarfa íburð. Leigubílar greinilega notaðir til að komast á milli staða. Engir tíu milljóna jeppar hér.

Væri ekki lag að biðja namibísk stjórnvöld um aðstoð við að (i) komast að því hvert í ósköpunum peningarnir okkar fóru, (ii) ná útistandandi skuldum heim, og (iii) krefjast réttar okkar gegn árans Bretunum? Í leiðinni hljótum við að komast að því hverjum þetta var allt saman að kenna.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Fataskortur?

Í Morgunblaðinu var sagt frá því að íshokkímamman, frú Palin, hefði verið fötuð upp fyrir 150.000 bandaríkjadali.

Vá.

Mér reiknast til í fljótheitum að ég gæti byggt u.þ.b. 11 leikskóla hér í Namibíu fyrir þennan pening. Fína leikskóla með flestu sem þarf. Í þessa leikskóla gætu líklega 550 börn gengið.

Skyldi frú Palin hugsa um þetta á morgnana þegar hún klæðir sig í dýrðina.

Já, dýr myndi Hafliði allur...

23. október 2008

Brosmildir Namibíumenn

Þá kom að því. Fyrsta rigning vorsins í Windhoek. Enda voru allir, og ég meina allir, Namibíumenn kátir og brosandi. Rigningardagur í Windhoek er eins og sólardagur að sumri í Reykjavík.

20. september 2008

Býflugnavá

Á fimmtudaginn þegar ég kom heim úr vinnunni var mér sagt af konu og dóttur, nokkuð stressuðum, að einhverjar hundruðir býflugna hefðu gert sig heimakomnar í bílskúrnum. Þar sem Tinna Rut þarf að ganga í gegnum bílskúrinn til að komast á baðherbergið, þá fannst henni skiljanlega hið versta mál að hafa hrúgu af býflugum þar inni.

Ókei, hugsaði ég, skyldu þær nokkuð vera að ýkja svolítið...? Ég meina, hundruðir býflugna.

Skömmu seinna ákvað ég að kanna hvort eitthvað af býflugum væru í skúrnum. Fer inn og sé nokkrar býflugur á vappi og eitthvað virtist þeim þykja merkilegt innst í skúrnum. Ég fer að kíkja í hólf og hirslur til að athuga hvort eitthvað sem býflugum gæti þótt eftirsóknarvert væri þar. Sá ekki neitt. Allt í einu heyri ég mikinn gný. Býflugnasuð. Sé ég hvar ótölulegur fjöldi af býflugum birtist allt í einu í stærðarinnar skýi og streymir inn í bílskúrinn.

Nú var illt í efni. Fleiri býflugur en ég hef nokkru sinni séð streyma inn í bílskúrinn og ég staðsettur innst í skúrnum og engin undankomuleið. Nú voru góð ráð dýr. En ég er auðvitað hokinn af reynslu í svona málum, kýrskýr í hugsun og þrautgóður á raunastund.

Svo vel vill til að við geymum aukarúm í kjallaranum sem stendur upp á endann innst í bílskúrnum. Laumaði ég mér þar á bakvið og vonaði hið besta. Flugurnar streymdu inn í skúrinn og virtist engan enda ætla að taka. Svona liðu u.þ.b. fimm mínútur, frekar langar fimm mínútur, en þá sá ég að flestar flugurnar voru komnar innst í skúrinn og leiðin nokkuð greið fyrir mig út. Gekk ég því pollrólegur út og prísaði mig sælan.
Svona klukkutíma síðar var bílskúrinn orðinn nokkuð laus við býflugur svo hægt var að loka.


En sagan er ekki alveg búin. Næsta morgun hringir Gulla í mig í vinnuna og segir mér að Lidia hafi sé býflugnabú í tréi rétt hjá þvottasnúrunum. Ég hringi í meindýraeyði sem mætir á staðinn og segist geta fjarlægt búið um kvöldið. Þegar ég kom heim þá kíki ég á tréið og, jú, jú, þarna var stærðarinnar býflugnabú. Svona á stærð við stóra vatnsmelónu. Skildi ég ekki alveg hvernig þetta hefur farið fram hjá okkur áður.

Svo um áttaleytið um kvöldið hringir meindýraeyðirinn og spyr hvort búið sér þarna ennþá. Ha? Ég út í garð með vasaljósið. Lýsi og lýsi upp og niður allt tréið, en nei, ekkert býflugnabú. Hvernig er þetta hægt? Meindýraeyðirinn segir mér að líklega sé þetta býflugnahópur sem er að leita að stað fyrir bú. Öðru hverju hópast allar flugurnar svona í hóp og lítur út eins og býflugnabú.

