30. nóvember 2011

Eintómt vesen

Æ, það ríður ekki við einteyming hér í Malaví.

Í næstu viku verð ég í Namibíu. Þarf að skoða það allra síðasta sem íslenskir skattgreiðendur aðstoða Namibíumenn við. Síðustu sex vatnsveiturnar hjá Himbaættbálkinum í norður-Namibíu.

Þetta verður örugglega skemmtileg ferð. Ég hef jú eytt níu árum ævi minnar í Namibíu og mér finnst ég alltaf vera að koma heim þegar ég lendi á flugvellinum í Windhoek. Áreiðanlega fæ ég þá tilfinningu líka í þetta sinn.

Ég átti að fara héðan á sunnudaginn kemur, flug með Air Malaví klukkan níu að morgni, millilenda í Jóhannesarborg, bíða þar í smátíma og svo flug áfram til Windhoek.

En nú er komið babb í bátinn.

Air Malaví á eina flugvél fyrir millilandaflug. Er reyndar leiguvél að ég held. Sú er búin að sitja á jörðu niðri í rúma viku. Ekki er alveg á hreinu hvers vegna, einhver viðhaldsspurning að mér skilst. En, á morgun, 1. desember, átti hún að fara af stað aftur. Fyrr í dag fékk ég hins vegar símtal frá ferðaskrifstofunni minni þar sem mér var tjáð að vélin yrði ekki komin aftur í gagnið á sunnudag.

Því þarf ég núna að vakna eldsnemma á laugardaginn og fljúga klukkan sjö að morgni til Blantyre, sem er hin stóra borgin í Malaví. Fimmtíu mínútna flug, eða svo. Síðan þarf ég að hanga á þeim flugvelli, sem er víst ekkert mjög heimsborgarlegur, í nálega sex klukkutíma og fljúga síðan til Jóhannesarborgar með Flugleiðum Suður-Afríkumanna. Treðst inn á hótel, á kostnað Air Malaví vel að merkja, og þarf að vera þar eitthvað fram yfir hádegi á sunnudag.

Ekki mjög spennandi að þurfa að bæta degi við ferðalagið. Ef ég kæmist alla leið til Windhoek væri mér sama, en að hanga í Jóhannesarborg þykir mér ekki skemmtileg tilhugsun.

Einhvern vegist virðist óhamingju Malaví verða allt að vopni um þessar mundir.

26. nóvember 2011

Öryggið ekki alveg á oddinum

Ýmislegt í Malaví er ekki eins og á Íslandi. T.d. er frágangur af ýmsu tagi frekar lakari hér en heima á Fróni. Yfirleitt skiptir þetta nú ekki máli, en þegar kemur að rafmagni þá er mér stundum um og ó.

Hér lafa rafmagnsleiðslur þvers og kruss um húsið okkar. Ljósastæði lafa á vírunum og aukainnstungur eru búnar til eftir behag. Ekki má gleyma öllum innileiðslunum sem eru utandyra.

Nei, stundum finnst mér furðulegt að húsið skuli ekki löngu vera búið að fuðra upp.

Svo eru stöðugar rafmagnstruflanir ekki til að róa mann. Því þegar rafmagnið kemur á eftir hlé, þá kemur oft „rafmagnshögg“ sem er mun öflugra en straumurinn er venjulega og á það til að skemma rafmagnstæki.

Svo virðist ekki vera til einn einasti útlærði rafvirki í landinu. Allir sem gefa sig út fyrir að laga rafmagnsvandamál virðast almuligmenn, sem gera við allt sem gera þarf við. Og árangurinn er misjafn.

Það nýjasta var vandamál með þvottavélina okkar. Slökknaði bara á henni, en með því að slá hressilega á klóna í innstungunni þá hrökk hún í gang á nýjan leik.

Í smástund.

Svo bara hætti þvottavélin að virka.

Ég tók mig til í morgun að skoða þetta. Fljótlega beindist athygli mín að klónni. Gekk mér illa að ná henni úr. Var eins og límd. Tókst þó að lokum með hjálp „leðurmannsins“ míns.

