8. nóvember 2011

Fólksflutningar frá Grikklandi

Fyrir mörgum árum lærði ég smávegis í lýðfræði sem hluta af einhverjum námskeiðum í háskóla. Þar man ég eftir kenningum um hverjir það væru sem leggðu helst í það ævintýri að flytjast með fjöldskylduna til útlanda og setjast þar að. Kenningarnar voru flestar á þann veg að þarna væri fólk sem hefði áræði og þor. Hefði frumkvæði og elju. Væri yfirleitt á fyrri hluta starfsævi sinnar og ætti því mörg ár eftir sem skattgreiðendur. Væri vel menntað og hefði menntast á kostnað heimalandsins. Væri yfirleitt fólk sem eftirsjá væri af.

Undanfarna daga hef ég hugsað svolítið um þetta. Í bílnum hlusta ég mikið á afrísku útgáfu BBC fréttastöðvarinnar, því helstu útvarpsstöðvar hér í Malaví senda iðulega út á tungumáli sem ég skil ekki. Það er reyndar lítið sem gefur til kynna þessa dagana að þetta sé afríkönskuseruð útgáfa af fréttum, því  vandamál Evrópu taka mest af útsendingartímanum. Þar á meðal ástandið í Grikklandi.

BBC gerir mikið af því að fá fólk í því landi sem til umfjöllunar er til að taka þátt í umræðum. Þetta er auðvelt á tölvuöldinni. Ég hef undanfarið heyrt marga unga Grikki, líklega á aldrinum 25-35 ára, ræða ástandið í sínu heimalandi. Yfirleitt vel menntað fólk sem talar góða ensku. Það sem einkennir tal þeirra er gríðarlegt vonleysi. Fólk sér enga leið úr þeim vanda sem Grikkland er komið í. Einnig eru þau reið. Mikil reiði ólgar í þeim, bæði gagnvart stjórnvöldum og þeim ríku (hverjir sem það nú eru). Allir segjast vera að spá í að flytjast á brott og allir segja að flestir sínir vinir séu þegar farnir.

Ég veit auðvitað ekkert hversu dæmigert þetta fólk er fyrir unga Grikki. En, allt þetta fólk sem ég heyri í er á sama máli: Engin framtíð bíður þeirra í Grikklandi.

Ef það stendur við orð sín og flyst af landi brott, þá velti ég fyrir mér áhrifunum á Grikkland að því loknu. Í ljósi kenningana sem ég nefndi í upphafi, þá eru líkur á að fólkið sem flyst erlendis sé einmitt fólkið sem best væri fyrir Grikkland að flytti ekki.

Stóra spurningin hlýtur að vera hvernig megi halda í þetta fólk.

Pólitíkusar eiga sjálfsagt mörg moðreyks svör við svoleiðis spurningu. Ég hins vegar á ekki neitt konkret svar.

1 ummæli:

Erla H sagði...

Sæll,

Ég sit hér heima á Fróni við skriftir (hlusta reyndar á vin okkar Ileka frá í tölvunni). Þegar ég las línurnar þínar hélg ég allra fyrst að þú værir að vísa í ykkur fjölskylduna, og síðan beið ég eftir tilvísun í Ísland, sem hefur kannski verið undirliggjandi? -Þessar spekúlasjónir eru reyndar mjög áhugaverðar, sama í hvaða samhengi þær eru settar.
Skilaðu kveðju til fjölskyldunnar.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...