16. september 2006

Svíagrýla...

Ég hef nú aldrei þótt neinn sérstakur Svíavinur. Ýmislegt er nú sjálfsagt ágætt við Svíaríki, t.d. er svilkona mín, hún Pía, alveg stórfín. Reyndar er hún Finni að hálfu. Gæti haft eitthvað að segja, veit það ekki.

En svona almennt væri niðurstaða utanaðkomandi skoðunarmanns líklega að Svíþjóð sé ekki í miklu uppáhaldi hjá mér.

Sérstaklega á þetta auðvitað við um íþróttir. Kannski er allt annað við Svíþjóð í fínu lagi. En á íþróttasviðinu, nei, mér líkar bara ekki við sænsk landslið af neinu tagi. Svíar eru náttúrulega svo hryllilega montnir þegar kemur að íþróttum að það slær meira að segja út höfðatölurembing okkar Íslendinga. Þá er nú mikið sagt, en samt satt.

Þið getið því ímyndað ykkur hvernig mér líður þessa dagana... Ástandið er nefnilega þannig að í þau skipti sem ég geng með syni mínum að fataskápnum hans og spyr hvaða föt hann vilji fara í, þá segir hann: „Dodda, Dodda.“ Er hann að skírskota til þess að móðurbróðir hans, Doddi, hefur gefið honum föt sem hann vill endilega fara í.

Kannski væri þetta ekki í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að þessi föt eru tvær sænskar fótboltalandsliðstreyjur og einar stuttbuxur við. Ég þarf sem sagt að taka út treyjurnar tvær og leyfa syninum að velja hvora hann vill. Síðan þarf að klæða hann í þessa múderingu. Ég get svo svarið fyrir það að svitinn sprettur út á andlitinu á mér við að klæða drenginn í, og helst þarf ég að fá mér gin og tónik til að ná hjartslættinum niður.

Ekki bætir úr skák að önnur treyjan er með nafni sænsks leikmanns á bakinu. Sá spilar auðvitað með Arsenal, af öllum liðum. Þvílík örlög að þurfa að ganga í gegnum svona lagað. Doddi gætti sín auðvitað á því að láta merktu peysuna vera það stóra að hún nær niður að hnésbótum á vesalings barninu.

Best að fara að panta tíma fyrir Rúnar Atla strax hjá Dr Phil og Oprah...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann tekur sig nú rosalega vel út í Svíagallanum þessi elska :-) Ekki skemmir fyrir að hann sé merktur Ljungberg sem, eins og þú bentir svo skemmtilega á, spilar með Arsenal -Go Arsenal

kk,
Gulla

Davíð Hansson Wíum sagði...

Nei Villi, núna þarft þú að fara að spýta í hvað uppeldið varðar ef ekki á illa að fara. Ljungberg, Arsenal og Svíþjóð... þetta verður ekki mikið sorglegra.

Nafnlaus sagði...

Heja SVERIGE við Rúnar erum bestir
Við svíar erum ekki montnir við erum bara bestir. Í NHL eru 6 af 24 fyrirliðum svíar, við leyðum okkar riðil fyrir EM í fótbolta og svona get ég haldið áfram lengi lengi en læt þetta duga:-)
ps. eina mynd af þér í gjöfini sem þú fékst frá okkur

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir það sem Doddi segir og vil gjarnan fá eina mynd af þér í gjöfinni frá Svíþjóð :-)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...