30. mars 2012

Miðinn kominn í hús

Þá styttist í leik helgarinnar. Júventus gegn Napólí! Ekki átti ég nú von á að fara á fótboltaleik á Ítalíu, ja, a.m.k. ekki fyrr en Dagmar Ýr fer í hönnunarskóla í Mílanó og ég get búið í kjallaranum og farið á San Síró. Hvenær sem það nú verður.

Áðan fékk ég miðann í hendurnar:


Sá er meira að segja með nafninu mínu í suðvestur horninu. Ætli maður verði ekki að hafa vegabréfið sitt með? Svona ef maður þarf að sanna hver maður er.

Kíkti á heimasíðu Júventus og fann upplýsingar um völlinn þeirra. Völlurinn er splunkunýr, opnaður í september í fyrra og virðist mjög flottur. Datt niður á þetta myndband frá opnuninni.


Svo virðist ég hafa fengið miða á besta stað. Aðeins austan við vallarmiðju í 25 röð og sæti 10. Það getur ekki verið slæmt.

En segi meira frá þessu þegar þetta er allt yfirstaðið.

28. mars 2012

Fallegt í Tórínó

Í Tórínó er núna vor í lofti. Svalt á morgnana, ríflega 8 gráður kannski, en um hádegisbilið er hitinn kominn eitthvað yfir 20 gráðurnar. Mjög þægilegt veður að mínu mati.

Ég hef komist í tvo göngutúra um nágrenni menntamiðstöðvarinnar þar sem ég bý þessa dagana. Það verður að segjast að það sem ég hef séð af Tórínó er fallegt. Hér eru nokkrar myndir til að styðja mál mitt.

Fyrir utan menntamiðstöðina

Hinum megin við götuna er lystigarður og þar er þessi steinbrú, án tilgangs, eftir endilangri tjörn

Flott tré

Tórínó-búar virðast nota Pó-ána nokkuð til útivistar. Í göngutúr meðfram ánni sá ég keppnisróðrarbáta á æfingu - líklega 8 metra langir hver um sig.

26. mars 2012

Töffarar par exellans

Hvernig stendur á þessum töffaraskap hjá ítölskum karlmönnum?

Um eftirmiðdaginn í gær fór ég í góðan göngutúr hér í Tórínó. Hafði veður af verslanamiðstöð í nágrenninu og ákvað að rölta þangað í rólegheitum og virða fyrir mér mannlífið. Þar var allt troðfullt af fólki. Enda sunnudagur og mér virðist sem Ítalir hafi gaman af að sýna sig og sjá aðra. Leið mín lá í gegnum lystigarð og þar var heilmikið af fólki í sunnudagsgöngutúr og greinilega er eitt sportið að hitta kunningjana og spjalla um daginn og veginn með þessu flotta handapati sem Ítölum er svo skemmtilega eiginlegt.

En ég ætlaði að skrifa um töffara.

Það er bara einhvern veginn þannig að töffaraskapurinn lekur af ítölskum karlmönnum. Ekki skilja mig þannig að ítalskar konur séu á einhvern hátt lummulegar. Alls ekki. Þær eru upp til hópa flottar í klæðaburði og allt það. En kallarnir..., já, kallarnir slá þeim algjörlega út þarna.

Mér virðist sem svo að fjórir af hverjum fimm ítölskum karlmönnum álíti að þeir séu aðaltöffarinn í bænum. Þetta einhvern veginn kemur fram í öllu við þá. Flottir í tauinu og allt útspekúlerað. Rétt tegund af sólgleraugum og merkjavörunni er auðvitað gert hátt undir höfði. Allir í flottu skótaui, sem passar við restina af klæðnaðinum. Hárið greitt vandlega á óskipulagðan hátt og meistaraverkið gert ódauðlegt þann daginn með hárgeli. Svo slyttast þeir einhvern veginn áfram á gríðarlega töffaralegan hátt. Það er eiginlega engin leið að lýsa þessu.

Auðvitað er ég bara drulluöfundsjúkur.

Fjölþjóðlegt námskeið

Margra grasa gætir í hópi þátttakenda á námskeiðinu sem ég er núna á í Tórínó. Þátttakendur eru nær 40 og koma frá 14 löndum. Um helmingur kemur frá Austur-Evrópu og tveir-þriðju af rest frá Austurlöndum nær. Sjö erum við frá Afríku. Ég er semsagt talinn frá Malaví. Það er ábyggilega flottara upp á tölfræðina en að vera frá Íslandi.

