25. nóvember 2011

30 ár eru langur tími

Í dag eru 30 ár síðan karl faðir minn lést.

Það er langur tími.

Þá var ég 16 ára. Ekki mjög gamall. Ég man mér þóttu fréttirnar óraunverulegar og einhvern tíma tók fyrir þær að síast þannig inn að ég skildi þær.

En 30 ár eru langur tími.

Í dag man ég ekki hvernig rödd pabba var. Það finnst mér leiðinlegt. Þá voru ekki upptökuvélar á hverju strái eins og í dag. Því verður maður að treysta á minningarnar og þær verða auðvitað gloppóttar með tímanum. Oft tengjast minningarnar ljósmyndum og mig grunar að smátt og smátt breytist minningarnar á þann hátt að maður fari að búa til einhvern viðburð í kringum myndina. Sérstaklega þegar maður var mjög ungur sjálfur.

Hér erum við feðgarnir á góðri stundu. Á sólríkum vetrardegi á Snæfellsnesinu.


Stundum velti ég fyrir mér hvað honum hefði þótt um líf mitt. Ég ímynda mér að honum hefði þótt það forvitnilegt. Að sonurinn skyldi enda sem einhvers konar heimshornaflakkari. Ég hef nefnilega þá tilfinningu að hann hafi haft ævintýraþrá, þótt ég svosum viti það ekki. Ég hef síðar á ævinni áttað mig á því að ég þekki pabba ekki mjög vel. Ekki sem einstakling. Þekki hann auðvitað sem föður, en veit ekki hvað honum þótti skemmtilegt, hvað honum þótti fyndið, hvað fór í taugarnar á honum. Og þar fram eftir götunum.

En mig grunar að í honum hafi blundað ævintýraþrá.

Einhvern tímann á sjötta áratug síðustu aldar fór hann til Bandaríkjanna í boði Catepillar-verksmiðjanna. Sagan segir að hann hafi þótt það flinkur á vinnuvélar að honum hafi staðið til boða starf í Bandaríkjunum. Ekkert varð þó af því.

Kannski eins gott, því allt eins er líklegt að ég hefði aldrei fæðst ef hann hefði flutt þangað.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...