29. desember 2009

Bílleysi = heilbrigði?

Tók daginn snemma. Var mættur í laugina rétt fyrir sjö. Einn að þessu sinni, því Rúnar Atli gisti hjá Loga Snæ frænda sínum. Synti 300 metra og var bara frískur að því loknu. Potturinn síðan alltaf góður.

Ók síðan sem leið lá inn í Kópavog og skildi bílinn eftir á bílaverkstæði. Bíllinn er nýtekinn upp á því að leka vatni af vatnskassanum og það í nokkru magni. Svo var flautan líka hætt að virka, sem er hið versta mál í reykvískri umferð. Þetta þurfti að lagfæra.

Arkaði svo frá Skemmuveginum upp í Æsufellið. Kannski í kringum 25 mínútur á leiðinni. Fékk mér morgunmat og síðan tókum við Tinna Rut strætisvagn niður á Háaleitisbraut. Heimsóttum þar hnykkjara. Síðan þurfti að taka strætisvagninn til baka, en það vafðist aðeins fyrir okkur. Fundum hreinlega ekki stoppustöð sem á að vera í Fellsmúlanum! Því örkuðum við niður á Miklubraut og á stoppustöð gegn Hagkaupum í Skeifunni.

Komum svo heim.

Þá langaði Gullu í göngutúr. Við hjónin röltum því af stað og gengum stóran hring hér í Fellunum. Skoðuðum alls konar fyrirtæki og stofnanir sem eru hér. Furðuðum okkar á miklu fjölda gervihnattadiska sem sitja hér á fjölbýlishúsum.

Síðan þurfti auðvitað að sækja soninn. Við náðum því í snjóþotu guttans og töltum niður brekkuna í neðra Breiðholtið og stungum okkur inn í Bakkana. Sigga var auðvitað nýbúin að baka fína tertu, enda enn verið að prufukeyra fínu Kitchenaid hrærivélina. Að lokum var sonurinn dreginn á snjóþotunni upp í hið efra. Efra Breiðholt, þ.e.a.s.

Klukkan var farin að nálgast fimm þegar hér var komið. Fréttist þá að bílinn væri tilbúinn, og hafði ég um tuttugu mínútur til að sækja hann. Enn var því brunað af stað og hálfskokkað niður hæðina, arkað framhjá Mjóddinni, smogið undir Reykjanesbrautina, og síðan niður Skemmuveginn.

Mikið var gott að setjast upp í bílinn og aka af stað.

Ég kíkti á Google earth áðan og nýtti mér mæligræjur sem þar eru til að skjóta á hversu langt ég hefði gengið. Sýnist mér að í kringum níu kílómetrar hafi verið lagðir að baki í dag.

Er ég ósköp ánægður með heilsuræktina, en verð að viðurkenna að strengir eru farnir að gera vart við sig.

Væri ég til í að vera bíllaus? Varla, en sýnist þó að efra Breiðholtið sé líklega með betri stöðum bæjarins ætli maður að taka upp á þvílíku.

25. desember 2009

Gleðileg jól

Jóladagur langt kominn. Letidagur væri kannski ekki verra orð. Hef legið í leti megnið af deginum. Náði þó í Dagmar Ýri um kaffileytið. Hef síðan eytt hluta dagsins í lestur bókar Jónasar Kristjánssonar. Ágæt bók og auðlesin, enda fylgir Jónas þeim reglum um stíl sem hann ráðleggur öðrum.

Reyndar fékk piparkökuhúsið að finna fyrir því áðan. Rúnar Atli tók sig til og rústaði því. Drenginn vantaði greinilega útrás. Hann eyddi nefnilega um fimm klukkutímum í morgun að setja saman landhelgisgæsluskip og vita úr legókubbum.

Aðfangadagur jóla var góður dagur sem endranær. Við Rúnar Atli tókum daginn þó snemma. Vorum lagðir af stað til Grundarfjarðar klukkan hálfátta að morgni. Vorum komnir þangað skömmu fyrir tíu, kipptum ömmu Rúnars upp í bílinn og ókum til baka. Í Æsufellið komum við uppúr hálfeitt, ef ég man rétt.

Hamborgarahryggurinn úr Fjarðarkaupum smakkaðist vel. Enda Gulla listakokkur.

Ýmislegt skemmtilegt leyndist undir jólatréinu. Sérkennilegasta gjöfin mín var líklega öfugsnúin veggklukka sem Gulla gaf mér. Hún er öfugsnúin því hún gengur rangsælis. Tölurnar 12 og 6 eru á sama stað og á hefðbundinni klukku, en 3 er þar sem 9 er á þeirri hefðbundnu. Aðrar tölur eru öfugsnúnar í samræmi við það. Ekki er ýkt þótt sagt sé að ruglingslegt sé að horfa á klukku þessa. Svona klukkur þykja víst eitt af því sem heimur rétthentra hefur af okkur örvhentum. Ég er ekki saklaus af því að kvarta stundum yfir heimi rétthentra. T.d. er ótrúlegt hversu auðveldara er að klippa með „örvhentum“ skærum. Eins getur verið hættulegt, jafnvel lífshættulegt, að nota vélsagir og ýmis verkfæri í þeim dúr því rofar eru oft á kolröngum stöðum. En ég skal nú viðurkenna að ég sé ekki alveg tilganginn með öfugsnúnu klukkunni.

Tinna Rut fékk einnig magnaða gjöf. Doddi frændi í Svíaríki gaf henni púðaver. Varla í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að á púðaverinu er andlitsmynd af Dodda sjálfum! Hversu miklum kvikindisskap lýsir þetta eiginlega?

Annars fylgdi aðfangadagskvöldið forskriftinni. Það er alltaf best.

22. desember 2009

Jóla-hvað?

Fyrr í kvöld rölti ég um Laugaveginn með Dagmar Ýri og Rúnari Atla. Fínt veður. Reyndar svolítið kalt, en lyngt og fínt. Við kíktum í jólaþorpið svokallaða á Hljómalindarreitnum.

Ég ætla nú ekki að blanda mér í deilurnar milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. En ég verð nú að segja að þetta þorp stenst engan veginn þær væntingar sem ég hafði til þess. Ég skil alls ekki þá snilld að hafa gítarleikara, að kvöldi 21. desember í jólaþorpi, spilandi lag sem nefnist „Ruby, Ruby“

Hvað varð um jólalögin?

18. desember 2009

Piparkökuhús!

Oft hefur verið rætt um á þessum bæ að baka piparkökuhús fyrir jól. En aldrei hefur orðið af því.

Fyrr en nú.

Við feðgarnir fórum í bakstur seinnipartinn í dag. Hér er guttinn með húseiningarnar nýkomnar úr ofninum.


Þegar búið var að líma húsið saman, þá kom að skreytingu. Og þá er best að einbeitingin sé í lagi...


Hér eru hreyknir bakarar með afraksturinn.


Gripurinn fékk síðan heiðursess á skenknum hennar Gullu (takið eftir strumpunum).

Nú er bara að hefja hönnunarvinnu fyrir næsta ár.

14. desember 2009

23 árum fagnað

Ég verð 45 ára eftir nokkra daga. Í dag hins vegar áttum við Gulla 23 ára brúðkaupsafmæli.

45 - 23 = 22

Það er á hreinu, ég er búinn að vera giftur (sömu konunni) meirihluta ævinnar.

Og hvað var svo gert í tilefni dagsins?

