29. desember 2009

Bílleysi = heilbrigði?

Tók daginn snemma. Var mættur í laugina rétt fyrir sjö. Einn að þessu sinni, því Rúnar Atli gisti hjá Loga Snæ frænda sínum. Synti 300 metra og var bara frískur að því loknu. Potturinn síðan alltaf góður.

Ók síðan sem leið lá inn í Kópavog og skildi bílinn eftir á bílaverkstæði. Bíllinn er nýtekinn upp á því að leka vatni af vatnskassanum og það í nokkru magni. Svo var flautan líka hætt að virka, sem er hið versta mál í reykvískri umferð. Þetta þurfti að lagfæra.

Arkaði svo frá Skemmuveginum upp í Æsufellið. Kannski í kringum 25 mínútur á leiðinni. Fékk mér morgunmat og síðan tókum við Tinna Rut strætisvagn niður á Háaleitisbraut. Heimsóttum þar hnykkjara. Síðan þurfti að taka strætisvagninn til baka, en það vafðist aðeins fyrir okkur. Fundum hreinlega ekki stoppustöð sem á að vera í Fellsmúlanum! Því örkuðum við niður á Miklubraut og á stoppustöð gegn Hagkaupum í Skeifunni.

Komum svo heim.

Þá langaði Gullu í göngutúr. Við hjónin röltum því af stað og gengum stóran hring hér í Fellunum. Skoðuðum alls konar fyrirtæki og stofnanir sem eru hér. Furðuðum okkar á miklu fjölda gervihnattadiska sem sitja hér á fjölbýlishúsum.

Síðan þurfti auðvitað að sækja soninn. Við náðum því í snjóþotu guttans og töltum niður brekkuna í neðra Breiðholtið og stungum okkur inn í Bakkana. Sigga var auðvitað nýbúin að baka fína tertu, enda enn verið að prufukeyra fínu Kitchenaid hrærivélina. Að lokum var sonurinn dreginn á snjóþotunni upp í hið efra. Efra Breiðholt, þ.e.a.s.

Klukkan var farin að nálgast fimm þegar hér var komið. Fréttist þá að bílinn væri tilbúinn, og hafði ég um tuttugu mínútur til að sækja hann. Enn var því brunað af stað og hálfskokkað niður hæðina, arkað framhjá Mjóddinni, smogið undir Reykjanesbrautina, og síðan niður Skemmuveginn.

Mikið var gott að setjast upp í bílinn og aka af stað.

Ég kíkti á Google earth áðan og nýtti mér mæligræjur sem þar eru til að skjóta á hversu langt ég hefði gengið. Sýnist mér að í kringum níu kílómetrar hafi verið lagðir að baki í dag.

Er ég ósköp ánægður með heilsuræktina, en verð að viðurkenna að strengir eru farnir að gera vart við sig.

Væri ég til í að vera bíllaus? Varla, en sýnist þó að efra Breiðholtið sé líklega með betri stöðum bæjarins ætli maður að taka upp á þvílíku.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

og þú sem ætlaðir aldrei að eiga heima í breiðholtinu :-)

Nafnlaus sagði...

Breiðholtið rokkar

gulla

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...