Ég hef núna í fyrsta skipti sem ég man eftir hitt fólk frá Albaníu, Moldóvu, Aserbaídsjan, Kirgisistan, og ekki má gleyma sessunauti mínum frá Bútan.

Þetta er skemmtilegt.

Miðinn kominn

Minn knattspyrnusjúki bróðir eiginlega krafðist þess að ég færi á fótboltaleik úr því ég væri á Ítalíu. Hann meira að segja fann út hvaða leikur væri í Tórínó um komandi helgi. Júventus gegn Napólí. Ég fór því í morgun og spurði um möguleikana að fá miða. Náunginn hristi höfuðið: ,,Nærrí ómögulegtó," sagði hann með yndislegum ítölskum hreim. En lofaði að athuga málið.

Hann greinilega setti konu í málið og elskan hún Móníka kom til mín áðan og sagði mér að miði væri til.

Ég fer því á leik í seríu A á sunnudaginn!

24. mars 2012

Aftur af stað

Sit núna á Jomo Kenyatta flugvellinum í Keníu. Er á leiðinni til Tórínó á Ítalíu, en þar eyði ég næstu tveimur vikum á skólabekk. Alþjóðavinnumálastofnunin rekur alþjóðlega menntamiðstöð í Tórínó og ég ætla að sækja eitt námskeið þar.

Áreiðanlega verður skrýtin tilfinning að vera þarna. Ég hef ekki setið á skólabekk síðan á síðustu öld held ég, svo viðbrigðin verða líklega einhver. En, ég er líka svolítið spenntur því þetta námskeið ætti að gagnast mér í vinnunni og því verður þetta vonandi skemmtilegt og áhugavekjandi. Kemur allt í ljós.

Ég lagði af stað að heiman í morgun klukkan níu. Á sama tíma hófst beltapróf í karate hjá Rúnari Atla og missti ég því af því. Það verður vonandi annað beltapróf seinna. Það tók um 40 mínútur að komast út á völl og þar þurfti ég að sitja til hádegis, en þá lagði vélin af stað til Næróbí. Ekki er nú hægt að segja að mikið sé við að vera á alþjóðaflugvellinum í Lílongve, en ég gat þó fengið mér heitt kakó, og svo vafraði ég um veraldarvefinn. Hvað gerði maður áður en far- og spjaldtölvur komu til sögunnar?

Hérna í Næróbí þarf ég að bíða í einhverja átta klukkutíma eða svo. Eyði svo nóttinni í flugvél frá konunglega hollenska flugfélaginu. Amsterdam snemma í fyrramálið, bíð þar í þrjá tíma og svo áfram til Tórínó. Þar lendi ég rétt fyrir hádegi, 11:20 að staðartíma (og sænskum), 12:20 að malavískum, 10:20 að íslenskum og 2:20 að morgni að tíma vesturstrandar Kanada. Ekkert smáflókið að lifa á þotuöld.

Hvernig skyldi nú vera best að drepa tímann hér? Æ, best að kíkja á facebook...

14. mars 2012

Villi var einn í heiminum

Sem ég skrifa þetta sit ég við strönd Malaví-vatns. Þurfti að keyra þessa 260 km sem eru á milli Lílongve og Mangotsí-bæjar og mæta á fund og svo er annar í fyrramálið. Nóttinni eyði ég á flottu gistiheimili hér við vatnið. Ekta túristastaður, gullin strönd og hægt að stunda margvíslega afþreyingu hérna. Ég þurfti meira að segja að skrifa undir yfirlýsingu sem firrir gistiheimilið allri ábyrgð ef ég slasa mig á lóðinni.

Þegar ég renndi í hlað, rúmlega fimm var bara einn bíll á bílastæðinu. Hann gæti tilheyrt starfsmanni, því honum var lagt á undarlegum stað. Ég sagðist eiga pantað herbergi, en var ekki einu sinni spurður að nafni. Bara réttur fyrsti lykill.

Ég ákvað að fara í sund, en hér er nokkuð stór sundlaug. Var einn í lauginni.

Þegar ég gekk til baka að kofanum mínum var farið að skyggja og ég tók eftir að búið var að kveikja útiljós á öllum kofum milli míns kofa og móttökusvæðisins. Ekki var kveikt á þeim kofum sem fjær stóðu. Líklega gert svo ég myndi ekki villast.

