24. október 2012

Stærri fjölskylda orðin staðreynd

Enn einn sólríkur dagur rann upp í Malaví í dag. Um fimmleytið vöknuðum við þegar gemsinn hennar Gullu hringdi. Annar næturvarðanna tjáði henni að eitthvað væri að gerast hjá Bounty. Bounty er hvolpafulla tíkin. Við beint framúr að kanna aðstæður. Einn hvolpur hafði fæðst, en því miður andvana. Bounty, stelpugreyið, vissi ekki hvað átti að gera, ekki síst eftir að við tókum hvolpinn. Hljóp hún út um allt að leita. Þetta var nú reyndar frekar væskilslegur hvolpur, fannst okkur.

Leið og beið, og ekkert meira gerðist. Við hringdum í neyðarlínu dýralæknisins, og tók smástund fyrir hann að róa okkur niður. Tókst að lokum. Sú hvolpafulla var nú í rólegri kantinum, en andaði þó ört og tungan lafði niður á gólf. Eftir þrjá tíma var mér ekki til setunnar boðið - vinnan beið.

Rúnar Atli er í skólafríi þessa vikuna og um 10 leytið var móðirin búin að fá nóg af syninum og plantaði honum í vinnuna til mín. Hann er fínn þar, dundar sér í tölvu á milli þess sem hann kíkir á það sem til er í ísskápnum. og spjallar við dömurnar á skrifstofunni. Svo fórum við saman í hádegismat - hann bauð - en hann á núna nýtt uppáhaldskaffihús. Ama Khofi heitir það og býður upp á frábært íste.

Nóg um það. Þegar klukkan var að nálgast fjögur vorum við tveir á leiðinni heim. Hringir ekki Gulla í ofboði. Einn hvolpur kominn út. Á lífi, en fylgjan kom ekki út og allt virtist fast. Gáfum við Rúnar Atli í, æddum heim, náðum í Gullu og Bounty - og hvolpinn að sjálfsögðu - og brunuðum til dýralæknisins. Hvolpur númer tvö var byrjaður að gægjast í heiminn, ja, ef hægt er að gægjast með afturendanum.

Sá sneri sem sagt öfugt, kominn að einum þriðja út, og sá fyrsti enn fylgjufastur við móðurina.

Okkur leist bara ekkert á blikuna, skal ég viðurkenna.

En á einhvern hátt náði sú stutta að koma hvolpi númer tvö út, og við það kom fylgjan frá þessum númer eitt líka.

Mikill léttir.

Kom í ljós að Bounty virðist fædd í móðurhlutverkið. Vissi upp á hár hvað ætti að gera og fyrr en varði var farið að tísta í nýju hvolpunum tveimur. Fyrr en varði voru þeir farnir að totta spena. Annar kolsvartur, virðist okkur, og hinn tvílitur, svartur og hvítur.

Dýralæknirinn sagði að verkinu væri ekki lokið. Einhverjir fleiri væru þarna inni. En við róuðumst svolítið við þessa heimsókn til dýralæknisins. Áttuðum okkur á því að tíkin veit hvað hún er að gera og best að vera ekki að trufla hana of mikið.

Að þessu loknu héldum við heim á leið. Bjuggum vel um Bounty og hvolpana tvo, og svo hófst biðin. Síðan uppúr sjö fór að draga til tíðinda. Sú stutta rembdist og rembdist og lítið virtist ganga. Við Rúnar Atli vorum í því að strúka henni um bakið og gefa henni hunangsvatn að drekka. Að lokum kom þriðji hvolpurinn út. Flott fannst borgarbarninu, mér, að sjá hversu Bounty var eldsnögg að sleikja frá vitum hvolpsins og að naga naflastrenginn í burtu.

Náttúran sér um sína.

Sýnist okkur að hvolpur númer þrjú sé sá stærsti. Hann er svartur og hvítur, en þó virðist svarti liturinn aðeins út í grátt. En, kannski erfitt að segja þegar hvolpurinn er svona nýfæddur.

Skömmu seinna fór allt aftur af stað. Ég hafði fundið fyrir fjórða hvolpinum þegar sá þriðji var að koma í heiminn. Nú var röðin komin að honum. Hann snéri öfugt, eins og hvolpur númer tvö. Leist mér orðið ekkert á blikuna. Var meira að segja kominn með miklar áhyggjur. Hvolpurinn virtist nefnilega fastur við framfæturna. Bounty greyið ýtti og ýtti, en ekkert gekk. Að lokum stóð hún upp og reyndi að hrista hvolpinn út. Greinilega var hún í vandræðum. Þegar hún svo skellti sér á rassinn, þá leist mér þannig á að þessi hvolpur myndi ekki kemba hærurnar. Tók ég mig til, greip um hvolpinn og togaði nokkrum sinnum. Fyrst frekar ræfilslega, enda skíthræddur við þetta, en tók svo fastar og fastar á.

Allt í einu losnaði hvolpurinn og kom út. Skellti ég honum beint við nefið á Bounty, sem þegar tók til við sína vinnu. Þessi hvolpur virtist mér alveg hvítur. Enn leist mér ekki á þetta, því hvolpurinn andaði skringilega og tók kippi öðru hverju. En hann hafði þetta af. Mikið var ég feginn. Og ekki þá síður Rúnar Atli.

