7. janúar 2010

Seattle

Kominn til Seattle, en þar þarf ég að bíða frameftir degi eftir vélinni til Íslands. Ætli séu ekki góðir fjórir tímar til viðbótar í bið. Sit núna á betri stofu í mestu makindum, sötra kóladrykk og snæði banana.

Í morgun var ég reyndar svolítið heppinn. Ég var búinn að kíkja nokkrum sinnum á flugmiðann í gær til að athuga brottfarartíma. Alltaf var hann óbreyttur, 7:20 að morgni. Hugsaði mér nú að betra væri að vera svona tveimur og hálfum tíma fyrr út á völl. Enda flogið til Bandaríkjanna og allt öryggiseftirlit strangt. Mæta um fimm, þ.a. með sturtu og bíltúr út á völl væri ráð að vakna klukkan fjögur. Það gekk eftir, og var ég mættur út á völl um fimm og stóð síðan í biðröð við innritunarborðið.

Þegar stúlkan réttir mér brottfararspjaldið verð ég undrandi og spyr hvort tímanum hafi eitthvað verið breytt. Nei, svarar hún, vélin fer 6:30 og lendir 7:20.

Nefnilega.

Ég mætti því ekki tveimur og hálfum tíma fyrir flug, heldur einum og hálfum tíma!

En allt gekk upp. Reyndar löng bið í öryggiseftirlitinu. Allt grandskoðað í töskunni minni. Það var auðvitað svoleiðis hjá öllum öðrum. Svo var ég beðinn um að setja hendurnar á kaf í buxnavasana og rétta þær svo fram með lófana upp. Var svo strokið yfir lófana með einhverju tæki. Líklega til að komast að því hvort ég hefði verið að hræra saman sprengiefni. En svona hef ég ekki kynnst áður.

Flugið tók síðan 26 mínútur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...