Labbaði á veitingasvæðið. Var einn að borða í sal sem tekur líklega 50 manns. Öll borð dúkuð. Þegar ég var að klára matinn, þá komu þjónarnir og tóku dúkana af öllum borðum. Öllum nema mínu.

Svo er ég sambandslaus við umheiminn, til að bæta gráu ofan á svart, og veit ekkert hvenær þessi færsla kemst á veraldarvefinn.

Er að undra að mér finnist ég vera einn í heiminum?

 

11. mars 2012

Af hverju enginn dansar við mig...

Á föstudaginn var þá sóttum við Gulla góðgerðarkvöldverð í húsi einu hér í Lílongve. Þarna var verið að safna fyrir munaðarleysingjahæli sem er hér rétt utan við borgina, ef ég man rétt. Þarna var mikill glaumur og gleði. Í kringum 70 manns á svæðinu, góður matur og var hægt að kaupa drykki, bæði með og án áfengis. Allur ágóðinn af þessu rennur til þessa hælis. Veit ég að þær konur sem sáu um matreiðsluna gáfu allan mat og alla sína vinnu, þ.a. útlagður kostnaður var ekki mikill.

Mér fannst skemmtilegt að pæla í fólkinu sem sat til borðs með okkur Gullu. Stundum talar maður um allra þjóða kvikindi, og átti það við þarna. Þarna voru fern hjón. Við Gulla auðvitað við, íslensk. Ein hjón voru suður-afrísk. Næstu hjón voru suður-afrískur maður og máritísk kona og síðustu hjónin voru þýskur maður og eiginkona hans indversk. Skrýtin blanda kannski, en allir hver öðrum skemmtilegri. Margar skemmtilegar sögur og mikið hlegið.

En, ég ætlaði að skrifa um dans. Á meðan á matnum stóð var spiluð þægilega og róleg tónlist. Eftir matinn hins vegar færðist aðeins meira fjör í leikinn. Þá tók plötusnúðurinn aldeilis við sér og fór að spila stuðlög. Og auðvitað fór fólk út á gólfið og dansaði. Á einhverjum tímapunkti spyr indverska konan mig hvort ég sé ekki til í að dansa einn dans. Ég, eins og þeir sem þekkja mig vita, er kurteis maður og segi sjaldan nei við konur. Hvað þá við konur frá framandi löndum. Maður veit jú aldrei hvenær maður getur móðgað fólk. Við dönsuðum einn dans, kannski tvo. Bara gaman og ekkert meir um það að segja.

Nema hvað.

Seinna um kvöldið þá eru Gulla og þessi indverska kona í hrókasamræðum. Einhver fyndin saga í gangi og Gulla sveiflar annarri hendinni til að leggja áherslu á orð sín. Vill þá ekki betur til en svo að hún rekur fingur í augað á þessari konu. Eitt af þessum ótrúlegu ólánum sem stundum gerast. En betur fór en á horfðist og enginn skaði hlaust af þessu.

Gott mál.

Nema hvað. Einhverjar kellur þarna sáu sér leik á borði að gera at í Gullu. Úff, þessi íslenska kolklikkaða kona. Ef einhver vogar sér að dansa við manninn hennar, þá ræðst hún bara með kjafti og klóm á þá konu og reynir að klóra út henni augun!

Skapheitar eldfjallakonur þarna á Íslandi. Þurfa ekkert tilefni til að gjósa!

Svo, ég á ekki von á að vera aftur boðið upp í dans hér í Lílongve.

Rúnar Atli kynnir sig

Við skráðum Rúnar Atla í eitt íslenskunámskeið í Netskólanum. Þar er boðið upp á íslenskunám fyrir íslensk börn í útlöndum. Virðist gott framtak, en of snemmt fyrir okkur að dæma strax.

En, Rúnar Atli átti að segja aðeins frá sjálfum sér. Þar sem mátti skila verkefninu á myndbandi þá ákváðum við að prófa hvernig það tækist til.

Hér er afraksturinn:


7. mars 2012

Losnað við höfuðverk - í fjarvinnslu

Tæknin er nú oft alveg ágæt.

Mér er stundum hugsað til munsins milli þess tíma þegar ég fyrst fluttist til útlanda, í ágúst 1991, og nú.

