5. desember 2009

Sprækur sem lækur!

Sit ásamt börnunum mínum tveimur í flugvallarsal 1 á Heathrow flugvellinum. Hingað til hefur ferðalagið gengið vel. Á flugvellinum í Windhoek var ekki ein einasta hræða við innritunarborðið, þ.a. innritun gekk hratt og vel fyrir sig. Í Jóhannesarborg var aðeins meira mál að innrita sig, en S-Afríkanar eru víst að reyna að koma nýju tölvukerfi í gagnið á flugvöllunum fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári. Greinilega eru einhverjir hnökrar enn, því næstum því hver einasti farþegi virtist skapa vandamál. Við gerðum það líka, því Tinna Rut var á sérflugmiða, því hún ferðast jú bara aðra leiðina í þetta sinn. En allt gekk þetta að lokum.

Langa flugið, 10 tímar og 25 mínútur, gekk vel. Sjónvarpskerfið hjá British Airways er alveg meiriháttar flott. Hver með sinn sjónvarpsskjá, og ábyggilega á fjórða tug mynda sem hægt er að velja úr. Rúnar Atli sofnaði síðan yfir kvöldmatnum sínum og síðan vaknaði hann bara ekki fyrr en klukkutíma fyrir lendingu. Eðaldrengur. Meira að segja var erfitt að vekja hann. Við hin áttum þokkalega nótt. Duttum sjálfsagt í nokkra klukkutíma með hléum.

Síðan lentum við hér rúmlega fimm í morgun. Smáferðalag var að komast úr flugvallarsal 5 til salar 1 og svo þurfti að fá brottfararspjöld. Gaurinn var ekki viss hvort farangurinn okkar hefði fylgt okkur... en kannski var bara ekki búið að staðfesta komu hans í tölvukerfinu. Við vonum það besta.

Við erum núna búin að koma okkur vel fyrir rétt við dyr Harrods hér í biðsalnum. Mynduðum skjaldborg með handfarangri og úlpum svo engir færu að abbast upp á okkur ;-)

Enn eru rúmir fjórir tímar til brottfarar, en okkur líður bara vel.

1 ummæli:

Gulla sagði...

Vonandi verður tíminn ekki alltof lengi að líða - hlakka til að fá ykkur heim

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...