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

21. ágúst 2008

Verðbólga

Var norður í landi á þriðjudag á fundastússi, í bæ sem heitir Ondangwa. Flaug síðan til Windhoek á miðvikudagsmorguninn. Bað hótelið að redda mér fari út á flugvöll og hringt var á leigubíl. Hvað skyldi það nú kosta? vildi ég fá að vita. Hér eru jú engir gjaldmælar í leigubílum. Tíu dali kostar farið, var mér sagt, u.þ.b. 100 krónur.

Svo kom bíllinn. Eins og langflestir leigubílar hér var þetta hálfgert skrapatól og átti ég von á að bíllinn dræpi á sér við hver gatnamót, gangurinn í vélinni benti til þess. Einhvern veginn hökti hann þó áfram. Ég held reyndar að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek leigubíl í Namibíu.

Hvað um það. Á leiðinni út á völl er ég að hugsa að tíkall sé nú frekar lítið, en er nú ekkert að spyrja bílstjórann neitt um þetta. Hann hækkaði nefnilega útvarpið í botn um leið og ég settist inn í bílinn - óshívambó rásin - og hafði greinilega takmarkaðan áhuga á að spjalla.

Svo komum við út á völl og ég spyr hversu mikið ég skuldi fyrir farið. Tuttugu dali, tjáði bílstjórinn mér.

100% verðhækkun á fimm mínútum. Nú veit ég hvernig Simbabvebúum líður.

En ekki fékk bílstjórinn neitt þjórfé.

18. ágúst 2008

Stuðkvöld

Mánudagskvöld.

Sit við tölvuna og reyni að treina hvert einasta músarklikk og hvern einasta slátt á lyklaborðið.

Það er nefnilega partý í húsinu. Og mér er ekki boðið...

Vinkona hennar Tinnu Rutar er að skreppa í burtu í nokkra daga, og þá varð endilega að kveðja hana almennilega og halda grillveislu. Átta eða tíu unglingar mættu á staðinn og flestir eru hér enn. Mér var plantað í tölvuhornið og með vissu millibili kíkir Tinna til mín og spyr hvort mig vanti eitthvað. Ég á víst ekki að sjást, sem þýðir ekki inn í eldhús. En hún man þó eftir mér þessi elska.

Gulla hefur það litlu betra. Hún fékk að sitja fyrir framan sjónvarpið í svefnherberginu. Öðru hverju reynir hún flótta og ryðst fram og út að grilli til að minna krakkana á að súpa varlega á bjórnum. Ekki veit ég hversu mikinn árangur það ber.

Ég sit jú fyrir framan tölvuna og einbeiti mér að skjánum.

Foreldri unglings.

17. ágúst 2008

Ólympíuleikarnir

Við höfum eytt meiri og meiri tíma í að horfa á ólympíuleikana. Hér eru líklega sjö sjónvarpsrásir sem sýna efni frá leikunum allan sólarhringinn. Meira að segja verður sýndur í nótt leikur Íslands og Egyptalands í beinni útsendingu.

Ég hef dottið inn í tvær íþróttagreinar sem ég alla jafna fylgist ekkert með. Annars vegar bogfimi, og hins vegar borðtennis. Reglur í bogfimi er mjög auðvelt að skilja og sumar viðureignir eru mjög spennandi. Verður að viðurkennast að ekki eru allir keppendur íþróttamannslega vaxnir, en það virðist skipta litlu máli. Taugarnar virðast vera aðalmálið.

En ég hef nú meira gaman að borðtennis. Núna er ég að horfa á úrslitaleik í liðakeppni kvenna. Kína gegn Singapúr. Kínverjar ættu að vinna, enda hafa þeir verið yfirburðaland í þessari íþrótt síðan, ja, síðan hún var fyrst spiluð. Kannski ekki nema von. Þjóðaríþrótt landsins. Í liðinu keppa þrjár konur. Þrjár. Skv. upplýsingabók bandarísku leyniþjónustunnar voru íbúar Kína í júlí sl. einn milljarður þrjú hundruð og þrjátíu milljónir fjörutíu og fjögur þúsund sex hundruð og fimm. Aðeins. Af þeim eru 645 milljónir 793 þúsund og áttatíu og tvær konur. Af þeim komast þrjár í landsliðið í borðtennis.

Kannski ekki skrýtið að þær séu þokkalega góðar.

