17. júní 2013

Enn eitt beltapróf

Eins og margoft hefur komið fram í pistlum mínum, þá leggur sonurinn stund á karate. Finnst mér virðingarvert hversu stífa stund hann leggur á þessa íþrótt. Æfir yfirleitt þrisvar í viku og skemmtir sér vel.

Nú um helgina fór fram beltapróf. Svoleiðis próf eru haldin þrisvar á ári hér. Núna náði guttinn sér í grænt belti. Er þar með að ljúka sjöttu gráðu (6 kyu) og hálfnaður upp í gegnum kyu stigann, en á toppnum þar er svart belti. Þá hefst frekara stigakerfi innan svarta beltisins, en ég er nú ekki enn farinn að velta því kerfi fyrir mér. Ekki ennþá.

Einbeiting er mikilvæg í karate. Á þessum árum sem guttinn hefur æft karate hef ég séð mikla breytingu á stílnum og ákveðni í öllum hreyfingum. Kennarinn er líka endalaust að benda nemendunum á eitthvað sem betur má fara. T.d. í svona stöðu eins og hér til hægri, er algengt að hægri hendin sígi aðeins og bendi því ekki fram heldur skáhallt niður. Kennarinn er óþreytandi á að leiðrétta svona.

Eins hvort lófinn á hinni hendinni vísi upp eða til hliðar. Allt þetta skiptir máli. Hvert snúa tærnar? Endalaust nostrar kennarinn við þá og smátt og smátt síast þetta inn.

En þarna sjáið þið að Rúnar Atli er með appelsínugult belti með grænni rönd. Eftir þetta beltapróf er hann kominn með algrænt belti.

Ætli hafi ekki verið um 50 krakkar sem þreyttu beltaprófið að þessu sinni. Langflestir eru tiltölulegir byrjendur með hvít og rauð belti. Svo smám saman fækkar krökkunum eftir því sem beltin verða hærri, enda er karate ekki öðrum vísi en annað. Áhuginn er oft mikill til að byrja með en svo þegar nýjabrumið hverfur þá minnkar áhuginn. Enda er margt annað sem hægt er að gera. Lílongve er ekki frábrugðin öðrum stöðum þar.

Rúnari Atla finnst sport í því að vera oft í öftustu eða næst öftustu röð þegar hópæfingar eru. Þá eru byrjendurnir fremst í salnum og þeir reynslumeiri aftar. Á þessu beltaprófi var hann í öftustu röð og það finnst honum skemmtilegt. Svo fá þessir reynslumeiri oft að gera æfingar fáir í hóp og það finnst honum einnig gaman.

Hér er mynd af hálfri öftustu röðinni.


Í karate er mikið sparkað. Hér er kennarinn, sensei George,  að leyfa Rúnari Atla að láta ljós sitt skína í spörkum. Kennarinn gleymdi sparkvettlingunum heima, en lét það ekki slá sig út af laginu. Náði í flip-flops, eins og opnir plastskór, töfflur, kallast hér og lét krakkana sparka í þá.

Hér er flott spark í uppsiglingu:


... og svo smellur hátt í skónum.


Ekki má gleyma að æfa vinstri fót líka.


Og svo ein sparkmynd til viðbótar að lokum.
 

Jafnvægi virðist ekki vandamál á þessum aldri.

Svo er æfing á eftir. Skiptir engu þótt það sé lýðveldisdagur Íslands. Rúnar Atli ætlar að mæta til að sjá hvort eitthvað verði öðrum vísi að vera með grænt belti. Þetta verður síðasta æfing fyrir Íslandsferð. Innst inni veit ég að hann vonar að enginn mæti með hærra belti en hann.

Þá er víst skemmtilegast á æfingu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...