26. maí 2013

Góðgerð í morgunsárið

Við Rúnar Atli tókum daginn snemma í dag. Vöknuðum á sama tíma og á skóladegi. Ástæðan var að pilturinn ætlaði að taka þátt í góðgerðarhjólreiðum til stuðnings blindum og sjóndöprum börnum. Er þetta á vegum Lions í Malaví. Hann hafði safnað áheitum og nú átti að hjóla eftir hlaupabraut á íþróttavelli hér í Lílongve eins marga hringi og hann kæmist.

 Hér er piltur klukkan rétt rúmlega sjö í morgun tilbúinn í slaginn.

Er á fína Mongoose hjólinu sem var keypt á Íslandi fyrir tæplega tveimur árum. Hjólið fer að verða of lítið. Búið er að hækka hnakkinn nokkrum sinnum og nú er orðið lítið eftir af hnakkstönginni.

En hverju sem líður því, þá var svo farið að hjóla. Og það var hjólað og hjólað. Hring eftir hring. 

Stundum var stoppað til að fá vatn að drekka hjá aðstoðarmanninum. Í leiðinni var spurt um fjölda hringja sem búið væri að fara. Var ekki laust við að aðstoðarmaðurinn, sem hafði einnig það hlutverk að telja hringi, væri grunaður um græsku. Stundum voru menn nefnilega ekki sammála um töluna. En ávallt var komist að niðurstöðu.

Svo var hjólað meira.


Rúnar Atli býr enn að því að hafa fengið gefins hjólaföt af konunni sem seldi mér reiðhjól í fyrra. Hann var ósköp feginn að hafa púða í buxunum, ekki síst þegar leið á.

Eftir því sem leið á morguninn fjölgaði hjólreiðafólkinu. Stundum hljóp mönnum kapp í kinn og fóru að keppast við nágrannann. Bara gaman að því.


Rúnar Atli hjólaði 47 hringi á vellinum. Mér þótti það vel að verki staðist. Hringurinn er 400 metra langur, þannig að heildarvegalengdin sem hann hjólaði var 18,8 kílómetrar.

Safnaði hann 25.000 kvökum, sem er í kringum níu þúsund krónur.

Morgunstund gefur gull í mund.

21. maí 2013

Fjórir hvolpar til viðbótar!

Þegar við vöknuðum í morgun uppgötvaðist að í nótt fæddust fjórir hvolpar! Já, hún Bounty var ekki í vandræðum með þetta að þessu sinni. Sá bara alveg um þetta sjálf og þurfti enga aðstoð frá okkur. Þrír hvolpanna eru svartir og einn hvítur.

Úff, þá eru hundarnir hjá okkur orðnir níu!

Einhverjir þessara nýja fara örugglega eitthvert í fóstur...

Meiri fréttir síðar og örugglega koma þá myndir. Rúnar Atli á reyndar eftir að sjá stubbana, því hann var farinn í skólann þegar þetta uppgötvaðist.

19. maí 2013

Afróvisjón?

Í gærkvöldi fórum við Gulla í kvöldverðarboð. Gestgjafinn var írsk kona og sátu 16 manns til borðs hjá henni. Maturinn var fínn, meðal annars Guinness-gúllas. Já, gúllas soðið upp úr Guinness bjór. Smakkaðist mjög vel, get ég sagt ykkur.

En þarna voru allraþjóðakvikindi, þó flest okkur værum evrópsk. Fyrir utan Íra og Íslendinga, voru þarna fulltrúar Hollands, Finnlands, Þýskalands og Bretlands frá Evrópu. Einnig var þarna fulltrúi Bandaríkjanna, Indlands og - æ, nú er minnið að stríða mér - einhvers mið- eða suður-Ameríkulands. Ég held þá séu allir upptaldir.

Eins og gengur var spjallað um heima og geima. Á einhverjum tímapunkti komst Evruvisjón auðvitað að. Öll okkar frá Evrópu höfðum skoðun á keppninni. Í flestum löndum hefur greinilega í gegnum tíðina þótt lummó að fylgjast með, en flestir þó gert það engu að síður. Finnski kossinn var svolítið ræddur, sem og skrýtin framlög Íra til keppninnar. Kalkúnninn Dustin var þar efstur á blaði.


Einhver, líklega Bandaríkjamaðurinn, velti upp þeirri spurningu hvort Afríka ætti ekki að setja á laggirnar svona keppni.

Afróvisjón.

Hugmyndin þótti ekki slæm. Mikil tónlistarhefð er jú í Afríku og yfirleitt dansað með.  Afróvisjón gæti orðið flott.

Spurningin bara hvernig á að byrja?

18. maí 2013

Ég er íslenskur!