Ekki mætti mér fögur sjón.


Er nokkur furða að mig undri að kofinn sé ekki búinn að fuðra upp?

Keypti mér nýja kló. S-afríska, því bresku klærnar sem seldar eru hér eru handónýtar eftirlíkingar. Og nú er þvottavélin farin að þvo á nýjan leik.

Þá er bara spurningin hvernig maður tekur á vatnsleysinu...?

Flogist á við fiðurfé

Nú fara hænsnin hennar Gullu út á hverjum degi. Garðyrkjumaðurinn okkar, Fillimon, spurði mig hvort hann ætti að setja þau inn áður en hann færi heim. Mér þótti það hinn mesti óþarfi. Einn dag um daginn sáum við Gulla og Rúnar Atli nefnilega um að gera þetta og gekk vel.

Þegar fór að rökkva fórum við Rúnar Atli út til að koma hænsnunum inn. Fengum vörðinn með okkur í lið. Hundurinn og kötturinn fylgdust líka með atganginum. En, ekki tókst nú betur til en svo að þrjár af fimmtán afvegaleiddust og hittu ekki á réttar dyr.

Fylgdi þessu ævintýri greinilega mikið hugarangur, því tvær hænur tókust á háaloft við að reyna að sleppa frá okkur. Fór þetta þannig að króa þurfti hverja af fyrir sig og tvær þurfti að handsama. Sú þriðja sá sitt óvænna og fór fríviljug inn.

Rúnari Atla þótti þetta gaman. Ekki síst vegna þess að hann fékk að halda á tveimur.

Snúllu líst ekkert á þetta. Líklega abbó.

Hér er drengur orðinn alvanur og ánægður með sjálfan sig.  Snúlla niðurbeygð í baksýn.
Eitt lærðum við af þessu. Það er auðveldara að reka stærri hænsnahóp heldur en minni.

Svo lærir sem lifir.

25. nóvember 2011

30 ár eru langur tími

Í dag eru 30 ár síðan karl faðir minn lést.

Það er langur tími.

Þá var ég 16 ára. Ekki mjög gamall. Ég man mér þóttu fréttirnar óraunverulegar og einhvern tíma tók fyrir þær að síast þannig inn að ég skildi þær.

En 30 ár eru langur tími.

Í dag man ég ekki hvernig rödd pabba var. Það finnst mér leiðinlegt. Þá voru ekki upptökuvélar á hverju strái eins og í dag. Því verður maður að treysta á minningarnar og þær verða auðvitað gloppóttar með tímanum. Oft tengjast minningarnar ljósmyndum og mig grunar að smátt og smátt breytist minningarnar á þann hátt að maður fari að búa til einhvern viðburð í kringum myndina. Sérstaklega þegar maður var mjög ungur sjálfur.

Hér erum við feðgarnir á góðri stundu. Á sólríkum vetrardegi á Snæfellsnesinu.


Stundum velti ég fyrir mér hvað honum hefði þótt um líf mitt. Ég ímynda mér að honum hefði þótt það forvitnilegt. Að sonurinn skyldi enda sem einhvers konar heimshornaflakkari. Ég hef nefnilega þá tilfinningu að hann hafi haft ævintýraþrá, þótt ég svosum viti það ekki. Ég hef síðar á ævinni áttað mig á því að ég þekki pabba ekki mjög vel. Ekki sem einstakling. Þekki hann auðvitað sem föður, en veit ekki hvað honum þótti skemmtilegt, hvað honum þótti fyndið, hvað fór í taugarnar á honum. Og þar fram eftir götunum.

En mig grunar að í honum hafi blundað ævintýraþrá.

Einhvern tímann á sjötta áratug síðustu aldar fór hann til Bandaríkjanna í boði Catepillar-verksmiðjanna. Sagan segir að hann hafi þótt það flinkur á vinnuvélar að honum hafi staðið til boða starf í Bandaríkjunum. Ekkert varð þó af því.

