9. september 2006

Komin til Windhoek

Komin á leiðarenda eftir langt ferðalag. Það fyrsta sem ég gerði eftir
að koma aftur hingað var að koma börnunum í rúmið og fór síðan í sturtu
sjálfur. Reyni ekki að lýsa vellíðaninni þegar ég setti á mig
svitalyktareyði og rakspíra. Líkamsanganin var nefnilega orðin
fullsterk...

Ferðalagið gekk annars alveg ágætlega. Auðvitað komu tímabil sem ég var
orðinn frekar þreyttur og pirraður. Sér í lagi um þrjúleytið í nótt að
namibískum tíma. Þá var Rúnar Atli búinn að sofa í tvo tíma, þar af
þann seinni í fanginu á mér, og fór að brjótast um. Það var alveg
lífsins ómögulegt að koma mér fyrir á þannig hátt að hentaði okkur
báðum. Á þessum tímapunkti vorum við búin að vera í langa fluginu í
u.þ.b. fjóra tíma og ég sá fram á fimm tíma til viðbótar í þessu
pyntingartæki sem flugvélasæti eru. Mig grunar satt að segja að þeir
sem hanni þessi sæti hafi aldrei flogið langflug. Og alls ekki með
börn. T.d. er lífsins ómögulegt að fá arminn milli sætanna að haldast
uppi þ.a. hægt sé að treysta að hann komi ekki húrrandi niður. Síðan er
lagið á þessum sætum bara aldeilis ómögulegt. Svipað og
tannlæknastólar, búnir til eftir einhverri meðaltalspersónu sem er bara
ekki til.

En það fór betur en á horfðist, mér tókst að koma Rúnari Atla þannig
fyrir að hann gat sofið áfram og ég dottað með. Hins vegar slappar
maður engan veginn af þegar barnið er sofandi við hliðina á manni og
gæti dottið niður á gólf... En guttinn svaf örugglega í fimm og hálfan
tíma og var bara hress á milli. Reyndar kastaði hann upp í lendingu, en
það reddaðist nú. Blauttissue og bréfaþurrkur ávallt tilbúnar :-)

Tinnu Rut leið heldur ekki vel þegar hún vaknaði rétt fyrir morgunverð.
Munaði minnstu að hún kastaði upp, en það leið svo hjá. Nóg að gerast.

Á Íslandi lentum við í heilmikilli töf. Flugmaðurinn virðist hafa
einhverjar ákveðnar 15 mínútur til að koma sér af stað. Einhverra hluta
vegna dróst það hjá okkur og það þýddi bara klukkutíma seinkun. Og
allir komnir út í vél. Þannig að við sátum í klukkutíma í vélinni fyrir
utan Leifsstöð. Æðislega gaman, eða hitt þó heldur. En Rúnar Atli var í
stuði og eftir matinn svaf hann í góðan klukkutíma.

Á Gatwick var drengur dúndurhress. Hann hljóp um alla rangala sem við
þurftum að fara. Ég held ég hafi bara ekkert haldið á honum. Svo hagaði
hann sér vel á eðalstofunni, reyndar svolítið hvell röddin stundum, en
ekkert sem var neinum til ama.

Alveg er frábært að sjá muninn á Rúnari Atla núna og í janúar þegar við
fluttum. Núna spáir hann svo mikið í flugvélarnar og allt sem í þeim
er. Hann lærði núna af reynslu að ekki borgar sig að kalla á
flugfreyjurnar að óþörfu :-) Sá takki var ó-ó eftir það. Síðan spennti
hann á sig beltið og hlýddi orðalaust að ekki mátti taka borðið út fyrr
en sætisbeltaljósið væri farið. Gaman að þessu.

Í heildina gekk ferðin bara vel. Smáleiðindakaflar, en ekkert sem er
ekki þegar farið að gleymast.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...