Jú, við fórum á ljósmyndastofu og létum taka fjölskyldumyndir. Mest var þetta þó í tilefni útskriftar Tinnu Rutar en þó voru teknar nokkrar myndir af hjónunum.

Dagmar Ýr bauð svo Rúnari Atla að gista heima hjá sér. Þáði hann boðið með þökkum. Við Gulla áttum þar með góðan möguleika á að fara tvö ein út að borða. Gerðum við það. Fórum við á Hamborgarabúlluna við Geirsgötu, skáluðum í kóki og gæddum okkur á fínum hamborgurum og frönskum. Ekki slæmt...

Enduðum svo á rúnti um bæinn.

13. desember 2009

Slakað á

Sunnudagurinn 13. desember á því herrans ári 2009 runninn í garð. Já, reyndar er dagurinn langt kominn. Lífinu hefur verið tekið með ró það sem af er degi. Bendir flest til að það breytist lítið seinni hluta dags.

Við Rúnar Atli skutumst í laugina í morgun á meðan Gulla stóð í ströngu í uppvaskinu. Stórveisla var jú hér í gær. Um 40 manns mættu í Æsufellið til að samfagna Tinnu Rut, en hún var jú að halda upp á útskrift úr framhaldsskóla. Einnig var henni óskað velfarnaðar í komandi áskorunum á norðurslóðum Kanada.

Við Gulla hófum kökubakstur tveimur dögum fyrir veislu og svo kom mamma sterk inn á endasprettinum með brauðtertur. Flatkökur voru smurðar og pönnsur bakaðar. Enda svignuðu borð undan veisluföngum. Tinna Rut stendur hér við kræsingarnar rétt áður en atgangurinn hófst.

Já, þetta voru rétt um fjörutíu manns. Fólk bæði úr móður- og föðurætt Tinnu Rutar og svo vinafólk, bæði gamlir og eins „nýrri“ vinir.

Tinna Rut stóð sig eins og herforingi, enda glæsileg stúlka.

Sjálfsagt meira úr móðurættinni... hún er þó með tærnar mínar...

Eins og gengur er oft misjafn sauður í mörgu fé. Hér eru tveir af þeim öfugsnúnustu sem mættu í gær:

Ævinlega stuð hjá Rúnari Atla og Loga Snæ þegar þeir hittast.

Við Gulla vorum mjög sátt með veisluna. Þurfum þó að fjárfesta í nokkrum klappstólum til viðbótar til að fullkomnun sé náð. Sjáum alveg fyrir okkur að hægt sé að halda 50 manna boð í Æsufellinu. Enda er farið að skipuleggja þau næstu. Eftir tvö ár eigum við 25 ára brúðkaupsafmæli - ótrúlegt afrek hjá jafn ungu fólki - og eftir fimm ár verð ég fimmtugur. Það er náttúrulega súrrealískt ótrúlegt.

En merkiði í dagbókina, 14. des. 2011, og 17. des. 2014.

8. desember 2009

Íslandið mitt

Við Tinna Rut fórum á Domino's áðan. Ríkisrekna pitsustaðinn. Í þann mund er við göngum inn um dyrnar þá hellir vaktstjórinn, ung og hugguleg stúlka, sér yfir kokkaliðið sem er þarna. Kannski ekki í frásögur færandi. Þó vakti eftirtekt mína að þessi yfirhalning fór fram á pólsku. Ég var eiginlega hálffeginn að tala ekki það tungumál. En mér sýndist að þeir fjórir starfsmenn sem voru þarna inni væru allir af pólskum uppruna.

Ísland er land mitt...

7. desember 2009

Fyrsti í sumarfríi

Þá hófst sumarfríið mitt í dag. Vaknaði um sjöleytið, en við Rúnar Atli höfðum ákveðið að fara í morgunsund saman. Við löbbuðum svo út í Breiðholtslaug. Launhált á göngustígunum.

En mikið er gott að fara í sundlaugar borgarinnar. Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem ég sakna mest frá Íslandi, þá væru það sundlaugarnar. Alveg var meiriháttar að svamla í lauginni með syninum, loftið tært og hreint, og tunglið hálft á himininum. Laugarnar eru ábyggilega einhver besta heilsulind okkar Íslendinga.

Annars var deginum eytt í ýmiskonar snatt. Endurnýja þarf vegabréf, fá bankakort með nýjum myndum og bara svona sitt lítið af hverju. Rúnar Atli fór í skoðun hjá tannlækninum. Honum finnst mjög spennandi að fara til tannlæknisins. Var hann farinn að rella um að fara til tannsa þremur tímum áður en mæting var. „Getum við ekki farið núna til tannlæknisins...?“

Á eftir kíkir Dagmar Ýr í mat, þ.a. öll fjölskyldan borðar saman. Gerist ekki oft.

5. desember 2009

Kominn heim í heiðardalinn...

Sit heima í Æsufellinu og hripa þessi orð á blað. Er nú orðinn frekar slæptur, enda komið fram yfir namibískan háttatíma. Vel gekk heim frá Lundúnum. Smátöf þegar einn farþeginn kvartaði yfir veikindum. Auðvitað var læknir um borð. Og reyndar dýralæknir líka. En við töfina þá töpuðum við okkar stæði í brottfararröðinni frá flugvellinum og því þurfti að bíða í góða stund áður en hægt var að troða flugvélinni aftur inn í röðina. Við lentum því hálftíma síðar í Keflavík en áætlað.

Svo var auðvitað farið í fríhöfina og tollurinn keyptur. Ja, víntollurinn, spái lítið í aðra tolla. Auðvitað fylltist innkaupakerran af ýmiskonar sælgæti og gotteríi. Tilheyrir.

Á meðan ég var í fríhöfninni náði Tinna Rut í töskurnar af færibandinu. Töskurnar komu að sjálfsögðu allar.

Gulla og Dagmar Ýr tóku síðan á móti okkur og urðu auðvitað fagnaðarfundir. Hvað annað? Svo þurfti að troða öllum töskum í bílinn og aka til Reykjavíkur.

Gott að vera kominn heim.

Sprækur sem lækur!

Sit ásamt börnunum mínum tveimur í flugvallarsal 1 á Heathrow flugvellinum. Hingað til hefur ferðalagið gengið vel. Á flugvellinum í Windhoek var ekki ein einasta hræða við innritunarborðið, þ.a. innritun gekk hratt og vel fyrir sig. Í Jóhannesarborg var aðeins meira mál að innrita sig, en S-Afríkanar eru víst að reyna að koma nýju tölvukerfi í gagnið á flugvöllunum fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári. Greinilega eru einhverjir hnökrar enn, því næstum því hver einasti farþegi virtist skapa vandamál. Við gerðum það líka, því Tinna Rut var á sérflugmiða, því hún ferðast jú bara aðra leiðina í þetta sinn. En allt gekk þetta að lokum.

Langa flugið, 10 tímar og 25 mínútur, gekk vel. Sjónvarpskerfið hjá British Airways er alveg meiriháttar flott. Hver með sinn sjónvarpsskjá, og ábyggilega á fjórða tug mynda sem hægt er að velja úr. Rúnar Atli sofnaði síðan yfir kvöldmatnum sínum og síðan vaknaði hann bara ekki fyrr en klukkutíma fyrir lendingu. Eðaldrengur. Meira að segja var erfitt að vekja hann. Við hin áttum þokkalega nótt. Duttum sjálfsagt í nokkra klukkutíma með hléum.

