30. maí 2009

Hjálpsemi náungans

Við feðgarnir skruppum á kaffihús í morgun. Svona eins og við gerum nokkuð oft á laugardagsmorgnum.

Fórum á kaffihúsið hjá klukkuturninum, en þar er gaman að fylgjast með fólkinu sem gengur framhjá eftir göngugötunni.

Þarna við hliðina á kaffihúsinu situr iðulega blind kona með litla málmskál sér við hlið. Einn og einn vegfarandi lætur dal eða tvo falla í skálina þegar gengið er framhjá.


Ég velti stundum fyrir mér hverjir það eru sem gefa konunni peninga. Þarna á kaffihúsinu er tilvalið tækifæri að rannsaka þetta.

Eftir margar heimsóknir á þetta kaffihús þá er ég þeirrar skoðunar að flestir sem gefa blindu konunni peninga, eru í fátækari kantinum sjálfir. Þeir sem líta út fyrir að vera vel stæðir, strunsa yfirleitt framhjá, en þeir sem hægja á sér eru oftar en ekki fátæklega útlítandi.

Í morgun varð nokkuð uppistand í kringum blessaða konuna. Ógæfulega útlítandi strákur, kannski um tvítugt, með ör eftir hníf frá auga og niður á höku settist niður hjá konunni og fór að tala við hana. Strákur þessi var með húfu dregna niður að augum og einn af þeim sem gangast undir þá hallærislegu tísku að láta buxnastrenginn vega salt á miðjum rasskinnum og buxnaklofið vera staðsett rétt ofan við hné. Ef spámaðurinn skyldi nú allt í einu fæðast fóta á milli hans...

Hvað um það, örskömmu eftir að strákur settist birtist eigandi lítillar hljómplötuverslunar, en konan situr undir glugga þessarar verslunar. Fer sá að æsa sig við strákinn, og þótt þeir hafi talað afríkönsku, þá áttaði ég mig fljótlega á að strákur lá undir grun um að ætla að stela peningum af blindu konunni.

Skapaðist mikið havarí þarna. Fúkyrðin ruku manna á milli og náði verslunareignandinn í öryggisvörð sem er yfirleitt þarna rétt hjá. Sá er vígalegur, vopnaður metralangri gúmmísvipu sem ábyggilega er virkilega sárt að fá högg frá. Einnig var kominn lögreglumaður á staðinn, en sá var nú fyrst og fremst að reyna að stilla til friðar. Stráknum var greinilega mjög misboðið yfir ásökunum verslunareigandans. Hann lét alla sjá þegar hann lét tvo dali falla í skálina og var kominn upp á háa-séið í hrópum sínum að verslunareigandanum. Hinn var farinn að draga í land, en þurfti lítið til að æsa sig aftur.

Allur farsinn tók um fimm mínútur og hurfu síðan allir hver í sína átt. Nokkru síðar kom strákurinn þó aftur gangandi fram hjá hljómplötubúðinni og steytti hnefann í áttina að henni.

Æsispennandi kaffihúsaferð hjá okkur feðgum þennan morguninn.

29. maí 2009

Englarnir okkar

Var að koma Rúnari Atla upp í rúm. Þegar ég gekk út úr herberginu hans sagði ég: ,,Takk fyrir að vera alltaf svona þægur og góður strákur."

,,Verði þér að góðu pabbi," var svarið.

Englar þessi börn, algjörir englar.

26. maí 2009

Bókmenntir

Lauk í gærkvöldi við að lesa Blóðberg eftir Ævar Örn Jósepsson. Í annað eða þriðja sinn. Bráðskemmtileg bók, sem Mál og menning gaf út 2005. Á einum stað er fjarska skemmtileg lýsing á Svíum, sem ég bara má til með að leyfa ykkur að njóta með mér. Guðni lögga lætur þessa dásemd frá sér. Guðni þessi þykir nú frekar kjaftfor og leiðinlegur, en oft ratast kjöftugum satt orð á munn. En, sem sagt, á bls. 183 er þessi skemmtilega lýsing:

,,Allir Svíar eru kommar, hommar eða aumingjar, teik jor pikk. Margir meiraðsegja kommar og hommar og aumingjar. Fyrir utan Ingmar Stenmark auðvitað...''