Kannski eins gott, því allt eins er líklegt að ég hefði aldrei fæðst ef hann hefði flutt þangað.

20. nóvember 2011

Ung sál og Rocky 4

Undanfarið hefur ein sjónvarpsstöð hér farið í gegnum Rocky-myndirnar. Sá ég um daginn fyrstu myndina og skemmti mér vel yfir henni. Ekki er ég frá því að hún sé besta myndin, ekki síst vegna endisins. Í gær rákum við augun í að sýna átti fjórðu myndina, þessa þar sem Dolph Lundgren leikur sovéska boxmaskínu sem enginn mannlegur máttur getur stöðvað. Ákváðum við að gera fjölskyldukvöld úr þessu: bíómynd og popp og kósí fílingur í sófanum. Rúnar Atli hefur aldrei séð Rocky mynd áður og þótti spennandi tilhugsun að sjá mynd um hnefaleika.

Svo byrjaði myndin og frekar snemma deyr einn vinur Rockys í hringnum eftir þung högg frá þeim sovétska. Vitum við ekki fyrr en Rúnar Atli rekur upp þetta skaðræðisóp og fer að hágráta. Drengur var bara óhuggandi. Við skildum ekki neitt í neinu og reyndum að fá uppúr honum hvort, og þá hvar, hann væri slasaður.

Loks nær hann að stynja upp: ,,Þetta er svo sorgleg mynd!''

Það var nefnilega það. Saklausri og ungri sál ofbauð óréttlætið sem hún varð þarna vitni að.

En gráturinn rénaði að lokum og myndin var tekin í sátt.

17. nóvember 2011

Útsýnið af skrifstofunni

Er þessa vikuna í Mangochi við strendur Malaví-vatns. Útsýnið af „skrifstofunni” er flott, ekki satt?


16. nóvember 2011

Fjölþjóðlegur skóli

Í hádeginu sl. mánudag fór ég í heimsókn í bekkinn hans Rúnars Atla. Tilefnið var að bekkurinn hans var búinn með arkitektarþemað og var foreldrum kynnt nýtt þema, en það er um mat. Foreldrarnir áttu því að koma með einhvern rétt með sér. Krakkarnir eiga núna að grafast fyrir um hvaðan maturinn, sem er á þeirra borðum á hverjum degi, kemur. Mér finnst þessi kennsluaðferð skemmtileg. Það er alltaf eitthvað þema í gangi, þ.a. krakkarnir eru með eitthvað markmið að vinna að, og síðan er fléttað inn í þetta lestri, skrift og reikningi. Ég ímynda mér að skólinn verði skemmtilegri fyrir vikið. Þarna læra krakkarnir líka að vinna undir pressu, því þemað endar á ákveðnum degi og þá þarf allt að vera tilbúið. Núna eiga þau að skrifa litla bók um hvernig maturinn fer frá því að vera í sveitinni þangað til hann endar á disknum.

Í árganginum hans Rúnars Atla, sem kallast þriðja ár - samsvarar öðrum bekk heima - eru líklega nálægt 50 krakkar í þremur bekkjum. Allir voru saman að heilsa upp á foreldrana. Gaman er að sjá hversu blandaður hópurinn er. Þrír hópar eru mest áberandi, hvítir, svartir og indverskir, en svo er slæðingur af krökkum annars staðar frá. Þegar maður sér svona blandaðan hóp þá sér maður vel hvað krakkar eru allsstaðar eins. Allir spenntir að sýna foreldrunum hvað verið er að gera, allir fóru að kjafta hver við annan ef kennarinn gaf aðeins lausan tauminn o.s.frv. Að vera í svona hóp hlýtur að gefa krökkum allt aðra mynd af öðrum menningar- og trúarheimum en þegar maður er í einsleitum hóp, eins og t.d. þegar ég var í skóla.

Fínt mál.

13. nóvember 2011

Margt lagt á sig fyrir börnin

Gulla er í foreldraráði í skólanum hans Rúnars Atla. Mætir öðru hverju á fundi vegna þessa, en annars verð ég nú lítið var við þetta stúss hennar.