Síðan lentum við hér rúmlega fimm í morgun. Smáferðalag var að komast úr flugvallarsal 5 til salar 1 og svo þurfti að fá brottfararspjöld. Gaurinn var ekki viss hvort farangurinn okkar hefði fylgt okkur... en kannski var bara ekki búið að staðfesta komu hans í tölvukerfinu. Við vonum það besta.

Við erum núna búin að koma okkur vel fyrir rétt við dyr Harrods hér í biðsalnum. Mynduðum skjaldborg með handfarangri og úlpum svo engir færu að abbast upp á okkur ;-)

Enn eru rúmir fjórir tímar til brottfarar, en okkur líður bara vel.

4. desember 2009

Allt að smella

Loksins er allt að verða tilbúið. Búinn að pakka í töskurnar og ipoddar hlaðnir svo nú er bara að fara í háttinn. Svo mæti ég til vinnu í fyrramálið og Rúnar Atli í leikskóla. Uppúr hádegi þurfum við svo að rúlla út á flugvöll. Síðan flogið til Jóhannesarborgar, svo til Lundúna og þaðan til Keflavíkur.

Létt og löðurmannlegt.

3. desember 2009

Allt að verða tilbúið

Brottför til Íslands á morgun. Allt er að verða tilbúið. Síðasti vinnudagurinn á þessu ári var hjá vinnufólkinu í dag. Fór ég hamförum í að tæma ísskápinn og búrið og gaf þeim. Ekki þýðir að mæta í myglulykt á nýju ári. Nú er ekki matarsnifsi til á bænum. Enda er stefnan sett á kínverskan matsölustað á eftir. Svo eigum við Tinna Rut stefnumót í fyrramálið á Café Schneider í morgunmat.

Í kvöld þarf svo að pakka í töskur.

Tinna bloggari!

Haldiði ekki að Tinna Rut sé farin að blogga á nýjan leik!

2. desember 2009

Kveðjustundin nálgast

Nú styttist í að hún Tinna Rut fari alflutt frá Namibíu. Hún er því búin að rækta vinaböndin vel frá því prófum lauk. Nú rétt í þessu þegar ég kom heim í hádegismat þá voru tveir vinir hennar hér. Ef einhverjum finnst það skipta máli voru þetta piltar tveir. Tinna Rut var að hræra deig og svo bauð hún vinum sínum upp á pönnukökur framreiddar að kanadískum sið. Ekki slæmt.

1. desember 2009

Nostalgían

Eitthvað varð mér hugsað til þess áðan að nú eru að verða fjögur ár frá því við fluttum til Namibíu í seinna skiptið. Í kjölfarið kíkti ég á fyrstu dagbókarfærslunar mínar hér á blogspot. Byrjaði að blogga á 19 ára brúðkaupsafmælinu okkar Gulla. Það var um árið 2005, ef einhver er að reyna að reikna.

Mikið er gaman að hafa nennt að setja inn þessar færslur. Ég gleymdi mér alveg yfir þessu. Myndir af Rúnari Atla og Tinnu Rut og ýmsar skemmtilegar sögur sem ég var búinn að gleyma. Sem sagt, nostalgíutripp hjá mér í kvöld. Og rauðvínsflaska með.

Fúlt að maður skuli ekki hafa haldið dagbók alla ævi.

Elli, það væru sjálfsagt einhverjar skemmtilegar sögur til frá níunda áratugnum, eða hvað?

30. nóvember 2009

Sveittur í eldhúsinu

„Pabbi, má ég hjálpa þér að elda matinn?“

Ekki má nú kæfa svona ákafa, finnst mér. Því dró ég hníf upp úr eldhússkúffunni, rétti drengnum hann og bað hann að snyrta til belgbaunirnar. Ekki er ofsögum sagt að verkið var unnið af mikilli alvöru og samviskusemi. Mikil upphefð að fá að nota hníf. Auðvitað var farið varlega og leiðbeiningum fylgt út í ystu æsar.


Þegar verkinu lauk, náði drengurinn í símann og hringdi í móður sína. „Mamma, pabbi leyfði mér að nota hníf!“

Skyldi ég vera í vandræðum?

Ætli það.

29. nóvember 2009

Símaatgangur

Eins og sum ykkar vita erum við með íslenskt símanúmer hérna úti í gegnum tölvutengingu. Því getum við hringt í heimasíma á Íslandi fyrir sáralítinn pening og hægt er að hringja í okkur frá Íslandi á innlendum taxta. Yfirleitt virkar síminn vel, þótt stundum hiksti aðeins í þessu.

En, núna er Rúnar Atli kominn með símaæði. Hann hefur símann við hlið sér hvar sem hann er í húsinu. Mamma gæti jú hringt. Svo er hann búinn að læra númerið í Æsufellinu utan að og hringir í hvert skipti sem honum dettur í hug að segja mömmu sinni eitthvað.

Á meðfylgjandi mynd er hann að syngja jólalag fyrir mömmu sína: „Pabbi segir, pabbi segir ...“

Eins og alltaf, þá er gaman að börnunum. Spurningin er bara hvernig þetta reynir á þolrifin í móðurinni.

28. nóvember 2009

Jólaspenningur

Eins og nefnt hefur verið áður á þessum síðum, þá styttist í jólin. Eftir því sem fólk er styttra í loftinu þá er spenningurinn meiri. Rúnar Atli er kominn á alvarlegt spennustig verður að segjast.

Um síðustu helgi voru tvö jólaboð sem hann fór í. Kom jólasveinninn í bæði boðin og ýtti það undir eftirvæntinginuna. Núna er legið yfir jólasveinamynddiski þar sem jólasveinarnir 13 syngja og dansa. Syngur Rúnar Atli alls kyns jólalög og kann þau bara þokkalega. Núna eru „Krakkar mínir komið þið sæl“ í tækinu.

Síðan fékk hann jólasveinahúfu frá mömmu sinni fyrir nokkrum dögum. Er sú húfa varla tekin ofan. Fer hann með hana í leikskólann frekar en derhúfu, sem er hinn vanalegi höfuðbúnaður. Fyrsta daginn sem hann var með hana þá hópuðust vinirnir í kringum hann og nefndu Rúnar Atla Nikulás, en Nikulás er notað yfir jólasveininn á þýsku. Sá stutti kippti sér ekki upp við það og mætir samviskusamlega með húfuna á hverjum degi.

„Hann sáði, hann sáði...“ er sungið í þessum skrifuðum orðum og fótum stappað, lendum ruggað og snúið sér í hring :-)

Í bænum í morgun voru þónokkrar konur sem undu sér að drengnum og spurðu hvort hér væri „Father Christmas“ á ferð. Drengurinn hélt nú það og framkallaði bros spyrjendanna.

Hér er mynd af drengnum á kaffihúsinu í morgun:

En mikið er gaman að þessu og ekki laust við að ég sé að komast í jólaskapið, þrátt fyrir 34 gráðu hita.

26. nóvember 2009

Ferðatími ársins

Jæja, þá er enn komið að þessu. Íslandsför á næsta leyti. Enda jólin á næstu grösum. Áðan keyrðum við Tinna Rut hana Gullu út á flugvöll. Hún tekur forskot á sæluna og lendir á Íslandi seinnipartinn á morgun. Rúnar Atli nennti ekki út á völl. Hann vildi bara leika sér...

En núna liggur Gulla ábyggilega í nuddi á flugvellinum í Jóhannesarborg. Og ég strita sveittur í eldhúsinu á meðan...

