31. janúar 2010

Sundleiðangur

Við feðgarnir brugðum okkur bæjarleið áðan. Markmiðið var að komast í alvöru sundlaug. Stóra sundlaug með volgu vatni. Stefnan var því sett í norðurátt, tæplega 70 km til Okahandja og þaðan 25 km í vesturátt. Gross Barmen heitir staðurinn. Þar er stærðarinnar heit laug innandyra, með a.m.k. 38 gráðu heitu vatni, og síðan er fín útisundlaug með svipuðu hitastigi og laugar á Íslandi.

Þarna skemmtum við okkur vel, enda lítið af fólki þarna. Reyndar er aðstaðan orðið svolítið þreytt og aðeins mætti bæta klórmagnið í lauginni. Þar sem fúgur eiga að vera milli flísa ofaní lauginni vex nefnilega þessi fíni mosi. En ég lét það nú ekki trufla mig neitt. Rúnari Atla þótti þetta þó aðeins fráhrindandi.

Heita innilaugin sló því meira í gegn heldur en útilaugin. Hún er risastór, fyrir heitan pott, örugglega 12 metrar á hvern kant. Hún er á tveimur hæðum og sú dýpri nær mér í háls, en sú grynnri Rúnari Atla undir hendur. Svo er lagst á bekk eftirá og þá væri sko ekki erfitt að blunda svolítið.

Ferðin var vel þess virði. Nú er bara að sjá hvort sonurinn biður um að fara í sund seinni. Það verður jú aðaldómurinn.

30. janúar 2010

Gæludýr

Eins og dætur mínar geta borið vitni um hef ég aldrei verið mikið fyrir gæludýr. Einhvern tímann á unga aldri átti ég kött. Pési, minnir mig að hann hafi heitað. En ég hef barist hetjulegri baráttu gegn gæludýrum inn á heimilið.

Þó hafa dæturnar nokkrum sinnum farið með sigur af hólmi í baráttunni. Fiskar hafa ratað inn á heimilið. Meira að segja smíðaði ég líkkistu utan um einn. Hamstrar hafa líka verið fjölskyldumeðlimir um tíma og nokkrar finkur.

Rúnar Atli hefur ekki hafið baráttuna að neinu marki enn. Þó, þegar ég sótti hann í skólann í gær eða fyrradag þá var honum mikið niðri fyrir og dró mig inn í skólastofuna. Þar sýndi hann mér glerkúlu fulla af vatni. Voru í henni nokkur síli og þrír froskar. Ja, pínulitlar körtur.

Greinilegt var að pilt langaði að eignast fiska. Helst líka froska. Eftir nokkrar samningaumræður ákváðum við feðgarnir af fara á stúfana á laugardag, sem sagt í dag, og kíkja í gæludýrabúð. Var móðurinni tilkynnt þetta.

Svo var lagt í leiðangur í dag. Við fundum eina búð sem er bókstaflega full af fiskabúrum og öllum mögulegum og ómögulegum fiskategundum. Sniðugt að þarna var eitt búr með Nemó þema. Þ.e.a.s. í búrinu voru nokkrir Nemóar og Marelar ásamt nokkrum eintökum af Dóru. Rúnar Atli var ekki lengi að sjá tengslin við bíómyndina.

Við sögðum eigandanum að við hefðum áhuga á einhvers konar byrjendasetti. Hann var nú ekki í vandræðum með að selja okkur fiskabúr og fiska. Gaf okkur svo ýmislegt í kaupbæti, plöntur og möl og fleira smálegt. Jú, ekki má gleyma skítugu vatni sem við fengum frá honum. Ekki gengur víst að fiskarnir lendi í „hreinu vatnssjokki.“

Rúnar Atli er sem sagt núna stoltur eigandi fiskabúrs og tíu fiska. Fimm kallast „gobies“ og hinir eitthvað annað... Pínulitlir, en víst frekar auðveldir í umhirðu. Nú er bara að sjá hvernig gengur. Rúnar Atli er með það á hreinu að ekki þýði að gera eitthvað stórmál ef fiskur hrekkur upp af. „Pabbi, við bara kaupum nýjan!“

Engar líkkistur eða neitt sentimental í kringum þetta. Það líkar mér.

23. janúar 2010

18. janúar 2010

Símavandamál

Heyrst hefur af fólki sem nær ekki í okkur í síma. Eitthvað ólag er á símalínunni okkar og því ekki hægt að nota símann eða fara á netið.

Gert verður við þegar gert verður við...

17. janúar 2010

Komin til Windhoek

Þá erum við komin á heitari slóðir á ný. Sem betur fer rignir þessa helgina, þ.a. hitinn fer mest í kannski 25 gráður. Alveg nóg svona þegar maður er nýkominn af klakanum.

Ferðalagið gekk bara vel. Langt þó og leiðinlegt inn á milli. Flugvallarbygging númer 5 á Heathrow finnst okkur Gullu ekkert sérstök. Kannski í lagi að labba einn hring, en að sitja þarna í átta klukkutíma er ekki eftirsóknarvert. Þetta hafðist þó allt.

Langa flugið til Jóhannesarborgar gekk þokkalega. Lítið þó sofið, ja, nema Rúnar Atli svaf eins og steinn milli sex og sjö tíma. Við Gulla vorum bara í bíómyndunum. Svo var þriggja tíma stans í Jóhannesarborg og fylgdi tveggja tíma flug í kjölfarið til Windhoek.

Ég skal ekki neita því að gott var að leggjast í rúmið í gærkvöldi. Okkur tókst að hanga vakandi til að verða átta um kvöldið, en heim vorum við komin rúmlega þrjú. Síðan sváfum við tólf tíma samfleytt, án þess að rumska.

Í dag tókum við hlutunum með ró. Mikið gott að fá einn dag til að jafna sig áður en mætt er í vinnu. Á morgun er svo fyrsti dagur Rúnars Atla í svokölluðum forskóla, en það er eins árs undirbúningur fyrir grunnskólann. Svipað og sex ára bekkur var í gamla daga heima á Fróni. Það er sem sagt enginn leikskóli lengur, og móðgast drengur mjög ef sagt er að hann sé að fara í leikskóla. Hann hlakkar mikið til að byrja.

11. janúar 2010

Ánægður með sjálfan mig

Í dag fór ég í tiltekt í bílskúrnum. Markmiðið var að geta sett bílinn inn í skúr ... og lokað hurðinni á eftir.

Án þess að fara of mikið í smáatriðin þá náðist markmiðið. Tókst mér í leiðinni að hengja mikið af handverkfærunum upp á vegg og var ég ánægður með það. Verkfærin eru búin að vera ofan í kassa frá flutningnum ofan af Akranesi 2007. Þetta smákemur allt saman.

En nú verður hægt að geyma bílinn inni á meðan við erum í Namibíu. Því er ég ánægður með sjálfan mig í dag.

7. janúar 2010

Hvernig er svo Prince George?

Já, hvers konar bær er Prince George eiginlega?

Fyrst er best að nefna að umhverfið er mjög fallegt. Núna þegar bærinn er klæddur vetrarskrúða, þá er mikil náttúrufegurð. Svimandi há grenitré, umvafin snjó, eru ótrúlega falleg. Og það er mikið af trjám þarna. En þarna hefur kyngt niður snjó undanfarið, og eru tveggja til þriggja mannhæðaháir snjóruðningar meðfram mörgum götum.

Ég ímynda mér að fegurðin sé síst minni á sumrin, þegar allt er grænt.

Vegna alls þess skógar sem þarna er, þá er skógarhögg og ýmiskonar myllustarfsemi þungamiðja atvinnulífsins. Bærinn er að miklum hluta iðnaðarbær, rauðhálsabær ef maður þýðir beint úr enskunni. Mikið er af stærðarinnar flutningabílum og ýmsum atvinnutækjum. Hér skilur maður, frekar en á Íslandi, af hverju ekið er um á stórum amerískum pallbílum. Sumir hverjir með snjóplóg framan á sér, þ.a. ekki þurfi að bíða eftir opinberum ruðningstækjum. Mörg störf þarna eru verkamannastörf. Alskegg, derhúfa, köflótt vinnuskyrta og gallabuxur er ekki óalgeng tíska karlmanna og maður heyrir svolítið þennan ruddatalsmáta sem virðist fylgja verkamannastörfum.

Á móti þessu kemur að Prince George er stjórnsýslumiðstöð norðurhluta bresku-Kólumbíu. Því er mikið af alls konar opinberum stofnunum þarna og við fyrstu sýn virðist hægt að sinna öllu því sem þarf gagnvart stjórnvöldum án þess að takast á hendur löng ferðalög. Svona stofnanir og þeirra starfsfólk veita svolítið mótvægi gegn verkamannahugsanahættinum. Skapa fjölbreytni í samfélaginu.

Síðan er jú háskólinn. Hann dregur að menntað fólk og heldur ungu fólki lengur á svæðinu heldur en annars væri. Eins og í mörgum háskólabæjum er því forvitnileg blanda af fólki sem gefur skemmtilegt yfirbragð.

Töluvert er þarna af fólki af asísku bergi brotið, meira en ég átti von á.

Allar mögulegar og ómögulegar verslanir virðast vera í bænum og er enginn skortur á vörum, hverju nafni sem þær kunna að nefnast. Hellingur af veitingastöðum og síðan er ýmis konar afþreying þarna. Ég rak augun í keiluklúbb, þ.a. hver veit nema Tinna Rut dusti rykið af keilukúlinni og komist að því hvernig fyrrum Íslandsmeistari í keilu stenst samanburð við kanadíska keilara.

Bærinn er ekki mjög stór. Ég var farinn að átta mig á helstu umferðarleiðum, þótt ég hafi ekki verið þarna lengi. Maður er ábyggilega fljótur að læra að rata um götur bæjarins.

Eins og Kanadamönnum er von og vísa þá eru íbúar Prince George yfirmáta kurteisir og þægilegir í umgengni. Allir eru forvitnir um hver maður er og hvaðan maður komi. Og á móti fær maður að vita allt um hinn aðilann. Einhver sem afgreiðir mann um bækur fer að spurja hvaðan bankakortið manns sé, og til að jafnvægi sé í öllu fylgir með sögunni að sá sem spyr sé nú fæddur og uppalinn í Edmonton. Þetta er mjög ólíkt þeirri miklu þögn sem ríkir í samskiptum milli fólks í Namibíu þar sem yfirleitt er bara rætt um það sem þarf til að afgreiða mál.

Í hnotskurn þá voru fyrstu kynni af Prince George góð og mér líst ágætlega á bæinn fyrir Tinnu hönd. Ég væri alveg til í að koma að sumri og aka sem leið liggur frá Vancouver til Prince George. Það er ábyggilega meiriháttar ferðalag.

Kannski við Gulla eigum það eftir síðar.

Seattle

Kominn til Seattle, en þar þarf ég að bíða frameftir degi eftir vélinni til Íslands. Ætli séu ekki góðir fjórir tímar til viðbótar í bið. Sit núna á betri stofu í mestu makindum, sötra kóladrykk og snæði banana.

Í morgun var ég reyndar svolítið heppinn. Ég var búinn að kíkja nokkrum sinnum á flugmiðann í gær til að athuga brottfarartíma. Alltaf var hann óbreyttur, 7:20 að morgni. Hugsaði mér nú að betra væri að vera svona tveimur og hálfum tíma fyrr út á völl. Enda flogið til Bandaríkjanna og allt öryggiseftirlit strangt. Mæta um fimm, þ.a. með sturtu og bíltúr út á völl væri ráð að vakna klukkan fjögur. Það gekk eftir, og var ég mættur út á völl um fimm og stóð síðan í biðröð við innritunarborðið.

Þegar stúlkan réttir mér brottfararspjaldið verð ég undrandi og spyr hvort tímanum hafi eitthvað verið breytt. Nei, svarar hún, vélin fer 6:30 og lendir 7:20.

Nefnilega.

Ég mætti því ekki tveimur og hálfum tíma fyrir flug, heldur einum og hálfum tíma!

En allt gekk upp. Reyndar löng bið í öryggiseftirlitinu. Allt grandskoðað í töskunni minni. Það var auðvitað svoleiðis hjá öllum öðrum. Svo var ég beðinn um að setja hendurnar á kaf í buxnavasana og rétta þær svo fram með lófana upp. Var svo strokið yfir lófana með einhverju tæki. Líklega til að komast að því hvort ég hefði verið að hræra saman sprengiefni. En svona hef ég ekki kynnst áður.

Flugið tók síðan 26 mínútur.

4. janúar 2010

Kanada

Þá erum við Tinna Rut komin á leiðarenda. Prince George. Við flugum frá Seattle í morgun, en það flug var ekki nema 35 mínútur. Hlægilega stutt.

Svo tókum við okkur bílaleigubíl í Vancouver, því við áttum margra tíma bið fyrir höndum. Við rúntuðum á gamlar slóðir. Fengum okkur morgunmat á IHOP, en það var uppáhaldsmorgunverðarstaðurinn okkar í þá gömlu góðu. Við ókum svo um háskólasvæðið þar sem ég stundaði nám til fjölda ára. Ég sýndi Tinnu Rut húsið sem við bjuggum í, fyrsta leikskólann hennar og ýmislegt annað. Þetta var mjög gaman.

Mér þótti merkilegt hversu auðveldlega ég rataði, því ég hef ekki komið til Vancouver síðan 2001. Og þá bara í fjóra daga eða svo. En þarna eru miklar vegalengdir, því ég ók næstum því 80 km á þessum rúnti.

Við flugum síðan til Prince George. Alveg troðfull flugvél, en þar sem flugið var innan við klukkutíma þá skipti það nú litlu.

Síðan var gengið niður landganginn út í 11 gráðu frost. Já, landganginn. Það var sko ekkert verið að hlífa manni við að fara út í kuldann. Reyndar var veðrið mjög gott, blankalogn og því fann maður lítið fyrir kulda. En hérna er allt á kafi í snjó. Ég var spurður af stúlku á bílaleigunni hvort ég vildi hafa vetrardekk undir bílnum, en það kostar 10 dali aukalega á dag. Ég hélt það nú. Sagði henni reyndar að mér finndist að þeir sem ekki vildu vetrardekkin ættu að borga aukalega.

Vegirnir eru glerhálir. Greinilega eru ýmsir á slöppum dekkjum, því menn voru að taka tilhlaup í smáslakka til að komast af stað á grænu ljósi.

Hótelið er nokkuð sérstakt. Hér er hitabeltisgróður inni í stærðarinnar yfirbyggðu porti, en herbergin raðast í kringum portið. Er sundlaug hérna og nokkrir nuddpottar. Mjög merkilegt miðað við lofthitann utandyra.

Við Tinna Rut fórum svo inn á háskólasvæðið og hún fékk lykla að herberginu sínu. Ágætisherbergi en þó í minna lagi. Hún hitti einn af herbergisfélögunum sínum og virtist þar vera á ferð ágætasta stúlka. En á morgun þarf að kaupa ýmsar nauðsynjar og útrétta ýmislegt. Ég verð hér bara á mánudag og þriðjudag og því ekki mikill tími til stefnu.

Meira síðar.

3. janúar 2010

McDonalds...