Rúnar Atli á heimatilbúnu fæðingardeildinni
Rúnar Atli og hvolpur númer tvö
Systkini á spena
 

10. október 2012

Matur er mannsins megin

Fyrir nokkru heimsótti ég þrjá skóla hér í Malaví. Ástæðan var að þessir skólar gætu orðið þátttakendur í verkefni sem íslenskir þróunarsamvinnupeningar styðja við. Þessi ferð var fyrst og fremst til að sjá með eigin augum ástandið. Ég skrifa örugglega meira síðar um þessa skóla.

Meðal annars skoðaði ég mötuneytið í einum skólanna. Þessi skóli er einn af þeim heppnu. Hann fær vítamínbætta mjölsekki til að elda graut handa nemendum sínum. Hittist þannig á að eldamennska var í fullum gangi þegar ég kom þarna ásamt mínum ferðafélögum.

Hér er Linley, sem er skrifstofustjóri hjá mér, að sýna listir sínar með þvöruna. Ég held reyndar að Þvörusleikir hefði tapað sér yfir þvörunum sem þarna voru.

Potturinn er engin smásmíði. Ég man nú ekki lítratöluna, en í pottinn er notaður einn 50 kílógramma poki af mjöli. Svo er fyllt um með vatni. Þrír aðrir pottar sjást fyrir aftan, allir fullir af graut. Þessir fjórir pottar duga til að elda graut fyrir 1.200 skólakrakka. Hver krakki fær einn skammt í lítið drykkjarmál. Skólaárið hér er nýhafið og sagði skólastjórinn mér frá vandamáli sem hann stendur núna frammi fyrir, en það er að um 1.500 börn í skólann. Aukning um 300 frá því á síðasta skólaári. Því vantar einn pott í viðbót.

Ég spurði hvort ég mætti smakka á grautnum. Var hlaupið upp til handa og fóta til að finna ílát fyrir mig, og að lokum tókst að finna skeið. Eldabuskurnar glottu nú út í annað, sýndist mér, yfir þessum útlendingi, sem vildi smakka grautinn.

Verður að segjast að grauturinn var frekar bragðdaufur. En saðsamur þó, og dugar örugglega börnunum eitthvað fram eftir degi.

Staðreynd er að í landi eins og Malaví trekkir svona grautur að. Krakkarnir mæta í skólann, því þau vita að þau fá mat. Heima hjá þeim er kannski engan eða lítinn mat að fá. Skólastjórinn sagði mér að margir krakkanna labba framhjá mötuneytinu þegar þau mæta í skólann til að sjá hvort grautur verði eldaður þann daginn. Ef þeim sýnist ekki, þá snúa þau við og skrópa. Þar til grautur kemur næst.

Sorglegt.

8. október 2012

Á leið í hundana

Hér snýst lífið meira og minna um hundana nýju. Þeir hoppa og skoppa út um allt, öllum reyndar til mikillar gleði og kátínu. Meira að segja gamla Labrador-tíkin virðist hafa hressts mikið við þessa viðbót í fjölskylduna.

Mikið gengur á þegar kemur að matargjöf. Ekki er hundunum tamt að bíða, sérstaklega ekki þessum yngri. Því er stundum handagangur í öskjunni á matmálstímum.

Ég náði nokkrum myndum um síðustu helgi af Rúnari Atla að gefa hundunum brauð.

Alltaf þarf Ríkó að troðast

Alltaf þarf Ríkó að troðast fram fyrir. Damen er først hvað? Ekkert svoleiðis í hundaríkinu.

En loksins fékk svo sú hvolpafulla sinn skammt.

Þolinmæði þrautir vinnur allar, segir máltækið. Snúlla, gamla tíkin, er nokkuð þolinmóð. Hún bara bíður og veit að hennar tími mun koma. Sem hann og gerði.
En eitthvað var nú tekinn að kárna leikurinn. A.m.k. að áliti Rúnars Atla. „Setjast!“ skipaði hann ábúðarfullur. Sú gamla hlýddi eins og skot, en ungviðið var svolítið óþekkara.
Seinna um daginn rakst ég á sprelligosana tvo innanhúss. Ríkó meira að segja hafði karate-gaurinn undir!

Mikið líf og fjör. Annað er ekki hægt að segja.

En, á laugardagskvöldið var mér rækilega gerð grein fyrir hvar í goggunarröðinni ég er í þessari fjöldskyldu.

Við grilluðum þetta kvöld, sem er nú ekki í frásögur færandi. Nautasneiðar einhvers lags og búapylsa. Eins og oft vill verða var keypt meira en þurfti. Frúnni datt í hug að gefa hundunum smákjötbita.

Heyrðu, þeir alveg trompuðust af gleði. Ekki síst Bounty, sú hvolpafulla. Hámaði í sig nautakjöt og pylsu.

Skömmu seinna lenti ég í áfallinu. Frúin var að ganga frá afgöngunum og sagði:

„Villi minn, þú og tíkin skiptið kjötinu svo á milli ykkar!“

Úbbs - þungt högg neðan beltisstaðs, þótti mér.

En þá er víst búið að setja mig á minn stað.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...