Við hin leggjum af stað á föstudaginn í næstu viku.

13. nóvember 2009

Jólalögin

Jæja, þá gerðist það.

Við Tinna Rut vorum í matvörubúð áðan. Föstudaginn 13. nóvember. Þá heyrðum við fyrsta jólalag þessara jóla. Við komumst nú í smájólaskap. En fullsnemmt, því hæpið er að jólaskap dugi í sex vikur.

Við förum því í aðra búð næst.

10. nóvember 2009

Jólin nálgast

Æ fjölgar ummerkjum þess að jólin nálgast. Núna síðast sá ég körfubíl frá borginni að setja upp jólaljós í lystigarðinum andspænis skrifstofunni minni. Fyrir nokkrum dögum sá ég verið að hengja upp grenigreinar í lítilli verslanamiðstöð sem ég fer stundum í. Svo eru auðvitað jólavörurnar farnar að tínast inn í búðirnar. Jólatré og -seríur komnar á áberandi stað í stórverslunni Game. Jólasúkkulaðidagatölin má kaupa í matvörubúðinni og svo mætti lengi telja.

Og þó...

Það er ekki enn farið að spila jólalögin í útvarpinu. Vonandi verður smábið á því svo ég verði ekki orðinn hundleiður á jólalögum vikunni fyrir jól.

8. nóvember 2009

Svalur sunnudagur og íslenskir karlmenn

Kvenpeningurinn í fjölskyldunni kvartaði sáran yfir kulda á meðan á morgunmatnum stóð. Þeim er kannski vorkunn, enda ekki nema 22 gráður á selsíus. Íslensku karlmennirnir, hins vegar, skildu ekkert í þessum umkvörtunum, borðuðu bara sínar pönnu- og skúffukökur af bestu lyst. Íklæddir stuttbuxum og sá yngri í hlýrabol. Enda voru Stuðmenn dregnir fram og lagið um íslensku karlmennina spilað.

7. nóvember 2009

Laugardagsþankar

Laugardagur. Sólríkur eins og vant er í Windhoek. Heldur vindasamt þó í dag. En kemur ekki að sök þegar hægt er að setjast í skjól. Er núna úti á verönd og huga að kjöti á grillinu. Hamborgarar, kjúklingabringur og hin ómissandi búapylsa. Reyndar grænmeti með í bland líka.

Var að enda við að lesa laugardagsmoggann. Er alveg hálfsdagsverk, enda 144 síður að mig minnir. Las að sjálfsögðu atvinnublaðið, hef gert það í mörg ár. Er þó enn að venjast að lesa það á laugardegi. Tilheyrir frekar sunnudagsmorgunverkum. En lífið breytist jú víst öðru hverju.

Athygli mína vakti auglýsing frá sveitarfélagi í afkimum Noregs. Sögueyjan Leka, kallast það víst. Tek þó að nafnið Leka þýði eitthvað annað á norsku en íslensku. Tók sérstaklega eftir einu í auglýsingunni. Þar var verið að tíunda kosti þessa 580 manna sveitarfélags: sundlaug með vatni!

Hmm, ætli sé mikið af vatnslausum sundlaugum þar í landi? Kannski lekum?

30. október 2009

Strandarferð

Í gær skruppum við Gulla og Rúnar Atli í bæjarferð. Ég þurfti að mæta á tvo fundi, einn í Hvalaflóa í gær og í Swakopmynni í dag. Eftir hádegið kíktum við aðeins á ströndina. Rúnar Atli fór að leika sér á brimbretti, svona í þykistunni, með Atlantshafið í bakgrunni.

Á meðan naut Gulla sólarinnar, enda veitir ekki af að láta hana hlýja sér hér niður við hafið. Ekki nema rúmlega 15 gráðu hiti. Helmingslækkun frá í Windhoek :-(

Á morgun verður svo haldið heim á leið á ný.

28. október 2009

Spenningur í daglega lífinu

Svona dags daglega er lífið frekar tilbreytingarlítið. Klukkan hringir milli fimm og hálfsex á morgnana, allir staulast á fætur og fá sér morgunmat. Börnin fara í skóla og leikskóla, ég í vinnuna, Gulla leggst yfir skólabækurnar. Svo kemur hádegið, börnin og ég koma heim í hádegismat. Ég fer síðan aftur í vinnuna. Kem heim skömmu fyrir kvöldmat. Eftir matinn spilum við veiðimann og síðan horft á sjónvarp og farið að sofa.

O.s.frv.

Já, lífið í henni Afríku er spennandi...

Í dag dró reyndar til tíðinda. Í því sem fundi einum var að ljúka tókum við eftir reyk utan við gluggann. Glugginn er reyndar á fimmtu hæð...

Þegar við litum út um gluggann sáum við bíl, alelda. Ekki alveg sjón sem mætir mér á hverjum degi hér í Windhoek. Kannski þætti þetta ekki merkilegt í Bagdad, en hérna vakti þetta töluverða athygli. Fullt af fólki í kring og einhverjir voru að baksa við slökkvitæki, en með litlum árangri, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Sem betur fer mætti slökkviliðið og verður að viðurkennast að þeir báru sig faglega að og slökktu eldinn á örskotsstund.

Svo er bara að vakna í fyrramálið milli fimm og hálfsex...

23. október 2009

Tinna Rut kát!

Þá er hún yngri dóttir mín kát. Tók þessa mynd af henni áðan, og eins og sést skín gleðin úr hverjum andlitsdrætti:

Og af hverju þessi kátína?

Jú, hún var að klára síðustu prófin í skóla Páls heilaga. Alveg rétt, nú er hún barasta búin í menntaskóla. Og ekki nema 17 og hálfs árs gömul. Og þremur dögum betur. Rétt skal vera rétt.

Í dag voru tvö stærðfræðipróf og gekk henni vel að eigin sögn. Nú er hún stungin af með vinum sínum að fagna. Sem betur fer fór hún á bílnum hennar mömmu sinnar.

Ég efast ekki um að foreldrar sem lesa þetta skilja af hverju ég er ánægður að hún sé bílstjóri.

Núna er Tinna Rut komin í ríflega tveggja mánaða frí. Byrjar svo í háskólanámi 4. janúar í vesturheimi.

Úff, tíminn líður...

6. október 2009

Á ferð og flugi

Sit núna á gistiheimili Wendels í Lilongve í Malaví. Sötra á gini og tóniki - einföldum - og hripa niður þessi orð. Erindi mitt hér eru fundahöld, en öllum umdæmisstjórum Þróunarsamvinnustofnunar, sem reyndar er æ minni stétt, var stefnt hingað þessa vikuna.

Kom hingað um hádegisbil, en lagði af stað frá Windhoek um kaffileytið í gær. Síðustu nótt gisti ég á Flugvallarhótelinu hinu mikla í útjaðri Jóhannesarborgar. Hafursborg heitir útborgin. Kannski hljómar Bokkaborg eða Hafurshöfði betur á því ylhýra þótt Hafursborg sé bein þýðing úr afríkönsku. Hótelið hið mikla ber nú kannski ekki alveg nafn með rentu. Jú, nálægt flugvellinum er það, svona 10 mínútna akstur. Og það er ósköp huggulegt. En ,,hið mikla'' - nei, það nafn er ekki alveg að gera sig. Tvær heilar hæðir gefa nú varla tilefni til að kallast hið mikla. Flugvallarhótelið fágaða væri kannski frekar við hæfi. Eða kannski Hótel hið huggulega, því þetta er ágætis hótel. En látum nú ekki heimspekilegar vangaveltur eyðileggja dagbókarfærsluna, loksins þegar ég sting niður penna.

