28. september 2006

Ferðalag

Var að koma úr ferðalagi. Fór af stað á bílaleigubíl klukkan fimm í
gærmorgun. Ók sem leið lá suður á bóginn. Tók fimm hundruð kílómetra á
fjórum tímum sléttum. Svo það sé nú á hreinu, þá er hámarkshraði á
þjóðvegunum hér 120 km/klst.

Ég átti fundi í Keetmanshoop klukkan tíu í gærmorgun og var ég mættur
um klukkutíma fyrr. Þokkalegasti bær, Keetmanshoop, a.m.k. svona við
fyrsta rúnt um bæinn. Hef ekki komið þarna nema einu sinni eða tvisvar
og þá bara til að kaupa bensín. Að fundi loknum hélt ég ferð minni
áfram til Luderitz, en þar átti ég fund klukkan þrjú. Frá Keetmanshoop
til Luderitz eru 350 km, þ.a. þar voru tveir tímar og 30 mínútur til
viðbótar í akstri. Nú var sko gott að hafa iPodinn minn nýja sem ég
keypti í Fríhöfninni á leiðinni út um daginn. Keypti mér líka svokallað
iTrip sem gerir kleyft að hlusta á iPodinn í gegnum útvarpið í bílnum.
Hrein snilld.

En mikið er nú Namibía flott land. Sumstaðar er landslagið svo
stórbrotið að maður á bara ekki orð.

En ég var sem sagt á þessu fundarstússi. Fór svo í skoðunarferð um
fátækrahverfi Luderitz með manni af bæjarskrifstofunni. Sama er hversu
oft maður kemur í svona hverfi, alltaf er það jafnnöturlegt. Þvílík
heppni að maður skyldi álpast til að fæðast á Íslandi. Ef þið spáið í
það, þá eru líkurnar á því að fæðast þar frekar litlar. Sex milljarðar
manns búa á jörðinni, og reyndar svolítið meira, og 300.000 af þeim búa
á Fróni. 0,005% líkur á að vera Íslendingur.

En kannski getum við eitthvað aðstoðað þetta fólk, þótt í litlum mæli
sé.

Flaug svo heim í dag og mikið var gott að komast aftur heim. Þoli ekki
hótelherbergi, hreint út sagt.

Síðan á morgun liggur leiðin norður í land, til Opuwo í Himbalandi.
Þangað eru u.þ.b. 670 km, ef minnið bregst ekki, svo aftur þarf að
keyra. Er með iPodinn í hleðslu...

23. september 2006

Salernisferðir

Hann sonur minn er eitthvað farinn að spá af alvöru í þetta með
koppinn... Hann er farinn að setjast svolítið á hann á kvöldin. Talar
líka svolítið um þessi mál, pissa og kúka og þar fram eftir götunum.

Svo í dag, sjálfsagt um fjögurleytið kemur hann til mín og fær því
framgengt að ég taki af honum bleyjuna, því hann þurfi að kúka. Nú, ég
fer og fylgist með gutta þar sem hann baksar með koppinn. Vandamálið
hjá honum er að hann situr ekki meira en svona þrjár sekúndur í einu á
koppnum. Þá þarf að færa hann til, nú eða setja fótinn ofan í hann, eða
setja hann á höfuðið. Eða bara eitthvað.

Eftir einhverja stund gefst ég upp á þessu og segi honum að láta mig
vita þegar hann vilji fá bleyju. Hann var þegar þarna er komið sögu
allsber. Síðan fer ég að lesa Moggann á tölvunni. Eftir smástund kemur
hann vælandi efst í tröppurnar, útataður í einhverju brúnu... Haldiði
að hann hafi ekki kúkað á mitt hjónaherbergisgólfið...

Ég þýt auðvitað til og skelli honum ofan í baðkarið og spúla drenginn
hátt og lágt. Hann var nú ekki sáttur við þá meðferð get ég sagt ykkur.
Finn síðan teppahreinsi og náði þessu bara öllu úr teppinu. Vann jú í
Teppalandi á sínum tíma og þurfti stundum að ráðleggja fólki í gegnum
síma með blettahreinsun úr teppum.

Svo fór ég að segja við hann að hann mætti ekki kúka á gólfið - neih,
sagði hann - hann yrði að kúka í koppinn - jáh, sagði hann. Hann var
svo ræfilslegur karlanginn að það var algjör bíó. Hann greinilega
skammaðist sín niður í tær.

En ég var nú ánægður með að hann skuli koma svona áður en hann kúkar.
Hann vissi greinilega hvað var að fara að gerast hjá sér, þ.a. kannski
verður hægt að venja hann af bleyjunni innan of langs tíma, hver veit.
Ég er svona að velta fyrir mér að taka bara eina helgi í þetta einhvern
tímann á næstunni. Undirbúa þetta svona eins og klippinguna, sem sagt
ræða þetta einhverja daga á undan og byrja svo bara
föstudagseftirmiðdag að hafa ekki bleyju á honum.

Vandamálið er bara að finna góða helgi. Leyfi ykkur að fylgjast með
þessum málum.

Klipping

Í morgun var loksins látið verða af því að fara með Rúnar Atla í klippingu. Útaf krullunum hans hef ég ekki alveg treyst mér útí þetta sjálfur. Ræddi fyrir nokkru við dömuna sem klippir mig alltaf og samdist okkur til að ég mætti bara með Rúnar Atla þegar ég færi í klippingu og svo sæjum við til.

Í morgun, sem sagt, rann þessi dagur upp. Ég var búinn að undirbúa Rúnar Atla í marga daga til að þetta kæmi honum nú ekki á óvart. Hann er jú frekar hvekktur á ókunnugu fólki sem ætlar að gera eitthvað við hann, alveg síðan hann fór í sprautupakkann fyrir Namibíuferðina.

Honum leist nú ekki alltof vel á þegar hárið á mér var þvegið. Grét örlítið, en hætti því svo. Síðan sat hann við hliðina á mér þegar ég var klipptur. Virtist nú ekkert rosalega spenntur. Lét sig þó hafa það að koma í fangið á mér og var frekar duglegur á meðan hann var klipptur. Einstaka grátsvetta kom, en ekkert til að hafa áhyggjur af.

Ekki mátti gleyma að fá fyrsta lokkinn og var ég með lítinn poka til að safna hári í. Var það gert svikalaust.

Núna er guttinn mjög hreykinn af sjálfum sér, og má það líka alveg.


19. september 2006

Símatími

Alveg er nú þetta blessaða símaforrit, Skype, frábært. Ég tók mig til
og skellti nokkrum evrum inn á skæpið til að geta hringt í heimasíma
beint út tölvunni. Nú er ég búinn að prófa að hringja í nokkur númer,
bæði heima á Fróni og einnig í Svíþjóð og er ég mjög ánægður með gæðin.
Einna verst kom út að hringja í farsíma í Svíþjóð. Þegar ég sá síðan að
hringing í svoleiðs græju er næstum 20-falt dýrari en að hringja í
heimasíma í því mæta (hóst, hóst) landi, þá ímynda ég mér ekki að ég
geri þetta aftur.

Talandi um kostnað. Samtals hef ég talað í 45 mínútur síðan ég fór að
prófa þetta. Ekki er þetta nú dýrt, heilar 152 krónur hef ég greitt
fyrir þessi símtöl.

Ætli þetta sé ekki bara ódýrara en að hringja innanlands á Íslandi?

17. september 2006

Menning

Í dag fórum við Rúnar Atli á lista- og menningarhátíð Windhoekborgar.
Hún er haldin á hverju ári, hófst í þetta sinn á fimmtudaginn var og
lauk í dag. Við sátum í tvo og hálfan tíma og hlustuðum á ýmsar
tónlistaruppákomur. Hver hljómsveit/kór/einstaklingur hafði u.þ.b. tíu
mínútur til að syngja, þ.a. við heyrðum í nokkrum fjölda atriða. Fæstir
voru með hljóðfæri, heldur var bara söngur. Fæstir sungu á ensku, þ.a.
ég var sjaldnast með á hreinu hvað lögin fjölluðu um. Grunar mig þó að
mörg hafi verið dýrðarsöngvar um drottinn.

Ég skemmti mér bara ágætlega, ekki síst við að fylgjast með áhorfendum.
Oft var mikið hrópað og kallað og klappað þegar vel tókst til og oft
tekið undir þegar þekkt lög voru sungin.

Fyrir framan okkur var lítil stelpa, sennilega á svipuðum aldri og
Rúnar Atli. Skemmtilegt var að fylgast með henni því ef lögin voru
skemmtileg að hennar mati þá stóð hún í sætinu sínu og dillaði sér og
klappaði. Greinilega tónlistin í blóð borin.

16. september 2006

Svíagrýla...

Ég hef nú aldrei þótt neinn sérstakur Svíavinur. Ýmislegt er nú sjálfsagt ágætt við Svíaríki, t.d. er svilkona mín, hún Pía, alveg stórfín. Reyndar er hún Finni að hálfu. Gæti haft eitthvað að segja, veit það ekki.

En svona almennt væri niðurstaða utanaðkomandi skoðunarmanns líklega að Svíþjóð sé ekki í miklu uppáhaldi hjá mér.

Sérstaklega á þetta auðvitað við um íþróttir. Kannski er allt annað við Svíþjóð í fínu lagi. En á íþróttasviðinu, nei, mér líkar bara ekki við sænsk landslið af neinu tagi. Svíar eru náttúrulega svo hryllilega montnir þegar kemur að íþróttum að það slær meira að segja út höfðatölurembing okkar Íslendinga. Þá er nú mikið sagt, en samt satt.

Þið getið því ímyndað ykkur hvernig mér líður þessa dagana... Ástandið er nefnilega þannig að í þau skipti sem ég geng með syni mínum að fataskápnum hans og spyr hvaða föt hann vilji fara í, þá segir hann: „Dodda, Dodda.“ Er hann að skírskota til þess að móðurbróðir hans, Doddi, hefur gefið honum föt sem hann vill endilega fara í.

Kannski væri þetta ekki í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að þessi föt eru tvær sænskar fótboltalandsliðstreyjur og einar stuttbuxur við. Ég þarf sem sagt að taka út treyjurnar tvær og leyfa syninum að velja hvora hann vill. Síðan þarf að klæða hann í þessa múderingu. Ég get svo svarið fyrir það að svitinn sprettur út á andlitinu á mér við að klæða drenginn í, og helst þarf ég að fá mér gin og tónik til að ná hjartslættinum niður.

Ekki bætir úr skák að önnur treyjan er með nafni sænsks leikmanns á bakinu. Sá spilar auðvitað með Arsenal, af öllum liðum. Þvílík örlög að þurfa að ganga í gegnum svona lagað. Doddi gætti sín auðvitað á því að láta merktu peysuna vera það stóra að hún nær niður að hnésbótum á vesalings barninu.

Best að fara að panta tíma fyrir Rúnar Atla strax hjá Dr Phil og Oprah...

14. september 2006

Bíladella

Rúnar Atli er nú alveg frábær. Fyrr í dag var ég að sækja hann af leikskólanum. Við erum með ákveðna rútínu þar sem ég læt hann hafa bíllykilinn og svo opnar hann bílinn þegar við komum út á plan.

Í dag þó brá hann út af vananum og lét mig hafa bíllykilinn til að geta lokað hliði sem er þarna, en það er með krók í góðri hæð fyrir hann. Síðan þegar hann er búinn að loka vill hann ekki fá lykilinn aftur. Mjög óvanalegt.

Hann stendur bara við hliðið og bendir eitthvað og segir „pló, pló“.

Ég skil ekki neitt í neinu en fæ hann nú til að leggja af stað í áttina að bílnum, svo við löbbum aðeins lengra. Enn vill hann ekki lykilinn, stoppar aftur og bendir:

Pló, pló, pló

Ég fer því að horfa betur í kringum mig og sé að hann er að benda á fólksvagn af Póló gerð! Pló var semsagt Póló.

Það er nefnilega Póló í vinnunni hjá mér og ég nota þann bíl stundum. Sótti Rúnar Atla á honum fyrir nokkrum dögum. Lykillinn á þeim bíl er nefnilega svo flottur að Rúnars Atla mati. Ef maður ýtir á lítinn takka þá skýst lykillinn út. Hann vildi sem sagt svoleiðis lykil, úr því hann sá Póló á staðnum.

Að lokum tókst mér að sannfæra hann að koma í Toyotuna eins og venjulega.

En drengur þekkir greinilega bílana sína.

9. september 2006

Komin til Windhoek

Komin á leiðarenda eftir langt ferðalag. Það fyrsta sem ég gerði eftir
að koma aftur hingað var að koma börnunum í rúmið og fór síðan í sturtu
sjálfur. Reyni ekki að lýsa vellíðaninni þegar ég setti á mig
svitalyktareyði og rakspíra. Líkamsanganin var nefnilega orðin
fullsterk...

Ferðalagið gekk annars alveg ágætlega. Auðvitað komu tímabil sem ég var
orðinn frekar þreyttur og pirraður. Sér í lagi um þrjúleytið í nótt að
namibískum tíma. Þá var Rúnar Atli búinn að sofa í tvo tíma, þar af
þann seinni í fanginu á mér, og fór að brjótast um. Það var alveg
lífsins ómögulegt að koma mér fyrir á þannig hátt að hentaði okkur
báðum. Á þessum tímapunkti vorum við búin að vera í langa fluginu í
u.þ.b. fjóra tíma og ég sá fram á fimm tíma til viðbótar í þessu
pyntingartæki sem flugvélasæti eru. Mig grunar satt að segja að þeir
sem hanni þessi sæti hafi aldrei flogið langflug. Og alls ekki með
börn. T.d. er lífsins ómögulegt að fá arminn milli sætanna að haldast
uppi þ.a. hægt sé að treysta að hann komi ekki húrrandi niður. Síðan er
lagið á þessum sætum bara aldeilis ómögulegt. Svipað og
tannlæknastólar, búnir til eftir einhverri meðaltalspersónu sem er bara
ekki til.

En það fór betur en á horfðist, mér tókst að koma Rúnari Atla þannig
fyrir að hann gat sofið áfram og ég dottað með. Hins vegar slappar
maður engan veginn af þegar barnið er sofandi við hliðina á manni og
gæti dottið niður á gólf... En guttinn svaf örugglega í fimm og hálfan
tíma og var bara hress á milli. Reyndar kastaði hann upp í lendingu, en
það reddaðist nú. Blauttissue og bréfaþurrkur ávallt tilbúnar :-)

Tinnu Rut leið heldur ekki vel þegar hún vaknaði rétt fyrir morgunverð.
Munaði minnstu að hún kastaði upp, en það leið svo hjá. Nóg að gerast.

Á Íslandi lentum við í heilmikilli töf. Flugmaðurinn virðist hafa
einhverjar ákveðnar 15 mínútur til að koma sér af stað. Einhverra hluta
vegna dróst það hjá okkur og það þýddi bara klukkutíma seinkun. Og
allir komnir út í vél. Þannig að við sátum í klukkutíma í vélinni fyrir
utan Leifsstöð. Æðislega gaman, eða hitt þó heldur. En Rúnar Atli var í
stuði og eftir matinn svaf hann í góðan klukkutíma.

Á Gatwick var drengur dúndurhress. Hann hljóp um alla rangala sem við
þurftum að fara. Ég held ég hafi bara ekkert haldið á honum. Svo hagaði
hann sér vel á eðalstofunni, reyndar svolítið hvell röddin stundum, en
ekkert sem var neinum til ama.

Alveg er frábært að sjá muninn á Rúnari Atla núna og í janúar þegar við
fluttum. Núna spáir hann svo mikið í flugvélarnar og allt sem í þeim
er. Hann lærði núna af reynslu að ekki borgar sig að kalla á
flugfreyjurnar að óþörfu :-) Sá takki var ó-ó eftir það. Síðan spennti
hann á sig beltið og hlýddi orðalaust að ekki mátti taka borðið út fyrr
en sætisbeltaljósið væri farið. Gaman að þessu.

Í heildina gekk ferðin bara vel. Smáleiðindakaflar, en ekkert sem er
ekki þegar farið að gleymast.

8. september 2006

HA?

Forsíðufyrirsögn í Fréttablaðinu hljóðaði svo:

„Fyrirliði íslenska landsliðsins ósáttur í leikslok og strunsaði beint út af vellinum: Áhorfandi slasaðist í stúkunni.“

Naumast þetta hefur verið struns á honum Eiði Smára! Oft hefur verið talað um að eiga fótum sínum fjör að launa, en þessi áhorfandi hefur greinilega verið með náladofa í fótunum og ekki náð að forða sér úr vegi Eiðs Smára.

Hvernig er eiginlega með prófarkalestur? Ég meina, á forsíðunni...

7. september 2006

Frændurnir

Rúnar Atli kynntist mörgu fólki í Íslandsförinni. Flott fannst honum að hitta Loga Snæ, einn gaur í sinni líkamsstærð. Fór vel á með þeim eins og sést.

Sundgarpar

Við Rúnar Atli höfum tekið sundið með trompi þessa daga á Fróni. Að undanskildum laugar- og sunnudegi höfum við farið í sund á hverjum einasta degi. Ég sé líka mikla breytingu á honum. Fyrsta daginn var hann límdur við mig, grét í sturtu, og var bara almennt ekki sáttur við suma hluti tengda sundferðinni. Í dag, hins vegar, réð hann sér ekki fyrir kátínu í lauginni. Lét sig fljóta á meðan ég var eitthvað að sniglast í kringum hann. Heimtaði margoft að fá að hoppa af bakkanum útí laugina og vildi svo endalausar ferðir í rennibrautinni. Meira að sega reif hann mig úr heita pottinum, sem er okkar afslöppun, til að fara eina bunu til viðbótar. Og sturtan... ekkert mál.

Nú er stefnan að reyna að fara sem oftast í þær tvær sundlaugar í Namibíu sem eru upphitaðar. Önnur er u.þ.b. 90 km fyrir norðan Windhoek, Gross Barmen heitir staðurinn, nálægt Okahandja fyrir þá sem hafa komið í heimsókn. Hin er svipaða vegalengd í suðurátt, í Rehoboth.

Kannski við förum bara núna á sunnudaginn til Gross Barmen, hver veit?

Líður að heimför

Þá er Íslandsheimsókninni að ljúka. Búið að vera gaman, en kannski fullstutt. Í dag hefur verið þeytingur. Klára allt sem þarf að klára. Byrjaði eiginlega í gær þegar ég sló blettinn. Alla 600 fermetrana eða hvað þetta nú er. Svo í dag þurfti að gera við vatnsdæluna sem sér um að húsið fari ekki á flot. Einhver gáfaður hafði notað venjulega kló og vafið einangrunarlímbandi utanum. Svo gaf þetta sig undan veðri og vindum einhvern tímann í sumar og sló allt út í kjallaranum. En nú er þetta komið í lag. Svo þurfti að fara með dót á haugana og setja upp hillur í herberginu hennar Dagmarar. Síðan þurfti að skjótast á pósthúsið og einnig fara í Tryggingarmiðstöðina, því ein taskan kom seint. Einhverjar bætur þarf að fá vegna þess. Annar bíllinn þurfti í viðgerð líka...

Nú sit ég hér dauðþreyttur og pikka þetta inn, en hún Gulla mín er að elda fiskibollur handa okkur. Þannig gómsæti fæst ekki í búðum í Namibíu.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...