18. júní 2013

Sumir lenda í ræsinu

Í gær fórum við út að borða. Enda var jú lýðveldisdagurinn og því við hæfi að gera sér dagamun. Kínamatur á einu af flottustu hótelum bæjarins varð fyrir valinu. Gullni páfuglinn, heitir það, hvorki meira né minna.

En, ég ætlaði nú ekki að skrifa um kínverska veitingastaðinn.

Nei, ég ætlaði að skrifa um það sem gerðist þegar heim var komið.

Núna leggur maður bílnum varlega í bílskýlinu, því litlu hvolparnir - fjögurra vikna - eru farnir að flækjast svolítið um. Ekki vill maður nú hafa á samviskunni að keyra yfir þessi litlu grey. Mér tókst að leggja áfallalaust að þessu sinni. Enda fór Rúnar Atli út áður en ég lagði til að tryggja að hvolparnir væru ekki fyrir.

En þegar við komum út úr bílnum - ekki gleyma að það er niðamyrkur eftir klukkan hálfsex þessa dagana - þá heyrðum við óttalegt væl í hvolpunum. En áttuðum okkur ekki alveg á hvaðan það kom. Svo rennur Rúnar Atli á hljóðið og þá kemur í ljós að einn hvolpanna hafði stungið sér ofan í niðurfallið sem tekur vatnið úr eldhúsvaskinum.

Ég sting höndinni ofan í niðurfallið og finn eitthvað mjúkt viðkomu. Sá ekki neitt í myrkrinu. Vonaði að þetta væri nú ekki rotta eða eitthvað svoleiðis kvikindi... Nei, heyrði nú í hvolpnum, svo ég vissi nú að þetta væri hann. Dró vesalinginn upp, en hann var hálf dasaður greyið.

En, ég heyrði enn væl upp úr niðurfallinu. Dró upp farsímann til að fá smábirtu og sá glitta í ljósa hvolpinn þarna ofan í. Hann hafði sem sagt verið undir hinum í rörinu. Ég lét því höndina vaða ofan í á nýjan leik og náði þessum upp. Hann var löðrandi blautur og lyktaði eins og... ja ... eins og eitthvað úr ræsinu. Og var eiginlega varla ljós á litinn lengur.

Haldiði ekki að ég heyri svo enn meira væl upp úr rörinu!

Ég rýndi ofaní en sá ekkert. Stökk því inn í eldhús og náði í ennisljós sem var þar í skúffu. Kíki svo aftur ofan í. Sé ég þar ekki hvolpsaugu rétt yfir vatnsborðinu. Rétt náði að grípa utanum höfuðið á þessum hvolpi og dró hann upp. Eiginlega með hálfgerðu hálstaki. Sá var ógeðslegur ásýndar. Fosslak af honum drullan og lyktin, maður minn, sú var ekki góð.

Fjórði hvolpurinn hafði haft vit á að elta ekki systkini sín þarna ofaní, svo nú tók við hreinsunarstarf. Dýfðum vesalingunum ofan í volgt vatn í eldhúsvaskinum og margsápuðum þá. Það gekk erfiðlega því það var einhver olíubrák á þeim, en að lokum tókst þetta.

Síðan lokuðum við þá inni í þvottahúsinu, ásamt móðurinni, til að þeir færu sé ekki frekar að voða, og einnig til að þeim væri þolanlega heitt. Svo kíktum við nokkrum sinnum á þá síðar um kvöldið.
Í morgun voru þeir sprellikátir, svo þeim virðist ekki hafa orðið meint af volkinu.

En, þegar ég skoðaði aðstæður betur, þá áttaði ég mig á því að það vantaði grindina ofan á niðurfallið. Þess vegna duttu greyin bara ofan í, hvert á fætur öðru. Sá fyrsti hefur náð að snúa sér við, því hausinn fer alltaf á undan hjá þeim, og síðan hefur hann haft fótfestu í fyrstu beygju á rörinu. En bara rétt haft hausinn uppúr. Svo hinir ofan á.

Alveg með ólíkindum að þeir skuli hafa haft þetta af. Við vitum auðvitað ekki hversu lengi þeir voru þarna ofan í.

Hér er mynd af niðurfallinu, ásamt fæti Rúnars Atla. Núna er komin grind, eins og vel sést. Var fyrsta verk í morgun að kaupa svoleiðis. 


En, sem betur fer eru hvolparnir hressir. Hér er Rúnar Atli með tvo þeirra...


... og svo hina tvo.


Allt er gott sem endar vel.

Og þá sérstaklega ef maður endar ekki í ræsinu...


1 ummæli:

svanur sagði...

Ekki verður feigum forðað eða ....... . ... .....

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...