Ég lét ferðaskrifstofuna velja hótelið því ég verð að viðurkenna að þekkja Jóhannesarborg ekki neitt. Hálfskammarlegt því frá Windhoek er ekki nema tveggja tíma flug. Í þessi örfáu skipti sem ég álpast út fyrir flugvöllinn, þá er ég alltaf með varann á mér. Ekki er jú orðspor Jóhannesarborgar neitt til að monta sig yfir þegar kemur að glæpum. En í gær var greinilega engin ástæða til að stressa sig.

Annars var ég orðinn frekar pirraður á flugvellinum í Windhoek. Segi alltaf við börnin mín að það eina sem þýði þegar lagt er af stað í flugferðir sé að brynja sig með þolinmæði. Og svo meiri þolinmæði. Reyni ég að fara eftir þessu, en í gær lá við, lá við, að þolinmæðin mín rynni að þrotum. Svo ég noti orðatiltæki sem virðist vinsælt heima á Fróni um þessar mundir þá lenti ég í biðröð dauðans. Jamm, hvorki meira né minna. Biðröð dauðans.

Tinna Rut skutlaði mér þessa 40 kílómetra sem liggja að flugvellinum. Við renndum í hlað tveimur tímum og tveimur mínútum fyrir brottför. Þá var kominn þokkaleg biðröð, fjórar reyndar, en þó ekkert lengri en gengur og gerist. Ég sá fram á svona 15-20 mínútur og síðan kaffibolla og rúnnstykki. En, nei, ó-nei. Þegar Tinna Rut var komin heim, og vel að merkja hún
er ábyrgur ökumaður sem glannar ekki, þá var ég búinn að færast u.þ.b. þrjá metra. Ekki veit ég hvað var í gangi, en greinilega var eitthvað bilað í tölvukerfinu. Sumir þjáningarbræður mínir voru orðnir allnokkuð ergilegir yfir þessu, enda leið tíminn nær og nær brottför, en biðröðin mjakaðist ekki. Einstaka farþegi fékk brottfararspjald, en langt leið á milli hvers þeirra. Birtist svo hlaupari nokkurs konar. Hann var starfsmaður flugfélagsins og tók hann að sér röðina sem ég
var í. Hann vigtaði töskur, fékk vegabréfin í hendur og tók svo á rás. Skaust inn á einhverja skrifstofu og birtist svo aftur á hlaupum með brottfararspjöld og töskumiða. Stóð hann sig vel og var þó nokkuð fljótari en þeir sem sátu við innritunarborðin. Mín röð varð því að lokum sú fljótasta. En heilan fótboltaleik tók að fá brottfararspjaldið.

Lítið varð því um kaffi og rúnnstykki. Kók og Kitkat varð niðurstaðan.

En ég komst í það minnsta á áfangastað. Meira síðar.

22. ágúst 2009

Forskot á sæluna

Eftir rétta viku rennur upp stór dagur. Þá verður Rúnar Atli fimm ára. Merkisdagur verður það. En um síðustu helgi var tekið forskot á sæluna. Þar sem bæði Doddi og Dagmar Ýr fóru aftur til sinna heima áður en afmælisdagurinn skall á, var ákveðið að halda litla afmælisveislu fyrir þau. Ég skellti í eina súkkulaðitertu og Gulla útbjó tartalettur og meira gúmmelaði.

Auðvitað fékk drengurinn pakka frá systur sinni og frænda. Mikil var gleðin þegar legókubbar komu í ljós og síðan græjur eins og Benni tíundi (Ben 10) notar óspart í teiknimyndum í sjónvarpinu. Gaman að því hversu fölskvalaus gleðin er á þessum aldri: „Vá, vá, vá, vá,“ heyrðist frá drengnum trekk í trekk.
Síðan verður jú veisla á laugardaginn kemur - á sjálfan afmælisdaginn. Svo verður ábyggilega þriðja veislan helgina þar á eftir. Leikskólinn er nefnilega í frí næstu viku og ákváðum við því að reyna ekki að bjóða vinum hans þaðan fyrr en eftir að skólinn byrjar á nýjan leik.

Þrjár veislur - ekki slæmt.

21. ágúst 2009

Ferðin til Simbabve: 2. hluti

Annar dagur var tekinn snemma. Átti að sækja þrjú okkar fyrir klukkan sjö. Ég, Doddi og Dagmar Ýr ætluðum á kanó. Báðum við um að morgunmatur væri tilbúinn snemma og var það auðsótt. Til að komast á byrjunarreit kanóferðarinnar þurfti að hristast tvo tíma í bíl í þjóðgarði sem liggur meðfram Sambesi-ánni. En við vorum ekki komin út úr bænum þegar við ókum fram á stærðarinnar hjörð af buffölum. Man ég ekki eftir að hafa séð buffala áður, en þarna voru þeir í tugatali. Bara í rólegheitum rétt innan bæjarmarka að tyggja gras.

Að öðru leyti var bíltúrinn tíðindalítill. Þegar við komum í áfangastað þá voru dregnar fram veitingar, rúnnstykki og einhverjir drykkir. Gátum við þá aðeins spjallað við leiðsögumanninn og bílstjórann. Þeim fannst að ferðamennskan væri aðeins farin að taka við sér á nýjan leik, en þó væri enn langt í land miðað við áður fyrr. Ég spurði þá út í gjaldmiðilsbreytinguna og sögðu þeir að innistæður allra væru frystar í bönkunum. Enginn gæti tekið út neitt og enginn vissi hversu mikið fengist fyrir innistæðurnar þegar opnað yrði fyrir bankaviðskipti á nýjan leik. En að spjalli loknu tók alvaran við.

Frekar var kalt svona snemma morguns, eins og bersýnilegt er. Náttúrufegurðin var þó mikil, eins og annars staðar nálægt Viktoríufossum.

Hér er Dagmar Ýr svo til í allt.
Ég og Dagmar Ýr vorum saman í báti og Doddi var með bandaríkjamanni nokkrum. Síðan var leiðsögumaðurinn einn á báti. Ég var stýrimaður og sat því fyrir aftan dóttur mína. Það var ágætt, því hún sá þá ekkert þegar ég nennti ekki að róa...

„Pabbi, ert'ekk'a'róa?“

Doddi og Kaninn

Túrinn var mjög skemmtilegur. Við sáum nokkra litla krókódíla og heilmikið af flóðhestum. Sumir þeirra voru meira að segja uppi á bökkum að éta, þ.a. við sáum meira en bara nasir og augu standa uppúr vatninu. En ótrúlega eru þessi stóru, og að virðist klunnalegu, dýr snögg í hreyfingum. Eitt skiptið laumuðumst við að þar sem fjórir flóðhestar voru á eyju einni. Eitthvað vorum við komin of nálægt, að þeirra mati, því einn rumdi og á augabragði ruku þeir allir ofan í ána. Eldsnöggir. Svo sáum við nokkra fíla á árbökkunum.

Ferðin var nokkuð þægileg. Fórum þó í gegnum tvennar sæmilega straumharðar flúðir. „Annars stigs flúðir,“ sagði leiðsögumaðurinn. Á skalanum einn til fimm. Fyrir þá sem vilja, þá er hægt að fara í „alvöru“ flúðasiglingar þarna, en við gerðum það ekki að þessu sinni. Enginn tími til þess. Bara næst.