Þar til á fimmtudaginn.

Þegar ég kom heim úr vinnunni þann daginn biðu mín átta kíló af maísbaunum.

„Viltu poppa, Villi minn?“

Daginn eftir var nefnilega fjáröflunarsamkunda. Verið að safna fyrir einhverju skýli til að börnin geti verið í skjóli í frímínútum. Var haldin skemmtun á einum af íþróttavöllum skólans. Þar spilaði hljómsveit, hægt var að kaupa sér ýmislegt í svanginn og svo var flugeldasýning. Heilmikið um að vera.

„Jú, jú, ég skal poppa.“

Ríflega þrír tímar fóru í poppunina. Sjálfsagt fjóra lítra af jurtaolíu þurfti. Vandamálið var þó helst að átta kíló af maísbaunum taka töluvert pláss þegar búið er að poppa þau. Því þurfti að leita nýrra hugmynda um ílát. Sem betur fer eigum við nokkra stóra plastkassa og svo endaði ég með að nota stórt kælibox undir popp þegar allt annað þraut.

Ég hef aldrei poppað svona mikið á ævinni í einu. Í dag er þetta alltaf örbylgjupopp. Minnir að einhvern tímann hafi ég poppað tvo potta fyrir mörgum árum. Þeir urðu sko gott fleiri en tveir í þetta sinn. Um tíma var ég reyndar með tvo potta á eldavélinni í einu, en svo fór að brenna við í öðrum, þannig að ég snarlega hætti með hann. Úff, en sóðaskapurinn sem fylgir svona löguðu. Gólfið varð flughált af olíunni.

Gulla gerði svo sitt. Mokaði poppinu í litla plastpoka og batt fyrir. Guð má vita hversu margir þeir urðu.

Margir.

En ég var ekki sloppinn þar. Gulla hafði náðarsamlegast boðið mig fram sem grillara á föstudagskvöldið. Ég mætti því með mína grilltöng og derhúfu með eðalsænsku ljósi undir derinu. Maður verður jú að sjá það sem maður grillar.

Við grillið stóð ég svo í tæpa þrjá klukkutíma. Ekki veit ég hvað ég grillaði mikið af kjúklingaborgurum, pylsum og kjúklingum á spjóti. En heitt var mér orðið.

Ég er ekki frá því að hafa verið með harðsperrur í gær eftir þetta.

Þrátt fyrir puð var þetta gaman. Og tíminn leið hratt. Ábyggilega safnaðist hellingur af peningum, því þarna var fullt af fólki.

Flugeldasýningin var flott. Jafnaðist ekki á við áramótasýningar á Íslandi, en hér eru flugeldar sjaldséðir. Það flottasta fannst mér var hversu áhorfendur lifðu sig inn í flugeldasýninguna. Hrifningarandköf tekin yfir hverjum einasta flugeldi og úað og æjað þegar ljósadýrðin lýsti allt upp.

Það hefði verið flott að hafa eina stóra áramótatertu að heiman.

12. nóvember 2011

Margt kemur út úr skápnum

Stóð í stússi í morgun að koma skrifborðinu mínu í gagnið heima fyrir. Þurfti að sækja eitthvað í neðstu hillu í skáp. Þá mætir mér könguló á leið út úr skápnum.

Ég hef aldrei séð jafnstóra könguló heima hjá mér. Dæmi hver sem vill:8. nóvember 2011

Fólksflutningar frá Grikklandi

Fyrir mörgum árum lærði ég smávegis í lýðfræði sem hluta af einhverjum námskeiðum í háskóla. Þar man ég eftir kenningum um hverjir það væru sem leggðu helst í það ævintýri að flytjast með fjöldskylduna til útlanda og setjast þar að. Kenningarnar voru flestar á þann veg að þarna væri fólk sem hefði áræði og þor. Hefði frumkvæði og elju. Væri yfirleitt á fyrri hluta starfsævi sinnar og ætti því mörg ár eftir sem skattgreiðendur. Væri vel menntað og hefði menntast á kostnað heimalandsins. Væri yfirleitt fólk sem eftirsjá væri af.

