30. maí 2009

Hjálpsemi náungans

Við feðgarnir skruppum á kaffihús í morgun. Svona eins og við gerum nokkuð oft á laugardagsmorgnum.

Fórum á kaffihúsið hjá klukkuturninum, en þar er gaman að fylgjast með fólkinu sem gengur framhjá eftir göngugötunni.

Þarna við hliðina á kaffihúsinu situr iðulega blind kona með litla málmskál sér við hlið. Einn og einn vegfarandi lætur dal eða tvo falla í skálina þegar gengið er framhjá.


Ég velti stundum fyrir mér hverjir það eru sem gefa konunni peninga. Þarna á kaffihúsinu er tilvalið tækifæri að rannsaka þetta.

Eftir margar heimsóknir á þetta kaffihús þá er ég þeirrar skoðunar að flestir sem gefa blindu konunni peninga, eru í fátækari kantinum sjálfir. Þeir sem líta út fyrir að vera vel stæðir, strunsa yfirleitt framhjá, en þeir sem hægja á sér eru oftar en ekki fátæklega útlítandi.

Í morgun varð nokkuð uppistand í kringum blessaða konuna. Ógæfulega útlítandi strákur, kannski um tvítugt, með ör eftir hníf frá auga og niður á höku settist niður hjá konunni og fór að tala við hana. Strákur þessi var með húfu dregna niður að augum og einn af þeim sem gangast undir þá hallærislegu tísku að láta buxnastrenginn vega salt á miðjum rasskinnum og buxnaklofið vera staðsett rétt ofan við hné. Ef spámaðurinn skyldi nú allt í einu fæðast fóta á milli hans...

Hvað um það, örskömmu eftir að strákur settist birtist eigandi lítillar hljómplötuverslunar, en konan situr undir glugga þessarar verslunar. Fer sá að æsa sig við strákinn, og þótt þeir hafi talað afríkönsku, þá áttaði ég mig fljótlega á að strákur lá undir grun um að ætla að stela peningum af blindu konunni.

Skapaðist mikið havarí þarna. Fúkyrðin ruku manna á milli og náði verslunareignandinn í öryggisvörð sem er yfirleitt þarna rétt hjá. Sá er vígalegur, vopnaður metralangri gúmmísvipu sem ábyggilega er virkilega sárt að fá högg frá. Einnig var kominn lögreglumaður á staðinn, en sá var nú fyrst og fremst að reyna að stilla til friðar. Stráknum var greinilega mjög misboðið yfir ásökunum verslunareigandans. Hann lét alla sjá þegar hann lét tvo dali falla í skálina og var kominn upp á háa-séið í hrópum sínum að verslunareigandanum. Hinn var farinn að draga í land, en þurfti lítið til að æsa sig aftur.

Allur farsinn tók um fimm mínútur og hurfu síðan allir hver í sína átt. Nokkru síðar kom strákurinn þó aftur gangandi fram hjá hljómplötubúðinni og steytti hnefann í áttina að henni.

Æsispennandi kaffihúsaferð hjá okkur feðgum þennan morguninn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

FRAMSÓKNAR FÓLK!!!!!!!!!!!!

Nafnlaus sagði...

Man einmitt eftir þessari konu... hún prjónar líka úr plastpokum, það fannst mér merkilegt.

Kv,
Arndís fyrrverandi starfsnemi

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...