Rokrass

Ein útskýring á heiti Windhoekborgar er vegna mikilla vinda sem mæta stundum hingað. Vindasama hornið mætti þýða nafnið. Rokrass væri sjálfsagt önnur þýðing.

Undanfarið hefur borgin staðið undir nafni. Eins og venjan er í ágústmánuði þá hefur hvesst hressilega hér undanfarið. Stundum er varla hægt að sjá fjöllin umhverfis borgina fyrir mistri. Ekki mengunarmistri eins og á ólympíuleikunum í Pekíngborg heldur mistur vegna moldroks.

Aðfaranótt laugardags var nokkuð hvasst. Svo um morguninn ætlum við Rúnar Atli að skjótast í verslunarferð, en rekum í rogastans, því innkeyrslan að húsinu var þakin múrsteinum og ófær sætum svörtum Gullubíl. Við nánari skoðun þá hafði múrsteinshlaðinn veggur milli okkar og nágrannans hreinlega fokið um koll og stráðust múrsteinar yfir innkeyrsluna. Kom í ljós að það sem eftir stóð af veggnum hékk saman á einhverjum minningum af steypu.

Synir nágrannans mættu á svæðið og hjálpumst við að og hreinsuðum innkeyrsluna. Sá svarti sæti komst því í gegn.

Til allar lukku fauk veggurinn um koll þegar enginn var á ferð, því ekki hefði verið gæfulegt að vera á vappi þarna þegar þetta gerðist.

En, enginn tók eftir þegar þetta gerðist. Ekki einu sinni líf- og öryggisverðir ráðherra öryggismála í landinu, en nágranni okkar er einmitt téður ráðherra.

10. ágúst 2008

„Bak við lokuð gluggatjöld...“

...sungu Brimkló hér um árið.

En erfitt hefur verið fyrir okkur Gullu að gera eitthvað bak við lokuð gluggatjöld, a.m.k. í sjónvarpsherberginu, en þar hefur verið gluggatjaldalaust.

Kallast þetta ekki minímalísmi á einhverri bóhemmáli?

Held það.

En reyndar er nú mjög erfitt fyrir utanaðkomandi að sjá inn um þá glugga sem um ræðir. Þarf einhverjar fínar sjónaukagræjur fyrir þann sem áhuga hefur að sjá okkur fyrir framan sjónvarpið.

En gallinn hefur verið að á sumum tímum dags er gersamlega ómögulegt að horfa á sjónvarpið því birtan veldur því að allt speglast í sjónvarpsskjánum. Í dag var okkur nóg boðið og stukkum í áklæði og gluggatjöld þeirra Namibíumanna. Áklæðastræti heitir verslunin sú, hvorki meira né minna. Ég dró síðan fram höggborvélina og steinbor og setti upp þessar fínu gluggatjaldastangir á meðan Gulla setti gardínuhringi á nýju gluggatjöldin.

Niðurstaða okkar er að minímalísminn sökkar stórt, því gluggatjöldin gjörbreyttu ásýnd sjónvarpsherbergisins. Miklu heimilislegra og meira kósí en áður.

Kannski okkur Gullu líði svo vel þarna núna að ástæða verði til að draga tjöld fyrir glugga...

Hver veit?

7. ágúst 2008

Andsk... Svíar

Á morgun er merkisdagur. Svarti Dæinn hennar Gullu verður eins árs. Og það á föstudegi. Hún Gulla sér ekki sólina fyrir kagganum sínum og því kemur svolítið á óvart sú sjón sem mætir manni þegar sest er inn í gripinn:


...og af hverju er þetta svona?

Jú, andsk. Svíarnir sem voru hérna fyrir nokkru. Þeir ganga um eins og svín.

5. ágúst 2008

Fótbolti

Rúnar Atli fór á sína fyrstu fótboltaæfingu í gær. Þýskur klúbbur sem heitir SKW - Sport Klub Windhoek. Gulla fór með hann, en sonur vinahjóna okkar æfir þarna og ákváðum við að prófa. Drengurinn skemmti sér vel framan af æfingu, var að rekja bolta og hlaupa og eitthvað skemmtilegt. Síðan var spilaður leikur og þá tapaði hann víst alveg áttum og vissi varla hvað var að gerast.

„Ég ætla næst í fótbolta þegar ég verð stærri,“ tilkynnti hann mér og ekkert nema gott um það að segja.

Nú er bara að kaupa bolta, mark og fleiri græjur og fara að þjálfa drenginn.

4. ágúst 2008

Skera um...