Undanfarna daga hef ég hugsað svolítið um þetta. Í bílnum hlusta ég mikið á afrísku útgáfu BBC fréttastöðvarinnar, því helstu útvarpsstöðvar hér í Malaví senda iðulega út á tungumáli sem ég skil ekki. Það er reyndar lítið sem gefur til kynna þessa dagana að þetta sé afríkönskuseruð útgáfa af fréttum, því  vandamál Evrópu taka mest af útsendingartímanum. Þar á meðal ástandið í Grikklandi.

BBC gerir mikið af því að fá fólk í því landi sem til umfjöllunar er til að taka þátt í umræðum. Þetta er auðvelt á tölvuöldinni. Ég hef undanfarið heyrt marga unga Grikki, líklega á aldrinum 25-35 ára, ræða ástandið í sínu heimalandi. Yfirleitt vel menntað fólk sem talar góða ensku. Það sem einkennir tal þeirra er gríðarlegt vonleysi. Fólk sér enga leið úr þeim vanda sem Grikkland er komið í. Einnig eru þau reið. Mikil reiði ólgar í þeim, bæði gagnvart stjórnvöldum og þeim ríku (hverjir sem það nú eru). Allir segjast vera að spá í að flytjast á brott og allir segja að flestir sínir vinir séu þegar farnir.

Ég veit auðvitað ekkert hversu dæmigert þetta fólk er fyrir unga Grikki. En, allt þetta fólk sem ég heyri í er á sama máli: Engin framtíð bíður þeirra í Grikklandi.

Ef það stendur við orð sín og flyst af landi brott, þá velti ég fyrir mér áhrifunum á Grikkland að því loknu. Í ljósi kenningana sem ég nefndi í upphafi, þá eru líkur á að fólkið sem flyst erlendis sé einmitt fólkið sem best væri fyrir Grikkland að flytti ekki.

Stóra spurningin hlýtur að vera hvernig megi halda í þetta fólk.

Pólitíkusar eiga sjálfsagt mörg moðreyks svör við svoleiðis spurningu. Ég hins vegar á ekki neitt konkret svar.

7. nóvember 2011

Læri í heilu á grillið

Því að flytja á nýjan stað fylgir að sjálfsögðu að leita sér nýrra kunningja. Fjölskyldan, þótt skemmtileg sé, getur ekki endalaust setið ein heima með sjálfri sér. Síðasta laugardagskvöld buðum við því tveimur fjölskyldum í grillmat, en þarna var um að ræða skólafélaga Rúnars Atla og foreldra þeirra.

Kvöldið tókst vel. Ég grillaði lambalæri í heilu og kom það vel út. Malavískt lambalæri. Það var aðeins minna en ég er vanur að heiman. Rétt rúm tvö kíló að þyngd með beini og öllu. Langaði að prófa eitthvað nýtt og fann á netinu uppskrift að kryddblöndu fyrir lambalæri og einnig uppskrift að kaldri grískri sósu sem á að vera æðisleg með lambi. Sem hún var. Nýjungin fyrir okkur Gullu var að nota heilan helling af hvítlauk. Við erum yfirleitt frekar passasöm á hann, en ekki í þetta sinn. Ég saxaði niður endalausan fjölda af hvítlauksrifjum. Svo var hægt að nýta kryddjurtagarðinn hennar Gullu. Minta, kóríander, rósmarín og basílikum eru þar m.a. Ég er enn að átta mig á þessari snilld að geta labbað út í garð og náð í kryddjurtir. Alveg frábært.

Auk lærisins buðum við líka upp á tandoori-kjúklingastrimla og grillbrauð. Íslensk skúffukaka var svo í eftirrétt. Því miður var ekki hægt að bjóða upp á þeyttan rjóma með henni, því rjómi fannst hvergi í búðunum hér í síðustu viku.

Maturinn var velheppnaður, þrátt fyrir allan hvítlaukinn. Kannski einmitt vegna hans? Gæti verið.