Ekki get ég sagt að mér finnist neitt ótrúlega langt síðan í ágúst 1991. Margt sem á dagana dreif fyrstu vikurnar í Vancouver er mér enn í fersku minni. Eins og gerst hefði í gær. En þegar ég tel árin verð ég að viðurkenna að þau eru orðin svolítið mörg.

Ég man eftir því að fá send upprúlluð dagblöð frá Íslandi. Til að lækka póstburðargjaldið var ýmis óþarfi klipptur úr blöðunum, t.d. auglýsingar. Kannski ritskoðaði Varði blöðin eitthvað meira. Veit það ekki, en alveg gæti það nú verið. Alþýðubandalagsmanninum gæti hafa þótt óþarfi að senda eitthvað sjálfstæðisflokksblaður heimsálfa á milli, ekki satt? En þessi blöð las maður spjaldanna á milli. Sex til átta vikna gömul. Svo gengu þau á milli manna þarna úti. Oft komu þau svo til baka þegar allir höfðu lesið. Þá renndi maður aftur í gegnum þau.

Í dag les maður pdf-útgáfuna af DV áður en fólk á Íslandi er vaknað.

Á þessum tíma stóðum við í bréfaskriftum. Ekki í tölvupósti, heldur gamaldags bréfaskriftir á til þess gerð bréfsefni. Bréfin voru síðan sett í umslög og frímerki límt á. Stundum sex til sjö síðna bréf. Einhverjar vikur liðu áður en þau komust til skila. Mörg þessara bréfa eru enn til í dag. Þau er gaman að skoða.

Já, í þá gömlu góðu daga. Þá var nú margt öðrum vísi en í dag.

En tækninni hefur fleygt fram. Það var ágætt beggja vegna síðustu helgar. Við eigum nefnilega gamlan bílskrjóð heima á Íslandi. Eitt af því sem fylgir svoleiðis eign er árleg bifreiðaskoðun. Undanfarin ár höfum við komið heim um jól og látið skoða bílinn fyrstu viku í janúar. Rétt áður en við höldum aftur út í heim. Iðulega er tilheyrandi stress, ekki síst þegar viðhald er nauðsynlegt. Þegar bíllinn er gamall, þá er viðhaldið oft mikið. Og ekki gefins.

En þetta árið vorum við í útlöndum um jólin. Hvað var til ráða? Í fyrra höfðum við sett bílinn í viðgerð hjá Bíljöfri í Kópavogi fyrir skoðun. Vissum af einhverju sem gera þurfti við. Svo þegar ég fór með bílinn til þeirra, þá datt upp úr mér að ég ætli að láta skoða hann strax að viðgerð lokinni. „Eigum við ekki bara að sjá um þetta fyrir þig?“ var ég spurður. Ég kom alveg af fjöllum að hægt væri að fá svoleiðis þjónustu, en lét tilleiðast. Mikið var þetta þægilegt að þurfa ekki að hanga á kaffistofunni í Frumherja og bíða stóra dóms. Bara að mæta til að sækja bílinn og sjá nýjan fínan miða á númeraplötunni.

Ég ákvað því núna að hafa samband við Bíljöfur og sjá hvort þeir væru ekki til í að gera þetta aftur.

Og nú, eftir þennan langa formála, kemur tæknihlutinn.

Ég sendi þeim auðvitað tölvupóst til að panta tíma. Ekkert mál. Fékk svar um hæl, klukkutíma síðar þar sem mér var sagt hvaða dag mætti koma með bílinn. Síðan eftir að bílinn fór inn, hringdi ég tvisvar eða þrisvar í verkstæðið úr íslenska netsímanum okkar. Algjörlega frítt að hringja frá Malaví til Íslands. Svo þegar verkinu lauk, þá var hringt í mig frá Bíljöfri í netsímanúmerið til að minna mig á að borga reikninginn. Það gerði ég í netbankanum mínum innan við hálftíma frá símtalinu.

Samskiptin milli heimsálfa ekkert vandamál. Og allt meira og minna ókeypis.

Nema auðvitað reikningurinn frá verkstæðinu. En hann var í minna lagi. „Þetta er traustur bíll,“ var dómur bifvélavirkjans. Ekki slæmur dómur fyrir 16  ára gamlan bíl. Ammrískur, auðvitað.

Ég get mælt með Bíljöfri fyrir þá sem eiga flotta Kræsslera eins og við Gulla.

Þannig að nú er þessi árlegi höfuðverkur úr sögunni.

Næst er það skattframtalið...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...