Svo lenti ég í því óhappi að missa myndavélina hennar Tinnu, sem ég hafði fengið lánaða hjá Dagmar Ýr, ofan í kanóinn. Hefði verið í lagi, nema fyrir ökkladjúpt vatn. Var ég þó eldsnöggur að veiða vélina upp og virðist hún vera í lagi. Sem betur fer.

Við komum aftur á gistiheimilið um hálftvö. Frekar þreytt og dösuð, en ánægð.

Ekki var nú slakað mikið á. Rúmlega þrjú vorum við sótt og farið með okkur á búgarð nokkra km fyrir utan bæinn. Búgarður þessi er litlar 6.000 ekrur, sem er víst langleiðina í 2.500 hektara. Ýmis dýr búa þarna og þar á meðal 16 afrískir fílar sem búið er að þjálfa sem reiðfíla. Við fórum sem sagt á fílabak.

Ekki vorum við ein um hituna, heldur voru þarna ábyggilega hátt í 20 manns að okkur meðtöldum. Eftir að klappa fílunum og hlusta á leiðbeiningar var farið á bak. Tveir á hverjum fíl að viðbættum stýrimanni. Gulla og Rúnar Atli fóru saman og ég og Dagmar Ýr. Þurfti að ganga upp stiga áþekkum flugvélastiga til að komast á bak. Fílar eru heldur engin smásmíði. Síðan sest maður klofvega á fílinn í einhvers konar stól sem útbúinn hefur verið í þessum tilgangi. Síðan var lagt af stað - „einn fíll lagð'af stað í leiðangur, lipur var hans fótgangur, takturinn fannst honum heldur tómlegur, svo hann tók sér einn til viðbótar.“ - sönglaði í kollinum á mér.

Rúnar Atli og Gulla á leið upp landgöngustigann

Mæðginin komin á bak

„Mamma, fer þetta ekki að verða búið?“

Feðginin, sitjandi á Miss Ellie

Við vorum á rölti þarna í u.þ.b. klukkutíma. Ekki var farið hratt yfir, rétt gönguhraði. Athygli okkar vakti að einn maðurinn í fylgdarliðinu var með riffil. Spurði ég stýrimanninn okkar hverju þetta sætti. Jú, eitthvað er af buffölum á búgarðinum og þeim og fílum kemur víst frekar illa saman. Ef buffalar sjást þá er skotið upp í loftið til að hræða þá í burtu.

Hmm.

Hvernig skyldu fílar bregðast við riffilskoti?

Sem betur fer reyndi ekki á það.

Ég verð nú að viðurkenna að þetta var ekki með skemmtilegustu klukkutímum lífs míns. Tíu mínútur hefðu verið alveg nóg fyrir mig. Reyndar voru stuttir lærvöðvar mínir að angra mig því fílar, verður að segjast, eru frekar sverar skepnur. Ég er alls óvanur að sitja jafnútglenntur og nauðsynlegt er til að haldast á fíl. Reyndi ferðin því mikið á mína stuttu lærvöðva. Þegar túrnum lauk átti ég síðan í mestu erfiðleikum með gang. Hlæ að því núna, en mér var ekki hlátur í hug fyrsta kortérið eftir að ég komst aftur niður á jörðina.

En, ég hef farið á fílsbak, sem er fyrir mestu.

Síðan gáfum við fílunum að borða og síðan fengum við eitthvað smávegis í gogginn áður en farið var með okkur í kvikmyndasal nokkurn. Þar var okkur sýnd stuttmynd af ferð okkar, en hana var hægt að kaupa fyrir þrjátíu bandaríkjadali. Auðvitað gerðum við það. Hvað annað?

„Gjörðu svo vel“

Þegar við komum aftur á gistiheimilið var ég gjörsamlega magnþrota. Nennti engan veginn út að borða, svo við fengum okkur bara samlokur á gistiheimilinu. Sofnaði ég snemma og var þannig um fleiri.

20. ágúst 2009

Sá á kvölina sem á völina

Í gær fékk Tinna Rut bréf í póstinum. Var það frá Dalhousie háskólanum í Halifax, sem er á austurströnd Kanada. Í bréfinu var henni tilkynnt að hún fengi inngöngu í skólann frá og með janúar á næsta ári.

Við feðginin settumst því niður í gærkvöldi og skoðuðum námið sem hún hefur áhuga á og fleiri þætti í skólastarfinu. Er skemmst frá að segja að nú er dóttir mín á báðum áttum. Upphaflega langaði hana mest í háskólann í norður bresku Kólumbíu, sem hún fékk líka inngöngu í.

En, Dalhousie er líka spennandi. T.d. býður deildin sem hún færi í upp á þann möguleika að eyða einu sumri við háskóla á Kúbu. Er það hluti af náminu. Annar möguleiki er að fara til Afríku í nokkra mánuði, t.d. Senegal eða Rúanda.

Þ.a. nú stefnir í erfiða ákvörðun.

18. ágúst 2009

Ferðin til Simbabve: 1. hluti

Þá er loksins tími til að segja aðeins frá ævintýraferðinni til Simbabve. Nóttina áður gistum við í Namibíu eins norð-austurlega og hægt er. Þaðan eru ekki nema um 70 km til landamæra Namibíu og Botsvana. Frá þeim landamærum ókum við í gegnum smáhluta af Botsvana, líklega 80 km eða svo. Þá komum við að landamærum Botsvana við Simbabve. Frá landamærunum eru um 70 km til bæjarins sem heitir eftir Viktoríufossum, og var heimili okkar næstu þrjár nætur.

Ekki er hægt að segja annað en að ferðalagið þennan daginn hafi gengið vel. Ekki þó laust við að skriffinnskan væri fullmikil. Ætli hafi ekki tekið okkur vel á sjötta tíma að komast milli gististaða. Síðan lentum við í smáævintýri, enda hvað er ferðalag án þess?

Þannig var að í Botsvana voru engar merkingar hvar landamærastöðvarnar væru. Við komum þó að stað þar sem var endalaus röð af flutningabílum, 37 stykki taldist Gullu til. Við ókum framhjá þeim og komum að landamæraskrifstofunni. Förum þar inn og skriffinnskan byrjar. Þarna þurfti að fylla út brottfararblöð út úr Botsvana og síðan þurfti tímabundið útflutningsleyfi fyrir bílinn. Loksins kláraðist þetta svo við skriðum af stað í áttina til landamæranna. Þarna komu einhverjir gaurar hlaupandi, æstir í að hjálpa okkur hinumegin við landamærin. Við sjáum að þarna þurfum við að fara með lítilli ferju yfir Sambesi-á. Mér leist ekki alveg á það, gat ekki munað eftir að hafa lesið um ferju. Fer síðan að tala við mann, sem virðist vinna við ferjuna og hann fer að tala um hvað við verðum að gera Sambíumegin við ána.

Sambíumegin?

Haldiði að við höfum ekki verið á rangri landamærastöð!

Við þurftum því að snúa við og fara aftur inn á landamærastöðina. Stutt ferðalag úr landinu það... En sem betur fer voru botsvanskir landamæraverðir mjög skilningsríkir. „Aktu 500 metra til baka og beygðu til vinstri, þá kemurðu að réttum stað,“ var mér sagt. Og mikið rétt, hægt var að beygja til vinstri, engin skilti, og þar kom í ljós önnur landamærastöð. Aftur þurfti að fylla út brottfararspjöldin, en tollvörðurinn var til í að nota sama skammtímaútflutningsvottorðið fyrir bílinn.

