30. apríl 2006

Grillveður, hvað?

Grillað í kvöldmat. Jú, en ekki í Namibíu heldur á Akranesi!
Rjómablíða, að mér skilst, á meðan hér var svaðalegt þrumuveður með
tilheyrandi úrkomu og eldingum. Þ.a. ekki þýddi að láta sig dreyma um
að kveikja upp eld utandyra, ó, nei. Berast þá þær fréttir að frúin á
Stillholtinu sé að baksa við grillkol og -vökva, og gekk víst bara vel.

Misskipt er veraldargæðum.

Boltaleikur

Lítið hefur farið fyrir áhuga hjá Rúnari Atla á boltaleikjum. Hann á
einhverja bolta og hefur áhuga fyrir þeim í búðum, en hefur lítið áttað
sig á til hvers þeir eru. Vill frekar sitja og kubba eða púsla. Nú eða
leika sér með plastílát úr einum eldhússkápnum.

Nú virðist einhver breyting vera í uppsiglingu. Hann hefur aðeins verið
að fylgjast með fótbolta í sjónvarpinu með mér undanfarið og í gær tók
hann sig til og fór að sparka í sexkantaða plastkúlu sem hann á, með
tilheyrandi hávaða og látum. Mér fannst þetta athyglisvert, því ég hef
ekki séð hann gera svona fyrr, svo í dag fundum við einn boltann hans
og fórum að leika okkur fyrir utan húsið. Hann sparkaði á fullu, en svo
fannst honum skemmtilegast að ég sparkaði boltanum og hann hlypi á
eftir honum og kæmi með hann til baka. Hversu oft óskaði maður sér ekki
að hafa einhvern svona í gamla daga þegar maður þrykkti boltanum rétt
fram hjá markinu á Austurbæjarskólalóðinni og þurfti að hlaupa langar
leiðir, stundum alla leið niður að Heilsuverndarstöð til að ná í
tuðruna. En guttinn er greinilega réttfættur, það fer ekki milli mála.

Kannski er kominn tími til að kaupa Manchester United, Barcelona og AC
Milanó gallana á drenginn?

Brúðkaupsveisla

Í gær fórum við Tinna Rut í brúðkaupsveislu. Bróðir hennar Imeldu,
þeirrar sem skaffaði okkur barnapíu, var að gifta sig. Nokkrum sinnum
er búið að tala um að okkur verði boðið og svo í fyrrakvöld, um
níuleytið, hringdi Imelda og sagði mér að mæta næsta dag! Góður
fyrirvari, eða hvað?

En við Tinna fórum sem sagt, og skemmtum okkur bara vel. Reyndar voru
allar ræður og brandarar á afrikaans, en það er móðurmál flestra sem
þarna voru. Þessar fjölskyldur eru það sem kallað er litaðar, og fyrir
löngu, löngu síðan var litið niður á litaða fólkið bæði af hvítum og
svörtum. Endaði þetta fólk í hópum utanveltu og talaði mál nýlenduherrana. Margir þessara hópa enduðu í sunnanverðri Namíbíu á sínum tíma. Hvað
um það, við mættum í þessa veislu. Eftir helling af ræðum var skálað í
kampavíni fyrir brúðhjónunum og síðan farið að borða. Flott hlaðborð
með helling af allskonar kjötréttum, og meira að segja einum fiskrétti.
Eitthvað hefur hnífurinn nú runnið til í flökuninni, því sjaldan hef ég
fengið jafnmikið af beinum úr fiskstykki áður. En maturinn var mjög
góður, það vantaði ekki.

Að loknum matnum var farið að dansa. Hljómsveit lék fyrir dansi og stóð
sig vel. Reyndar rak gítarleikarinn sig í trommusettið, en því var
reddað án þess að slegin væri feilnóta. Heyrðu, ég gleymdi að segja frá
því að brúðguminn tók lagið í miðjum ræðuhöldum. Kom niður á
dansgólfið, dró brúðina með sér, og söng ástarljóð til hennar. Hann kom
mér á óvart með sönghæfileikum sínum, verð ég að segja. Var varla þurrt
auga í kofanum að söng hans loknum og ávann hann sér mikið lófaklapp að
söngi loknum.