Vinur hans Rúnars Atla, Paolo, er búinn að vera hér síðan í hádeginu. Þeir eru góðir vinir og þarf ekkert að hafa fyrir þeim. Núna áðan, þegar var að rökkva, voru þeir í fótbolta úti á flötinni framan við húsið. Rúnar Atli var búinn að rífa sig úr treyjunni, enda var heitt í dag. Ég stakk upp á að hann færi í hana aftur, því nú færi að kólna.

„Nei,“ svaraði hann að bragði. „Ég þarf þess ekki. Mér verður ekkert kalt. Ég er nefnilega Íslendingur!“

17. maí 2013

Eru ekki orkuboltar þreytandi fyrir okkur hin?

Fyrr í dag skutlaði ég Rúnari Atla á karate-æfingu. Æfingarnar á föstudögum eru ekki í skólanum hans, eins og aðra daga, heldur í fundarsal á móteli einu hér í Lílongve. Kannski 10 km akstur.

Stundum koma einn eða tveir skóla- og karatebræður hans með heim úr skólanum og þeir fá að fljóta með. Enda skemmtilegra að fara með vinum.

Í dag voru vinirnir reyndar fjórir. Þrír guttar átta og níu ára, og svo einn svolítið eldri.

Fimm gaurar samtals.

Og lætin í þeim, jedúddamía, eins og tengdamóðir mín sáluga hefði án efa sagt.

Þeir þutu hér út um allt hús og út í garð þegar þeir áttu að vera að fara inn í bílinn. Á endanum byrsti ég röddina og þá tíndust þeir að bílnum. Stukku svo inn, hver um annan þveran, þegar ég lofaði að þeir mættu öskra eins hátt og þeir gætu þegar ég væri búinn að loka bílhurðunum.

Þeir tóku mig á orðinu...

Og svo var hoppað og ærslast eins og hægt var. Mikið hrópað og hlegið. Mest var að sjálfsögðu hlegið þegar fýlubombur leystust úr læðingi.

Já, svona gekk þetta alla leiðina.

Síðan tók við karate-æfing í 70 mínútur eða svo. Allir voru rennandi sveittir þegar ég náði í pilta.

Var ekki heimferðin róleg? spyrjið þið.

Ó, nei, ekki var því að heilsa. Heimferðin var nákvæmlega eins og ferðin á æfingu.

Nema hvað, umferðin í Lílongve á föstudagseftirmiðdögum sniglast áfram á einhverjum lúsarhraða.

Tók mig þrjú-korter að losa mig við alla guttana og komast heim.

Á meðan - stanslaust stuð í bílnum.

Þvílík orka...

... maður verður bara þreyttur að hugsa um hana...

Hjólað í vinnuna

Þriðja árið í röð pjakkast maður með í að hjóla í vinnuna. Verður að segjast að maður hefur verið frekar slappur við að hreyfa sig það sem af er ári og því fínt að fá hvatningu af þessu tagi.

Við erum tveir hér á Lílongve-skrifstofunni sem tökum þátt. Neyddumst reyndar til að skrá okkur í Reykjavík. Ekkert póstnúmer í Malaví fannst á heimasíðu Hjólað í vinnuna...

Æ, svo hálfpartinn skammaðist ég mín þegar ég fór af stað fyrsta daginn. Ég ruglaðist nefnilega á gírskiptingunni, tvisvar, þrisvar sinnum. Setti í þyngri gír þegar ég ætlaði að létta stigið. Og öfugt.

Ekki gott til afspurnar. Og nú er þessi vitneskja komin á veraldarvefinn.

Jæja, ég hlýt að lifa það af.

En ég er búinn að hjóla til og frá vinnu í sjö daga. Tvisvar hef ég meira að segja notað hjólhestinn til að komast á fundi. Það hefur vakið athygli. Ekki á hverjum degi sem „maður í minni stöðu“ (svo maður ofmetnist nú) hjólar á fund. Ég hélt því reyndar fram við kollega mína að þetta væru nýjar aðgerðir íslenskra stjórnvalda í niðurskurði, að skikka alla til að fara á hjóli á fundi. Kollegarnir keyptu það nú ekki alveg.

Væri reyndar ekki vitlaus hugmynd. Myndi spara bensín, þar með vernda umhverfið, og svo til lengri tíma leiða til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Væri ekki flott fyrir þá Sigmund og Bjarna að hjóla til Þingvalla í bústaðinn?

En, nóg komið af bulli.

Á þessum sjö dögum hef ég hjólað 132 kílómetra. Mér finnst það vel að verki staðið. Næstum því 19 km að meðaltali á dag. Reyni að hjóla ekki alltaf sömu leið og hef mest hjólað 23 km á einum degi.

Sex dagar til viðbótar og þá er kvótinn fylltur þetta árið.

Hjóla svo!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...