14. mars 2012

Villi var einn í heiminum

Sem ég skrifa þetta sit ég við strönd Malaví-vatns. Þurfti að keyra þessa 260 km sem eru á milli Lílongve og Mangotsí-bæjar og mæta á fund og svo er annar í fyrramálið. Nóttinni eyði ég á flottu gistiheimili hér við vatnið. Ekta túristastaður, gullin strönd og hægt að stunda margvíslega afþreyingu hérna. Ég þurfti meira að segja að skrifa undir yfirlýsingu sem firrir gistiheimilið allri ábyrgð ef ég slasa mig á lóðinni.

Þegar ég renndi í hlað, rúmlega fimm var bara einn bíll á bílastæðinu. Hann gæti tilheyrt starfsmanni, því honum var lagt á undarlegum stað. Ég sagðist eiga pantað herbergi, en var ekki einu sinni spurður að nafni. Bara réttur fyrsti lykill.

Ég ákvað að fara í sund, en hér er nokkuð stór sundlaug. Var einn í lauginni.

Þegar ég gekk til baka að kofanum mínum var farið að skyggja og ég tók eftir að búið var að kveikja útiljós á öllum kofum milli míns kofa og móttökusvæðisins. Ekki var kveikt á þeim kofum sem fjær stóðu. Líklega gert svo ég myndi ekki villast.

Labbaði á veitingasvæðið. Var einn að borða í sal sem tekur líklega 50 manns. Öll borð dúkuð. Þegar ég var að klára matinn, þá komu þjónarnir og tóku dúkana af öllum borðum. Öllum nema mínu.

Svo er ég sambandslaus við umheiminn, til að bæta gráu ofan á svart, og veit ekkert hvenær þessi færsla kemst á veraldarvefinn.

Er að undra að mér finnist ég vera einn í heiminum?

 

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...