13. nóvember 2011

Margt lagt á sig fyrir börnin

Gulla er í foreldraráði í skólanum hans Rúnars Atla. Mætir öðru hverju á fundi vegna þessa, en annars verð ég nú lítið var við þetta stúss hennar.

Þar til á fimmtudaginn.

Þegar ég kom heim úr vinnunni þann daginn biðu mín átta kíló af maísbaunum.

„Viltu poppa, Villi minn?“

Daginn eftir var nefnilega fjáröflunarsamkunda. Verið að safna fyrir einhverju skýli til að börnin geti verið í skjóli í frímínútum. Var haldin skemmtun á einum af íþróttavöllum skólans. Þar spilaði hljómsveit, hægt var að kaupa sér ýmislegt í svanginn og svo var flugeldasýning. Heilmikið um að vera.

„Jú, jú, ég skal poppa.“

Ríflega þrír tímar fóru í poppunina. Sjálfsagt fjóra lítra af jurtaolíu þurfti. Vandamálið var þó helst að átta kíló af maísbaunum taka töluvert pláss þegar búið er að poppa þau. Því þurfti að leita nýrra hugmynda um ílát. Sem betur fer eigum við nokkra stóra plastkassa og svo endaði ég með að nota stórt kælibox undir popp þegar allt annað þraut.

Ég hef aldrei poppað svona mikið á ævinni í einu. Í dag er þetta alltaf örbylgjupopp. Minnir að einhvern tímann hafi ég poppað tvo potta fyrir mörgum árum. Þeir urðu sko gott fleiri en tveir í þetta sinn. Um tíma var ég reyndar með tvo potta á eldavélinni í einu, en svo fór að brenna við í öðrum, þannig að ég snarlega hætti með hann. Úff, en sóðaskapurinn sem fylgir svona löguðu. Gólfið varð flughált af olíunni.

Gulla gerði svo sitt. Mokaði poppinu í litla plastpoka og batt fyrir. Guð má vita hversu margir þeir urðu.

Margir.

En ég var ekki sloppinn þar. Gulla hafði náðarsamlegast boðið mig fram sem grillara á föstudagskvöldið. Ég mætti því með mína grilltöng og derhúfu með eðalsænsku ljósi undir derinu. Maður verður jú að sjá það sem maður grillar.

Við grillið stóð ég svo í tæpa þrjá klukkutíma. Ekki veit ég hvað ég grillaði mikið af kjúklingaborgurum, pylsum og kjúklingum á spjóti. En heitt var mér orðið.

Ég er ekki frá því að hafa verið með harðsperrur í gær eftir þetta.

Þrátt fyrir puð var þetta gaman. Og tíminn leið hratt. Ábyggilega safnaðist hellingur af peningum, því þarna var fullt af fólki.

Flugeldasýningin var flott. Jafnaðist ekki á við áramótasýningar á Íslandi, en hér eru flugeldar sjaldséðir. Það flottasta fannst mér var hversu áhorfendur lifðu sig inn í flugeldasýninguna. Hrifningarandköf tekin yfir hverjum einasta flugeldi og úað og æjað þegar ljósadýrðin lýsti allt upp.

Það hefði verið flott að hafa eina stóra áramótatertu að heiman.

2 ummæli:

Lissy sagði...

Lovely post, much better than the one about the spider!

davíð sagði...

Þú hefur ekki skellt kvikindinu úr síðasta pistli bara á tein og beint á grillið?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...