Mikið gengur á þegar kemur að matargjöf. Ekki er hundunum tamt að bíða, sérstaklega ekki þessum yngri. Því er stundum handagangur í öskjunni á matmálstímum.
Ég náði nokkrum myndum um síðustu helgi af Rúnari Atla að gefa hundunum brauð.
Alltaf þarf Ríkó að troðast |
Alltaf þarf Ríkó að troðast fram fyrir. Damen er først hvað? Ekkert svoleiðis í hundaríkinu.
En loksins fékk svo sú hvolpafulla sinn skammt.
Þolinmæði þrautir vinnur allar, segir máltækið. Snúlla, gamla tíkin, er nokkuð þolinmóð. Hún bara bíður og veit að hennar tími mun koma. Sem hann og gerði.
En eitthvað var nú tekinn að kárna leikurinn. A.m.k. að áliti Rúnars Atla. „Setjast!“ skipaði hann ábúðarfullur. Sú gamla hlýddi eins og skot, en ungviðið var svolítið óþekkara.
Seinna um daginn rakst ég á sprelligosana tvo innanhúss. Ríkó meira að segja hafði karate-gaurinn undir!
Mikið líf og fjör. Annað er ekki hægt að segja.
En, á laugardagskvöldið var mér rækilega gerð grein fyrir hvar í goggunarröðinni ég er í þessari fjöldskyldu.
Við grilluðum þetta kvöld, sem er nú ekki í frásögur færandi. Nautasneiðar einhvers lags og búapylsa. Eins og oft vill verða var keypt meira en þurfti. Frúnni datt í hug að gefa hundunum smákjötbita.
Heyrðu, þeir alveg trompuðust af gleði. Ekki síst Bounty, sú hvolpafulla. Hámaði í sig nautakjöt og pylsu.
Skömmu seinna lenti ég í áfallinu. Frúin var að ganga frá afgöngunum og sagði:
„Villi minn, þú og tíkin skiptið kjötinu svo á milli ykkar!“
Úbbs - þungt högg neðan beltisstaðs, þótti mér.
En þá er víst búið að setja mig á minn stað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli