17. janúar 2010

Komin til Windhoek

Þá erum við komin á heitari slóðir á ný. Sem betur fer rignir þessa helgina, þ.a. hitinn fer mest í kannski 25 gráður. Alveg nóg svona þegar maður er nýkominn af klakanum.

Ferðalagið gekk bara vel. Langt þó og leiðinlegt inn á milli. Flugvallarbygging númer 5 á Heathrow finnst okkur Gullu ekkert sérstök. Kannski í lagi að labba einn hring, en að sitja þarna í átta klukkutíma er ekki eftirsóknarvert. Þetta hafðist þó allt.

Langa flugið til Jóhannesarborgar gekk þokkalega. Lítið þó sofið, ja, nema Rúnar Atli svaf eins og steinn milli sex og sjö tíma. Við Gulla vorum bara í bíómyndunum. Svo var þriggja tíma stans í Jóhannesarborg og fylgdi tveggja tíma flug í kjölfarið til Windhoek.

Ég skal ekki neita því að gott var að leggjast í rúmið í gærkvöldi. Okkur tókst að hanga vakandi til að verða átta um kvöldið, en heim vorum við komin rúmlega þrjú. Síðan sváfum við tólf tíma samfleytt, án þess að rumska.

Í dag tókum við hlutunum með ró. Mikið gott að fá einn dag til að jafna sig áður en mætt er í vinnu. Á morgun er svo fyrsti dagur Rúnars Atla í svokölluðum forskóla, en það er eins árs undirbúningur fyrir grunnskólann. Svipað og sex ára bekkur var í gamla daga heima á Fróni. Það er sem sagt enginn leikskóli lengur, og móðgast drengur mjög ef sagt er að hann sé að fara í leikskóla. Hann hlakkar mikið til að byrja.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...