22. júní 2013

Brauðgerðarlist

Þá er ég orðinn einn í kotinu. Eiginkona og sonur okkar ungur farin til Íslands. Líða víst sjö vikur eða svo áður en þau koma til baka. Í það minnsta segir hið óskeikula exell mér að í dag séu 47 dagar þar til þau lenda í Lílongve á nýjan leik.

Og hvað á svo að gera í einverunni?

Einvera af þessu tagi líkist svolítið áramótum í því að maður fyllist einhverri uppblásinni þörf að gera eitthvað merkilegt. Að setja sér einhver háleit markmið sem skal ná á meðan á einverunni stendur.

Að sjálfsögðu er ég með langan lista. Hvað annað?

Eitt af því sem mig langar til að bæta mig í er brauðgerð. Hér í Lílongve eru brauðgerðarmenn ekki miklir listamenn. Hvítt brauð og brúnt fæst í búðum, en ekki mikið annað. Reyndar hræ-billeg, ekki nema 60-70 krónur brauðhleifurinn.

Reyndar er brauðgerð ekki nýtt áhugamál. En einhverra hluta vegna hefur brauðgerð aðeins vaxið mér í augum í gegnum tíðina. Hnoðun á deigi hefur mér aldrei þótt skemmtileg. Hreinlega bara erfið. Fyrir einhverjum árum keyptum við okkur brauðgerðarvél. Það þótti mér lúxus. Vatni, hveiti, geri og einhverju smálegu öðru hent í þar til gert ílát og svo bara ýtt á takka. Voilà, eftir þrjá tíma er komið ilmandi brauð. Auðvitað er síðan algjör snilld að tímastilla brauðgerðarvélina. Henda hráefninu ofan í brauðgerðartunnuna, stilla tímarofann, og svo þegar vaknað er að morgni þá bíður nýbakað brauð í eldhúsinu.

Ég hef tekið skorpur með þessa vél (ha-ha, föttuðuð þið þennan - skorpur...) en brauðin hafa verið misjöfn. Svo er lagið á brauðinu ekki gott. Einhvern veginn alltof stórt og klossað um sig og erfitt að skera fallegar sneiðar.

Einhvern tímann fyrir ekki löngu þá áttaði ég mig á því hversu frábærlega KitchenAid hrærivélin okkar hnoðar deig. Ekkert mál. Því hef ég prófað að setja í eitt og eitt brauð undanfarið. Með fínum árangri. Hér til hliðar er afrakstursmynd sem ég setti um daginn á fésbókina, svona í smámontkasti.

Hins vegar finnst mér fúlt hvað heimatilbúin brauð eru fljót að verða hörð og þurr. Frábær að borða ný. Allt í lagi að borða þau næsta dag eftir bökun, en ekki eru þau góð á öðrum degi. Ekki er þetta svona með búðarbrauðin. Þau endast lengur. Oft miklu lengur. Enda örugglega full af rotvarnarefnum. Bara þar er nú fín ástæða til að baka sín eigin brauð.

Draumurinn er að baka brauð um helgar sem hægt sé að borða út vikuna. Því er ekki nóg að vera flinkur að baka, heldur þarf að spá í frystingu og afþýðingu. Því er ég nú að lesa mér til um brauðgerð og er núna tilbúinn að gera tilraunir.

Ég bý að því að hafa tvær bækur við hendina. Önnur er Brauð- og kökubók Hagkaups, sem sjálfur Jói Fel leggur nafn sitt við. Hún er ágæt, en þó fæ ég aðeins á tilfinninguna að flýtir hafi valdið smámistökum og ósamræmi.

Hin bókin er eftir sænskan brauðgerðarmann - reyndar súkkulaðigerðarmaður líka - Jan Hedh heitir hann. Bókin er á sænsku og heitir einfaldlega Bröd. Mynd af forsíðu bókarinnar er hér til hægri. Doddi gaf mér þessa bók fyrir einhverjum árum. Hann er jú óþreytandi við að sænskuvæða mig. Erfitt verk, en ekki gefst hann upp.

Gamla dönskukunnáttan og þýðingarsíða Google gera að verkum að ég get stautast í gegnum þessa bók. Verð ég að viðurkenna að þessi bók stendur Hagkaupsbókinni mun framar. Allskonar hollráð eru veitt, sum sem ég hefði aldrei látið mér detta í hug.

Tilraun helgarinnar að þessu sinni, úr sænsku bókinni, er ítalskt brauð sem kallast Cornetti. Útbjó ég áðan fordeig sem fær að súrna aðeins í dag og nótt. Skv. bókinni er þetta bráðnauðsynlegt til að ná „ítalska bragðinu.“ Svo á morgun held ég áfram með deigið og baka brauðið. Reyndar eru þetta mörg smábrauð. Ef ég skil sænskuna rétt...

Þetta er fyrsta sinn sem ég ræðst í tveggja daga bakstur og er ég spenntur að sjá hvernig til tekst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtilega pistla!

Jón G.

Nafnlaus sagði...

Det skulle va kul att få testa dina italianska små fraller :-)

Doddi

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...