26. mars 2012

Töffarar par exellans

Hvernig stendur á þessum töffaraskap hjá ítölskum karlmönnum?

Um eftirmiðdaginn í gær fór ég í góðan göngutúr hér í Tórínó. Hafði veður af verslanamiðstöð í nágrenninu og ákvað að rölta þangað í rólegheitum og virða fyrir mér mannlífið. Þar var allt troðfullt af fólki. Enda sunnudagur og mér virðist sem Ítalir hafi gaman af að sýna sig og sjá aðra. Leið mín lá í gegnum lystigarð og þar var heilmikið af fólki í sunnudagsgöngutúr og greinilega er eitt sportið að hitta kunningjana og spjalla um daginn og veginn með þessu flotta handapati sem Ítölum er svo skemmtilega eiginlegt.

En ég ætlaði að skrifa um töffara.

Það er bara einhvern veginn þannig að töffaraskapurinn lekur af ítölskum karlmönnum. Ekki skilja mig þannig að ítalskar konur séu á einhvern hátt lummulegar. Alls ekki. Þær eru upp til hópa flottar í klæðaburði og allt það. En kallarnir..., já, kallarnir slá þeim algjörlega út þarna.

Mér virðist sem svo að fjórir af hverjum fimm ítölskum karlmönnum álíti að þeir séu aðaltöffarinn í bænum. Þetta einhvern veginn kemur fram í öllu við þá. Flottir í tauinu og allt útspekúlerað. Rétt tegund af sólgleraugum og merkjavörunni er auðvitað gert hátt undir höfði. Allir í flottu skótaui, sem passar við restina af klæðnaðinum. Hárið greitt vandlega á óskipulagðan hátt og meistaraverkið gert ódauðlegt þann daginn með hárgeli. Svo slyttast þeir einhvern veginn áfram á gríðarlega töffaralegan hátt. Það er eiginlega engin leið að lýsa þessu.

Auðvitað er ég bara drulluöfundsjúkur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...