Þá var bara ein landamærastöð eftir. Simbabve. Ekki var laust við smáhjartaslátt: skyldu allir pappírar vera í lagi?

Jú, jú, allir pappírar voru í lagi, en þarna var mikið peningaplokk. Dagmar Ýr var sú eina sem var ekki komin með vegabréfsáritun áður en við lögðum af stað, og fyrir hana þurfti að borga. Síðan þurfti innflutningsleyfi fyrir bílinn. Fyrir það þurfti að borga. Síðan var mengunarskatturinn. Hann þurfti að borga. Ekki má gleyma bílaleigubílagjaldinu. Það kostar að koma á erlendum bílaleigubíl. Og það þurfti að borga. Að lokum þurfti að kaupa skammtímakaskótryggingu þar sem bíllinn var útlendur. Fyrir hana þurfti að borga.

Já, það voru ekki fáir bandaríkjadalirnir sem skiptu um eigendur þarna.

Næsta skref var að tala við hliðvörðinn.

Sá skoðaði alla pappíra í bak og fyrir og tók í sína vörslu smápappírsstubba sem hann bar ábyrgð á. Svo sagði hann allt í einu: „Hún var að taka mynd af mér - ætlið þið ekki að borga mér fyrir?“ Við komum alveg af fjöllum - Gulla kannaðist ekkert við að hafa tekið myndir og ekki Dagmar Ýr heldur. Komumst við seinna að þeirri niðurstöðu að konan væri Doddi! Enda lengi þótt kvenlegur í vexti og töktum, ha-ha. Hann hafði tekið einhverjar myndir fyrir utan landamæraskrifstofuna og líklega tók hliðvörðurinn eftir því og álitið okkur álitleg fórnarlömb. Við þóttumst bara ekkert vita hvað maðurinn var að tala um og sögðumst aldrei taka myndir af fólk án leyfis. Hann hleypti okkur síðan í gegn með semingi.

Og við þar með komin til Simbabve.

Hér er skiltið sem bauð okkur velkomin. Greinilega komið aðeins til ára sinna.Ókum við svo af stað. Ekki vorum við komin nema einn, tvo kílómetra þegar við rákumst á fyrstu simbabvísku íbúana. Þrír fílar. Sem betur fer rákumst við ekki á þá í bókstaflegri merkingu. Hér er mynd af einum þeirra:


En þetta var eiginlega eina lífsmarkið sem við sáum þar til við komum til bæjarins. Ekkert fólk og engin skilti - ég veit ekki ennþá hver hámarkshraðinn í Simbabve á þjóðvegunum er.

Svo komum við til bæjarins og fundum gistiheimilið án vandræða. Mikið var gott að fá gin og tónik, skal ég segja ykkur. Gistiheimilið, Amadeus Garden Guesthouse, leit virkilega vel út. Við fengum hlýjar móttökur. Reyndar var allsstaðar tekið vel á móti okkur og greinilegt að Simbabvebúar kunna að meta ferðamenn. Katrín hét gestgjafinn okkar og vildi allt fyrir okkur gera. Við settumst niður með henni til að skoða hvað við gætum gert okkur til dundurs þessa þrjá daga. Sáum við fljótt að þrír dagar er alveg í það minnsta, enda margt hægt að gera. En þarna var útbúið prógramm fyrir dagana og sá Katrín síðan um að panta allt. Stóðst allt eins og stafur á bók.

Um kvöldið fórum við á veitingastað sem nefnist Boma. Þvílíkur staður. Ég er ekki viss um að hafa nokkurn tímann komið á veitingastað þar sem jafnmikið var í gangi. Ætli hafi ekki verið á sjötta tug gesta og sá ég ekki annað en allir hefðu skemmt sér þrælvel.

Þarna svignuðu borð undan mat. Vörtusvínarif voru æðislega góð. Sjást hér yfir hægum eldi.


Rúnar Atli hámaði í sig reyktan krókódíl og við Dagmar Ýr fengum okkur mopane-orma og hlutum viðurkenningar fyrir. Hér sést Dagmar Ýr taka við sinni viðurkenningu.


Öll fengum við andlitsmálningu og Dagmar Ýr lét gera nokkrar fléttur í hárið. Allir gestir fengu trommu í hendur og var frábær skemmtanastjóri sem tók okkur á stutt trommunámskeið.

Hér sést hluti af trumbusveitinni...

...og hér er Gulla í „full swing“


Þvílík stemming.

Það var varla að maður hefði tíma til að borða. Svo var sönghópur og síðan voru gestir dregnir út á dansgólfið.

Líklega tók kvöldmaturinn um þrjá klukkutíma og þetta var sannarlega peninganna virði.

Þeir lesendur sem eiga eftir að fara til Viktoríufossa: Ekki sleppa því að fara á Boma veitingahúsið. Alls ekki.

15. ágúst 2009

Tölvuvandræði

Hef átt í vandræðum með tölvuna mína undanfarna viku. Sá allt í einu að myndunum mínum fór hraðfækkandi á tölvunni. A.m.k. skv. forritinu sem heldur utan um myndirnar mínar. Þær voru ekki orðnar nema 4.000, en eiga að vera nær 14.000. Svo voru þær komnar niður í tvö þúsund, síðan níuhundruð og svo bara ekki ein einasta mynd. Ég viðurkenni að hafa fengið nett sjokk við þetta. En eftir að hafa blásið nokkrum sinnum í bréfpoka þá fór ég að leita á tölvunni og fann allar myndirnar. Sem betur fer.

Síðan fóru ýmsir furðulegir hlutir að gerast, þ.a. ég fór að leita aðstoðar mér reyndari tölvugúrúa. Þeir voru nú ekki alltof bjartsýnir, enda tölvan frá árinu 2002. Var sett saman í Quanta verksmiðjunni í Tævan í þrettándu viku þess árs. Hún er því orðin rúmlega sjö ára gömul.

En falleg er hún...


Ég fékk leiðbeiningar og fór að dunda mér í björgunaraðgerðum. Þurfti að „strauja“ tölvuna, þ.e. þurrka allt útaf henni og byrja alveg frá grunni. Þetta hefur tekið nokkrar kvöldstundir, og enn er eitthvað eftir. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ekkert bólar á þeim vandræðum sem voru að hrjá mig. Líklega er tölvan því í góðu lagi og vesenið tengt einhverjum forritsstubbi sem hefur sýkst.

Útaf þessu hefur verið bið á Viktoríufossaferðasögunni, en nú styttist í hana.

31. júlí 2009

Lykill, hvað?

Í gær komum við til Rúndú, bæjar austarlega í Namibíu við Kavangó-ána. Sú á skilur að Namibíu og Angólu. Áum við á snyrtilegu gistiheimili í Rúndú. Nú sit ég á verönd gistiheimilisins. Útsýnið er fallegt. Sé ég yfir grasi gróinn dal sem áin rennur í gegnum og hinum megin sé ég Angólu. Paradís lítur ábyggilega út í líkingu við þetta.

Mér á vinstri hönd er herbergisálman, en úr herbergjunum er gengið út í garðinn og þaðan hægt að komast á fyrrnefnda verönd. Fyrr í dag sátum við á veröndinni en Rúnar Atli var að stússast í herberginu okkar. Þótti mér óþægilegt að hann skildi hurðina eftir ólæsta þegar hann kíkti öðru hverju á veröndina til okkar hinna. Gekk ég því með honum að herberginu og sýndi honum hvernig hurðinni er læst. Æfði hann sig nokkrum sinnum og gekk vel. Skildu svo leiðir, ég settist á veröndina og hann fór að leika sér í herberginu. Nokkru síðar kemur hann gangandi.

,,Læstirðu hurðinni, kallinn minn?'' spurði ég.

,,Já, ég gerði það,'' var svar guttans.

,,Hvar settirðu lykilinn?'' var næsta spurning mín.

,,Hann er í skránni,'' kom svarið.

,,Ha, tókstu hann ekki með?''

,,Nei, af hverju?''

Kennslunni var greinilega ábótavant.

28. júlí 2009

Meiriháttar ferðalag í uppsiglingu

Seinnipartinn á morgun leggjum við í meiriháttar ferðalag. Doddi mætir á svæðið rúmlega tvö og síðan verður haldið í 3.500 km ferðalag. Fyrsti hluti ferðarinnar er vinnutengdur, en á fimmtudaginn verð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að afhenda þrjár skólastofur í nýjum skóla fyrir heyrnarlaus börn. Skólastofurnar eru byggðar fyrir íslenskt fé. Skólinn er á stað sem nefnist Eenhana og er rétt sunnan við angólsku landamærin. Síðan ökum við sem leið liggur til austurs til Rundu, en það er stærsti bærinn í Kavangó-sýslu. Þar á ég fund á föstudaginn. Síðan er ég kominn í viku frí.

Við höldum síðan enn austar, og förum inn í strípuna svokölluðu. Kapríví-sýsla. Áum við í tvær nætur í Kapríví húsbáta safaríi. Síðan hefst aðalævintýrið. Við höldum suður yfir landamæri Namibíu og Botsvana. Þaðan liggur leiðin enn í austur og nú til Simbabve, en við stefnum á Viktoríufossana. Fossarnir teljast jú eitt af náttúruundrum veraldar og er því nokkur tilhlökkun á bænum vegna þessa. Þarna verður við í þrjár nætur. Á fimmtudag í næstu viku höldum við aftur til Namibíu og tekur okkur tvær nætur til viðbótar að komast aftur til Windhoek.

Því miður kemst Tinna Rut ekki með, því skólinn gengur fyrir.

16. júlí 2009

Gleði í kofanum

Þá er Dagmar Ýr komin á staðinn. Rúnar Atli er mjög ánægður með það. Við morgunverðarborðið í morgun spurði ég hann hvort hann væri í góðu skapi.

,,Já, Dagmar Ýr kemur á eftir."

Þurfti ekki að segja neitt meira.

En eftir smástund bætti hann við: ,,Þegar hún fer aftur til Íslands, þá verð ég leiður."

Æi, já.

15. júlí 2009

Hún er á leiðinni.... alltaf á leiðinni...

Þá situr Dagmar Ýr á Heathrow. Rúmur klukkutími í brottför hjá henni. Hún lendir í Jóhannesarborg snemma í fyrramálið og verður komin til Windhoek 20 mínútur fyrir ellefu. Við hlökkum öll mikið til.

12. júlí 2009

Kleinubakstur

Stundum þarf lítið til þess að koma manni í gang. Var að blaða á snjáldurskjóðunni áðan og einhver minntist á kleinur.

Meira þurfti ekki til.

Ég leitaði að kleinuuppskrift á netinu, sendi Tinnu út í búð að kaupa plöntuolíu, og síðan var ráðist í bakstur.

Auðvitað þarf aðstoðarbakara. Báðir með svuntur og svo er hrært eins og lífið eigi að leysa.

Tilheyrir ekki að smakka? Hvorum skyldi frekar langa í bita?

Eitthvað var deigið slepjulegt, en það er bara skemmtilegra.

Kleinurnar tókust vel.

Stjörnuskoðun

Fyrir nokkru uppgötvaði Rúnar Atli stjörnukíkinn hennar Tinnu Rutar. Kíkirinn hefur verið geymdur ofan í kassa í mörg ár. Guttinn hefur hins vegar séð svona græju í búðum hér og þykir mikið til koma. Vildi endilega kaupa eitt stykki, en föðurnum þótti skynsamlegra að ná í kíki systurinnar úr geymslu.

Fyrr í dag þá var kíkirinn prufukeyrður. Fyrst þurfti þó að klæða sig í múderingu. Kalt í Windhoek þessa dagana og svo er eitt vandamál sem þurfti að leysa. Nefnilega hversu erfitt er að loka bara einu auga og nota hitt til að horfa í kíki.

En á vandamálinu fannst lausn.

Svo þarf að stilla fókusinn.


...og síðan kíkja.
Kíkirinn er auðvitað fyrst og fremst til stjörnuskoðunar. Glöggir lesendur hafa sjálfsagt tekið eftir að kíkirinn er ekki alveg í réttri stöðu til að skoða himintunglin. Enda er verið að prufukeyra gripinn og því auðveldara að byrja á garði nágrannanna...

8. júlí 2009

Háskólapælingar

Er að kíkja aðeins á háskólann sem Tinna Rut fékk inni í. Byrjaði á kortavef Google og náði í meðfylgjandi mynd. Títuprjónninn með A-inu sýnir Prins Georg. Töluverð fjarlægð frá Íslandi. Tala nú ekki um frá Namibíu. En fjarlægð er nú ekki endilega vandamál. Tímamunurinn er töluverður og hann getur pirrað mann allhressilega. Sjö til átta tíma munur á Íslandi og Prins Georg og einum til tveimur meira við Namibíu.

En staðurinn er nú fallegur. Ég fann meðfylgjandi mynd á netinu:

Þarna er háskólasvæðið og bærinn í bakgrunni. Þessi mynd er tekin á fallegum haustdegi í september. Spurning hversu snjóþungt er yfir háveturinn. Hún dóttir mín ætti a.m.k. að geta lært á skíðum.

Fann hér mynd tekna að vetri til. Bara temmilegur snjór. En byggingin er glæsileg.

Sá aðra mynd. Tekin af Tekönnu-fjalli. Veit nú ekki alveg hvar það er, en útsýnið er frábært.

Jú, ábyggilega verður stórkostlegt ævintýri fyrir elsku dóttur mína að fara á þennan stað. Breska Kólumbía er útivistarparadís, svo kannski endar dóttir mín sem fjallgöngu- og útivistargella. Hver veit?

5. júlí 2009

Fagnað með Tinnu Rut

Í gærkvöldi fékk Tinna Rut gleðifréttir. Hún hefur fengið inni í háskóla þeim sem hana langaði mest til að komast í. Háskóli Norður Bresku Kólumbíu heitir sá. Er lengst í rassgati, í tæplega 80 þúsund manna bæ sem nefnist Prince George, eða Prins Georg á því ylhýra.

Hún er að vonum ánægð og það erum við foreldarnir líka. Auðvitað verður erfitt að sjá af ,,barninu'' í burtu og það enga smávegalengd. En það er gaman þegar draumarnir rætast og verða að veruleika smátt og smátt.

Við keyptum því freyðivínflösku í tilefni fréttanna og Tinna Rut fékk að opna flöskuna.,,Bíddu á ekki eitthvað að gerast?''


... og þá flaug tappinn eitthvert út á bílaplan. Eins gott við höfðum vit á að opna flöskuna úti á verönd :-)


Hér erum við þrjú svo að skála. Rúnar Atli var myndasmiðurinn að þessu sinni

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...