Önnur fjölskyldan er frá Frakklandi og hin frá Simbabve. Margt fróðlegt var rætt og mikið hlegið. Alltaf er forvitnilegt að heyra reynslusögur fólks frá öðrum löndum. Kannski læt ég einhverjar frásagnir koma síðar.  Sumt tekur tíma að melta.

En, þrátt fyrir að koma frá ólíkum löndum og ólíkum menningarheimum þá höfum við flest sama markmiðið. Að búa þannig í haginn fyrir börnin okkar að þau hafi það betra en foreldrarnir. Um þetta snýst líf langflestra sem við kynnumst.

Er það ekki hið besta mál?

Vísindamaður í smíðum

Í morgun var foreldrum barna á þriðja ári í Bishop Mackenzie-skólanum boðið í stutta heimsókn í skólann. Undanfarnar vikur hafa krakkarnir lært um arkitektúr og náði þemað hápunkti með þessari heimsókn foreldra. Þarna sýndu þau okkur afraksturinn, en hann fólst í teikningum af byggingum sem börnin voru að reyna að sannfæra okkur um að væru góðra gjalda verð. Foreldrarnir brugðu sér nefnilega í gervi skipulagsfulltrúa og áttu að pumpa krakkana um bygginguna sína. T.d. áttum við að spurja um varnir gegn náttúruhamförum og eins hversu umhverfisvæn byggingin væri.

Þetta var svolítið gaman, fannst mér. Krakkarnir mættu í sínu fínasta pússi í skólann. Áttu að klæða sig sem arkitektar. Það er allur gangur á því hvernig þau - og foreldrarnir - halda að arkitektar líti út. Rúnar Atli fór með málband hangandi í buxnastrengnum og með penna upp úr brjóstvasanum. Hann var nú ekki alveg sannfærður að svona væri klæðnaður arkitekta, en fannst þó sennilegt að málband kæmi sér vel fyrir svoleiðis mann og auðvitað þarf arkitekt að hafa góðan penna.

Hópurinn hans Rúnars Atla. Hann lengst til vinstri, og sjá má pennann í brjóstvasanum og málbandið í buxnastrengnum. Til hægri sést í klemmuspjald skipulagsfulltrúa nokkurs.

Ekki ætla ég að reyna að þykjast vera hlutlaus, en ég var montinn af verkefni Rúnars Atla. Rígmontinn, þótt ég reyndi að sjálfsögðu að halda andlitinu.

Hann er hugmyndafrjór - hugsar út fyrir boxið, eins og stundum er sagt. Það er greinilegt.

Flest verkefnin voru frekar venjuleg. Þ.e. byggingarnar voru hefðbundnar. T.d. íbúðarhús, skólar, kirkjur og þar fram eftir götunum. Ekki misskilja mig. Teikningarnar voru virkilega flottar og krakkarnir höfðu útpælt þetta allt saman. Hallandi þök til að verjast snjóþyngslum! Hverjum dettur svoleiðis í hug í Malaví?

En, byggingin hans Rúnars Atla var ekki venjulega bygging.

Nei, vélmennamiðstöð!

Hann hafði teiknað rannsóknarstofu þar sem vélmenni skipuðu stóran sess.

Og af hverju? var hann spurður.

Jú, svaraði hann, ég ætla að verða vísindamaður og þá þarf vélmennamiðstöð.

Þá vitum við það.

Dómadagshávaði

Við vöknuðum í nótt, svona kl. hálfþrjú við þennan líka dómadagshávaða. Var eins og himinn og jörð væru að farast.

Það var farið að rigna.

Lætin voru þvílík, þegar rigningin buldi á bárujárninu, að manni datt helst í hug að þakið gæfi sig.

Síðan hefur rignt stanslaust, en dregið hefur úr látunum.

Ég er ekki frá því að grasið á blettinum fyrir framan húsið sé töluvert grænna og hærra en í gær.

Líklega markar þessi nótt upphaf regntímans hér í Malaví. Þá fara bændur að taka við sér því sá þarf fyrir uppskeru næsta árs.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...