11. mars 2012

Af hverju enginn dansar við mig...

Á föstudaginn var þá sóttum við Gulla góðgerðarkvöldverð í húsi einu hér í Lílongve. Þarna var verið að safna fyrir munaðarleysingjahæli sem er hér rétt utan við borgina, ef ég man rétt. Þarna var mikill glaumur og gleði. Í kringum 70 manns á svæðinu, góður matur og var hægt að kaupa drykki, bæði með og án áfengis. Allur ágóðinn af þessu rennur til þessa hælis. Veit ég að þær konur sem sáu um matreiðsluna gáfu allan mat og alla sína vinnu, þ.a. útlagður kostnaður var ekki mikill.

Mér fannst skemmtilegt að pæla í fólkinu sem sat til borðs með okkur Gullu. Stundum talar maður um allra þjóða kvikindi, og átti það við þarna. Þarna voru fern hjón. Við Gulla auðvitað við, íslensk. Ein hjón voru suður-afrísk. Næstu hjón voru suður-afrískur maður og máritísk kona og síðustu hjónin voru þýskur maður og eiginkona hans indversk. Skrýtin blanda kannski, en allir hver öðrum skemmtilegri. Margar skemmtilegar sögur og mikið hlegið.

En, ég ætlaði að skrifa um dans. Á meðan á matnum stóð var spiluð þægilega og róleg tónlist. Eftir matinn hins vegar færðist aðeins meira fjör í leikinn. Þá tók plötusnúðurinn aldeilis við sér og fór að spila stuðlög. Og auðvitað fór fólk út á gólfið og dansaði. Á einhverjum tímapunkti spyr indverska konan mig hvort ég sé ekki til í að dansa einn dans. Ég, eins og þeir sem þekkja mig vita, er kurteis maður og segi sjaldan nei við konur. Hvað þá við konur frá framandi löndum. Maður veit jú aldrei hvenær maður getur móðgað fólk. Við dönsuðum einn dans, kannski tvo. Bara gaman og ekkert meir um það að segja.

Nema hvað.

Seinna um kvöldið þá eru Gulla og þessi indverska kona í hrókasamræðum. Einhver fyndin saga í gangi og Gulla sveiflar annarri hendinni til að leggja áherslu á orð sín. Vill þá ekki betur til en svo að hún rekur fingur í augað á þessari konu. Eitt af þessum ótrúlegu ólánum sem stundum gerast. En betur fór en á horfðist og enginn skaði hlaust af þessu.

Gott mál.

Nema hvað. Einhverjar kellur þarna sáu sér leik á borði að gera at í Gullu. Úff, þessi íslenska kolklikkaða kona. Ef einhver vogar sér að dansa við manninn hennar, þá ræðst hún bara með kjafti og klóm á þá konu og reynir að klóra út henni augun!

Skapheitar eldfjallakonur þarna á Íslandi. Þurfa ekkert tilefni til að gjósa!

Svo, ég á ekki von á að vera aftur boðið upp í dans hér í Lílongve.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...