Sem sagt, það var farið að dansa. Að sjálfsögðu byrjuðu brúðhjónin og
svo bættust systkini þeirra og makar við í fyrsta lagi. Eftir það var
stanslaust spilað og fólk streymdi á dansgólfið. Greinilega er mikil
dansmenning hjá þessu fólki, því allir kunnu þau dansspor sem þurfti.
Nokkrir voru greinilega miklir dansarar og fóru mikinn. Fyrir einn
dansinn var dreift hveiti á gólfið, því í honum þurfti að vera hægt að
renna sér eftir gólfinu. Síðan voru stundum hringdansar, þar sem einn
stökk inn í hringinn og dró einhvern annan út á gólfið. T.d. fór bróðir
brúðgumans, stór og mikill maður á alla kanta, sennilega tvöfaldur á
breiddina miðað við mig, út á gólfið og ein kona líklega nálægt sextugu
fór með honum og ég hélt hreinlega að þau myndu enda fatalaus á
gólfinu... Í öllum þessum dansi sem var þarna var mikil kátína og grín.
Haldiði síðan ekki að þessi tæplega sextuga kona stansi allt í einu
fyrir framan mig í hringnum, ranghvolfi í sér augunum og bendi mér inn
á gólfi. Ekki fór hjá því að ég væri örlítið hissa, en ekki þýddi að
skorast undan, þ.a. ég stökk bara á móti henni og fór eitthvað að dilla
mér þarna. Hún skakaði sér á alla kanta, með vægast sagt vafasömum
handahreyfingum neðan beltisstaðar, ekki síst í áttina til mín... Ekki
var annað hægt en að taka þátt í þessu, svo ég lét bara ímyndunaraflið
flakka og reyndi að fylgja konunni eftir. Þetta tókst bara skikkanlega
vel og mikið hlegið að þessu.

Við vorum þarna frá sjö til rúmlega ellefu en ég á von á því að fjörið
hafi haldið áfram langt fram eftir nóttu. Hljómsveitin virtist ekki
þurfa nein hlé, heldur var bara spilað lag eftir lag, og alltaf mættu
einhverjir út á gólfið.

Þetta var skemmtileg lífsreynsla.

29. apríl 2006

20 mánuðir

Í dag varð hann sonur minn 20 mánaða. Ekki finnst mér nú langt síðan hann var að koma í heiminn. Styttist í tvö árin. Terrible two's eins og sagt er á engilsaxneskunni eða þau tvö hræðilegu í lauslegri þýðingu. Ein breyting sem ég tek eftir í fari hans er að hann er farinn að spá meira í klæðnaðinn sinn. Þ.e.a.s. fylgist með vali mínu úr skápnum sínum og er stundum ekki alveg sammála mér. Sumt er alltaf vinsælt, t.d. peysa með bílum framan á og bolur með Bangsímon. Annað fellur ekki alveg eins vel í kramið. Auðvitað skiptir máli í hvernig skapi pilturinn er. Svo þarf hann að greiða á sér hárið. Alveg ferlegt þegar það gleymist.

Núna áðan vorum við að versla. Ekki beint í frásögur færandi, en þó, skemmtileg uppákoma. Þannig er að fyrir ofan grænmetis- og ávaxtahillurnar eru speglar, sennilega í 45 gráðu horni. Því sér maður grænmetið og ávextina ef maður kíkir í þá og sennilega virkar sem meira sé þarna en er. Hvað um það, áðan var guttinn rétt fyrir framan hillurnar, beygður í hnjám og baki til að sjá ofan á kollinn á sjálfum sér. Mikið var hann ánægður að sjá bláu spennuna hennar systur sinnar í hári sér.

27. apríl 2006

Veikindi og matvendni

Í fyrrakvöld fannst mér Rúnar Atli frekar heitur á kollinum. Veit ekki hvað hann var að hugsa svona gríðarleg að kollurinn bara ofhitnaði, ha-ha. Mældi hann og hann var með smávegis hita. Ekkert alvarlegt, 8 kommur að mig minnir. Hann var því heima í gær og í gærkvöldi var hitinn búinn að hækka aðeins. Ætli ég kíki ekki í apótekið á eftir því hósti fylgir þessu hjá greyinu.

En svo í kvöldmatnum í gær, þá kom eiginlega fram eina matvendnin sem ég hef orðið var við hjá honum. Ennþá... Ég eldaði nautakjötsstrimla í sósu, spaghetti og var svo með pakkamús með þessu. Svo sting ég smámús í munninn á honum, og ég vissi bara ekki hvert guttinn ætlaði! Þarna sat hann, með hálfopinn munn, smákartöflumús á tungubroddinum, og hágrét, án þess þó að hreyfa munninn. Músin var greinilega svo ógeðsleg að hann gat ekki hugsað sér að eitthvað af henni færi ætlaða leið. Ekki bætti úr skák að ég skellihló að honum...

24. apríl 2006

Karlmennska


Eitthvað var verið að spurja um spennu í hári „frænda míns.“ Sendandi óþekktur, en sterkar vísbendingar að uppruni athugasemdarinnar sé Svíaríki. Vonandi tekur þessi mynd af allan vafa um spennuna.

Er þetta eitthvað vandamál? Gul treyja og blá spenna - hvað vilja Svíar hafa það betra?

23. apríl 2006

„Vasalegt mar“Í gær vorum við Rúnar Atli í framgarðinum og ég var eitthvað að spá og spekúlera eins og mín er von og vísa. Var með hendur í vösum, þungt hugsi. Heyri ég þá eitthvað uml og einhverjar stunur frá syni mínum. Fer ég að spá í þetta og átta mig fljótlega á því að hann er að reyna að koma höndunum sínum ofan í buxnavasana. Gekk hálfilla því þeir eru lokaðir með frönskum rennilás. Ég hjálpa guttanum auðvitað og varð hann himinlifandi yfir þessu og spígsporaði um allt með hendur í vösum. Meðfylgjandi myndir ná ekki að sýna innlifunina nægjanlega en gefa þó vísbendingu um ánægju drengsins.

Vetur konungur mættur á svæðið

Nú er að rifjast upp fyrir mér munurinn á húsagerðarlist í Namibíu og á
Íslandi. Í fyrradag var rigning langt fram eftir degi og frekar kalt. Í
gær hélt kuldinn áfram og þegar leið að kvöldi þá leist mér nú bara
ekkert á hitastigið inni í kofanum. Þannig er jú mál með vexti að
flesta daga ársins er heitt hér og því eru húsin byggð með það fyrir
augum að haldast svöl þótt heitt sé úti. Ágætt þegar sumar er, en nú
þegar koma Veturs konungs nálgast, þá er þetta ekki alveg eins
heppilegt. Í gærkvöldi var orðið það kalt hjá okkur að ég dró úr
geymslu rafmagnsofna sem hafa verið í dvala svo mánuðum skiptir. Setti
einn í hvert svefnherbergi og líka í sjónvarpsholið. Skánaði hitastigið
aðeins, en var þó engu að síður langt frá 20 gráðum, sennilega nær 10.
Verð að fara að fjárfesta í hitamæli, svo ég geti notað statistík þegar
ég barma mér svona.

Nú í morgun var því hrollur í okkur, en nýbakaðar vöfflur og te komu
okkur í gang.

22. apríl 2006

Og enn byggir hann Bubbi...


Keypti málband í dag. Það var smiður hér í gær að mæla eldhússkápana hjá okkur og Rúnar Atli fylgdist með mjög lotningarfullur. Hann greinilega lærði eitthvað, því hann hefur varla látið málbandið frá sér síðan það var keypt.

Takið eftir hárskrautinu...

Sæt saman...


Eru þau ekki æðisleg...

21. apríl 2006

Afmæli og strákastand

Hún Tinna Rut átti afmæli í gær. Orðin 14 ára gömul, takk fyrir.
Dagurinn var tekinn snemma. Hún var, að eigin ósk, vakin klukkan
hálfsjö til að opna pakka. Dagmar Ýr var æðislega hress í útliti á
þessum tíma dags... Reyni að setja inn mynd eða tvær þegar Tinna Rut er
búin að skella þeim inn á tölvuna.

Hvað um það, hún opnaði pakkana sína og var voðalega ánægð eins og
hennar er von og vísa. Hún fékk geisladiska og dvd, nýjustu Harry
Potter myndina, og svo var það aðallinn... iPod nano með pláss fyrir
1.000 lög. Mamma hennar var arfleifð af gamla iPod shuffle.

Engin veisla verður haldin núna. Ekkert gaman þegar skólinn er í fríi.
Ætli verði ekki smáboð einhvern tímann seinni hluta maímánaðar. Gæti
best trúað því.

En svo var þetta með strákana... Mér verður gengið framhjá útidyrunum,
sem venju samkvæmt voru opnar upp á gátt, og rek augun í að Tinna Rut
er úti á gangstétt að tala við einhverja stráka. Kannast bara ekkert
við þá. Dagmar Ýr send að njósna og kemst að því að þeir eru þrír,
piltarnir. Síðan fer gellan bara í göngutúr með félögunum og sást ekki
í tvo klukkutíma... Þetta eru einhverjir gaurar úr skólanum, úr 8., 9.
og 10. bekk. (Tinna Rut er í níunda bekk ef einhver skyldi búinn að
gleyma því). Hmm, móðirin var nú ekki par hrifin, skal ég segja ykkur:
„Barnið er alltof ungt fyrir svona.“

Þarf að setja útivistarbann??

Vandræðaástand

Úff, úff, úff. Nú er það svart. Haldiði að Gulla og Dagmar Ýr hafi ekki misst af fluginu frá London til Íslands! Núna sitja þær á einhverju hóteli í London sem þær vita í raun ekkert um hvar er. Málið var að þegar ég pantaði flugmiðann þá átti namibíska flugvélin að lenda 4:55 að morgni í London. BA vélin flýgur síðan klukkan 7:30 áleiðis til Keflavíkur og því er u.þ.b. tveir og hálfur tími til að skipta um vél. Síðan kom í ljós í vikunni að tímabreytingin var aftur að stríða okkur. Lending var ekki 4:55 heldur 5:55. Aðeins einn og hálfur tími því til aflögu. Síðan seinkaði brottför frá Windhoek um einar 40 mínútur og því fór sem fór.

Nú þarf að kaupa nýja flugmiða og hótelherbergi og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er enda búinn að skrifa skammarbréf og senda til Air Namibia og heimta að þeir borgi allan kostnað við þetta. Enda er þetta klúður þeim að kenna. Algjörir jólasveinar að gera ekki ráð fyrir tímabreytingunni. Við hefðum aldrei keypt miðana ef við hefðum vitað réttar tímasetningar.

20. apríl 2006

Snyrtilegur...


Ekki var bara pabbinn sem fékk egg. Börnin fengu líka glaðning úr ferðatösku móðurinnar. Rúnar Atli var ánægður með páskaeggið sitt, þótt ekki væri nema númer 2. Pabbanum fannst þetta frekar skorið við nögl. En Rúnari Atla virtist alveg sama og borðaði bara sitt egg. Gerði það á mjög snyrtilegan hátt. Einhvers staðar eru til myndir frá páskunum í fyrra þar sem drengurinn tapaði alveg viti og glóru og varð súkkulaðihjúpaður upp fyrir haus.

Menn þroskast víst með aldrinum.

Páskaegg hvað?


Ég les á ýmsum bloggsíðum að sumir fengu ekki páskaegg þessa páskana og þurftu að ræna af börnunum sínum. Mig langaði bara rétt að sýna fólki eggið mitt. Nóa-Siríusaregg nr. 5... Var ekki lengi að hverfa enda þýðir ekkert að ætla að geyma súkkulaði í hitanum hér.

Sumardagurinn fyrsti

Í morgun hélt ég smáræðu sem talsmaður Íslands á málþingi um menntamál.
Ýmsir frammámenn voru þarna, ber helstan að nefna forsætisráðherrann
namibíska. Ég var nú búinn að semja ræðuna í gær, en var svona að velta
fyrir mér einhverju sniðugu til að hefja töluna á. Það er nú einu sinni
þannig að ef maður nær athygli áheyrenda í upphafi þá tekst manni oft
að halda henni til loka. Eftir smávangaveltur byrjaði ég ræðuna á því
að óska viðstöddum gleðilegs sumars og þagði svo í örfáar sekúndur.
Gaman var að sjá undrunarsvipinn á fólki - „Hvað á maðurinn eiginlega
við á miðju hausti?“ Ekki minnkaði undrunin þegar ég sagði frá því að
fjallvegir væru ófærir vegna snjóa og stórhríðir geysuðu þessa dagana.
Engu að síður héldum við því fram að sumarið væri að hefjast. Ruglað
lið, þessir Íslendingar. En áhrif þessarar byrjunar voru að margir
hlustuðu í raun og veru á það sem ég sagði, sem var nokkurt afrek þar
sem 26 manns höfðu talað á undan mér og var fólk því búið að sitja
undir ræðum í tæpa þrjá tíma...

Föðurlandsást

Ég hef víst ekki sagt frá því hér að um daginn var reist fánastöng á
fortóinu hjá okkur. Hún er víst tæpra sjö metra há, ef mig misminnir
ekki. Helsti gallinn er að hún er silfurlituð, ekki hvít. Síðan rétt
fyrir páska þá fengum við þennan fína íslenska fána og var því flaggað
hér um páskana. Svo var rokið út fyrir allar aldir í morgun að flagga
fyrir afmælisbarninu sem og sumardeginum fyrsta. Ég er í óða önn að
læra fánareglurnar - ekki þýðir að vanvirða flaggið.

Ég reikna með að flagga flesta daga. Ekki þýðir annað, því þremur húsum
neðar í götunni býr bandaríski sendiherrann og þar blaktir ammríski
fáninn alla daga. Mótvægi er nauðsynlegt.

Spurning hvort ég banki upp á einhvern daginn og ræði varnarmál
Íslands, ha-ha.

Aðskilnaður á ný

Þá rann stundin upp. Jamm, nú í þessum skrifuðum orðum sitja Gulla og
Dagmar Ýr í flugvél Air Namibia og bíða eftir að taka á loft. Gaman var
að hafa þær hér. Verst hvað tíminn var stuttur og eins var nóg að gera
í vinnunni þ.a. ég gat tekið minna frí en ég hafði ætlað. Rúnar Atli
virtist skilja að eitthvað var í gangi. Hann límdi sig við mömmu sína
úti á flugvelli og var ekki sáttur við að fara frá henni. Síðan þegar
við Tinna Rut gerðum okkur líkleg til að fara út í bíl, án mömmu hans
og eldri systur, þá heyrðist í gutta. Sem betur fer tókst okkur að
beina athygli hans annað.

Svo alla leiðina frá vellinum heyrðist í honum: „mamma, mamma.“ með
reglulegu millibili. Snökt, snökt, hjartnæmt ekki satt...

Nú er því orðið tómlegt í kofanum og nægur tími til að blogga.

10. apríl 2006

5/5 sameining

Þá er öll fjölskyldan í sama húsinu. Loksins. Dagmar Ýr mætti á svæðið
í morgun. Klukkan 7:45, jafnvel þótt flugmiðinn segði 8:45... Rúnar
Atli var kátur að sjá hana, hljóp til hennar og faðmaði og kyssti.
Voðalega gaman.

Annars leist Gullu ekkert á þetta í gærmorgun þegar sms-in komu frá
Keflavíkurflugvelli: „Hvaða skiltum á ég að fylgja?“ En þetta hafðist
allt saman. Hún kom meira að segja með kókómjólk handa Rúnari Atla.
Hann fór allur á ið þegar hann sá guðaveigarnar og svolgraði einni
niður á mettíma. Ýmsu þarf að fórna þegar búið er í útlandinu.

Að kröfu Dagmarar var síðan farið á kínastaðinn í kvöldmat. Sá brást
ekki, virkilega góður matur. Dagmar var svo alveg búin, farin að hrjóta
í sjónvarpsherberginu skömmu eftir átta. Erfiður dagur greinilega.

8. apríl 2006

Páskaeggjaleit

Í morgun var páskahátíð í leikskólanum. Við Rúnar Atli vöknuðum fyrir
allar aldir til að baka pönnukökur. Í raun var þetta
jómfrúarpönnukökubakstur á nýju pönnunni, og því var ég hræddur að
kökur festust við pönnuna, en svo varð ekki raunin. Pannan reyndist
mjög vel. Gulla var slöpp í morgun, virðist hafa gripið í sig flensu
sem hefur verið að ganga í margar vikur hérna. Mér fannst frekar fáar
pönnukökur koma úr uppskriftinni, þ.a. ég henti múffum í ofninn og
mætti með þær nýbakaðar á hátíðina.

Slatti af krökkum og foreldrum mættu á svæðið. Flestir þýskumælandi, en
þó var slæðingur af fólki sem kann lítið sem ekkert í því máli. Að
loknum morgunmat - pönnsurnar kláruðust - þá var sest í stóran hring og
farið að syngja. Ég tók nú frekar lítinn þátt í því enda voru nær öll
lögin á þýsku. Hins vegar kom mér á óvart hversu mikinn þátt Rúnar Atli
tók í leikjunum í kringum sönginn. Hann klappaði og stappaði og veifaði
og ýmislegt fleira eins og við átti. Hann er ekki búinn að vera þarna
nema í mánuð - þrjá daga í viku - og því varð ég frekar hissa á þessu.
En hann hefur greinilega mjög gaman af þessu.

Síðan var farið í páskaeggjaleit. Höfðu litlar pappírskörfur verið
hengdar upp í tré, í sjónlínu barnanna. Var mikið hlaupið hjá eldri
krökkunum, en þau yngri voru smástund að átta sig á þessum körfum.
Rúnar Atli var voðalega ánægður með körfuna sína. En greinilega var
undarlegt að hafa svona mikið af foreldrum inni á leikskólalóðinni.
Ekki eins og vant er.

En þetta var skemmtilegt. Hefði nú ekki trúað því fyrir svona þremur
árum að ég ætti eftir að ganga í gegnum svona hluti á nýjan leik, en
svona er nú einu sinni lífið.

7. apríl 2006

Innkaup...

Lítill tími hefur gefist síðustu daga að setjast við tölvuna og senda
inn pistla. Sendi reyndar inn grein í Moggann í gær, en það er nú önnur
saga. En, hún Gulla mín er jú auðvitað komin og það er að sjálfsögðu
nóg að gera. Eitt sem við komumst að er það að drottingarstærð á rúmi
er bara ekki nóg fyrir okkur... Sérstaklega þegar rúmið virðist aðeins
neðar í miðjunni en úti á köntum og því leitum við inn að miðju í
sífellu. Auðvitað getur verið fínt að hitta konuna sína í miðju rúmi,
en eins og mætur maður sagði einhvern tímann, þá er betra að hafa
stjórn á svoleiðis hittingum.

Við erum því búin að rölta milli húsgagnaverslana bæjarins í leit að
rúmi í kóngastærð. Hefur leitin gengið hálfbrösulega, því fæstir liggja
með svona dýrgripi á lager. Drottingarstærðin er allsráðandi. Því þarf
að panta og getur það tekið 10-15 daga. Reyndar pöntuðum við rúm í dag
hjá sölumanni sem staðhæfði að rúmið muni koma í næstu viku.

Við verðum a meðan að lifa af þessar stjórnlausu hittingar.

Tungumálin

Nú er Rúnar Atli kominn af stað með þýskuna. Hann segir „Tschüß“ og
veifar þegar verið er að kveðja. Klár strákur.

Stór spurning

„Pabbi og Mamma!“ heyrðist í Tinnu Rut í fyrradag, „hvað er eðla að
gera í klósettinu?“ Ja, það er nú það. Fyrsta svarið sem mér datt í hug
var: „Af hverju ertu að spurja okkur, spurðu eðluna...“ En þetta var nú
svolítið kvikindislegt svar, svo ég lét það ekki flakka. Við Gulla hins
vegar fórum og kíktum ofan í klósettið - gestaklósettið, vel að merkja
- og mikið rétt, þar var eðla á svamli. Gulla virðist alvön svona
kvikindum, því hún sturtaði einfaldlega niður og þar með var málið
dautt.

Flora kannast ekki við að vera með nein gæludýr í húsinu.

