30. janúar 2016

Dellurnar manns

Maður er víst smádellukarl. Ég held ég geti ekki neitað því, án þess að tapa trúverðugleika. Og dellum fylgja græjur og græjukaup. Græjulaus della væri glórulaus. 
 
Mínar dellur undanfarið hafa verið hjólreiðar og köfun. Og maður minn eru til græjur fyrir þessar tvær, já, það held ég nú. 
 
Um áramótin bættist í köfunargræjusafnið. Mig nefnilega langar að taka myndir neðansjávar. Ókei, líklega er ég ekki neðansjávar ofan i Malaví-vatni, en þið vitið hvað ég meina. 
 
Ég hef stúderað svona ljósmyndun í nokkurn tíma og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að kaupa venjulega, en góða, myndavél og köfunarhús fyrir hana. Köfunarhús leyfa manni að fara með myndavélin niður á 60 metra dýpi og taka þar ljósmyndir alveg eins og mann lystir. Þar sem mín köfunarréttindi leyfa mér að kafa niður á 40 metra, þá dugar mér svona hús. 
 
Ég hef nú annars staðar sagt frá ævintýrinu við myndavélakaupin og endurtek það ekki hér. Skemmst er frá að segja að ég keypti litla vél, Canon SX710HS og fann svo verslun í S-Afríku sem hefur umboð fyrir köfunarhús og var til í að senda til Malaví. En það er ekki gefið að menn nenni að standa í því. 
 
Ég er semsagt búinn að eignast þessar græjur. 
 
 
Í morgun var svo komið að því að prófa. Kafaði tvisvar í Malaví-vatni og tók slatta af myndum. Var búinn að átta mig á að það er meira en að segja það að taka góðar myndir neðansjávar. Sú var raunin. 
 
Ég náði þó nokkrum sæmilegum myndum
 
 
 
 
Svo dunda menn sér við að flikka upp á svona myndir á tölvunum sínum. Ég á svoleiðis alveg eftir. 
 
Ætli ég þurfi ekki að kaupa 27 tommu iMac fyrir það?
 
Þessi gaur elti mig svo
 
 
 

Fallegt um að litast í Malaví

Ýmis vandamál steðja að Malavi. Ekki er hægt að neita því. En fagurt er umhverfið, ekki síst á þessum árstíma þegar rignt hefur. 
 
Við Rúnar Atli ókum niður að Malaví-vatni í gær. Fyrstu kafanir ársins í uppsiglingu. Aksturinn tók um þrjá tíma, sem er lengur en venjulega. Ástæðan var að forseti landsins var á ferð á sama tíma með sínu föruneyti. Þá bíðum við hin. 
 
Á leiðinni gerði stundum úrhellisrigningu svo þurrkurnar höfðu varla við. Inn á milli stytti upp og þá var fagurt að horfa yfir. Rigningin tekur jú allt rykið sem vanalega truflar útsýnið. Litabrigðin milli skúra eru líka sérdeilis falleg, en ég er ekki nógu flinkur ljósmyndari til að fanga svoleiðis. 
 
Svo víkur brúni liturinn fyrir þeim græna í kjölfar rigninga og allt sem spretta kann vex með ógnarhraða. 
 
En hér eru nokkar myndir af Malaví hinni grænu. 
 
 
Hér að ofan sést Malaví-vatn í fjarska
 
 
Sumir hafa auðvitað takmarkaða þolinmæði fyrir útsýnið
 
 
 

18. janúar 2016

Skrýtið - maður slappaðist um jólin...

Þá kom að því.

Fyrsti alvöru hjólatúr ársins.

Eftir eintóma hjólaleti frá því að snúa aftur til Lílongve úr fríinu, þá skellti ég reiðhjólinu í skottið á bílnum á leið til vinnu í morgun. Hafði ekki hjólað neitt síðan 4. desember í fyrra. Síðan hjólaði ég heim, og þar sem bílinn er í vinnunni þá þarf ég að hjóla til vinnu í fyrramálið. Séður hann Villi.

Í gær bætti ég smálofti í dekkin og skellti brettum á hjólhestinn. Núna er jú regntími, og undanfarna þrjá, fjóra daga hefur rignt hressilega. Því er betra að forðast drullusturtur og -slettur frá dekkjunum. Einnig er ég með regnjakka í annarri hjólatöskunni. Svona til öryggis. Allt var því til reiðu.

Ég var reyndar alveg tilbúinn að fara að hjóla á nýjan leik. Andlega í það minnsta. Skömmu eftir klukkan fjögur var ég búinn að skipta í hjólagallann, setti Strava appið í gang (smá reiðhjólalingó...) og hjólaði af stað. Eftir tvo kílómetra var ég farinn að blása svolítið.

Svolítið meira en venjulega.

Svo voru brekkurnar upp-í-móti aðeins strembnari en í minningunni. Kannski voru hjólatöskurnar eitthvað þyngri en venjulega? Ég fékk reyndar skemmtilegan pakka í pósti í dag og sá var í annarri töskunni. En ég held að hann hafi ekki gert neinn gæfumun. Ég skal segja frá þessum pakka í næsta pistli.

En þetta hafðist nú allt saman þótt aðeins væri maður hægari en vanalega. Ég komst á leiðarenda heill á húfi. Rétt rúmlega 10 km lágu að þessu sinni, sem er svona algengasti túrinn til og frá vinnu.

En veðrið var eins og það gerist best, skýjað en þurrt. Ekki of heitt og ekki of blautt. Jakkinn fékk að vera í töskunni og brettin

Á morgun hjólar maður svo báðar leiðir.

14. janúar 2016

Verðlag á Íslandi...

Um nokkurn tíma hef ég verið að leita að myndavél til að taka myndir þegar ég er að kafa. Eftir að spá og spekulera fann ég vél frá Canon sem fær góða dóma. Canon PowerShot SX710 HS ef maður vill vera nákvæmur.  Hægt er að fá vatnsþétt hylki utan um þessa vél. Eftir margar heimsóknir á veraldarvefinn varð ég alveg sannfærður.

Þetta er vélin fyrir mig.

En ég bý í Malaví...

Þar er ekkert hægt að labba út í búð og fá myndavélina sem maður vill. Hér er auðvitað hægt að kaupa myndavélar, en maður verður bara að sætta sig við það litla úrval sem hér er. Mjög sjaldgæft er að finna nýjustu gerðir af raftækjum, yfirleitt næst nýjasta eða þriðja nýjasta kynslóð. Ég leitaði hér, en fann ekki vélina „mína.“

Ég fór því enn á veraldarvefinn og skoðaði úrvalið í verslunum á Íslandi. Ég ætlaði jú í jólafrí þangað. Ég fann vélina á tveimur stöðum, í Nýherja og Elkó.

Mynd af vélinni af Elkó vefnum frá 14. janúar 2016 - sama verð og ég sá í desember
Í Elkó kostaði hún rétt innan við 54 þúsund krónur, en í Nýherja 995 krónum dýrari.

Á leiðinni til Íslands í desemberbyrjun skipti ég um flugvél í Jóhannesarborg. Sá þar svona vél - nákvæmlega sama týpan - og fannst hún vera miklu ódýrari þar. Var nú ekki alveg viss hvort ég væri með rétt gengi í kollinum, svo ég gerði ekkert í málinu.

Á Íslandi fór ég að leita á suður-afrískum vefsíðum. Fann vélina og jú miklu ódýrari. Var nú ekki viss um hvort einhver tilboð væru í gangi. Í janúarbyrjun flaug ég til baka og stoppaði í tvo daga í Jóhannesarborg. Kíkti í ljósmyndabúð og spurði hvort vélin væri til. Jú, jú, það var hún. Verðið var 3.699,99 í s-afrískum röndum. Ég borgaði með íslenska debitkortinu mínu. Og hvað var tekið út af reikningnum mínum?

Jú, 31.906 krónur. Sem sagt, 22.089 krónum ódýrari en heima á Íslandi.

Ísland, 69% dýrari en S-Afríka. Hold kæft, eins og danskurinn myndi segja.

69%!

Framleidd í Japan, svo hún þurfti að ferðast slatta vegalengd til að komast til Afríku.

En þetta er nú ekki allt.

Rúnar Atli fékk startpakka af einhverjum PlayStation 3 Stjörnustríðsleik í jólagjöf. Eins og á myndinni hér að neðan.
Svona græju fékk Rúnar Atli - af Elkó síðunni 14. janúar
Á Íslandi, sá ég svona dæmi á 12.995 krónur í Elkó. Mig minnir sama verð í Gamestöðinni. Ég rakst á svona leik - nákvæmlega sá sami - í s-afrískri ritfangaverslun sem heitir CNA. Þar kostaði leikurinn 799 rönd. Með sama gengi og Arionbanki notaði á myndavélina þá jafngildir þetta 6.895 krónum. 88% verðmunur!

88%! Herregud! svo maður haldi áfram að sletta á skandinavísku.

Að gamni kíkti ég að MacBook fartölvur - 12 tommu silfurútgáfa með 256 GB geymsluplássi.

Í S-Afríku, 21.999 rönd = 189.851 króna.

Á Íslandi, 247.990 krónur.

30% verðmunur.

Ókei, vaskurinn í S-Afríku er 14% sem er töluvert minna en 24 prósentin á Íslandi. En, samt...

Og ekki skal ég trúa að verslunareigendur í S-Afríku vilji ekki sinn hluta.

Munurinn á myndavélinni og sér í lagi PS3 leiknum nær bara ekki nokkurri átt.

13. janúar 2016

Að muna eða gleyma

Fyrr í kvöld var ég að leita að gamalli ljósmynd og datt í hug hún væri einhvers staðar á þessum dagbókarsíðum. Ég fann hana ekki, en eins og oft þegar ég leita að hlutum hér þá dett ég í lestur. Og þá gleymi ég mér alveg. Fullt af atburðum sem voru horfnir úr minningunum rifjast upp á ný.

En árið 2015 var nú lélegt í þessum skrifum. Tvær færslur... úff, skammarlegt. Það þýðir að árið 2020 man ég ekkert sem gerðist 2015.

Sorglegt.

Því ætla ég að fara að skrifa hér aftur. Aðallega bara fyrir sjálfan mig.

Skrifa fyrir eldri mig.

Ef aðra langar að lesa, þá er það velkomið.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...