Alveg dásamlegt.

Heyriði, skáldaandinn kom bara allt í einu yfir mig við þessar skriftir.

Sko, margir Svíar eru kommar,
sumir víst líka hommar.
Einhverjir víst aumingjar,
hvað er Dodd'eiginleg'að gera þar?

23. maí 2009

Dræverinn mættur

Þó nokkur spenningur var í liðinu hér í morgun. Tinna Rut átti nefnilega að lenda á alþjóðaflugvellinum klukkan níu. Eftirvæntingin var greinilega mikil hjá Gullu, en hún vaknaði og fór framúr klukkan fimm í morgun!

Klukkan fimm. Á laugardegi! Fólk ekki alveg í lagi.

En við vorum mætt tíu mínútur yfir níu út á völl. Var þá vélin nýlent. Svo tók við nokkur bið, en svo birtist Tinna Rut. Þreytt eftir langt flug og reyndar mjög pirruð út í konuna sem sat í sætinu fyrir framan hana. En hún var ánægð með að vera komin aftur og við hin vorum fjarska ánægð að hafa fengið hana aftur.

Ekki var mikið slappað af eftir að heim kom. Stúlkan skellti sér í sturtu og tók svo upp úr töskunum sínum. Svo var spurt hvort hún fengi ekki bílinn hennar móður sinnar lánaðan.

Við vissum svo sem á hverju var von, ekki skulum við neita því.

Hún skellti sér því undir stýri. Að sjálfsögðu með ökuskírteinið nýja til taks:

Hún tekur sig nú vel undir stýri. Ekki er hægt að neita því.

Svo var snúið við með látum og reykspólað af stað. Nei, ég ýki nú aðeins.
En Blakkur hennar Gullu er nú fallegur bíll.

Svo er bara spurning hvenær við sjáum dótturina næst.

17. maí 2009

Sunnudagsmorgunn

Oft eru sunnudagsmorgnar hér hjá okkur fjarska notalegir og rólegir. Einhverra hluta vegna var Gulla farin fram úr um hálfsjö, en Rúnar rumskaði ekki fyrr en rétt fyrir níu og skömmu síðar skreið ég framúr.

Frekar er orðið kalt hér á nóttunni og hitnar húsið varla upp að deginum án hjálpar. Nú þarf því að gæta þess að eiga alltaf eldivið til að skella í annan eða báða arnana sem við höfum. En ekki skal því neitað að notalegt er að liggja lengur undir sænginni á morgnana.

Ég skellti í pönnukökudeig þegar ég loksins kom mér undan ábreiðunni. Tók nokkrar pönnukökur að koma úlnliðssveiflunni í gang til að pönnsurnar yrðu ekki of þykkar. En nú erum við öll orðin södd, eldur logar í stofuarninum. Lífið er gott.

Rúnar Atli fékk hlaupahjól í gær. Gulla sá svoleiðis græju auglýsta í Mogganum og þótti sniðugt. Við fórum því á stúfana í gær og fundum fljótlega búð sem selur svona tæki. Núna hreyfir drengurinn sig ekki spönn frá rassi án þess að vera á hjólinu. Hann heldur upp á kassann sem var utanum hjólið svo hægt sé að taka það til Íslands þegar við flytjum þangað :-)

Til hamingju Ísland

Þá er þessi flotta evróvisíón keppni búin. Ekki slæmur árangur. Hér mættu nokkrir Íslendingar, og tveir Finnar, til að horfa á keppnina. Á ríkissjónvarpsstöð Portúgals. Við skildum því lítið af því sem þulurinn sagði. Gerði það þó lítið til.

