Leið og beið, og ekkert meira gerðist. Við hringdum í neyðarlínu dýralæknisins, og tók smástund fyrir hann að róa okkur niður. Tókst að lokum. Sú hvolpafulla var nú í rólegri kantinum, en andaði þó ört og tungan lafði niður á gólf. Eftir þrjá tíma var mér ekki til setunnar boðið - vinnan beið.
Rúnar Atli er í skólafríi þessa vikuna og um 10 leytið var móðirin búin að fá nóg af syninum og plantaði honum í vinnuna til mín. Hann er fínn þar, dundar sér í tölvu á milli þess sem hann kíkir á það sem til er í ísskápnum. og spjallar við dömurnar á skrifstofunni. Svo fórum við saman í hádegismat - hann bauð - en hann á núna nýtt uppáhaldskaffihús. Ama Khofi heitir það og býður upp á frábært íste.
Nóg um það. Þegar klukkan var að nálgast fjögur vorum við tveir á leiðinni heim. Hringir ekki Gulla í ofboði. Einn hvolpur kominn út. Á lífi, en fylgjan kom ekki út og allt virtist fast. Gáfum við Rúnar Atli í, æddum heim, náðum í Gullu og Bounty - og hvolpinn að sjálfsögðu - og brunuðum til dýralæknisins. Hvolpur númer tvö var byrjaður að gægjast í heiminn, ja, ef hægt er að gægjast með afturendanum.
Sá sneri sem sagt öfugt, kominn að einum þriðja út, og sá fyrsti enn fylgjufastur við móðurina.
Okkur leist bara ekkert á blikuna, skal ég viðurkenna.
En á einhvern hátt náði sú stutta að koma hvolpi númer tvö út, og við það kom fylgjan frá þessum númer eitt líka.
Mikill léttir.
Kom í ljós að Bounty virðist fædd í móðurhlutverkið. Vissi upp á hár hvað ætti að gera og fyrr en varði var farið að tísta í nýju hvolpunum tveimur. Fyrr en varði voru þeir farnir að totta spena. Annar kolsvartur, virðist okkur, og hinn tvílitur, svartur og hvítur.
Dýralæknirinn sagði að verkinu væri ekki lokið. Einhverjir fleiri væru þarna inni. En við róuðumst svolítið við þessa heimsókn til dýralæknisins. Áttuðum okkur á því að tíkin veit hvað hún er að gera og best að vera ekki að trufla hana of mikið.
Að þessu loknu héldum við heim á leið. Bjuggum vel um Bounty og hvolpana tvo, og svo hófst biðin. Síðan uppúr sjö fór að draga til tíðinda. Sú stutta rembdist og rembdist og lítið virtist ganga. Við Rúnar Atli vorum í því að strúka henni um bakið og gefa henni hunangsvatn að drekka. Að lokum kom þriðji hvolpurinn út. Flott fannst borgarbarninu, mér, að sjá hversu Bounty var eldsnögg að sleikja frá vitum hvolpsins og að naga naflastrenginn í burtu.
Náttúran sér um sína.
Sýnist okkur að hvolpur númer þrjú sé sá stærsti. Hann er svartur og hvítur, en þó virðist svarti liturinn aðeins út í grátt. En, kannski erfitt að segja þegar hvolpurinn er svona nýfæddur.
Skömmu seinna fór allt aftur af stað. Ég hafði fundið fyrir fjórða hvolpinum þegar sá þriðji var að koma í heiminn. Nú var röðin komin að honum. Hann snéri öfugt, eins og hvolpur númer tvö. Leist mér orðið ekkert á blikuna. Var meira að segja kominn með miklar áhyggjur. Hvolpurinn virtist nefnilega fastur við framfæturna. Bounty greyið ýtti og ýtti, en ekkert gekk. Að lokum stóð hún upp og reyndi að hrista hvolpinn út. Greinilega var hún í vandræðum. Þegar hún svo skellti sér á rassinn, þá leist mér þannig á að þessi hvolpur myndi ekki kemba hærurnar. Tók ég mig til, greip um hvolpinn og togaði nokkrum sinnum. Fyrst frekar ræfilslega, enda skíthræddur við þetta, en tók svo fastar og fastar á.
Allt í einu losnaði hvolpurinn og kom út. Skellti ég honum beint við nefið á Bounty, sem þegar tók til við sína vinnu. Þessi hvolpur virtist mér alveg hvítur. Enn leist mér ekki á þetta, því hvolpurinn andaði skringilega og tók kippi öðru hverju. En hann hafði þetta af. Mikið var ég feginn. Og ekki þá síður Rúnar Atli.
Rúnar Atli á heimatilbúnu fæðingardeildinni |
Rúnar Atli og hvolpur númer tvö |
Systkini á spena |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli