30. apríl 2008

Drottningarvígsla

Verður að viðurkennast að þrátt fyrir að vera sigldur maður þá hef ég nú ekki oft verið viðstaddur vígslu á drottningu. Ja, ef satt skal segja, þá man ég bara ekki eftir því að vera viðstaddur þess háttar viðburð. Verð ég því ekki að segja frá?

Allt byrjaði þetta með ferð í loftbelg. Reyndar eru loftbelgjaferðir ekki heldur hversdagsviðburður. Elli hafði pantað slíka ferð fyrir mörgum mánuðum. Útgerð þessi er frá Swakopmund, og fróðir menn segja að þetta sé besti loftbelgjaflugstaður í öllum heimi, því eyðimörkin í kringum bæinn er svo stór. Því er alltaf hægt að finna stað þar sem hagstætt er fyrir flug af þessu tagi.

Lagt var af stað um sex að morgni páskadags og ekið í austurátt. Loftbelgjastjórinn, gamall flugmaður, fæddur í Keníu og flaug víst lengi í gömlu Ródesíu - Simbabve nútímans - stöðvaði bílinn öðru hverju og sleppti litlum afmælisblöðrum upp í loftið til að meta vindátt, -hraða og kannski eitthvað meira. Loksins fann hann stað sem lofaði góðu og þá var farið að blása upp belginn.


Tók uppblásturinn góða stund, enda belgurinn stór. Síðan var prílað um borð og belgurinn lyftist frá jörðu.

Að sumu leyti minnti þetta mig á Parísarhjól. Leiðindatilfinning þegar verið er að komast af stað, en svo svífur maður bara um loftin blá og finnur ekkert fyrir hæðinni. Ja, ekki nema maður halli sér út yfir körfubrúnina og horfi beint niður.

Elli var þarna...


...og líka Gulla.


Allir skemmtu sér vel og lendingin gekk tiltölulega vel fyrir sig.

Síðan var tekið til við að taka belginn saman, en við sáum það ekki. Með okkur var nefnilega skroppið í smábíltúr og síðan var dúklagt borð fyrir okkur. Jæja, kerran var dúklögð, en morgunmaturinn sem okkur var boðið upp á stóð vel fyrir sínu. Eins og sést höfðu Gulla og Elli það ósköp gott.


En það var þetta með drottingarvígsluna. Með okkur í loftbelgnum var namibísk kona. Ósköp létt kona sem skellihló að öllu sem sagt var. Öllu. Jamm, ein af þeim.

Hvað um það, loftbelgjastjórinn komst að því að kona þessi fæddist í bæ sem heitir Grootfontein. „Hmm, þar hefur aldrei verið drottning?“ spurði stjórinn. Nei, ekki hélt konan það. „Jæja, er ekki tími til kominn að vígja drottningu þar?“ sagði kallinn, um leið og hann settist í stól og var að baksa við að opna kampavínsflösku. „Ég held að þú sért tilvalin í það.“ Og frúin flissaði og hló yfir þessari hugmynd, en var greinilega ekkert ósátt við þetta.

„Hallaðu þér þá aðeins fram á við,“ sagði stjórinn, og þegar frúin varð við þeirri beiðni skaut hann tappanum úr kampavínsflöskunni beint í afturendann á frúnni, sem þar með var vígð drottning.

Og ekkert smá hló konan, því megið þið trúa.

En ég náði fínni mynd af vígslunni.


Takið eftir tappanum, á leið í mark.

Hér er búið að súmma aðeins inn svo þið sjáið þetta betur.


Svo var skálað í kampavíninu. Og aftur og aftur.

Og klukkan ekki nema rétt um tíu að morgni.

Matgæðingurinn hann Elli, eða hvað?

Um daginn vorum við á ferð í Himbalandi ásamt Ella og Allý og krakkagrislingunum þeirra. Athygli okkar vakti hversu mikið var af litskrúðugum lirfum í trjánum og veit ég að Allý var eitthvað að mynda þær. Einhverju seinna voru hún og Gulla á röltinu og þá voru starfsmenn hótelsins að tína eitthvað upp af jörðinni, líklega eitthvað að taka til, hugsuðu þær tvær.

Svo fer að líða að kvöldmat. Við sátum öll út á verönd á hótelinu með gin og tónik, eins og tilheyrir, þegar hótelstjórinn kemur til okkar, ábúðarfullur, og vill bjóða okkur forrétt, svona rétt til að skerpa aðeins á matarlystinni. „Ókeypis,“ sagði hann.

Elli fór auðvitað að sleikja útum og strjúka vömbina... þar til diskurinn kom á borðið


„Mópane ormar, mikið lostæti,“ sagði hótelstjórinn. Og viti menn, þarna voru komnar fínu lirfurnar í allri sinni dýrð. „Léttsteiktar og ljúffengar,“ sagði hótelstjórinn og sporðrenndi einum ormi um leið.

„Hvaða andsk... ógeð er þetta eiginlega,“ var greinilega það sem Elli hugsaði.


„Allý mín, viltu ekki prófa einn svona orm?“


Hún hélt nú ekki.

En ekki gafst Elli upp. „Rúnar Atli minn, þú býrð nú í þessu landi, vilt þú ekki smakka?“


Ekki lét sá stutti plata sig.

„Ari minn, elsku kallinn, fáðu þér nú bita...“


„Reyndu pabbi...“

Þannig að undirritaður þurfti að sýna hvernig fara ætti að þessu. Fyrst pósa fyrir myndavélina...


...og svo bara bíta í.


Ekki svo slæmt skal ég segja ykkur. Brakaði svolítið þegar tennurnar brutust í gegnum skelina, og aðeins kitluðu margfætlufæturnir í tunguna, en fínt á bragðið.

Ég lét ofan í mig fjóra, Elli einn smábita annað hvort af haus eða óæðri enda, en hún Ingunn... já hún Ingunn renndi niður einum. Reyndar fyrir hundrað Namibíudali, en ofan í hana fór hann samt.

En Elli matgæðingur klikkaði illilega þarna. Jamm og já.

29. apríl 2008

Nýasti tölvufíkillinn

Þegar við fluttum til Namibíu þá fylgdi með í farangrinum eldgömul tölva. Makki að sjálfsögðu, keyptur í Kanada 1994, eða jafnvel 1993. Mamma var með þessa tölvu um tíma, en hún hefur verið í kassa í einhver ár. Tölvan, það er að segja...

Ástæðan fyrir að tölvan kom með var fyrirsjá. Auðvitað þarf Rúnar Atli að læra á tölvu, svo þegar hann, 16 mánaða gamall, fluttist suður á bóginn þá var tölvan tekin með.

Nú loksins er svo búið að dusta rykið af kassanum og koma gripnum í gang. Gekk það ekki alveg þrautalaust, því rafhlaða nokkur sem er inni í tölvunni var búin og þurfti því að hafa upp á nýrri. Tókst það. Er skemmst frá að segja að Rúnari Atla finnst æðislegt að hafa sína eigin tölvu. Hann var eldsnöggur að ná að tengja milli örvarinnar á skjánum og músarinnar á borðinu og þar með er björninn unninn. Hellingur af leikjum er á gripnum, leikjum sem Dagmar Ýr og Tinna Rut léku sér í á sínum tíma. Þeir hafa vel staðist tímans tönn.

Ekki er laust við að Tinna Rut fari í endalaus hvörf í barnæskuna: „VÓH, ég man eftir þessum leik...“


Takið síðan eftir glæsilegri hönnun á skrifborðssamstæðunni. Eitt borð handa húsmóðurinni og eitt handa húsbóndanum, tölvuborð handa syninum og síðan annað skrifborð handa honum til að teikna og lita á.

Hver skyldi hafa smíðað...?

25. apríl 2008

Sambandsleysi...

Húrra, loksins kominn í samband á nýjan leik. Við höfum verið án nettengingar heimavið frá 1. apríl - ekkert gabb, sko - en núna er loksins búið að lagfæra vandamálið. Kostaði reyndar bréf til forstjóra namibíska símans, en ekki meir um það.

Um helgina stendur til að bæta úr þögninni og tæpa á því helsta sem á dagana hefur drifið undanfarið.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...