3. apríl 2006

4/5 sameining

Loksins rann stóri dagurinn upp. Ég vaknaði snemma, fór í sturtuna og
vakti síðan guttann. Jú, svo þurfti að hleypa vinnukonunum inn, því
ekki gengur að hafa allt í drasli þegar eiginkonan mætir á svæðið. Svo
fékk ég mér teið og jógúrtina og múslíið og Rúnar Atli fékk ristað
brauð, peru og smájógúrt hjá pabba sínum. Síðan skellti ég hornum
(croissants) í ofninn svo við feðgarnir fengum volg horn líka. Fínn
morgunmatur og ég gat ekki látið hjá líða að hugsa að ágætt væri að
þurfa ekki að keyra Tinnu Rut í skólann fyrir sjö á hverjum morgni og
geta frekar setið við morgunverðarborðið. Mitt í mínum dagdraumum pípir
síminn. Sms - frá hverjum, korter fyrir átta? „Lent og er að bíða eftir
töskunni,“ hljómaði skeytið. Sem betur fer eru croissants mjúk, því
eitt sat fast í hálsinum á mér. Lent! En samkvæmt flugmiðanum átti hún
ekki að lenda fyrr en 8:45! Klukkutíma seinna. Virðist sem
flugmiðaútgefandinn hafi ekki áttað sig á því að tímanum var breytt hér
- sjá bloggið í fyrradag.

Hvað um það, Tinna Rut var rifin út - óburstaðar tennur... og Rúnari
Atla hent í aftursætið og svo var brunað af stað út á völl. Litlir 42
kílómetrar, en þar sem hámarkshraðinn er 120 þá er þetta ögn
fljótfarnara en heima á Fróni. Síðan var engin umferð - allir hinir
bílarnir virtust hafa verið klukkutíma fyrr á ferð!? Hvernig vissu þeir
þetta eiginlega?

Við mættum síðan út á völl kl. 8:09:23. Þar sat hún Gulla mín
hálfeymdarleg á bekk með töskuna í fanginu. En síðan tók hann Rúnar
Atli sprettinn, því hann var nú ekki lengi að koma auga á hana múttu
sína. Ó, nei, enda sonur minn. Þarna voru fagnaðarfundir og ekkert
spillti þessi bið fögnuðinum. Meira að segja þótt þessi blessaði mágur
minn í Sverige væri eitthvað að reyna að spilla sambandi hjónanna.

Svo var rúllað í rólegheitum til baka í bæinn. Tinnu Rut varð að ósk
sinni - hún fékk að sitja frammí, því móðirin tróð sér í aftursætið hjá
syninum. Hvað annað?

Nú vantar bara hana Dagmar Ýr og þá verður sameiningin fullkomnuð.

Breytingin...

Jæja, núna er móðirin búin að sjá breytinguna á dótturinni, svo það er víst í lagi að leyfa alþjóð að sjá. Tvær myndir - fyrir og eftir - dæmi nú hver fyrir sig.


2. apríl 2006

Spenningur

Þá er kominn spenningur í liðið. Móðirin og eiginkonan á leiðinni. Skv.
upplýsingum frá Gatwick flugvelli er verið að hleypa farþegum um borð í
vélina í þessum skrifuðum orðum.

Tinna Rut var rétt áðan að gera herbergið sitt í stand: „Ekki flottasta
herbergi í heimi, en nógu gott fyrir mömmu,“ voru hennar orð. Spurning
hvort hún hafi rétt fyrir sér.

Rúnar Atli er líka orðinn spenntur. Hann virðist átta sig á því að
eitthvað mikið sé í uppsiglingu á morgun og að mamma hans sé bendluð
við málið. Tinna Rut er búin að kenna honum að setja hendurnar út og
herma eftir flugvél en hvort og þá hvernig hann tengi það við móður
sína veit ég ekki alveg.

En í fyrramálið verður hvorki mætt í vinnu né skóla, a.m.k. ekki fyrir
hádegi, því vélin lendir hér rétt fyrir kl. níu. Við förum sennilega
héðan um áttaleytið og ætli við verðum ekki komin til baka um ellefu.

Svo er bara spurning hvað móðurinni finnst um breytinguna á dóttur
sinni, æjæjæ, skyldi ég sitja í súpunni?

Vetur konungur nálgast

Í morgun byrjaði ruglingur. Ekki þó beint hjá mér, var nefnilega búinn
að undirbúa mig fyrir þessi ósköp. Hvað ég sé að tala um? Jú, nú er
komið haust og veturinn nálgast og þá fara menn að hugsa til þess að
spara rafmagn. Ein leið til þess, er manni sagt, er að breyta
klukkunni. Sem sagt, þegar ég vaknaði í morgun klukkan hálfátta, þá var
klukkan ekki hálfátta, heldur hálfsjö.