Við gerðum þónokkrar tilfæringar á húsgögnum til að partígestir gætu haft það sem best á meðan. Kveiktum upp í arninum, því nokkuð er farið að kólna hér.

Svo hófst keppnin og skemmtum við okkur ágætlega. Mörg lögin voru bara alveg ágæt. Skeggrætt var um útlit keppenda, klæðnað og fleira í þeim dúr. Konum var skipt í "hot" og "not hot" en skiptingin á körlunum fór eftir augabrúnum þeirra. Plokkaðar augabrýr bentu til hýrra manna, óplokkaðar ekki. Tek fram að þessi skipting karlmanna var uppfundin af því kvenfólki sem hér sat. Ég tek enga ábyrgð þar á.

Síðan var skotið saman í pott. Allir spáðu fyrir um sæti Íslands. Undirritaður þótti allbjartsýnn þegar hann spáði Íslandi öðru sæti. Lakasta spáin var 12. sæti.

Svo hófst atkvæðagreiðslan. Eftir því sem leið á hana jókst spenningurinn í kofanum. Gleymdist að bæta á arineldinn, en funhiti var í kofanum samt. Enginn skyldi neitt í þeim ósköpum að Tyrkland skyldi fá svona mikið af atkvæðum. Síðan drógust þeir aftur úr og þegar kom að atkvæðum Norðmanna, þá lá við að væri grátið þegar Aserbædjan fékk 10 stig. En gráturinn breyttist fljótt í hlátur og mikla gleði þegar Ísland fékk 12 stigin frá norsurunum. Góðir frændur að þessu sinni.

Jú, og ég vann því pottinn, 450 Namibíudalir, u.þ.b. 7.000 krónur. Ekki oft sem ég hef unnið í svona veðmáli.

Takk Jóhanna Guðrún fyrir að endurvekja þjóðarstolt okkar Íslendinga.

12. maí 2009

Hún Tinna mín...

Mig grunar að Tinnu Rut leiðist svolítið heima á Fróni. Alein í Æsufellinu. Ósköp þætti mér gott ef einhverjir góðhjartaðir vinir hefðu nú samband við stúlku og kannski biðu henni í mat eða eitthvað skemmtilegt.

11. maí 2009

Íslensk matargerð

Gulla eldaði þessa fínu kjötsúpu í kvöldmatinn. Ilmurinn dásamlegur þegar ég kom heim úr vinnunni núna rétt fyrir sex að staðartíma. Ég veit ekki hvort þetta eru kreppuáhrif. Eitthvað lásum við um daginn að íslenskur matur, kjötfars, slátur og hrossakjöt, seldist sem aldrei fyrr heima á klakanum. Kannski við prófum að búa til kjötbollur næst.

7. maí 2009

Peningar, peningar

Sá merkilegan peningaseðil í dag. 50 billjóna Simbabve dala seðil. Á enskunni 50 trillion dollars. Hvað skyldu eiginlega vera mörg núll í svona tölu?

50.000.000.000.000

50 milljón milljónir.

Ein milljón milljónir, sem er sama og þúsund milljarðar, heitir víst billjón á íslensku. Ekki að rugla við amerísku billjónina sem er bara þúsund milljónir. Milljarður á því ylhýra.

Og hvað skyldi nú mega kaupa fyrir svona voðalegar upphæðir?

Konan sem sýndi mér seðilinn, en hún var í Simbabve um síðustu helgi, sagði að hann dygði ekki fyrir einum brauðhleifi.

5. maí 2009

Nýjasti ökuþórinn!

Jæja, klukkan eitt í dag fór Tinna Rut í seinni hluta ökuprófsins. Verklega hlutann. Auðvitað stóðst hún með glæsibrag. Svo nú er Tinna Rut rúntandi um götur höfuðborgarinnar.

Glæsilegt!

Til hamingju Tinna Rut!!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...