30. nóvember 2009

Sveittur í eldhúsinu

„Pabbi, má ég hjálpa þér að elda matinn?“

Ekki má nú kæfa svona ákafa, finnst mér. Því dró ég hníf upp úr eldhússkúffunni, rétti drengnum hann og bað hann að snyrta til belgbaunirnar. Ekki er ofsögum sagt að verkið var unnið af mikilli alvöru og samviskusemi. Mikil upphefð að fá að nota hníf. Auðvitað var farið varlega og leiðbeiningum fylgt út í ystu æsar.


Þegar verkinu lauk, náði drengurinn í símann og hringdi í móður sína. „Mamma, pabbi leyfði mér að nota hníf!“

Skyldi ég vera í vandræðum?

Ætli það.

29. nóvember 2009

Símaatgangur

Eins og sum ykkar vita erum við með íslenskt símanúmer hérna úti í gegnum tölvutengingu. Því getum við hringt í heimasíma á Íslandi fyrir sáralítinn pening og hægt er að hringja í okkur frá Íslandi á innlendum taxta. Yfirleitt virkar síminn vel, þótt stundum hiksti aðeins í þessu.

En, núna er Rúnar Atli kominn með símaæði. Hann hefur símann við hlið sér hvar sem hann er í húsinu. Mamma gæti jú hringt. Svo er hann búinn að læra númerið í Æsufellinu utan að og hringir í hvert skipti sem honum dettur í hug að segja mömmu sinni eitthvað.

Á meðfylgjandi mynd er hann að syngja jólalag fyrir mömmu sína: „Pabbi segir, pabbi segir ...“

Eins og alltaf, þá er gaman að börnunum. Spurningin er bara hvernig þetta reynir á þolrifin í móðurinni.

28. nóvember 2009

Jólaspenningur

Eins og nefnt hefur verið áður á þessum síðum, þá styttist í jólin. Eftir því sem fólk er styttra í loftinu þá er spenningurinn meiri. Rúnar Atli er kominn á alvarlegt spennustig verður að segjast.

Um síðustu helgi voru tvö jólaboð sem hann fór í. Kom jólasveinninn í bæði boðin og ýtti það undir eftirvæntinginuna. Núna er legið yfir jólasveinamynddiski þar sem jólasveinarnir 13 syngja og dansa. Syngur Rúnar Atli alls kyns jólalög og kann þau bara þokkalega. Núna eru „Krakkar mínir komið þið sæl“ í tækinu.

Síðan fékk hann jólasveinahúfu frá mömmu sinni fyrir nokkrum dögum. Er sú húfa varla tekin ofan. Fer hann með hana í leikskólann frekar en derhúfu, sem er hinn vanalegi höfuðbúnaður. Fyrsta daginn sem hann var með hana þá hópuðust vinirnir í kringum hann og nefndu Rúnar Atla Nikulás, en Nikulás er notað yfir jólasveininn á þýsku. Sá stutti kippti sér ekki upp við það og mætir samviskusamlega með húfuna á hverjum degi.

„Hann sáði, hann sáði...“ er sungið í þessum skrifuðum orðum og fótum stappað, lendum ruggað og snúið sér í hring :-)

Í bænum í morgun voru þónokkrar konur sem undu sér að drengnum og spurðu hvort hér væri „Father Christmas“ á ferð. Drengurinn hélt nú það og framkallaði bros spyrjendanna.

Hér er mynd af drengnum á kaffihúsinu í morgun:

En mikið er gaman að þessu og ekki laust við að ég sé að komast í jólaskapið, þrátt fyrir 34 gráðu hita.

26. nóvember 2009

Ferðatími ársins

Jæja, þá er enn komið að þessu. Íslandsför á næsta leyti. Enda jólin á næstu grösum. Áðan keyrðum við Tinna Rut hana Gullu út á flugvöll. Hún tekur forskot á sæluna og lendir á Íslandi seinnipartinn á morgun. Rúnar Atli nennti ekki út á völl. Hann vildi bara leika sér...

En núna liggur Gulla ábyggilega í nuddi á flugvellinum í Jóhannesarborg. Og ég strita sveittur í eldhúsinu á meðan...

Við hin leggjum af stað á föstudaginn í næstu viku.

13. nóvember 2009

Jólalögin

Jæja, þá gerðist það.

Við Tinna Rut vorum í matvörubúð áðan. Föstudaginn 13. nóvember. Þá heyrðum við fyrsta jólalag þessara jóla. Við komumst nú í smájólaskap. En fullsnemmt, því hæpið er að jólaskap dugi í sex vikur.

Við förum því í aðra búð næst.

10. nóvember 2009

Jólin nálgast

Æ fjölgar ummerkjum þess að jólin nálgast. Núna síðast sá ég körfubíl frá borginni að setja upp jólaljós í lystigarðinum andspænis skrifstofunni minni. Fyrir nokkrum dögum sá ég verið að hengja upp grenigreinar í lítilli verslanamiðstöð sem ég fer stundum í. Svo eru auðvitað jólavörurnar farnar að tínast inn í búðirnar. Jólatré og -seríur komnar á áberandi stað í stórverslunni Game. Jólasúkkulaðidagatölin má kaupa í matvörubúðinni og svo mætti lengi telja.

Og þó...

Það er ekki enn farið að spila jólalögin í útvarpinu. Vonandi verður smábið á því svo ég verði ekki orðinn hundleiður á jólalögum vikunni fyrir jól.

8. nóvember 2009

Svalur sunnudagur og íslenskir karlmenn

Kvenpeningurinn í fjölskyldunni kvartaði sáran yfir kulda á meðan á morgunmatnum stóð. Þeim er kannski vorkunn, enda ekki nema 22 gráður á selsíus. Íslensku karlmennirnir, hins vegar, skildu ekkert í þessum umkvörtunum, borðuðu bara sínar pönnu- og skúffukökur af bestu lyst. Íklæddir stuttbuxum og sá yngri í hlýrabol. Enda voru Stuðmenn dregnir fram og lagið um íslensku karlmennina spilað.

7. nóvember 2009

Laugardagsþankar

Laugardagur. Sólríkur eins og vant er í Windhoek. Heldur vindasamt þó í dag. En kemur ekki að sök þegar hægt er að setjast í skjól. Er núna úti á verönd og huga að kjöti á grillinu. Hamborgarar, kjúklingabringur og hin ómissandi búapylsa. Reyndar grænmeti með í bland líka.

Var að enda við að lesa laugardagsmoggann. Er alveg hálfsdagsverk, enda 144 síður að mig minnir. Las að sjálfsögðu atvinnublaðið, hef gert það í mörg ár. Er þó enn að venjast að lesa það á laugardegi. Tilheyrir frekar sunnudagsmorgunverkum. En lífið breytist jú víst öðru hverju.

Athygli mína vakti auglýsing frá sveitarfélagi í afkimum Noregs. Sögueyjan Leka, kallast það víst. Tek þó að nafnið Leka þýði eitthvað annað á norsku en íslensku. Tók sérstaklega eftir einu í auglýsingunni. Þar var verið að tíunda kosti þessa 580 manna sveitarfélags: sundlaug með vatni!

Hmm, ætli sé mikið af vatnslausum sundlaugum þar í landi? Kannski lekum?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...