26. maí 2013

Góðgerð í morgunsárið

Við Rúnar Atli tókum daginn snemma í dag. Vöknuðum á sama tíma og á skóladegi. Ástæðan var að pilturinn ætlaði að taka þátt í góðgerðarhjólreiðum til stuðnings blindum og sjóndöprum börnum. Er þetta á vegum Lions í Malaví. Hann hafði safnað áheitum og nú átti að hjóla eftir hlaupabraut á íþróttavelli hér í Lílongve eins marga hringi og hann kæmist.

 Hér er piltur klukkan rétt rúmlega sjö í morgun tilbúinn í slaginn.

Er á fína Mongoose hjólinu sem var keypt á Íslandi fyrir tæplega tveimur árum. Hjólið fer að verða of lítið. Búið er að hækka hnakkinn nokkrum sinnum og nú er orðið lítið eftir af hnakkstönginni.

En hverju sem líður því, þá var svo farið að hjóla. Og það var hjólað og hjólað. Hring eftir hring. 

Stundum var stoppað til að fá vatn að drekka hjá aðstoðarmanninum. Í leiðinni var spurt um fjölda hringja sem búið væri að fara. Var ekki laust við að aðstoðarmaðurinn, sem hafði einnig það hlutverk að telja hringi, væri grunaður um græsku. Stundum voru menn nefnilega ekki sammála um töluna. En ávallt var komist að niðurstöðu.

Svo var hjólað meira.


Rúnar Atli býr enn að því að hafa fengið gefins hjólaföt af konunni sem seldi mér reiðhjól í fyrra. Hann var ósköp feginn að hafa púða í buxunum, ekki síst þegar leið á.

Eftir því sem leið á morguninn fjölgaði hjólreiðafólkinu. Stundum hljóp mönnum kapp í kinn og fóru að keppast við nágrannann. Bara gaman að því.


Rúnar Atli hjólaði 47 hringi á vellinum. Mér þótti það vel að verki staðist. Hringurinn er 400 metra langur, þannig að heildarvegalengdin sem hann hjólaði var 18,8 kílómetrar.

Safnaði hann 25.000 kvökum, sem er í kringum níu þúsund krónur.

Morgunstund gefur gull í mund.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...