Fékk fundarboð í pósti í dag. Ég skal ekki neita að ég las heiti fundarins tvisvar eða þrisvar:

Umskurður karlmanna: stöðugreining...

og hverjir mæta á fundinn:

hagsmunaaðilar um umskurð karla...

Háalvarlegt mál reyndar í landi þar sem eyðni er í hæstu hæðum, en ég neita ekki að hafa brosað út í annað.

Á ekki von á að mæta á fundinn.

3. ágúst 2008

Nú tókst það

Þá tókst okkur að komast í bíó að sjá kúngfú pönduna. Nú var bíósalurinn eins og maður kannast við hann hér í Windhoek, svona kannski 20 manns í salnum.

Myndin var nú ekkert sérstök að mínu viti. Rúnar Atli hélst ekki límdur yfir þessari myndinni. Ég fór síðan að velta fyrir mér hvaða skilaboð þessi mynd gefur krökkunum. Jú, nefnilega að það er ekkert vit í því að æfa sig og æfa til að ná árangri, heldur bara að mæta á staðinn án undirbúnings og þú rúllar bara öllum upp.

Hmm, hvað skyldu sundþjálfarar segja um svona visku?

12. júlí 2008

Bág bíóferð

Ætluðum í bíó áðan, ég, Gulla og Rúnar Atli. Kúngfú panda heitir myndin og er sýnd kortér gengið í þrjú. Við mætum um tvöleytið og skiptum liði. Ég í miðaröðina og Gulla í poppröðina. Hér er það sem sagt þannig að hægt er að kaupa popp og gos án þess að fara inn í bíóið. Ég kemst að lúgunni - nei, því miður er uppselt... og í því sný ég mér við og mæti Gullu og Rúnari Atla með fangið fullt af poppi og kóki!!

En við dóum ekki ráðalaus, fórum bara með gómsætið heim og horfðum á leitina að Nemó á mynddiski.

En, ekkert jafnast á við bíópopp...

2. júlí 2008

Víkingablóðið

Tók eftir því í gær þegar ég sótti Rúnar Atla á leikskólann að hann var aðeins hruflaður á nefinu.

„Dattstu?“ spurði ég. „Nei,“ svaraði sá stutti.

„Nú, hvað kom fyrir?“ var næsta spurning.

„Ég var í slag!“ kom svarið.

„Slag!“ hrópaði ég upp yfir mig alveg gáttaður, „og fórstu að gráta?“

„Nei, en Song fór að gráta...“

27. júní 2008

Á flakki

Sitjum á barnum í Opuwo og njótum útsýnisins


Hr Gin&tónik er til aðstoðar.

Vorum í Etosha í gær og sáum 77 fíla. Aðeins. Í morgun sáum við 20 gíraffa í hóp. Ferðin tókst s.s. vel. Himbar á morgun

17. júní 2008

Róleg þjóðhátíð í Windhoek

Ekki fer mikið fyrir þjóðhátíðarlátum hér í Windhoek. Ekki nema þrír Íslendingar sem ég veit af í borginni. Ég, Tinna Rut og Rúnar Atli. Þau tvö fóru í skólann í morgun, en ég tók lífinu með ró, enda skrifstofan lokuð á þjóðhátíðardaginn.

Veðrið er hálfleiðinlegt. Aldrei þessu vant er skýjað á júnídegi, leiðindarok og ekki nema rétt yfir 20 gráðunum. Þ.a. ég sit bara við tölvuna og hlusta á kósíkvöldið með Baggalútsmönnum. Ég þarf eiginlega að fara að skrá mig á tónlist.is og sækja fleiri lög með þessum köppum.

Óska öllum sem álpast til að lesa þetta ánægjulegan þjóðhátíðardag.

Útlitsdýrkun

Jahá, merkilegt hvaða dagbókarfærslur fá flestar athugasemdir.

En vegna mikillar pressu kemur hér ein uppstillt mynd af mér, svona rétt til að minna á að ekki eru alltaf fíflalæti og hamagangur...

Gapastokkur

Við Rúnar Atli vorum á rölti í bænum um helgina. Hann hefur mikið spáð í undirgöng sem við keyrum stundum í gegnum á leið okkar um bæinn. Ákváðum við því að kíkja á þau frá gangstéttinni svo hann gæti áttað sig á því hvað ég var að meina þegar ég sagði að við værum að ganga ofan á bílunum.

Auðvitað var ekki bara hægt að kíkja yfir grindverkið - nei, hausnum þurfti að stinga í gapastokk. En núna veit hann a.m.k. hvar við göngum ofan á bílunum.


Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...