Að ýmsu leyti er þessi tímabreyting ekki slæm. T.d. má maður sofa
klukkutímanum lengur á morgnana, en þar sem maður verður sennilega
fljótur að venja sig á að fara klukkutímanum seinna að sofa á kvöldin,
þá skiptir þetta ekki máli nema í einn eða tvo daga. Síðan er jú
bjartara á morgnana heldur en hefur verið og því má segja að auðveldara
verði að koma sér af stað.

Á hinn bóginn er breytingin óþægileg. Þarf jú að finna hverja einustu
klukku á bænum og breyta henni. Einhvern tímann man ég að amerískir
spekingar höfðu lagt á sig að reikna hversu langan tíma tæki að
meðaltali að breyta klukkum og síðan með því að gera ráð fyrir
einhverri meðalklukkueign á hvern ameríkana þá gátu þeir áætlað þau
mannár sem fóru í klukkustillingar út af tímabreytingu. Ekki man ég
lengur töluna en mannárin hlupu á einhverjum hundruðum við hverja
tímabreytingu. Ég er nú aðeins efins um þessa speki, því ég einhvern
veginn held að þessar mínútur sem ég eyddi í að breyta klukkunum í
morgun hefðu varla nýst í neitt annað stórmerkilegt. Hefði kannski náð
að hita mér einn tebolla. Þó, gat stillt klukkurnar á meðan vatnið
hitnaði...

Mesti pirringurinn þó er hjá okkur sem erum áskrifendur að Dstv, en svo
nefnist stafrænt gervihnattasjónvarp frá Suður Afríku. Pirringurinn
stafar af því að í Suður Afríku er klukkunni ekki breytt. Þar á bæ gera
menn eins og á Íslandi, halda sig bara við þann tíma sem er í gangi og
eru ekkert að láta misvitra pólitíkusa segja sér hvað klukkan sé og
hvernig hún eigi að breytast eftir árstíðum. Sjónvarpsvísirinn sem Dstv
sendir okkur, er gefinn út í Suður Afríku og þar er ekkert verið að
kippa sér upp við það þótt Namibía sé að hræra í tímanum. Dagskráin er
einfaldlega sett fram miðað við suður afrískan tíma. Því þarf, í fimm
mánuði ársins, að stilla sig inn á það að í sjónvarpsvísinum þýði
20:00 ekki 20:00, heldur 19:00, o.s.frv. Skiljanlega er pirringur í
gangi vegna þessa, ég held ekki þurfi neitt að útskýra það meir.

En þessi tímabreyting sendir okkur skýr skilaboð um það að nú færist
koma Veturs konungs nær, þ.a. hitinn fer að detta niður í 20-25 gráður
að deginum.

Úff, skyldi maður lifa þetta af...

1. apríl 2006

Sportið

Í dag var aðeins verslað. Ég er búinn að vera að skoða hjólhesta
undanfarnar vikur. Ja, svona með öðru auganu. Hef langað mikið í
svoleiðis grip, enda fannst okkur Rúnar Atla meiriháttar gaman að renna
eftir götum Akraness á síðasta ári. Þegar við tókum upp úr kössunum sem
við sendum frá Íslandi þá tók hann kipp þegar „hjólastóllinn“ hans kom
í ljós. Vildi fá hjálminn á höfuðið og benti og benti út. En þegar ég
spurði hann hvar hjólið væri, þá kom undrunarsvipur á drenginn og hann
fór að svipast um í kringum sig - ekkert hjól.

Núna sem sagt er búið að bjarga þessu með hjólið. Ég fór í fína
hjólreiðavöruverslun og keypti þetta líka flotta hjól. Reyndar það
ódýrasta í búðinni. Hefði getað fengið enn ódýrara hjól í
stórmarkaðinum, en ákvað að fara í sérverslunina, því þar er fínt
verkstæði og menn til í að herða upp og laga það sem aflaga fer. Þeir
settu „hjólastólinn“ á fyrir mig með brosi á vör. Góð þjónusta á þeim
bænum.

Við feðgarnir fórum í jómfrúarferð eftir hádegið. Heimsóttum Jóhönnu og
Víði sem búa í 2-3 km. fjarlægð. Ein brött brekka á leiðinni var engin
fyrirstaða, enda 24 gírar á gripnum og gírskiptingin eins og hugur
manns.

Svo er bara spurningin hversu duglegir við verðum.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...