Sit núna á alþjóðaflugvellinum í Seattle og bíð eftir kalli út í vél til Vancouver. Ferðalagið hefur gengið ágætlega. Byrjuðum reyndar með seinkun í Keflavík, u.þ.b. einn og hálfur tími. Allt vegna seinkunar á vél frá Glasgow, skilst mér. Ferlega pirrandi að bíða vegna svoleiðis.

Við vorum mætt snemma út á völl, þremur tímum fyrir áætlaða brottför. Vorum fyrst í öryggisleit númer tvö. Fékk ég hrós fyrir að hafa lítið í handfarangri, og Tinna Rut fékk hrós fyrir fartölvuna sína. Sú sem fór í gegnum Tinnu tösku á víst alveg eins tölvu. Alltaf létt stemming á Íslandi.

Loksins þegar vélin fór af stað þá gátum við slakað á. Þjónustan fín hjá Flugleiðum. Þetta var þriggja bíómyndaferð hjá mér, en Tinna Rut sofnaði og náði bara tveimur myndum. Ekkert er að því að fá lítið að borða og þurfa að borga fyrir það sem maður vill. Á meðan er maður ekki með full borð af einhverjum matarílátum.

Við lentum í Seattle tíu mínútur yfir sex að staðartíma. Tíu mínútur yfir tvö að morgni að íslenskum tíma. Innflytjendaeftirlitið tók heila eilífð, og ekki bætti úr skák að helmingur af starfsfólkinu hætti að vinna klukkan sjö. Vaktin greinilega búin og fólk bara hætti að vinna þótt enn væri slatti af fólki í biðröð. En þetta gekk allt. Tinna Rut var voðalega ánægð, því hún notaði kanadíska vegabréfið sitt og fékk stimpil. Fyrsta skipti sem er stimplað í það vegabréf. En af því að hún dröslaðist með pabba sinn, þá tók þetta mun lengri tíma fyrir hana en ef hún hefði verið ein á ferð.

Stundum er maður dragbítur...

Töskurnar biðu eftir okkur þegar innflytjendaeftirlitinu lauk. Síðan örkuðum við þangað sem hótelstrætóar ganga og biðum eftir vagni frá okkar hóteli. Engin smáræðisfjöldi af hótelum, því það var stanslaus traffík af kálfum að sækja hótelgesti.

Hótelið var flott. Stofa og svefnherbergi, þ.a. ekki væsti um okkur. En ekki vildum við fara að sofa, þótt klukkan væri um fjögur að nótt á Íslandi. Tinna Rut sá nefnilega McDonalds hinum megin við strætið og vildi ólm fara. Ég skal viðurkenna að sú staðreynd að McDonalds var þarna hafði áhrif á hótelvalið mitt. Ég notaði nefnilega Google Maps til að leita að hóteli og síðan tékkaði ég á veitingastöðum í nágrenninu áður en ég pantaði.

En... en þið hefðuð átt að sjá sælusvipinn á Tinnu Rut þegar hún beit í fyrsta kjúklinganagginn. Þetta var hrein himnasæla fyrir hana. Ekki skemmdi fyrir að grunnskammturinn þarna var tíu naggar, ekki sex eins og var á Íslandi.

Við röltum okkur síðan að stærðarinnar verslunarmiðstöð sem þarna er. Þar er opið til hálftíu sex kvöld vikunnar. Úði og grúði af verslunum þarna og hefði líklega verið hægt að skella bæði Kringlunni og Smáralind þarna inn og samt eiga pláss afgangs.

Þegar við komum á hótelið var klukkan að nálgast tíu - sex að morgni á Fróni - og var mikið gott að leggjast upp í rúm.

Vöknuðum svo rúmlega fjögur og, eins og sagði í byrjun, bíðum við núna á flugvellinum. Nú fer að kalla um borð. Bið að heilsa öllum. Ég reyni að skella inn færslum þegar færi gefst til.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...